fimmtudagur, 13. ágúst 2009

Upp úr pólitískum hjólförum

Nú er rætt um að það sé að takast að ná Icesave umræðu þingmanna upp úr flokkspólitískum hjólförum. Það var mikið. Því er haldið fram að Sjálfstæðismenn standi á bak við útifund Indefence á Austurvelli í dag. Sjálfstæðismenn hafa ætíð afgreitt alla útifundi með því að þar færu einungis fram skrílslæti sem ekki væri mark takandi á. „Enda gefast þeir alltaf upp ef við svörum þeim ekki“ svo ég vitni til ummæla þingmanna Sjálfstæðiflokksins um mótmæli ASÍ við eftirlaunalögunum og sjálftöku í launakjörum á sínum tíma.

En það var bara á þeim tíma sem Sjálfstæðismenn voru við stjórnvölinn og það er svo margt sem hefur breyst. T.d. standa þeir fremstir í ræðustólum "klappstýrur hrunsins" þessa dagana sem settu upp efnahagslíf með 30% yfirverð á krónu og yfirgengilegum viðskiptahalla og keyrðu það í þrot og kenna óvinveittum frændþjóðum um glæpinn og núverandi ríkisstjórn. Margir sem fengu glæsilega styrki til þess að standa í dýrri stjórnmálabaráttu og hugguleg kúlulán sem ekki þurfti að greiða upp nema viðkomandi hefði grætt einhver ósköp umfram afborganir

Því ber að fagna að raunsætt mat á stöðunni sé að taka við fullyrðingum um glæsilega niðurstöðu samninganefndar eða landráðabrigsl. Það er ekki hægt að líta hjá þeirri niður stöðu sem náðist þann 14. nóvember með samþykkt umsömdu Brussel-viðmiðanna svonefndu eftir erfiðar samningaviðræður Íslands, Bretlands, Hollands og Frakklands sem formennskuríkis ESB.

Allir aðilar samþykktu viðmiðin sem grundvöll samningaviðræðna og Alþingi Íslendinga ályktaði i framhaldinu að Ísland gengi til formlegra samningaviðræðna á grundvelli Brussel-viðmiðanna. Þar er sá grunnur sem lá fyrir og hann var lagður af þáverandi ríkisstjórn og þar voru sjálfstæðismenn.

En það er klárlega stærstu mistök sem Steingrímur fjármálaráðherra hefur gert að ætla sér að klára málið einn og senda Svavar í málið. Steingrímur átti vitanlega að láta sjálfstæðismenn vera með í að klára málið. Það voru þeir sem voru búnir að semja um hvernig samningurinn myndi verða og með því hefðu þeir orðið að samþykkja eigin gerðir, sem þeir eru þessa dagana að reyna að víkja sér undan.

Og þá getum við loks staðið fyrir framan frændþjóðir okkar og sagt að íslendingar virði alþjóðlegar skuldbindingar. Það var nefnilega ekki hægt á meðan fyrrverandi ríkisstjórnir okkar sendu reglulega ráðherra og sendiboða með forseta landsins í broddi fylkingar og báru þar á borð forsvarsmanna, að Ísland væri sérstakt Efnahagsundur í boði frjálshyggjunnar og allt annað sem sagt væri um landið væri bull og vitleysa og þeir sem ekki væru sammála því sjónarmiði ættu að fara á endurmenntunarnámskeið.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er svo einkennilegt Guðmundur að það virðist eins og sumum sé um megn að horfast í augu við þá staðreynd að það er fyrst og síðast Sjálfstæðismenn sem mótuðu efnahagsstjórn síðustu tvo áratugi og áttu alla þungavigtarmennina þar, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, seðlabankastjóra, forstjóra Fjármálaeftirlits og síðast en ekki síst Baldur Guðlaugsson.

Þessir menn vilja alls ekki axla neina ábyrgð á því hvernig fór.
Þessi hinir sömu segjast ekki finna eitt eða neitt sem þú vísar í, samt eru blöðin og bloggin full af tilvísunum í sömu atriði og þú vísar til. T.d. grein Kristrúnar Heimsdóttir fyrrum aðstoðarkonu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í utanríkisráðuneytinu í Mogganum í dag – og líka á Eyjunni, sem þú greinilega vitnar til.