mánudagur, 15. júní 2009

Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni

Baldur Pétursson, aðstoðarframkvæmdastjóri Endurreisnar og þróunarbanka Evrópu (EBRD) leggur mikla áherslu á núverandi vandi íslenska þjóðarbúsins sé svo stór að stóraukið samstarf við alþjóðasamfélagið sé lykilatriði varðandi endurreisn hagkerfisins.

Í viðtali við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins nýlega, segir Baldur meðal annars: ,,Með umsókn um aðild að Evrópusambandinu, líkt og stjórnvöld stefna að, megi byggja upp traust og trúverðugleika sem sé forsenda fyrir aðgengi að alþjóðlegu fjármagni." Umsókn segir Baldur jafnframt nauðsynlega til að forða frá enn meira hruni þótt hún nægi ekki ein sér. ,,Samhliða verður að hefja samstarf við Seðlabanka Evrópu um aðgerðir til að tryggja styrkingu krónunnar og gengisstöðugleika."

Fáir Íslendingar hafa jafn mikla reynslu af samstarfi við alþjóðlegar bankastofnanir og Baldur og því mikilvægt að hlusta á aðila eins og hann sem er með puttann á púlsinum á alþjóðlega bankageiranum.

Lausn á gjaldeyriskreppunni á Íslandi er kjarni vandans, og afar brýnt að finna varanlegar langtímalausnir á því máli sem allra fyrst. Á því verða aðrar grunnaðgerðir að byggja á - m.a. er varðar endurreisn bankanna, og aðgerðir er varða lausn á greiðsluerfiðleikum - fyrirtækja, heimila, sveitarfélaga og ríkis.

Varanleg langtímalausn á gjaldeyriskreppunni er lykill og grunnur að lausn annarra stórra vandamála á Íslandi og um leið forsenda endurreisnar. Það er því allra stærsta viðfangsefnið sem framundan er. Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni verður að finna á allra næstu vikum og mánuðum þannig að gengið geti styrkst um a.m.k. 30% innan árs og komist í langtíma jafnvægisstöðu (gengisvísitalan 140) eftir um eitt ár.

Slíkt verkefni má ekki taka lengir tíma þar sem slíkt hefði í för með sér stórkostleg ný áföll og eignartilfærslur, samhliða því að sparnaðar og lífeyrisskerfi landsins yrði fyrir stórfelldum skaða - enda eyðilegging og tjón því meira sem gjaldeyriskreppur standa lengur. Lausn á slíkum kreppum er því kapphlaup við tímann.

Varanlegar lausnir á gjaldeyriskreppunni verða hinsvegar ekki gerðar nema á grunni umsóknar um aðild að ESB, og notkun á neyðarrétti innan EES sem beita á í samningum við ESB og Seðlabanka Evrópu. Þetta stafar af því að á Íslandi eru ekki til staðar nægjanlega öflug tæki og aðferðir til að ráða við þennan gríðarlega vanda.

Þetta stafar m.a. af því að engin fordæmi eru fyrir svo mikilli gjaldeyriskreppu sem er á Íslandi og því duga ekki gömul tæki og aðferðir. Það var einnig hluti af því áfalli sem þjóðin varð fyrir að of lengi var beitt gömlum tækjum og aðferðum þrátt fyrir að aðstæður væru gjörbreyttar, en það voru mikil mistök á sviði áhættustjórnunar. Slík mistök má ekki endurtaka.

Varanleg lausn á gjaldeyriskreppunni er hið stóra verkefni framundan sem allt veltur á. Þær viðbótaraðgerðir sem þetta krefst varða lögfræði og hagfræði, en þó umfram allt annað - alþjóðleg tengsl og reynslu af alþjóðlegum samningum og samskiptum. Sýn á lausn og hafa diplómatíska festu og þor til að standast álag í samningaviðræðum til að ná þeirri lausn fram sem stefnt er að. Í slíkum samningum er ekkert 100% fyrirfram, heldur eru þetta atriði sem berjast þarf fyrir á yfirvegaðan, diplómatískan og raunsæjan hátt, skref fyrir skref í nauðvörn þjóðar.

Með tilliti til þessa er grein varaformanns Sjálfstæðisflokksins þar sem hún ræðst á regluverk EES og ber á það þær sakir að það hafi tekið efnahagslegar ákvarðanir hér á landi, ekki sú ríkisstjórn sem hún starfaði í. Það sem helst að sakast um er eins og margoft hefur komið fram að ríkistjórn Þorgerðar Katrínar tók ekki á þessu regluverki með því að sækja um aðild að ESB. Það blasir við að það aðgerðarleysi eru alvarlegustu mistök sem gerð hafa verið í íslenskum stjórnmálum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Komdu sæll Guðmundur.

Hvað er það sem Íslendingar eru stoltastir af í utanríkissamskiptum okkar? Jú það er landhelgisdeilan og hvernig við stóðum upp í hárinu á alþjóðasamfélaginu og þá sérstaklega Bretum. En munurinn er náttúrulega að þá höfðum við stjórnmálamenn sem höfðu bein í nefinu, ekki þessar helvítis lyddur sem nú sitja á þingi.
Ef ég fengi að ráða þá yrði öðruvísi tekið á málunum.
1. Kalla heim íslenska sendiherran í Bretlandi og reka Breska sendiherran á Íslandi heim, og slíta stjórnmálasamstarfi víð Breta.
2. Segja upp EES samningnum.
3. Segja okkur úr NATO.
4. Senda viðskiptanefndir til Kína, Japans, Tævan, Rússlands, Brasilíu, Argentínu og fleiri landa í austurlöndum og suður ameríku, og gera viðskiptasamndinga við þessi lönd. Þótt ekki næðust samningar við nema eitt eða tvö af þeim væri það alveg nóg fyrir okkur.
Heimurinn er stærri en evrópa og við eigum einfaldlega að sniðganga evrópu og bandaríkin líka ef þörf reynist. Þessi lönd hafa sýnt það að þau eru ekki "vinir" okkar.
Það er kominn tími til að standa á rétti okkar og ekki láta "alþjóðasamfélagið" hvað sem svo það er, níðast á okkur.

Kær kveðja, Hörður Tómasson

Héðinn Björnsson sagði...

Það er algerlega óraunhæft að gengisvísitalan nái aftur 140 stigum með núverandi skuldsetningu þjóðarbúsins. Meðan um 40% af útflutningstekjum okkar fara í vaxtargreiðslur getur gengið ekki annað en veikst enn frekar. Miðað við núverandi útfluttning, innflutning og vaxtarborganir er ekki ólíklegt að jafnvægisgengi evrunnar sé nær 300kr á evru en 150. Nema að það takist að semja um verulega vaxtarlækkun eða skuldarniðurfellingu til handa íslensku þjóðarbúi er ekki mögulegt að styrkja gengið varanlega. Að taka lán til að styrkja gjaldeyrisforðann er sakmmgóður vermir og mun aðeins veikja gengið til lengdar.

Nafnlaus sagði...

Það er algerlega augljóst að það þarf fyrst og fremst að laga gengismál hér á skerinu - þar er ég sammála hæstvirtum greinarhöfundi, og líklega allir nema útgerðarmenn eru sammála um það. Það hefur sömu aðilum þótt augljóst í mörg ár. Fljótlegasta og öruggasta leiðin að því markmiði er ESB (= € ), hvort sem fólki líkar betur eða verr.

Það er hins vegar algerlega óþolandi að á meðan heimilin og heilu árgangarnir af Íslendingum eru á leið í þrot að það sé verið að tefja en ekki gera.

Ég þori að fullyrða að menntaðir Íslendingar munu flýja land (og eru í raun byrjaðir á því) þegar þeir komast í þrot vegna verðtryggingar og gjaldeyrismála.

Á þeim hraða sem unnið er, verða íslendingar orðnir ca. 150.000 hræður þegar lausnin er fundin (vegna fólksflótta). Sú þjóð verður uppbyggð af fólki á aldrinum 50+ og 15-20 ára. Það mun vanta ofboðslegan fjölda af fólki á aldrinum 20 - 49 ára. Það verður heldur betur gjaldeyrisútflæði þegar þetta fólk sækir eftirlaunin sín þegar þar að kemur....

Eina leiðin sem ég sé fyrir ykkur sem vinnið að "stöðugleikasáttmála" er að spýta í lófana og hraða þessu máli. Stjórnvöld, opinberar stofnanir, atvinnurekendur og stéttarfélög eru þegar orðin a.m.k. 9 mánuðum of sein að finna lausnina. Á þessum níu mánuðum (og rúmlega það) hafa lán hækkað óstjórnlega, nauðsynjaverð hefur hækkað fáránlega, og tekjur þegnanna hafa dregist saman.

Júní er hálfnaður - og engin lausn er komin. Næsta mál á dagskrá Alþingis er málþóf út af IceSlave, og strax eftir það fara menn að tefja málin út af ESB (meira málþóf þ.e.a.s.).

Ég sé ekki betur en að það skiptir engu hvort um sé að ræða xD, xB, xS, xO, xV eða hvaðþaðnúheitir, menn fara í skotgrafahernað og tefja - á þeim bæjunum er sama rassgatið undir öllum. ASÍ virðist engu geta breytt um það.

Ég legg til eins stykkis allsherjarverkfalls, til að sýna að þegnarnir hafa ekki meiri þolinmæði. Þessarri beiðni er beint til ASÍ, þú skilar því kannski fyrir mig...

Komið því til skila að það er að duga eða drepast núna, búsáhaldabyltingin er komin í startholurnar aftur!

Þakka annars góðan pistil sem endranær.

H.J.B.