fimmtudagur, 23. september 2010

Stéttarfélögin

Hún er oft æði grunn umræðan um stéttarfélögin í dag. Það er áberandi að þeir sem hvað harðast gagnrýna stéttarfélögin eru undantekningalaust ekki félagsmenn. Fólk sem ekki kemur á skrifstofur félaganna og kemur auk þess ekki á fundi. Ég hef nokkrum sinnum tekið þetta umræðuefni fyrir hér á þessari síðu, og geri það enn vegna harla einkennilegra ummæla um stéttarfélögin í umræðunni undanfarna daga og eins sendinga inn á aths. dálka þessarar síðu. Sumir líta til stéttarfélaga eins og þau voru um miðja síðustu öld og komast að þeirri niðurstöðu að þar sem vinnubrögðin nú séu ekki þau sömu og þá sé verkalýðshreyfingin á villigötum í dag.

Reglulega er fullyrt að forystumenn hafa kosið sig sjálfa til forystu án nokkurra afskipta annarra, ákvarði einhendis hver stefnan sé hverju sinni. ástundi sjálftöku í launum og við hvaða verkefni er tekist á hverjum tíma. Það eru félagsmenn sem velja sér forystu og formaður hefur með stjórn og trúnaðarráð, oftast er það um 15 til 20 manns. Ég get fullyrt að félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins eru fullfærir um að velja forystu sambandsins og hinna 10 aðildarfélaga sambandsins. Það stendur sannarlega ekki á félagsmönnum að koma sínum athugasemdum á framfæri á félagsfundum eða í samskiptum við skrifstofuna. Utanfélagsmenn eru með fullyrðingum sínum í raun mikið frekar að niðurlægja félagsmenn um getuleysi en okkur í forystunni.

Það er löngu liðinn sá tími að félagsfundir væru eini aðgangur félagsmanna að starfs- og forystumönnum sínum. Ef eitthvað kemur upp, grípa félagsmenn upp símann á staðnum og hafa samband eða senda strax tölvupóst. Við hjá RSÍ fáum um 100 símtöl á hverjum degi auk um 50 tölvupósta. Þar að auki koma hingað fjöldi manns á hverjum degi til þess að sinna sínum erindum við starfsmenn og lögmenn sambandsins. Auk þess eru stjórnir aðildarfélaga með reglulega fundi og svo eru vitanlega félagsfundir og voru á þeim tæpleg 1000 manns síðasta ár. Eftir öllum þessum leiðum er skrifstofa og um leið forysta sambandsins í lifandi sambandi við þá félagsmenn sem hafa eitthvað að athuga við starfsemina eða vilja sambandið beini sjónum sínum að einhverjum nýjum verkefnum.

Rafiðnaðarmenn reka auk þess öflugustu starfsmenntastofnun landsins og rafiðnaðargeirinn skattleggur sjálfan sig til reksturs skólans og veitir til hans um 200 millj. kr. ári, auk þess að sambandið og aðildarfélög greiða umtalsverðar fjárhæðir til fræðslustarfseminnar á hverju ári. Þar hefur námskeiðum verið fjölgað mikið og stuðningur við okkar fólk aukinn svo það geti sótt sér framhaldsmenntun á námskeiðum og bætt stöðu sína á vinnumarkaði og sótt inn í fleiri störf með víðari þekkingu. Að jafnaði eru um 50 rafiðnaðarmenn á fagtengdum námskeiðum í hverri viku, þar fer einnig fram lífleg umræða um vinnumarkaðinn og starfsemina. Ef stéttarfélögin hefðu ekki breytt starfsháttum og stefnumálum þegar líða tók á seinni hluta síðustu aldar þá væru staðan mun lakari í dag.

Frá stofnum Rafiðnaðarsambandsins árið 1970 – 2008 hefur verið samið tæplega 4.000% launahækkanir, en á sama hefur verið samið um 330% launahækkun í Danmörku, en kaupmáttur launamanna jókst svipað í báðum löndunum. Grunngildi stéttarfélaga er og verður ætíð það sama, að verja þá sem minnst mega sín. Það hefur verið gert með því að hækka ætíð lægstu gólf kjarasamninga umfram almennar launahækkanir. Til þess að tryggja að þeir sem eru á lægstu töxtum fylgi launaskriði á markaði. T.d. hafa lægstu taxtar í kjarasamningum rafiðnaðarmanna hækkað frá 2000 um 46% umfram almennar launahækkanir.

Valfrelsi á öllum sviðum er nú sjálfgefið í augum almennings. Við stöndum frammi fyrir mörgum valkostum á öllum sviðum. Sífellt færri launamenn starfa hjá sama fyrirtækinu allan sinn starfsaldur. Flestir reikna með að þurfa að skipta um starf minnst tvisvar á starfsævinni. Sérhæfing fyrirtækjanna hefur vaxið og kröfur til sérhæfingar og sveigjanleika starfsfólksins hefur aukist umtalsvert.

Það gilda sömu lögmál í íþróttum og innan fyrirtækja. Fyrirtækið með best þjálfaða starfsfólkið sigrar. Til þess að ná fram fylgi við þá stefnu sem fyrirtækið fylgir við að auka framleiðni og ná betri árangri þurfa þeir sem eru í keppnisliðinu, starfsmennirnir, að vita að hverju er stefnt. Það eru starfsmennirnir sjálfir sem vita best hvernig er hægt að hagræða til þess að auka framleiðni. Því er haldið fram að þau lönd sem ætla sér að fylgja tækniþróuninni og viðhalda þeim lífsháttum sem við höfum tamið okkur, verði að sjá til þess um 20% af vinnuaflinu sé að jafnaði í starfsmenntanámi. Það er það ásamt gjaldmiðlinum sem skiptir mestu máli í kjarabaráttu dagsins í dag.

Við öllum blasir sú staðreynd að það sem stendur uppi eftir Hrun er starfsemi stéttarfélaganna, þau hafa ekki þurft að skera niður styrki til félagsmanna, frekar bætt við þá, auk þess að aðstoð m.a. með lögmönnum hefur verið aukinn. Fræðslustarfsemi hefur verið aukinn og enginn niðurskurður þar. Lífeyrissjóðirnir eru einu stofnanirnar á fjármálamarkaði sem standa uppi eftir Hrunið.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flott grein og starf í þínu félagi, sem aðrir gætu tekið til eftirbreytni.

Aðeins vegna gjaldmiðilsins sem þú nefnir i lokin.

Nú virðist sem stefnt sé að afnámi gjaldeyrishafta, fyrr en áður hefur komið fram.

Verði þessi stefna raunin má segja að tekin hafi verið stefna sem eykur hættur þjóðarinnar gríðarlega, og orsakað gæti nýtt hrun. Það sem gerist er eftirfarandi: Krónan hættir að styrkjast (þegar komið fram) og síðan tekur nú að veikjast frekar, þar sem allir fjárfestar innlendir sem erl. fara að setja sig i biðstöður fyrir það sem koma skal. Verðbólga eyskt, verðtryggð lán hækka meira o.fl.

Þetta eykur vanda heimilanna verulega, sem kann að valda því að þau 40 þús heimili sem eru á barmi gjaldþrots, falla hvert af öðru. Þetta myndi einnig stórskaða allar forsendur kjarasamninga.

Við afnám gjaldeyrishaftanna gæti krónan fallið gríðarlega, sem setti allt ástandi í landinu á heljarþrom á örskotsstundu. Í slíku ástandi eru afar litlar líkur á að hún styrkist eftir slíkt fall. Slíkt myndi auka verulega líkur á miklum fjöldagjaldþrotum og nýju hruni.

Stefna um afnám gjaldeyrishafta - áður ef afstað til ESB samniga er ljós, er því einnig stefna um að auka hættu þjóðarinnar skelfilega.

þar sem það er stefna þjóðarinnar (með samþykki Alþingis) að fara í viðræður við ESB, sem þegar eru hafnar, hlýtur það jafnframt að vera stefan að ná viðeigandi samningum um samstarf í gjaldmiðlamálum, svo fljótt sem mögulegt er. Þetta felur í sér að stefnt væri að aðild að evrunni, um leið og samningar um ESB verða samþykktir, eftir c.a. 2 ár. Þar með væri trygg leið framundan í gjaldmiðlamálum, m.a. afnám hafta. Þetta er hið stóra tækifæri í að byggja upp traust og stöðugleika í gjaldmiðlamálum og endurreisn Íslands.

Þessu tækifæri væri klúðrað rækilega, með því að afnema gjaldeyris höftin fyrr, sem um leið myndi auka verulega líkur á nýju kerfisáfalli þjóðarinar.

Stefna um afnám gjaldeyrishafta nú, samræmist því ekki stefnu um samninga í gjaldmiðlamálum sem standa yfir við ESB, og eykur hættu þjóðarinnar gríðarlega í samanburði við það - ef samningar tækjust um þessi mál í viðræum við ESB.

Vegna þessa vaka margar spurningnar um afstöðu aðila launþega. Er slík stefna með þegjandi samþykki aðila, og ef svo er á hvaða forsendum? Er það ekkert mál að setja þjóðina í nýja hættur, er ekki nóg af þeim fyrir?

Nafnlaus sagði...

Athyglisvert komment um gjaldmiðilinn.

Það er rétt.

Afnám gjaldeyrishafta virðist vera í algerri andstöðu við samninga við ESB um hugsanlega lausn í gjaldmiðlamálum, sem hlýtur að vera furðulegt. Þar er tækifæri til að leysa gjaldmiðlakreppuna, með traustum og öruggum leiðum sem ekki kostar kollsteypur.

Þar að auki, er gengið allt of lágt miðað við meðaltalsraungengi undanfarinna ára skv. uppl Seðlabankans. Sú staða magnar upp allar erl. skuldir fyrirtækja og heimila s.s. Orkuveitunnar, um tugi milljarða og hækkar þar með afborganir erl. lána og gerir viðskiptahallann því meiri.

Það hrekur svo fyrirtæki eins og Orkuveituna í að hækka gjaldskrá langt umfram það sem þyrfti, ef gengið væri rétt skráð. Sama á við um fjölda sveitarfélaga með erl. lán, en of lágt gengi er einn aðal vandi þeirra. Þetta veldur síðan hækkun verðlags og innlendra lána, langt umfram það sem ella væri.

Þetta í heild magnar upp skuldakreppuna á Íslandi, langt umfram það sem ella væri og gerir alla stöðu margfalt verri.

Þetta á einnig við um útgerðarfyrirtæki, þar sem erl. lán þeirra hækka margfalt meira en tekjur og setur þau einnig í miklu verri stöðu.

Í slíku stórmáli, er a.m.k. lágmark að fram fari einhver umræða, en slíkar ákv. séu ekki teknar eins og ekkert sé.

Er ekki kominn tími til að fjalla um helstu vandamál Íslands, mikla og vaxandi skuldakreppu sem orsakast af gjaldmiðlakreppu, sem örugglega mun magnast, verði hömlur á gjaldeyrismarkaði minnkaðar.

Nafnlaus sagði...

Vegna gjaldmiðilsins, er rétt að hafa eitt í huga.

Gjaldeyrishöft eru björgunarhringur á hálf sokkin og hættulegan gjaldmdiðil krónuna.

Þau hafa bjargða Íslandi frá miklu verra hruni, þar sem allt traust er horfið innanlands sem erl. og því hefði krónan fallið miklu meira en hún þó gerði.

Það er ekki hægt að byggja upp traust á ónýtum gjaldmiðli og verður aldrei hægt, sem er forsenda þess að afnema höft. Þessi staðreynd ættu flestir að þekkja.

Afnám gjaldeyrishafta, er því eins og að sprengja björgunarkútinn, (af sundmanni í neyð) áður en tekst að bjarga þjóðinni í skjól evrunnar.

Slíkt væri "enn eitt" heimatilbúna klúðrið, á sama hátt og fyrir hrun, sem magnaði vandann í nýjar hæðir.