Allmarga setti hljóða í síðustu viku við lestur greinar fyrrv. varaformann bankaráðs Landsbankans og framkv.stj. Sjálfstæðisflokksins. Eða þá að sjá fyrrv. Seðlabankastjóra á mótmælafundi á Austurvelli þar sem m.a. var mótmælt afleiðingum eftirlitsleysis Seðlabankans. Hjá þessum mönnum og félögum þeirra heyrist ekkert, sem bendir til þess að þeir sjái eigin þátt í því hvers vegna hrunið varð margfalt dýpra hér en annarsstaðar.
Og nú eru komnar fram yfirlýsingar allra stærstu erlendu viðskiptabankanna, þeir eru búnir að fá nóg af íslendingum. Svo sem eftir því sem við var að búast. Við erum búinn að tapa um 6 þús. MIA evra af erlendu lánsfé og forsvarsmenn íslensks efnahagslífs og stjórnmálamenn hafa verið með allnokkrar vafasamar yfirlýsingar um skuldirnar og uppgjörin.
Ljóst er að íslenskar eftirlitstofnanir brugðust algjörlega. Framangreindum mönnum var mikið niðri fyrir vegna hryðjuverkalaganna sem bresk stjórnvöld settu á íslensku bankana í október. Íslensku bankarnir störfuðu ekki samkvæmt eðlilegum leikreglum, á það hafði verið ítrekað bent en íslenskir ráðamenn skelltu við því skollaeyrum, sama gilti um íslenskar eftirlitsstofnanir.
Hagfræðingurinn Mishkin segist hafa ofmetið eftirlitsstofnanirnar á Íslandi. Gefin voru út heilbrigðisskýrteini sem byggðu á röngum forsendum grunduð á sjálfumgleði þessara manna. Fjármálaeftirlitið var ónýtt, sama gilti um Seðlabankinn og búið var að leggja niður Þjóðhagsstofnun vegna hún skyggði á sjálfumgleðina. Allir voru vísvitandi og markvisst blekktir, og þar brást Ríkið eins og ég hef svo oft komið að.
Íslenskur almenningur og lífeyrissjóðir voru fengnir til þess að fjárfesta í skuldapíramídum. Margir spyrja hvaða ljótu leyndarmál komi til með að verða afhjúpuð og þá um leið fá betri vitneskju um hvers vegna Bretar beittu þessari löggjöf gegn íslendingum. Stjórnarþingmenn gátu vart komist í gegnum viðtal í spjallþáttum eða fréttatímum, án þess að geta þess sérstaklega að hér væri engin spilling.
Sannleikurinn mun koma í ljós og ekki ólíklegt að það bresti á önnur bylting hér á landi, einmitt vegna afstöðu þessara manna. Ég spáði því ítrekað í vor að á komandi vetri myndi það gerast. Allt sem ég benti á þar hefur verið að koma fram. Ef við eigum að komast út úr kreppunni verðum við að geta sett aftur fyrir ákveðin mál og til þess að það verði hægt verður uppgjörið að fara fram. Ákveðnir menn verða að stíga fram og biðjast afsökunar og sína iðrun.
Það er fólk sem er flutt frá landinu og það er fleira að undirbúa flutning. Langstærsti hluti þessa fólks er vel menntað og færir tæknimenn. Þetta sé ég vel í mínu umhverfi. Það var mikil fjölgun á erlendu vinnuafli á þensluárunum, en flestir þeirra hafa yfirgefið landið. Eftir sitja nokkrir sem sinna störfum sem íslendingar vilja ekki sinna.
Margir Íslendingar eru sárir og leita eftir betri framtíð. Þeir vilja komast hjá skattahækkunum og niðurskurði. Það liggur fyrir að allmörg fyrirtæki, þá ekki síst í tækniiðnaði sögðu upp fólki í sumar og það fólk missir vinnu í lok september, vegna þess að ekkert hefur gengið hjá stjórnvöldum að ganga frá grunnþáttum í efnahagslífinu, sakir þess að stjórnarandstöðuflokkar hafa verið svo uppteknir í pólitískum hráskinnaleikjum. Engar virkjanir eru komnar af stað, sem eru þó undirstaða þess að hægt sé að komast af stað með uppbyggingu í Helguvík og stækkun í Straumsvík, eða það uppbyggingu gagnvera.
Íslenslur almenningur kaus endurtekið yfir sig það stjórnvald sem gerði bönkunum þetta kleift með því að klúðra einkavæðingu bankanna. Stjörnvöld sem stungu höfðinu í sandinn þrátt fyrir fjölda aðvarana. Á undanförnum áratugum er eins fólk hafi kosið frekar af trúarbrögðum en að skoða pólitíska stefnu. Hvar í veröldinni fengi stjórnmálaflokkur sem stóð fyrir stefnu sem leitt hafði yfir þjóðina fullkomnu hruni jafnmikið fylgi og niðurstaða í síðustu kosningum sýndi. Þar blasir við hversu mikið afhroð umræðulistin á Íslandi hefur goldið. Aftur og aftur er umræðu um þörf málefni verið stungið undir stól eða umræða eyðilögð með útspili og upphrópunum í fjölmiðlum og endurteknum fullyrðingum þingmanna sem gengu þvert á viðkomandi málefni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli