laugardagur, 29. ágúst 2009

Þingmenn ákveða að skerða lífeyrisréttindi

Í lok júnímánaðar s.l. samþykkti Alþingi breytingar á lögum nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa í þá veru m.a. að vaxtagreiðslur vegna krafna á vangoldnum lífeyrissjóðsiðgjöldum falla niður.

Alþingismenn völdu að læða þessari breytingu var inn að lokinni 2. umræðu á þinginu án þess að gefa nokkrum tækifæri til þess að skoða hana og koma að andmælum. Lögin voru síðan samþykkt á Alþingi 29. júní s.l. Í nefndaráliti segir að þessi breyting sé “ætlað að vera hvati fyrir lífeyrissjóði til að ganga tímanlega eftir greiðslu vangoldinna lífeyrisiðgjalda í sjóðina.”!!??

Með þessu þá verða sjóðsfélagar af réttindum að öllu óbreyttu. Hér er ástæða til þess að minna lesanda minn á að þetta gildir ekki um lífeyrissjóð þingmanna, þar skiptir ávöxtun og rekstrarkostnaður nefnilega engu, það sem vantar upp á verðtryggðar lífeyrisgreiðslur sækja þingmenn einfaldlega í ríkissjóð. Þingmönnum finnst nefnilega ósæmilegt að bjóða sjálfum sér upp á sambærileg lífeyriskjör að almúginn hefur, en eru svo að senda öðrum tóninn vilji þeir reyna að vernda stöðu sjóðsfélaga almennu sjóðunum. Eins og allir vita þá hefur ítrekað þurft að skerða réttindi í almennu sjóðunum vegna efnahagsástands, á meðan réttindi þingmanna haldast óbreytt.

Það er með ólíkyndum að þingmenn skuli setja það í þingskjöl að það þurfi að hvetja lífeyrissjóði til að ganga tímanlega á eftir greiðslum vangoldinna iðgjalda. Svona eins og starfsmenn lífeyrissjóða séu bara í rólegheitum að horfa á réttindum sjóðfélaga rýrna.

Þessi breyting leiðir vitanlega til þess að auk þess að sjóðsfélagar almennu sjóðanna séu að glata réttindum þá verða starfsmenn lífeyrissjóða að keyra fyrirtæki í gjaldþrot með hraði ef þannig stendur á hjá þeim að geta ekki staðið skil á réttum tíma.

Í dag eru starfsmenn almennu lífeyrissjóðanna semsagt að hóta atvinnurekendum gjaldþroti og fylgja því á eftir með kostnaðarsömum aðgerðum sem leiða ekki til annars en gjaldþrota, svona í boði þingmanna. Það er furðulegt að heyra svo suma þingmenn afsaka sig með því að um mistök hafi verið að ræða í 2. umræðu að taka vextina út. Það hefði verið hreinlegra að viðurkenna að Ábyrgðasjóðurinn stæði ekki undir auknum álögum og taka upp viðræður á þeim grunni.

Engin ummæli: