föstudagur, 26. júní 2009

Staða krónunnar

Staða krónunnar er allt of lág. Með því að láta krónuna vera svona lága er verið að skapa nýjan heimatilbúinn og gríðarlegan vanda, í formi aukinna skulda upp á tæpa 1000 milljarða. Það veldur mikilli eignarýrnun, greiðsluþroti og gjaldþrotum.

Þetta er megin vandinn á meðan þetta lága gengi er látið viðgangast. Það verður nú strax að setja stefnuna á annað, annars eru stjórnendur efnahagsmála að magna vandann. Aðgerðarleysi er ákveðin stefnumörkun.

Við þekkjum vel þau viðhorf sem þeir höfðu sem voru við stjórnvölinn í Seðlabankanum. Þeim var lýst mjög vel með margendurteknum orðum fyrrv. stjórnarmanns í Seðlabankanum, rithöfundinum Hannesi Hólmstein, og Pétur Blöndal efnahagsgúrú Flokksins endurtók þau svo oft; „Það er svo gott að hafa krónuna, því þá getum við blóðsúthellingalaust leiðrétt of háa og ranga kjarasamninga verkalýðsfélaganna með því að láta krónuna falla.“

Þeir aðilar sem halda því fram að það sé fínt að láta gengið falla til að vinna sig út úr vandanum eru einungis að horfa á rekstrareikning þjóðarinnar, ávinningurinn kemur þá í hlut fárra útvalda (skuldlausra), en ekki er horft á afleiðingar þess á efnahagsreikning þjóðarinnar, og skuldir hækka um tæpa 1000 milljarða (gengisvísitala 140 - 230 = 60% hækkun)

Þessi vandi er miklu mun stærri og alvarlegri en sá ávinningur, sem kemur fram á rekstrarhlið fárra. Því til viðbótar er það ekki heldur ávinningur fyrir öll venjuleg fyrirtæki m.a. í útflutningi - að hafa svona lágt gengi þó ávinningurinn sé einhver á rekstrarhlið. Gengisfallið skapar miklu mun meiri vanda fyrir venjuleg fyrirtæki á efnahagshliðinni - þar sem aukning erl. skulda þurrkar út allt eigin fé og setur viðkomandi einingu í greiðslu stopp eða mikinn vanda.

Gengisfallið er því ekki að hjálpa neinum - nema kannski skuldlausum aðilum í útflutningi. Með leyfi á gengisstefna að snúast um þá, er ekki nóg komið að þeirri stefnu? Var henni hent úr bankanum með búsáhaldabyltingunni? Á meðan allir aðrir tapa, og yfir standa stórkostlegustu eignatilfærslur Íslandssögunar.

Hvar er kjarkurinn, Jósep Jósep; syngjum við í útilegunni og það á eins við gagnvart stjórnendum efnahagslífsins upp í Seðlabanka.

Í þessu sambandi skal haft í huga, að svona mikið gengisfall er ekki til komið af eðlilegum viðskipta- og efnahagsástæðum. Þar er um að kenna kerfishruni krónunnar og allri umgjörð hennar. Endurreisn á gengi verður því viðkomið með hefðbundnum aðferðum, þær eru ekki lengur fyrir hendi á Íslandi. Þessu veldur breytt í umgjörð krónunnar; hrunið bankakerfi, traust á fjármálamörkuðum, lánshæfnismat Íslands með lokuðum aðgang að erl. Bankakerfi og getuleysi Seðlabankans okkar sem lánveitanda til þrautavara, o.fl. o.fl.- sem gerir það að verkum að ekki er hægt að ná genginu til baka með hefðbundnum aðferðum. Þær gagnast ekki nema að takmörkuðu leiti.

Kerfisáhætta krónunnar jókst við fall bankanna. Samningar við ESB og aðstoð Seðlabanka Evrópu er okkur lífnauðsyn, eins og ég hef komið nokkrum sinnum að, með fastgengi þar til evra verður tekin upp eins fljótt og mögulegt er - í samstafi við Seðlabanka Evrópu - byggt á langtíma jafnvægisgegni (gengisvísitölu 135 -140).

4 ummæli:

Gunnlaugur sagði...

Eins og þú bendir á, þá eru það bara fáir útvaldir sem hagnast á þessu lága gengi krónunnar. Jú, og svo þeir sem eru svo heppnir að hafa undanþágu frá gjaldeyrisskilareglu Seðlabankanum og hefur ekki ennþá komist upp um að þeir séu að kaupa krónur á aflandsmarkaði.

Á meðan blæðir fjölskyldum landsins út sem er jú kjarni hverrar þjóðar. Héðan munu eiga sér stað stórfeldir búferlaflutningar ef ríksstjórnin fer ekki að bregðast vanda heimaila.

Allt frá því í október þegar ófarirnar gengur yfir hefur ekkert verið gert fyrir heimilin! Þá segi ég ekkert. Greiðsluaðlögun og fl. í þeim dúr gerir akúrat ekkert nema lengja í ólinni.

Hins vegar hefur allt verið gert fyrir fjármagnseigendur. Þar er ég að vísa til yfirlýsingar fyrrverandi ríkisstjórnar að ábyrgjast allar innistæður í bönkunum umfram það sem innstæðutryggingasjóður gerir skv. lögum.

Í mínum augum er þessi svokallaði stöðuleikasáttmáli sáttmáli fjármagnseigenda. Þ.e.a.s. þeirra sem stjórna lífeyrissjóðunum og atvinnurekendum.

Jón Ingi sagði...

Sæll Guðmundur,
Getur þú útskýrt nánar fyrir lesendum hvað liggur á bak við því mati þínu að langtíma jafnvægisgengi sé 135 - 140?

Guðmundur sagði...

Sæll Jón Ingi ég byggi það á greinum og umsögnum einstaklinga sem ég tel að hafi vit á þessum málum.
Þar á ég m.a. við Baldur Pétursson, aðstoðarframkvæmdastjóri Endurreisnar og þróunarbanka Evrópu (EBRD) sem leggur mikla áherslu á núverandi vandi íslenska þjóðarbúsins sé svo stór að stóraukið samstarf við alþjóðasamfélagið sé lykilatriði varðandi endurreisn hagkerfisins.

Í viðtali við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins nýlega, sagði Baldur meðal annars:
,,Með umsókn um aðild að Evrópusambandinu, líkt og stjórnvöld stefna að, megi byggja upp traust og túverðugleika sem sé forsenda fyrir aðgengi að alþjóðlegu fjármagni."

Umsókn segir Baldur jafnframt nauðsynlega til að forða fráenn meira hruni þótt hún nægi ekki ein sér. ,,Samhliða verður að hefja samstarf við Seðlabanka Evrópu um aðgerðir til að tryggja styrkingu krónunnar og gengisstöðugleika."

Fáir Íslendingar hafa jafn mikla reynslu af samstarfi við alþjóðlegar bankastofnanir og Baldur og því mikilvægt að hlusta á aðila eins og hann sem er með puttann á púlsinum á alþjóðlega bankageiranum.

Ég hef í fyrri greinum vitnað í hann og fleiri um þessi mál

Nafnlaus sagði...

Þótt fáir hafi gert sér í hugarlund á hvaða skala hrunið yrði voru auðvitað ýmsir sem bentu á það að þessi hágengisstefna sjálfstæðis- og framsóknarflokks leiddi á endanum til kreppu. Það væri ekki hægt að slá heimsmet í viðskiptahalla ársfjórðungslega í mörg misseri án þess að það yrði einhvern tímann leiðrétt.
Hágengis- og viðskiptahallaflokkarnir hældust mikið um af auknum kaupmætti sem of hátt gengi færði fólki. Taldi það bera skýrt vitni um stjórnvisku þeirra. Má til sanns vegar færa. Skýrt vitni en ekki fagurt.
Kv. Dofri Hermannsson.