föstudagur, 28. ágúst 2009

Verðtrygging og Eygló Harðar

Mann setur ítrekað hljóðan þegar þingmenn fara á stúfana og upplýsa okkur um fávisku sína á íslensku efnahagslífi og atvinnulífinu. Þingmenn sem virðast hafa lítið til málanna að leggja utan endurtekinna órökstuddra fullyrðinga þar sem leitað er á mið skyndivinsælda með lýðskrumi.

Verðtryggingarkerfið var sett á af þáverandi forsætisráðherra Ólafi Jóhannssyni og afgreitt af Alþingi til þess að skapa grundvöll fyrir langtímalánum hér í landi óstöðugleikans og hárrar verðbólgu. Fram að þeim tíma gufaði allt sparifé og lífeyrissjóðir upp og það var einfaldlega ekkert fjármagn til að byggja upp langtímalánakerfi, sem er reyndar grundvallaratriði ef venjulegt fólk á að hafa möguleika að koma yfir sig þaki. Þeir sem áttu fjármagn sendu það úr landi eða settu það í steinsteypu og einungis voru stutt lán í boði og það takmörkuð.

Þegar fólk tekur lán getur það valið um breytilega vexti, erlenda myntkörfu eða fasta vexti og verðtryggingu. Verðtrygging er mishá eftir hversu há verðbólgan er. Með föstum vöxtum og verðtryggingu er í raun verið að velja greiðsludreifingarleið þar sem afborganir eru lægri en þær eiga að vera fyrri hluta lánstímans.

Sumir hafa lagt til að strika út verðtryggingu og halda bara föstu vöxtunum, ekki lagt neitt til annað í staðinn og ekki skýrt út hvernig eigi fara að því. Það liggur það fyrir að ef verðtrygging væri strikuð út og neikvæðir vexti viðhafðir myndi það leiða til sömu stöðu og var þegar fyrrv. formaður Framsóknarflokksins lagði frumvarp sitt um verðtryggingu fyrir alþingi. Sparifé myndi gufa upp, eða með öðrum orðum að kostnaður af lánum allra væru færður yfir á gamalt fólk sem er með sparifé sitt í lífeyrissjóðnum sínum og bönkunum.

Mér er óskiljanlegt af hverju á þetta ráðdeildarsama fólk sem hefur safnað upp sparifé, eigi að sætta sig við að það sé nýtt til þess að greiða skuldir annarra? Sjóðsfélagar eru í langflestum tilfellum félagsmenn í stéttarfélögum. Á fundum stéttarfélaga er oft fjallað um lífeyrissjóðina og ávöxtum þeirra og þess krafist að séð verði til þess að farið sé að lögum og fjármunir í lífeyrissjóðum fari einungis í að greiða örorku- og lífeyrisbætur. Ekki í að greiða upp skuldir fólks sem jafnvel er ekki einu sinni í viðkomandi lífeyrissjóð.

Í þessu sambandi hvað varðar endurteknar fullyrðingar nokkurra þingmanna, þá sérstaklega Framsóknar, þá er það Alþingi sem setur lög um starfsemi lífeyrissjóða ekki stéttarfélög og heldur ekki starfsmenn þeirra. Það er hlutverk stjórna sjóðanna að fara að þessum lögum, ástæða er að minna enn einu sinni á að verkalýðsforystan situr ekki ein í stjórnum lífeyrissjóða og það eru ekki nema örfáir formenn verkalýðsfélaga í stjórnum lífeyrissjóða. Hvorki stjórnir sjóðanna eða ársfundir þeirra gætu tekið það upp hjá sjálfum sér að nýta það sparifé sem er í lífeyrissjóðunum til annarra hluta en fram kemur í landslögum sem alþingismenn setja. Þingmenn sem halda öðru fram eru að krefjast þess að lögbrot verði ástunduð.

Ef tekið er lán með breytilegum vöxtum í íslensku hagkerfi, þar sem verðbólga sveiflast upp og niður um tugi prósenta, þá sveiflast vextir líka upp og niður. Ef verðbólgan fer upp fyrir 5% verða afborganir lána á breytilegum vöxtum svo háar fyrri hluta lánstímans að fáir ráða við þær. Svo maður tali nú ekki um þegar verðbólgan er kominn á annan tug prósenta. Það er ástæða þess að tekið var upp greiðsludreifingarkerfi eins og verðtryggingakerfið er.

Það er einungis ein leið til þess að losna við verðtryggingu, hún er að komast með íslenska hagkerfið í umhverfi þar sem verðbólga er lág og stöðugleiki ríki. Það gerist ekki nema að við fáum þingmenn sem hafa til að bera þekkingu á grundvallaratriðum efnahagslífsins. Þingmönnum verði settar sömu skorður hér landi og gert er í nágrannalöndum okkar, að geta endurtekið leiðrétt mistök sín með gengisfellingum og hárri verðbólgu og aðför að sparifé landsmanna og lífeyrissjóðum.

Sumir virðast telja að hægt sé að velja föstu vextina í stað breytilegu vaxtanna og strika svo út verðtryggingu. Mjög einfaldað dæmi : Tekið er 20 millj. kr. lán. í 40 ár. Afborganir af höfuðstól er þá 500 þús. á ári. Ef lánið væri á breytilegum vöxtum, sem hafa verið um og yfir 20% undanfarin misseri, þá væri vaxtagreiðsla þessa láns 4 millj. kr. fyrsta árið. Semsagt viðkomandi þurfti að greiða af láninu 4.5 millj. kr. fyrsta ári, eða tæp 400 þús. kr. á mán.

Með verðtryggingu og föstum 5% vöxtum þá væri afborgunin höfuðstóls vitanlega sú sama 500 þús. kr. á ári og vaxtagreiðsla 1 millj. Afborgun fyrsta árið væri þá 1.5 millj. kr. á mán. eða um 130 þús. kr. á mán. Með þessu er greinilega verið að flytja hluta af vaxtagreiðslu það er 3 millj. kr. yfir á seinni hluta lánstímans. Sá sem tók lánið fær í raun nýtt lán sem bætt er við höfuðstólinn. Ef farið er að tillögum þingmanns Framsóknar þá væri þessar 3 millj. kr. teknar út af spari- og lífeyrisreikningum fullorðins fólks.

Ég þekki engan hvorki í verkalýðshreyfingunni eða annarsstaðar sem er fylgjandi hárri verðbólgu, sem leiðir til hárra vaxta, sem síðan leiða til greiðsludreifingarkerfis eins og verðtryggingarkerfið er. Allir þessir aðilar eru ákafir fylgismenn þess að hér verði skapað umhverfi með alvöru efnahagsstjórn, þar sem við búum við stöðugleika, lága vexti og enga verðtryggingu.

14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ólafslög (sjá bls. 177-78) þarfnast endurskoðunar. Ólafslög, þar sem kjarni málsins var verðtrygging fjárskuldbindinga, þótt að öðru leyti væru þau um “efnahagsmálapakka”, miðað við þáverandi aðstæður verðbólgu og misgengis, átti uppruna sinn í frumvarpi, sem við Vilmundur Gylfason verkstýrðum af hálfu þingflokks Alþýðuflokksins og var lagt fram um jólaleytið 1978 sem skilyrði fyrir áframhaldandi stjórnarsamvinnu.

Verðtryggingarkaflinn var að mestu verk Jóns Sigurðssonar, forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar, síðar þingmanns og ráðherra Alþýðuflokksins (og bróðursonar Haraldar Guðmundssonar, guðföður velferðarríkisins íslenska). Greinargerðin og rökstuðningurinn með frumvarpinu var höfundarverk Gylfa Þ. Gíslasonar, fv. ráðherra Alþýðuflokksins í Viðreisnarstjórninni. Eini maðurinn, sem eftir því sem best er vitað hafði ekkert til málanna að leggja um svokölluð Ólafslög, var Ólafur Jóhannesson sjálfur.

Jón Baldvin Hannibalsson
http://jbh.is/default.asp?ID=53

Nafnlaus sagði...

Framsóknarmenn þeir, sem nú sitja á þingi, eru upp til hópa einhverjir ódýrustu lýðskrumarar sem sagnir eru til um. Þeim færi betur nú að láta lítið fyrir sér fara og segja sem minnst, berandi mesta ábyrgð á þeim mistökum, sem að lokum leiddu til þeirra efnahagslegu ófara, sem við höfum nú orðið að þola - Ólafur Jóhannesson er einn örfárra framsóknarmanna, sem hafði ábyrgðartilfinningu, þótt hann væri fráleitt gallalaus sem stjórnmálamaður. Eins og þú greinir frá, Guðmundur, þá átti hann öðrum mönnum fremur þátt í þeirri tilraun til að koma á festu í efnahagsmálum, sem gerð var undir lok áttunda áratugarins, þegar hann flutti einn frumvarp sitt um ráðstafanir í efnahagsmálum 1978, svo nefnd "Ólafslög", þar sem m.a. verðtrygging var tekin upp, með þröngum skilyrðum þó. En það var svo einn af hinum dæmigerðu lýðskrumurum Framsóknar, Steingrímur Hermannsson, sem rauf tengslin milli kauplags og verðlags, sem leiddi svo aftur til þeirra efnahagslegu hamfara, er urðu til þess að verkalýðshreyfingin með tilstyrk atvinnurekenda tóku fram fyrir hendur óhæfra stjórnmálamanna og málin í sínar hendur með svokallaðri "þjóðarsátt". Þá var Einar Oddur Kristjánsson, "bjargvætturinn að vestan" í forystu fyrir atvinnurekendum. Í minningunni ber hann eins og gull af eiri af þeim mönnum, sem gegnt hafa því embætti.

Nafnlaus sagði...

Ertu ekki að rugla saman verðtryggingu og jafngreiðslu?
Jafngreiðslu/annuitetslán hafa jafnar greiðslur allan lánatímann. Mest vexti fyrst og mest afborganir í lok lánstímans. Það kemur verðtryggingu ekkert við. Húsnæðislán á Norðurlöndunum eru yfirleitt jafngreiðslulán með breytilegum vöxtum algerlega án verðtryggingar og virðast allir bara nokkuð sáttir. Það er svo hægt að gera samning við bankann um fast vexti i ákveðinn tíma, yfirleitt 3 til 5 ár i einu.

Nafnlaus sagði...

Nokkrar spurningar til þín Guðmundur.

1.
Er ekki verðtryggingin ein af ástæðum þess að verðbólgan er svona mikil?

2.
Er það ekki verðtryggingin sem tekur allt bit úr eina tæki SÍ gegn verðbólgu -Stýrivöxtunum?

3.
Er ekki betra að vera með eitt hagkerfi í staðin fyrir tvö, hagkerfi þar sem allir hafa hag af því að verðbólgan sé sem minnst? Þar sem alli leggjast á eitt við að halda henni niðri.

4.
Afhverju verða að vera miklar sveiflur á verðbólgu í Íslensku hagkerfi, er það eitthvað lögmál?

5.
Afhverju eiga lántakendur einir að borga fyrir þessar sveiflur?

Kv,
Jón Ottesen

Nafnlaus sagði...

Ágæti Guðmundur.

Þú skrifar og spyrð:

"Mér er óskiljanlegt af hverju á þetta ráðdeildarsama fólk sem hefur safnað upp sparifé, eigi að sætta sig við að það sé nýtt til þess að greiða skuldir annarra?"

Ég spyr þig á móti - afhverju á ég að greiða 50% meira af húsnæðisláninu mínu heldur en fyrir tveimur árum - er ekki nær að eldra fólkið sem safnað hefur peningum taki einfaldlega á sig höggið svo komandi kynslóðum sé viðbjargandi á þessu skeri sem við búum á?

Ég hef þegar ákveðið að yfirgefa landið verði ekki leiðrétt mál okkar sem lenda í að greiða margfalda íbúðina sína - það getur ekki farið þannig að heil kynslóð muni aldrei eignast húsnæðið sitt - hvar er jafnaðarmaðurinn í þér?

Við getum einfaldlega ekki horft uppá heila kynslóð verða meira og minna gjaldþrota.

Nafnlaus sagði...

Akkilesarhæll verðtryggingarinnar er að fólk skilur ekki eðli hennar! Þess vegna nýtur hún ekki sannmælis.

Nú um daginn flutti Lóa Pind frétt á stöð 2 til höfuðs verðtryggingunni. Þar sem tekið var dæmi af hjónum sem tækju verðtryggt lán í dag til fasteignakaupa. Miðað við gefna verðbólgu myndu þau svo skulda sömu KRÓNUTÖLU þegar þau færu á eftirlaun. Það var látið að því liggja að lánið hefði ekkert lækkað í raun á þessum tíma! Fréttamanninum láðist að taka inn í myndina þróun eignaverðs og kaupmáttar á sama tíma!

Verðtryggingin er að mörgu leyti ágæt en líður mjög fyrir það að fáir skilja hvernig hún virkar.

Unknown sagði...

Það hefur verið sannað og er reyndar augljóst að það er víxlverkun á milli verðtryggingar og verðbólgu. Hverjir borga brúsann, umbjóðendur Guðmundar.

Guðmundur sagði...

Verðtrygging er í sjálfu sér í grundvallaratriðum sáraeinföld eins skýrt er út í pistlinum.

Það liggur líka fyrir að ef hennar hefði ekki notið við hefðu menn einfaldlega ekki fengið langtímalán, eins og líka er rakið í textanum.

Ég er ekki sérstakur varðhundur verðtryggingar og heldur ekki aðdáandi hennar. En eins og kemur fram í textanum og hefur reyndar komið ítrekað fram hér í pistlum þá eru í stéttarfélögum mikill fjöldi fólks sem krefst þess að það fái sinn lífeyri greiddan út verðtryggðan og krefst þess að starfsfólk stéttarfélaganna verji þann rétt þar til annað viðundnai kerif kemur upp.

Samkvæmt því ég hef upplifað á félagsfundum þá eru það líklega 90% félagsmanna sem krefjast þess að hún verði á lífeyriseignum þangað til hér kemur stöðugt verðlag og stöðugutr gjaldmiðill.

Þannig að Eygló Harðar og hennar sammælendur eru sárafáir, en háværir og lemja höfðinu við steinin og neita að horfast í augu við staðreyndir en reyna að koma einhverjum ímynduðum sökum á verkalýðshreyfinguna, eins og margir temja sér án þess að geta fært fyrir því nein haldbær rök.

Verkalýðshreyfingin hefur í raun eins svo oft áður unnið sér það eitt til saka að benda á staðreyndavillur í málflutningi fólks.

Á meðan við búum við örgjaldmiðil og slappa stjórnendur efnahagsstefnu þá er líklega ekkert skárra en bévítans verðtryggingin.

Nafnlaus sagði...

Já hún er svo mikil mótsögnin í því að verkalýðshreyfingin standi vörð um verðtrygginguna og lífeyrissjóðina

-

Og svo koma sömu aðilar fram og saka verkalýðshreyfinguna um að spila með lífeyrissjóðina og gæta ekki hagsmuna lífeyrisþega

Hvort eru þessir lýðskrumarar að koma eða fara?
HG

Nafnlaus sagði...

Það er rétt hjá Guðmundi að meðan við erum með slappa stjórnendur efnahagsstefnu þá er verðtrygging ekki slæm, enn gleymum því ekki að staða gjaldmiðils er bara mæling á þeirra verkum. Enn svo þettað með vextina á verðtryggðum lánum uppá
5 % og hærra enn það er nú algjörlega óskiljanlegt. Þar sem t.d í Danmörku eru vextir um 3 til 4% á húsnæðislánum. Góða helgi Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Þar sem ég hef ekki aldur til að muna hvernig verðtryggingin kom til á sínum tíma, get ég vel ímyndað mér af hverju hún varð til.

Það sem mér þykir þó lýsa ævintýralegri heimsku/vanþekkingu (eða jafnvel sérhagsmunagæslu) stjórnvalda þess tíma, var að afnema verðtrygginguna af launum !!

Með þeirri æfingu var verðtryggingin algerlega tekin úr sambandi við hinn almenna borgara á skítaskerinu okkar, og á þeim tíma hefði verið gáfulegt að fara strax í að losna við þennan feigðarförunaut sem krónan er.

Á.M.

Nafnlaus sagði...

Kæri Guðmundur.

Nú þykir mér þú vera aðeins eftir á í umræðunni. Það eru allir orðnir sammála um það að við aðstæður eins og eru nú í þjóðfélaginu....

þ.e. hátt verðbólgustig á meðan hagkerfið sjálft gengur í gegnum verðhjöðnun....

leiðir verðtryggingin óhjákvæmilega til hækkunar á raunvirði gengistryggðra lána.

Þetta eru vel flestir vel þenkjandi menn orðnir sammála um. Skuldarar hafa orðið fyrir forsendubrest og óréttlátri hækkun á höfðustól lána.

Það sem málið snýst nú um er með hvað aðferðum á að reyna að taka til baka þann skaða sem óréttlát hækkun lána hefur valdið.

Það segir sig sjálft að ef að svipað ástand muni ríkja hér í gengismálum í nokkur ár í viðbót(eins og allar líkur eru á ) að það verður að gera eitthvað varðandi verðtrygginguna.

Annars verða 30 milljón króna skuld orðin 60 milljónir eftir fáein ár, og það eru littlar líkur á að kaupmáttur muni fylgja þessu eftir.

Þórður Magnússon

Guðmundur sagði...

Mig langar til þess að benda enn einu sinni á að ástand var svo að einungis fengust lán fyrir um 45% af áætluðu verðgildi eignar til 10ára mestalagi 15 ára með breytilegum vöxtum.

Þessu kerfi var síðar breytt. Það var reyndar til þess að allmargir gengu i gegnum allharkalegar hliðarverkanir og margir þ.á.m. undirritaður að skuldir fóru fram úr verðgildi eigna, Búseti og Sigtúnshópur voru stofnaðir, en það náðist þokkalegt jafnvægi upp úr gerð Þjóðarsáttar.

Ekkert af þessu leiðir til þess að einhver vitræn innistæða sé fyrir þeim ásökunum sem beint er til verkalýðshreyfingar af hálfu núverandui þingmanna Framsóknarflokks sem varð til þess að þessi pistill hrökk fram úr fingrum undirritaðs.

Ef við ætlum að skilgreina það til hlýtar þá gerum við það ekki hér í stuttu innleggi á aths.dálki.

Þakka fyrir góð innlegg og fjölda heimsókna. Mun á morgun fjalla um afrek þingmanna í sumar þar sem þeir með lagabreytingum krefjast þess að lífeyrissjóðir setji góðan hluta fyrirtækja í gjaldþrot.

Þessir hinir sömu þingmenn hafa síðan búið sér allt annað lífeyrisumhverfi en aðrir landsmenn búa við

Unknown sagði...

Komið upp virkum, öruggum leigumarkaði svo við unga fólkið getum sparað okkur upp í 30-40% útborgun í íbúð í öruggu umhverfi. Þá væri minna mál þótt að það sé bara lánað fyrir 60% kaupverðs. Þessi séreignarstefna er að ganga að þjóðinni dauðri.
Anna