fimmtudagur, 31. júlí 2008

Flatey


Flatey hefur ákveðna sérstöðu í hugum margra. Flokkast undir ákveðna rómantík, seiðmagnað andrúmsloft sem hefur komið fram í myndum og bókum. Í sjálfu sér er það fábreytnin sem verður til þess að maður nýtur þess sem eyjan hefur upp á að bjóða. Rólegur göngutúr um eyjuna er góð afslöppun. Fuglalífið er fjölbreytt og fuglarnir eru óvenjulega spakir. Hvíldin felst einnig í því að það er góður tími til þess að skríða jafnvel upp í aftur og lesa aðeins meira og fara svo aftur í stuttan göngutúr. Húsin í þorpinu hafa flest verið endurbyggð í sína upprunalegu mynd með myndarlegum hætti.

Breyting hefur orðið á ferðamenningu með tilkomu hótelsins. Þar er búið að endurbyggja þrjú hús á listilegan hátt. Fágað og vandað handbragð iðnaðarmanna blasir við hvar sem litið er. Ingibjörg Á. Pétursdóttir hótelstýra hefur stutt við það andrúmsloft sem er í húsunum með góðu vali á húsgögnum og munum.

En Ingibjörg er meistari meistaranna í eldhúsinu og þeir réttir sem hún laðar fram eru hreint út sagt óviðjafnanlegir. Ingibjörg rekur veisluþjónustuna Mensu. Matseðilinn er sóttur í Breiðafjörðinn. Fiskisúpan er sú besta sem ég hef smakkað, er þó vel inn í þeim málum sakir dálætis á súpum og hef prófað þær víða auk þess að glíma við þær í eldhúsinu heima. Þorskurinn hennar, léttreykti svartfuglinn, sjávarréttaþrennan og þannig mætti halda áfram. Allt þetta dregur mann inn í unaðsheima eldhúss sem er í heimsklassa.

Enda það orðið eftirsótt að gista á hótelinu og það fullbókað á næstunni. Haustið með sínum stillum og myrkum kvöldum eru seiðmögnum í Flatey. Skyndilega er allur fuglinn farinn yfir hafið til vetursetu í öðrum löndum og þögnin er mikil. Engir bílar, engar hraðbrautir.

Á veggjum hótelsins er skemmtileg málverkasýning Jóns Bogasonar eins af sonum eyjarinnar. Jón er 85 ára 5 barna faðir býr nú í Kópavogi. Gríðarleg nákvæmni og natni einkennir verk hans og þar má sjá mörg þekkt einkenni helstu listamanna heimsins. Myndefni er sótt í sögu eyjarinnar og þekktustu verk hans urðu til áður en hann fékk nokkra tilsögn í listmálun.

Jón fer um fjörur eyjunnar og er þar klukkustundum saman við að grafa í sandinn við söfnun á sýnum úr fjörunni og undan steinum þegar útfyri er. Hann skoðar þessi sýni í smjásjám og hefur fundið nokkur hundruð sýna sem ekki voru þekkt áður og hafa rannsóknir hans vakið athygli og viðurkenningu víða og þeir þörungar sem hann hefur fundið hafa hlotið latneska fræðanafnið Bogasonia.

Engin ummæli: