fimmtudagur, 11. febrúar 2010

Er sandkassaleiknum lokið?

Stór hluti þjóðarinnar hefur allt frá Hruni kallað eftir því að stjórnmálamenn leggi til hliðar sandkassaleikinn, semji um vopnahlé og taki höndum saman um lausn þeirra gríðarlegu vandamála sem við blasa. Það er hugarfarið sem er stærsta vandamál Íslands og er mun stærra vandamál en Icesave. Stjórnmálamenn hafa ekki leitað lausna, þeir hafa haldið sig að deilunum. Afleiðingin blasir við, engar lausnir og staðan versnar.

Það er mikill undiralda í þjóðfélaginu og stutt í enn meira fall, Ef ekkert gerist þá duga þegar ákveðnar skattahækkanir ekki og líklega þarf ef fram fer sem horfir að hækka skatta aftur næsta haust og atvinnuleysið mun halda áfram að vaxa. Stærsti skaðinn sem stjórnmálamenn eru búnir að valda með sandkassaleik sínum er fólgin í stöðu gengisins, háum vöxtum, sem veldur uppdráttarsýki atvinnulífs og vaxandi skuldastöðu heimila og fyrirtækja.

Um þetta hef ég m.a. fjallað ítarlega (hér) og (hér)

Það er algjört grundvallaratriði að fá stöðugleika og ná genginu til baka. Núna er undirliggjandi 10% verðlagshækkun ef gengi kronunnar verður ekki lagað strax og kaupmáttur mun því falla enn meira. Þetta er alfarið sök athafna íslenskra stjórnmálamanna undanfarið ár. Ekki einhver utanaðkomandi vandi.

Loks nú eftir rúmlega árs sundrungarstjórnmál virðist hilla undir það að stjórnarandstaðan ætli að fara að vinna að málum af einhverjum heilindum og hættu ræðuleikfiminni. Enda blasa nú við afleiðingar sundrungarstefnunnar = atvinnulífið er að hrynja. Atvinnuleysi er að vaxa vegna athafna þeirra. Ef farið hefði verið að tillögum aðila vinnumarkaðs, væri atvinnuleysið byrja að minnka. Icesave er smámál við hliðina á þessu.

En það er ekki bara stjórnarandstaðan sem hefur vikið sér undan því að horfast í augu við þann vanda sem við Íslandi blasir, ríkisstjórnin hefur falið sig á bak við Icesave og er þjökuð að af ákvarðanafælni. Icesave er sannarlega ekki stærsta málið, en stjórnmálamenn eru helteknir af því og á meðan sitja mörg mál á hakanum. Í skjóli þess spila sumir ráðherrar einleik eins og t.d. sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra og valda miklum skaða.

Er VG á móti hagvexti? Hver á að greiða kostnaðinn af rekstri velferðarkerfisins? Menn verða að standa í fæturna og láta af hringlanda hætti og horfast í augu við það að ef búið er að samþykkja álver í Helguvík og endurnýjun núverandi kerskála Straumsvíkur þá er vitanlega búið að samþykkja allan þann pakka. Það er að segja að framleiða orku og heimila að flytja hana á notkunarstað. Það er þá hreinskiptara að segja að það verði síðan ekki meira um álver hér á landi.

Öll gerum við kröfur um að viðhalda velferðakerfinu eins og það var fyrir Hrun,. Ekki má skera niður í heilbrigðiskerfinu, heldur ekki skólakerfinu, eða skerða bætur í almenna kerfinu. En hversu mikinn hagvöxt þurfum við til þess? Ef komast á úr þessum vanda þurfum við 4 – 5% hagvöxt á ári næstu 5 ár. Auka þarf útflutningstekjur um 60 – 70 milljarða á ári. Helmingur þess gæti komið frá álverum og 25% úr ferðamannaiðnaði og restin frá sprotafyrirtækjum.
Þá fyrst eigum von um að ná lífskjörum að svipuðu marki og þau voru fyrir Hrun.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, sanngjarnt svar.

Fer það saman að hafa 4-5% hagvöxt og stöðugleika ? Slíkur hagvöxtur hlýtur að kalla á þennslu sem aftur leiðir til hærri vaxta og verðbólgu.

Held að hinn bitri sannleikur sé einfaldlega sá að útflutningtekjur munu aukast en kjör launafólks muni rýrna bæði með minnkandi kaupmætti, hækkun skatta og launalækkun.


Björn Kristinsson

Guðmundur sagði...

Eins og áður er ég að reyna að draga upp myndina eins og ég sé hana út frá mínu umhverfi. Kannski ekki allt í samræmi við eigin óskalista, en samt það maður sér. Það er rétt og ég hef svo sem bent á það sjálfur að ofsaþennsluskeið okkar hafa skilið eftir sig allafkastamikla timburmenn

Nafnlaus sagði...

Ég held Guðmundur að við þurfum nú raunverulega Þjóðarsátt sem verður mun víðtækari en sú fyrri:

1) Launakjör
2) Vaxtakjör
3) Mikið aðhald á fjármálastofnanir
4) Stjórnsýslu
5) Stjórnarskrá
6) Kosningalöggjöf

o.s.frv. Guðmundur við verðum sem sagt öll að leggjast saman á eitt að byggja samfélagið upp. Við komumst ekki í gegnum þennan skafl aðeins með pólitískum vendi. Það þarf fleiri til. Það verður að virkja þjóðina.

Þjóðfundurinn sýndi að það er hægt.

Þjóðin er tilbúin !

Ég held og tel að lífeyris-sjóðirnir verði að koma hér sterkir inn og taka stöðu með fólkinu. Afskriftir lána og lækkun vaxta. Ég veit að það mun kosta lægri lífeyrisgreiðslur fyrir mig í framtíðinni en þessum peningum er vel valið ef niðurstaðan verður þjóðinni til góða.

Ein og sér erum við örþjóð en sameinuð í hugsun erum við stórþjóð. Við gerum þetta ekki aðeins fyrir okkur sjálf heldur börnin okkar og komandi kynslóðir.

Björn Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Ofboðslegur barlómur er á öllum bloggverjum sama hvar drepið er niður, það þarf nú bara að fara að kalla til vælubílinn.
Hvernig væri að fólk hætti að velta sér eingöngu upp úr hamförunum þetta er að verða tveggja ára barlómur. Hvernig væri að tala um hina hliðina Seðlabankinn ekki með inngrip sem neinu nemur á gjaldeyrismarkaði í fleiri mánuði og gengið hangir. Bjartsýni með fjármögnun Búðarhálsvirkjunar 40 störf þar í sumar.Atvinnuleysi er minna en í mörgum löndum Evrópu(9% hér á móti 20% á Spáni t.d.), fall landsframleiðslu áþekkt og víða annars staðar og tekjur á mann þrátt fyrir kreppuna hærri en í þeim flestum.
''Það hefur vakið undrun margra hversu lítið innflytjendum hér á landi hefur fækkað núna í kreppunni eða um 2,6%'' (greining Ísl.banka)
Ef skoðaður er kaupmáttur landsframleiðslu á mann samkv. greiningu Íslandsbanka erum við í 12 sæti í 33 ríkja samanburði svipað og í Danmörku Svíþjóð og Ástralíu en Bretarnir voru 6% lægri en við en það eru þeir sem eru að fara lána okkur fyrir Icesave fyrir þá sem ekki muna. Svo þurfa þeir líklega líka að hjálpa Grikkjunum.

Ég held líka að við þurfum að fara að taka því sem býðst í atvinnumálum hverjum hefði dottið það í hug að ekki tækist að manna haustslátrun í Skagarfirði síðasta haust það þurfti að flytja inn Pólverja...Fólk hlýtur að þurfa að færa sig til milli atvinnugreina sumir tímabundið aðrir til frambúðar.
Ég hef verið á sjó með iðnaðarmönnum sem skruppu á vertíð á veturna en fóru í smíðavinnu á vorin og frameftir hausti, þessir menn hafa ekki sést til sjós í mörg ár.Enda nóg að gera í landi svona breyttist margt en greinilega var ekki innistæða fyrir þessum breytingum.
Það er erfitt að vorkenna atvinnulausum sem ekki eru til í að skreppa tímabundið út á land til að taka til hendinni ef með þarf.