föstudagur, 28. ágúst 2009

Nytsamir sakleysingjar

Það virðist vera svo að allmargir banka- og umsýslumenn fjármagns ætli að gera tilraun til þess halda ofurlaunum og bónusum. Alræmdir eru bónusar sem viðskiptastjórar banka og verðbréfa var skammtað. Árangurstenging með gríðarlegum bónusum dreif þessa menn í að ná inn eins mörgum samningum og frekast var kostur. Þeir náðu þá að hækka laun sín umtalsvert jafnvel svo skipti tugum milljóna á ársgrundvelli.

Saklausu fólki var þvælt út í viðskipti sem fyrirfram voru vafasöm jafnvel dauðadæmd og yrðu viðkomandi ofviða, þó svo hrunið hefði ekki komið til. Þá er ég að vitna til þess að alþekkt var 2007 að króna væri á um 30% yfirgengi vegna ábyrgðarlausrar stjórnar á efnahagslífinu, en í kosningabaráttunni héldu þáverandi stjórnarflokkar því að kjósendum að þeir hefðu fundið upp hina endanlegu alsælu efnahagsundurs og allir hefðu það svo gott og það myndi halda áfram.

Þeir sem gagnrýndu andvaraleysi voru úthrópaðir sem úrtölumenn og öfundsjúkir vinstri menn. Svo ég vitni til auglýsinga og ummæla Flokksins kosningavorið. Of miklu lánsfé hafði verið pumpað inn í hagkerfið og íbúðarverð byggðist á toppi bólunnar. Sumir endurnýjuðu reglulega veðhæfni sína og tóku út ný og hærri lán undir leiðsögn „sérfræðinga?!“ bankanna.

Þeir sem fylgdust vel og voru ekki blindaðir af sól hins Íslenska efnahagsundurs máttu vita að það yrði niðursveifla innan skamms tíma, það kom fram í öllum ræðum hagfræðinga. Þá er ég ekki að tala um banka- og kerfishrun, heldur þá niðursveiflu sem altalað var að myndi koma við lok hinna miklu framkvæmda fyrir austan.

Þetta virtu viðskiptastjórarnir einskis, en létu eigin hagnaðarvon ráða för, engu skipti hagur viðskiptavinar eða bankans. Þóknunin réð för. Eftir standa í dag skuldum hlaðnir sakleysingjar sem trúðu og treysti ráðleggingum „sérfræðinga?!“ bankans. Bankarnir sitja uppi með óseljanlegar eignir og við blasa gríðarlegar afskriftir. Til viðbótar er svo allnokkur hópur fólks sem fór eðlilega miðað við aðstæður, en lenti í klóm hrunsins.

Allt þetta lendir með beinum eða óbeinum hætti á þeim íslendingum sem kjósa að vera skattgreiðendur hér heima næstu áratugina. Óuppgerð eru það tjón sem blasir við bönkunum. Ábyrgð viðskiptastjóranna er mikil sem ábyrgðalausir létu stundargróða ráða för. En ábyrgð liggur einnig hjá stjórnendum bankanna sem byggðu upp þessu árangurstengdu launakerfi.

En mestu ábyrgðina bera þeir stjórnmálamenn sem sköpuðu þetta efnahagsástand og það viðhorf sem alið var á. Full ástæða er t.d. að líta til ummæla fyrrv. bankastjóra Kaupþings um hvernig kunnáttuleysi stjórnenda Seðlabanka og forsætisráðuneytis leiddi yfir þjóðina fleiri hundurð milljarða tjón að óþörfu.

Sé litið til frétta sem hafa verið að birtast undanfarna daga, þá virðist það vera svo að viðskipstjórar og umsjónarmenn eignastýringa vilji ekki hverfa frá þeim háttum sem voru innleiddir á árunum fyrir hrun. Ég átti viðtal við einn af helstu stjórnendum uppbyggingar bankanna í gær, hann sagði að það virtist stefna í að kosta mikil átök til þess að fá viðskiptastjórana til þess að horfast í augu við þessa stöðu og tómt mál væri að tala um að þeir teldi sig hafa eitthvað unnið til saka.

Á þessum vanda verður að taka og það á raunhæfan hátt, en það er ekki auðvelt. Flöt niðurfelling skulda er einfaldlega þjóðfélaginu ofviða ofan á aðra skuldsetningu, auk þess að þar munu þeir sem síst skyldi fá mestu niðurfellinguna. Það er heldur ekki lausn að fólk búi áfram í húsnæði sem bankinn á í raun og veru, þar búi fólk með gríðarlegt lán í frystingu og verði að skilað íbúðinni einhvern tímann verði ekki staðin skil á frystu láninu. Það mun einfaldlega leiða til þess að það mun ekki sjá sér neinn hag í því að viðhalda eigninni og hún drabbast niður.

Það er heldur ekki nægjanlegt að afskrifa einungis skuldir vegna íbúðarkaupa í bankakerfinu, þar verður mismunum gagnvart lánum íbúðarlánasjóðs. Afskriftir þar kalla á framlög úr ríkissjóð og aukna skatta. Ef litið er til lána lífeyrissjóða til íbúða þá leiða afskriftir þar til lækkunar á lífeyri- og örorkubótum. Það er að segja í almennu lífeyrissjóðunum, ekki hinum opinberu, því þeir sækja það í ríkissjóð og það er svo sótt í hærri sköttum.

2 ummæli:

Hörður Halldórsson sagði...

Góður punktur hjá þér Guðmundur ¨"Saklausu fólki var þvælt út í viðskipti sem fyrirfram voru vafasöm jafnvel dauðadæmd og yrðu viðkomandi ofviða, þó svo hrunið hefði ekki komið til" það er nefninlega það.Sennilega hefði margt af þessu hrunið,þó að stóra hrunið hefði ekki komið til.

níels a. ársælsson sagði...

Góður pistill að vanda.