þriðjudagur, 1. júlí 2008

Samanburður á starfskjörum

Ég hef alltoft haldið því fram bæði hér á þessari síðu og annarsstaðar að fjárlög einkennist frekar af óskhyggju en raunsæi. Það blasi við þeim sem þekki til kjaramála að samþykktir Fjárlaganefndar taka ekki tillit til raunverulegrar launaþróunnar. Hún hafi í gegnum tíðina miðast við lægstu umsömdu launahækkanir.

Óábyrgir „því meira/því minna-þingmenn“ benda ætíð á umsamda lágmarkstaxta og segja að þeir vildu svo gjarnan greiða starfsfólki opinberra stofnana hærri laun en verkalýðsfélögin banni það þau hafi samið um þessi skammarlega lágu laun. Allir utan stjórnmálamanna vita að kjarasamningar kveða á um lágmarkslaun. Þeir eru ekki ákvörðun um hámörk, ef svo væri þá væru kjarasamningar óþarfir. En eins og margir vita þá halda frjálshyggjumenn því fram, að atvinnurekendur bíði spenntir eftir því að losna frá hámörkun kjarasamninga svo þeir geti ausið yfir starfsfólk sitt launahækkunum óáreittir af afskiptasemi stéttarfélaganna.
Afskipti stjórnarliða hafa leitt til þess að framkvæmdastjórar ríkisstofnana hafa orðið að búa til allskonar frávik frá umsömdum launum til þess að halda fólki. Eða þá að fækka fólki og sumar ríkistofnanir eru undirmannaðar, jafnvel heilu deildirnar lokaðar vegna skorts á starfsfólki. Á meðan biðlistarnir lengjast.

Svo einkennilegt sem það nú er þá eru það þingmenn stjórnmálaflokks sem hvað harðast hefur mælt með notkun markaðslauna sem hafa farið með stjórn efnahagsmála hér á landi um langt skeið. Markaðslaun eru allt annað en umsamin lágmarksgólf kjarasamninga. Þau stéttarfélög sem hafa verið fylgjandi markaðslaunum gerðu tilraun til þess að koma því kerfi á í kjarasamningum við hið opinbera með opnum launtöflum í þar síðustu kjarasamningum. En það breytti engu fjárlaganefndarþingmenn héldu áfram að miða við gólfin. Þetta er helsta ástæða þeirrar umræðu sem fram fer þessa dagana.

Það er útilokað að bera saman umsamdar launahækkanir í opnum markaðslaunakerfum og launahækkanir í föstum taxtakerfum. Þetta eru gjörólíkir hlutir. Kröfur um launahækkanir í föstum taxtakerfum taka mið af almennri launaþróun í opnum markaðslaunakerfum. Launataxtakerfin sitja föst á milli kjarasamninga, það gera opnu markaðslaunakerfin ekki. Ef menn ætla af einhverju viti að bera saman laun starfstétta á almennum markaði og fastlaunamarkaði þá verður það ekki gert með því að bera sama umsamin lágmarksgólf. Það verður að taka raunlaun samskonar starfstétta og sambærilegan vinnutíma. Allur annar samanburður segir okkur ekkert af viti.

Annað atriði er líka nauðsynlegt að hafa í huga, á almennum markaði skiptir um 35% launamanna árlega um starf. Þetta er ein helsta ástæða launaskriðs. Ef efnahagsspár hagfræðinga standast þá munu laun á almennum markaði sveiflast töluvert niður næsta vetur, á sama tíma munu laun fastlaunahópanna sitja kyrrir. Geta vitanlega ekki annað, þau sitja á umsömdum lágmörkum.

Einnig er spáð að atvinnuleysi geti farið upp í 4 – 6%. Þar er miðað við vinnumarkaðinn í heild. Ljóst er að þetta atvinnuleysi mun ekki koma fram hjá fastlaunahópum hins opinbera. Það mun alfarið koma fram hjá ákveðnum hópum á almennum markaði. Sem þýðir í raun að þar geti atvinnuleysi farið í 12 – 15%. „You cann´t win them all“ segir einhversstaðar. Þú týnir ekki bara bestu bitana úr boxinu og heimtar svo nýtt gotterísbox. Í lokin menntun og ábyrgð í starfi ræður miklu um launakjör og ekki síður starfsöryggi almennum markaði.

Engin ummæli: