fimmtudagur, 20. ágúst 2009

Húsin í bænum


Í Flatey


Nú líður að menningarnótt og þemað er húsin í bænum. Þetta er vel til fundið þegar við stöndum fyrir fram risavaxna kumbalda og gömul hús sem voru viljandi látinn grotna niður svo það væri hægt að rífa þau og reisa enn fleiri risavaxnar boðfelnnur í gömu hverfin.

Í gömlu húsunum getum við lesið menningarsöguna og sögu hins almenna borgara. Gömlu húsin hafa svo mikið meiri útgeislun en nýju tómu kumbaldarnir. Þær mættu hiklaust vera færri, en frekar fjölga torgum og görðum. Fá torg og fáar styttur er eitt af því sem einkennir Reykjavík og ekki síður fá minnismerki.

Ef ráfað er um götur menningarborga víðsvegar um heiminn eru fallegustu staðirnir oftast stór og víðáttumikil torg og garðar sem innihalda stóra og mikla minnisvarðar um merka viðburði í sögu viðkomandi lands. Þar eru einnig gömlu húsin og þangað leitum við og setjumst niður. Þar er starfsemi sem dregur okkur til sín. Engin fer í nýju hverfin.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa alltaf verið svo heimóttarlegir, að þeim hefur einungis komið í hug að setja upp styttur af sjálfum sér og kannski einum eða tveimur dönskum kóngum. Öll vitum við að minnisverðir áfangar í sögu þjóða hafa ætíð komið til þegar almúginn nær einhverju fram eftir langvinna baráttu við ríkjandi stjórnvöld. Þar má minna á kosningarétt fyrir aðra en sérútvalda, hjúalögin, vökulögin og kosningarétt kvenna, nú síðast Búsáhaldabyltingin.

Við eigum að reisa minnisvarða. T.d. mætti taka nokkrar af hálfreistu blokkunum í miðbænum og búa til torg og setja þar upp mikinn minnisvarða um vökulögin. Stækka má Lækjartorg í áttina niður á höfn og að Seðlabankanum setja þar glæsilegan garð með miklum minnisvarða. Hér gæti maður séð fyrir sér minnisvarða þar sem almúginn nær leggur niður ráðherraræðið og fótum treður það. Allt í kring væru gosbrunnar og að auki fjöldi kaffihúsa.

Fyrir framan Landsbankahúsið Icesave minnisstólpa svo að við gleymum ekki þeirri ljótu hneisu, eða gera lítinn garð við höfnina hjá Tónlistarhúsinu með Icesave stólpa hangandi á snöru og bronsaða potta og pönnur til minnis um Búsáhaldabyltinguna.

En til lengri tíma litið leggjum við til að viðhalda þeirri sögu sem litlu húsin segja okkur. Lífsbaráttunni sem hin almenni borgari hefur háð og er enn að. Þar má vísa m.a. til Stykkishólms eða Flateyjar. Ferðamönnum fjölgar þar í beinu hlutfalli við hvert gamalt hús sem gert er upp. Látum gömlu húsin í Reykjavík ljóma. Elstu húsin má nýta, þau eru ekki drasl, frekar en gömul handrit, skjöl, myndverk eða mynt. Þau eru óbætanleg verðmæti.

Engin ummæli: