þriðjudagur, 7. september 2010

Sumarið og lífsgildin

Nú er byrjað að hausta og litirnir í náttúrunni að hefja sína stórkostlegu litasýningu. Sumarið er búið að vera óvenju gott. Við Helena erum búin að gista í fellihýsinu og tjöldum um 35 nætur í sumar, einungis einu sinnu fengum við rok sem einhverju máli skipti. Það var upp í Kerlingafjöllum eina nótt og svo þegar við gengum á Snækoll morgunin eftir. Fórum um gamla skíðasvæðið og Hveradalinn. Ég hef verið frekar óvenju latur við fjallgöngur, en komst samt á nokkur fjöll, það hæsta var Kerling í Eyjafirði. Fór reyndar ekki alla leið upp, sleppti síðustu 150 metrunum. Er ekki mikið fyrir að skríða á fjórum fótum í snarbröttu klettaklifri, sérstaklega ef ég er einn á ferð.

En það er ótrúlegt að hafa verið í íslensku sumri dag eftir dag í um og yfir 20 stiga hita, og svo allt þetta logn sem búið er að vera í sumar. Að venju voru bækur með í kerrunni, eins eitt barnabarnið kallar alltaf fellihýsið. „Ætlið þið að sofa í kerrunni, ekki tjaldi?“ Mest las ég norrænar sakamálasögur, eitthvað á annað tuginn, þægilegt lesefni þegar maður er að vakna á morgnana, áður en skriðið er fram úr. En sú bók sem situr eftir í minningunni er „Kvöldverðurinn“ eftir Karl Koch, frábærlega uppbyggð, grípandi og góðar persónulýsingar. Fór reyndar ekki fram úr fyrr en ég var búinn með bókina, þá var komið vel yfir hádegi.

Sama hvar maður kom og settist niður með fólki, umræðurnar bárust ætíð að ástandinu í þjóðfélaginu og hversu mikið siðrof hefði átt sér stað og hversu erfiðlega tæki að fá samfélagið til þess að taka markvisst á því. Íslendingar verða að íhuga þau gildi sem mestu skipta. Umskipti hafa orðið á síðustu misserum á þjóðfélaginu og ekki er undan því vikist að endurskoða það gildismat og þann hugsunarhátt sem ríkt hefur. Það var reyndar eitt af því sem maður vonaðist til að myndi gerast í kjölfar Hrunsins og útgáfu skýrslu Rannsóknarnefndar.

Íslenskt samfélag hefur tengst siðum annarra þjóða í ríkum mæli í kjölfar þess að vaxandi fjöldi hefur verið við nám og störf utan Íslands og ekki síður sakir þess að vinnumarkaður og fyrirtæki hafa í vaxandi mæli starfað í nánari tengslum við önnur lönd. Landbúnaður og sjávarútvegur hafa undanfarna tvo áratugi ekki tekið við neinni fjölgun á vinnumarkaði, þannig að við höfum orðið að taka upp önnur viðmið og nálgun við gerð kjarasamninga og stjórnun efnahagslífsins. Við þurfum að skapa 35 þús. störf á næstu árum, ætlum við að halda fólki hér heima og fá unga fólkið heim að loknu námi.

Þeir sem vilja halda Krónunni virðast telja að tilgangur mannlífsins sé að þjóna hagkerfinu, en ekki öfugt. Þau gildi hafa gleymst að menntun er fólgin í eflingu dómgreindarinnar og þroska hugsun sína um lífið og tilveruna ásamt því að læra að sjá sér farborða. Öll viljum við eiga þátt í því að móta á Íslandi gott og réttlátt samfélag. Það gerist ekki af sjálfu sér, eins og sumir virðast trúa. Mestu skiptir að þeim efnislegu lífsgæðum sem þjóðin aflar sé skipt réttlátlega milli okkar, í stað þess að fáir fengu of mikið og samfélagið sundraðist. Bilið milli þeirra sem minna mega sín og hinna ríku jókst. Þeir ríku hafa komið sér hjá því að borga til samfélagsins og eiga ekki samleið með okkur hinum.

Framagjarnir einstaklingar þar einna helst stjórnmálamenn hafa einangrast frá þjóðinni og við erum nú að súpa seyðið af sérhyggja hefur vikið fyrir samhyggju. Aðkoma að kjötkötlunum varð helsta keppikeflið og að skara eld að eigin köku. Sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á efnahagsmálin í þjóðfélagi okkar síðustu árin, hafa orðið til þess að stjórnmálin hafa orðið að leikvelli tiltölulega fámenns hóps, sem óspart hefur tekið ákvarðanir að eigin geðþótta. Við verðum að tileinka okkur annan hugsunarhátt og gildismat en það sem ríkt hefur í íslensku þjóðfélagi. Setja efnahagslífi og stjórnmálum þau markmið sem eru í samræmi við þau gildi sem við viljum að séu ráðandi.

Ef við göngum inn í ESB verðum við að gera það sem sjálfstæð þjóð, sem hefur sýnt og sannað að hún stendur á eigin fótum og fær um að leiða til lykta djúpstæðan ágreining. Við verðum að geta staðið upprétt andspænis öðrum þjóðum og gengið til samninga við þær á ábyrgan hátt. Það er áberandi að ekkert, nákvæmlega ekkert af þeim tillögum sem settar hafa verið fram til lausna hafa náð fram að ganga.

Alltaf er tekið viðtal í Kastljósunum við þann eina sem er á móti öllum hinum. Aldrei er fjallað um hvers vegna meirihlutinn komst að einhverri sameiginlegri niðurstöðu og á hvaða forsendum. Öll umræðan fer út um víðan völl í upphrópunum og rakalausum dylgjum, þar eiga fjölmiðlarnir stóra sök. Menn hafa tamið sér tala í upphrópunum og beita alls kyns brögðum til þess að draga inn í Kastljósin. Fyrir liggur að við verðum að byggja upp annað samfélag þar lögð verði áhersla á þau gildi sem við viljum hafa í hávegum og vanda til þess hvernig við deilum með okkur sameiginlegum gæðum.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð samatekt, sérstaklega um fjölmiðlana.

Fjölmiðlar, virðast dansa kringum þá sem ausa yfir þjóðina mestu mordvirði til að hindra, málefnalega umfjöllun um leiðir til endurreinsar sem byggjast á öryggi og árangri, m.a. leiðum til að taka upp öruggan gjaldmiðil.

Afleiðingin af slíku moldviðri og ruglandi umræðu, hæsthrópandi, verður til að auka gríðarlega hættuna á að farin verði leið sem hefur í för með sér gríðarlegar hættur og líkur á nýju áfalli, þar sem ekkert verður hlustað á viðvaranir, frekar en fyrir hrun.

Með þannig hegðun geta aukist líkur á þvi að komið verði í veg fyrir örugga leið í gjaldmiðlamálum með upptöku ERM2 og evru.

Þjóðarskútan er eins og stórlega laskað skip, sem siglir í þoku og vondu veðri á fullri ferð inn á hafsvæði með miklum hættum skerjum og hafís.

Við slíkar aðstæður snýst það um þjóðaröryggi í efnahagsmálum, að stjórnendur og farþegar, sjái svo um að öruggasta og árangursríkasta leiðin sé farin. Það eru þau vinnubrögð sem notuð eru í björgunaraðgerðum.

Þeir sem koma í veg fyrir það, eru að stefna þjóðinni í stórkostlega hættu og auka verulega líkur á nýju áfalli.

Níels Hermannsson sagði...

Sæll Guðmundur og takk fyrir góða pistla og ekki síst þessa þörfu áminningu. Hún minnir mig á stað í Málsvörn Sókratesar, sem Sigurður Norðdal þýddi svo: "Dyggðin vex ekki upp af fjármunum, heldur fjármunir af dyggð og öll önnur mannleg gæði, bæði til handa einstaklingum og ríkjum." Það er þörf áminning að frá þessum staðreyndum fæst engin undanþága.

Nafnlaus sagði...

Krónan er ekki annað en mælieining. Flestar þjóðir hafa reynt að samræma mál og vog til að auðvelda samskipti (sbr. upptöku tugakerfisins). Að halda sérstökum gjaldmiðli í litlum hagkerfum er eins konar anakrónismi miðað við allt það flæði fólks og peninga milli landa sem nú tíðkast. Að mínu áliti er íslenska krónan mjög lélegt þjóðernistákn fyrir utan það hvað hún er dýr í rekstri.
Guðjón

Nafnlaus sagði...

Ég held að það sé ekki rétt að allir vilji móta réttlátt þjóðfélag á Íslandi. Fremstir í flokki þeirra sem vilja sitja að sínu eru helvítis pólitíkusarnir. Ekkert hefur verið gert til að leiðrétta þann ógnarskell sem almenningur hefur tekið á sig. Enn sjáum við milljarða afskrifaða og bankana rífa til sín eignir á tombóluprís.
Björgvin