fimmtudagur, 15. júlí 2010

Góðar ábendingar AGS

AGS bendir réttilega á að ríkisstjórnir íslendinga hafi ekki tekið með í reikninginn þann hluta skattkerfisins sem fari fram í gegnum vinnumarkaðinn. Á þetta hefur verið bent nokkrum sinnum hér á þessari síðu. Í stuttu máli er það vegna andstöðu bænda- og útvegsmanna valdsins að þróun almenna tryggingarkerfisins væri ekki með sama hætti hér á landi og hún var í hinum norðurlandanna. Þekkt er hvernig þetta sama vald stóð í vegi fyrir afnámi hjúalaga og fleiri atriðum til hagsbóta fyrir hinn almenna launamann. Við erum að upplifa það hið sama í dag í umræðunni um aðild að ESB.

Þegar samtök launamanna sáu að ráðandi stjórnmálaöfl komu í veg fyrir að íslenskir launamenn hefðu sömu réttindi væru annarsstaðar á norðurlöndunum, börðust þau með langvinnum verkföllum fyrir því að ná fram í gegnum kjarasamninga. Þetta sést best í íslenska lífeyriskerfinu, sjúkrasjóðakerfinu og veikindadagakerfi kjarasamninga. Þessi kerfi eru á hinum norðurlöndum rekin í gegnum skattkerfið og almenna tryggingarkerfið.

Þar á ég við að veikindaréttur gagnvart vinnuveitanda er mun lengri hér á landi en á hinum norðurlandanna og þegar hann þrýtur taka sjúkrasjóðirnir við og svo lífeyrissjóðirnir ef um mjög langvinn veikindi er að ræða. Ef þetta íslenska kerfi væri lagt niður og fært yfir á almenna tryggingakerfið, skapaðist svigrúm til u.þ.b. 15% launahækkunar, en aftur móti þyrfti ríkissjóður að hækka skatta um svipaða upphæð.

Ég hef oft gagnrýnt hversu takmarkaða þekkingu íslenskir stjórnmálamenn hafa í raun á þeim hluta hagkerfisins fram fer á vinnumarkaðinum. Þar er ég t.d. að vísa til kostulegra fullyrðinga fyrrv. stjórnarþingmanna sjálfstæðismanna og framsóknar um skatta hér á landi, þar sem þeir tóku ekkert tillit til jaðarskatta og skerðingarmarka bótakerfisins og þvertóku fyrir að ræða hvaða áhrif skattabreytingar þeirra höfðu á þá sem minnst höfðu til hnífs og skeiðar.

Skýrsla AGS er greinargóð um margt, m.a. um þessa hluti. Þó svo margir séu andvígir AGS þá er klárt að það er rétt afstaða vina okkar á hinum norðurlöndunum að það yrði að koma íslenskum stjórnvöldum í skilning um að þeir stjórnarhættir, sem hér hafa verið tíðkaðir voru einfaldlega ekki í lagi. Vinnubrögð á Alþingi hafa ekki boðleg, ráðherraræði sem einkennist af verndun valda fárra á samfélaginu ásamt þekkingar- og skilningsleysi á hvernig hin almenni vinnumarkaður fúnkerar.

Ábendingar AGS um ehf-væðinguna sem orðið hefur á undanförnum árum eru þarfar og þó fyrr hefði verið. Sérhyggjan hefur náð langt, og harla einkennilegt að hlusta á ehf- menn gera kröfur um þjónustu frá hinu opinbera og maður verður oft undrandi þegar þeir mæta inn á gólf hjá okkur í stéttarfélögnum og gera kröfur um styrki, en hafna því jafnframt að greiða af réttum launastofni. Ehf-menn halda niðri eðlilegri þróun samfélagsins og launaþróun. Sérfræðingar AGS benda réttilega á að lágmarkslaun hinna ýmsu stétta eru of lág.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Já - blindir sjá ekki, það er rétt. T.d. hef ég fyrir framan mig leiðbeiningar AGS til íslenskra stjórnvalda um hvernig best er að ná inn auknum skatttekjum. Með því að hækka virðisauka á matvöru, lækka hátekjuskattsmarkið og hækka tekjuskatt/fjármagnstekjuskatt á fyrirtæki og einstaklinga. Verulega góð leið til þess að setja þau fyrirtæki og heimili á hausinn sem ekki eru þar fyrir. Brilliant ábending.

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill
Felix