þriðjudagur, 11. ágúst 2009

Ögmundur á leið í Sjálfstæðisflokkinn

Það virðist vera að renna upp fyrir Ögmundi í hvaða stöðu hann er búinn að láta sjálfstæðismenn stilla sér í, en reynir að sverja af sér glæpinn.

Við vitum öll hverjir mótuðu þá efnahagsstefnu sem leiddi okkur í þær ógöngur sem við erum í.

Við vitum líka að :
Norðurlandaþjóðirnar sömdu síðastliðið vor við Davíð þáverandi seðlabankastjóra og Geir þáverandi forsætisráðherra um yfirdrátt og því fylgdi krafa um tiltekt hér heima, sem ekki var farið í

Geir og Davíð höfðu undir höndum skýrslur sem sögðu til um hvert stefndi, en þeim var stungið undir stól og þeir félagar fóru í ferðir erlendis og boðuðu að allt væri í fínu standi á Íslandi

Geir og hans aðstoðarmenn lögðu grunninn að Icesave samningnum í nóvember síðastliðnum

Ef ekki verður gengið frá Icesave samningum mun Ísland falla niður í ruslflokk í lánshæfismati og ríkið, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og fleiri íslensk fyrirtæki munu ekki ná að endurfjármagna sig á næsta ári

Öll viðskiptalönd okkar munu sniðganga okkur. Íslendingar eru búnir að glata nokkur þúsund milljörðum af erlendu lánsfé og vilja ekki fara að settum leikreglum á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Erlendu bönkunum er slétt sama um hvar við lendum.

Við höfum ekki verið að uppfylla ákvæði EES samninga og Bretar og Hollendingar munu örugglega krefjast þess að lokað verði á tollaívilnanir íslendinga

Ef við göngum ekki að Icesave samkomulaginu mun það leiða yfir okkur enn ömurlegri stöðu og það mun sökkva vinnumarkaðinum í enn dýpri og langvinnari lægðir og meira atvinnuleysi

Þetta vita stjórnarandstöðumenn en vilja losa sig undan ábyrgð og búa til þá stöðu að það séu gerðir núverandi ríkisstjórnar og óvinveittra nágrannaþjóða sem hafi leitt yfir okkur þessa stöðu og hinn ömurlega Icesave samning.

Þeir hafa eignast 3 fylgismenn í VG fyrir þeim fer Ögmundur Jónasson formaður BSRB, sem er að leiða hrikalegt hrun yfir almenna vinnumarkaðinn með afstöðu sinni.

Hér blasir líklega við pólitísk kreppa í boði fullkomlega óábyrgrar stefnu Bjarna Benedikssonar og félaga og þá er spurning nái inn í kosningunum sem verða í vetur hvort Ögmundur nái inn sem þingmaður Sjálfstæðismanna og fái aftur það verkefni að semja um Icesave. Sá samningur verður ekki hagstæður og íslendingar verða þá búnir að tapa margfalt þeim kostnaði sem við okkur blasir nú.

Og brostinn verður á fólksflótti.


Ég veit það
og þú veist það.
Og ég veit
að þú veist
að ég veit
að þú veist það.
Samt látum við sem við vitum það ekki
Jón úr Vör

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sem ungur verkfræðingur verð ég að viðurkenna að næstu vikur munu skera úr um hvort maður verði áfram í þessu landi. Mér sýnist að ef IceSlave verði ekki samþykkt í gær, þá erum við komin aftur á byrjunarreit, svipaðan þeim sem var í september 2008. Ég þekki marga jafnaldra mína sem eru sömu skoðunar.

Og við verðum að hryggja félaxmálaráðherra með því að segja að ef við förum, komum við líklegast ekki aftur, sbr. færeyinga og þeirra vanda á sínum tíma.

Við kollegarnir skoðuðum okkur til gamans í lágmarkslaun í okkar bransa á norðurlöndunum. Þar kom t.d. í ljós að lágmarkslaun (reynslulausra) i DK eru 34.500 DKK, sem á núverandi gengi er 845.300 kr (sbr. http://ida.dk/ansat/loen/minimalloen/Sider/minimalløn.aspx). Það verður að laga málin hér þannig að laun fólks sé sambærilegt við önnur lönd, eða að fara út í stórfelldar launahækkanir, með tilheyrandi verðbólguspíral.

Fólksflótti er raunverulegur - það er skítlétt að fá vinnu erlendis. Það verður því að koma öllu í gang aftur - og þar með talið IceSlave !

með kveðjum frá Heywood Jablome

Nafnlaus sagði...

Við skulum bara vona að hvorki Landsvirkjun né Orkuveita Reykjavíkur nái að endurfjármagna sig á næsta ári- med öllu því virkjanabrjálæði sem slíku fylgi - óháð því hvort gengið verði að samningi um Icesave á einn eða annan hátt.
Er ekki einhver takmörk fyrir því hversu lágt er hægt að leggjast til að tryggja áframhaldandi atvinnulíf á Íslandi?
Og hljómar þessi undirlægja gagnvart erlendu fjármagni - og erlendum fyrirtækjum - ekki eins og argasta hægri stefna þar sem allt er réttlætt með hagsmunum "atvinnulífsins" fyrir augum, líka það að borga gjörspilltum "atvinnurekendum" stórar upphæðir fyrir að "reka" slíkt atvinnulíf?
Já, kratarnir eru orðnir miklu verri en hægri flokkarnir í þjónkun sinni við auðvaldið.

Oddur Ólafsson sagði...

Góður.
Ég skil ekki hvað Ömma gengur til.

Ég heyrði hann tala um 63/0 einhversstaðar. Hvernig dettur manninum í hug að D og B lyfti litla fingri til að bjarga landinu? Þeir munu greiða athvæði á móti þó þeir fái sjálfir að semja frumvarpið.

Það væri kannski ekki vitlaust heldur að Ömmi gengi bara í B, fyrst að SDG er farinn að mæra hann svo mjög.

Héðinn Björnsson sagði...

Ögmundur hefur mikið bakland í VG og fullan stuðning þar fyrir sínum málflutningi nema hvað hann er hellst til of hófstilltur fyrir marga. Að halda að Ögmundur eigi erfitt með að halda sæti sínu á þinginu fyrir VG er bara fáránlegt.

Ef þetta eru hinsvegar afleiðingarnar af því að segja nei við þessum samningi að þá er ekki til mikils að vilja vinna með þessu liði, hvorki í EES eða ESB og væntanlega vænlegast fyrir okkur að byggja okkar hagkerfi upp með hollari fjármálareglum en leyfist þar inni.

Þá verður líka bara að láta reyna á hvort að við getum ekki selt vörur til annarra ríkja og nýtt fríverslunarsamning við ríki Asíu og N og S Ameríku. Stríðsyfirlísingu verður allavega ekki tekið með aumingja skap ef Ögmundur hefur eitthvað um það að segja.

Nafnlaus sagði...

Ögmundur virðist ekki átta sig á því að hann er í allt annari stöðu sem ráðherra eða óbreyttur þingmaður. Enn steingrímur J er búinn að átta sig á þessu. Það er skelfilegt hvað það virðist vera að þingmenn VG átti sig á stöðuni sem er hjá okkur. Að það taki þingið meira enn tvo mánuði að átta sig hvernig Icesave samnigurinn er. Ef á þinginu væri alvöru fólk tæki það að hámarki tvær vikur að skoða þennan samning og koma með tillögur um breytingar. Það er einsog þegar fólk sé kosið á þing þá hætti það að vinna. Hef nú oft sagt það að við ættum að fækka þingmönnum og hafa þá í mestalagi 33, við höfum ekki efni á svo bruðli.
Kveðja Simmi

Nafnlaus sagði...

Er algjörlega sammála þér. Vonandi verða þeir VG þingmenn sem stöðva allar lánveitingar til uppbyggingar atvinnulífsins hér á landi glaðir með sig. Og ekki síður að leið XD og XB til valda aftur!

Nafnlaus sagði...

Algjörlega sammála. Ömmi kallinn er í tómu rugli og hefur versnað verulega eftir að hann varð ráðherra.
Ef það verður ekki veruleg breyting á stöðu mála hér á landi í haust sem ég á ekki von á þá reikna ég með að flytja úr landi á næsta ári. Til hvers að hanga hér á hjara veraldar þegar öll þín lán hækka viðstöðulaust, launin lækka og ekkert er gert til að leiðrétta þessar hækkanir.

kv. Eyþór

Nafnlaus sagði...

ég er sammála Ögmundi

Nafnlaus sagði...

Öll þessi atriði sem þú telur upp hafa öll legið fyrir alllengi og túlka má afstöðu Ögmundar á þennan hátt.

Allir eru á móti Icesave. Framsókn og sjálfstæðismenn haga sér á óábyrgan hátt í baráttu sinni til þess eins að komast aftur til valda og eru að koma þjóðinni í enn meiri vandræði, var vandinn sem þeir bjuggu til þó nægur fyrir.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst eiginlega alveg ótrúlegt að þú skulir tala með því að samþykkja eigi Icesave samninginn eins og hann liggur á borðinu!

Þá fyrst verður fólksflótti frá landinu þegar fólk fer að finna fyrir þeirri gífurlegu kjaraskerðingu sem verður vegna vaxtagreiðslna af þessu láni. Það er ekki endalaust hægt að ýta vanda á undan sér, landinn ætti að vera búinn að læra það.

Ég er sammála Ögmundi og tek ofan fyrir honum að setja mál ofar flokkspólitík!

Guðmundur sagði...

Það er eiginlega alveg ótrúlegt hversu hart sumir berja hausnum við steininn og halda að með því að hafna Icesave samningnum sé búið að strika út þessar skuldir. Þær eru þarna og verða þarna, við losnum ekkert við þær og getum keypt okkur tvö reiðhjól og 5 ísskápa eins DV hélt fram í gær og endurspeglar í raun málflutning Ögmundar og Sjálfstæðismanna. Ótrúlega barnalegt.