miðvikudagur, 15. september 2010

Tryggvi Þór og Sigmundur Davíð

Hlustaði á Tryggva Þór og Sigmund Davíð á ÍNN í gærkvöldi, kostulegasti þáttur sem ég hef heyrt. Ætla að reyna að endursegja það sem um huga minn fór meðan þeir ræddu um hversu aðilar vinnumarkaðs ásamt fjölmiðlum væru ósanngjarnir gagnvart þingmönnum.

Þingmenn eru undanfarin ár búnir að halda íslensku samfélagi greipum sér, en hafna alfarið að axla ábyrgð á eigin gjörðum.

Þingmenn þeirra tveggja flokka sem framangreindir þingmenn standa fyrir ákváðu að gefa örfáum aðilum fiskinn í sjónum umhverfis landið ásamt því að láta ríkisbankana til örfárra. Og svo gerðu þeir samning um stórkostlegar framkvæmdir sem umturnuðu samfélaginu og gáfu auk þess út skipun um að hækka öll veðmörk húsnæðislána 10 cm upp fyrir rjáfur allra húsa, alveg sama hversu mikið þessi aðgerð myndi valda mikilli hækkun á söluverði.

Þá bárust til Alþingis víða að aðvaranir um að halda þyrfti til haga þeim aukafjármunum sem kæmu í ríkiskassann vegna þenslunnar. Þessu var ekki sinnt af stjórnarflokkunum og skattar þeirra sem mest áttu voru lækkaðir svo þeir gætu fjárfest og aukið þensluna enn meir.

Öllum aðvörunum var vísað á bug og þingmenn eyddu öllum tíma Alþingis í að rífast um hvort allir mættu segja það sem þeim sýndist í fjölmiðlum.

Þá komu aðvaranir frá ríkisstjórnum og seðlabönkum nágrannaríkja okkar um að Íslenskt hagkerfi væri komið fram á bjargbrún.

Þá brugðust þingmenn og ráðherrar þessara stjórnarflokka við með því að lýsa því yfir að ráðherrar nágrannaríkja og bankastjórar væri svo fávísir, að þeir þyrftu að fara á endurmenntunarnámskeið og læra um hversu klárir íslenskir ráðherrar og þeirra fylgifiskar væru við að hrinda af stað efnahagsundrum.

Og þeir eyddu síðan öllum tíma Alþingis í innihaldslausar umræður um hversu óspilltir íslenskir þingmenn væru.

Svo hrundi íslenskt efnahagslíf og með því hin íslenska króna

Þá eyddu þingmenn öllum tíma Alþingis í að ræða um hversu óvænt og ósanngjörn amerísk kreppa væri gagnvart Ísland.

Þá komu ábendingar um að Íslenska hrunið væri heimatilbúið og bent réttilega á að ekki væri heimili og fyrirtæki að hrynja annarsstaðar en á Íslandi.

Þá eyddu þingmenn öllum tíma Alþingis í að ræða um þá fjárglæframennina sem plötuðu þá.

En þá var spurt um hvers vegna eftirlitskerfi íslenskra stjórnvalda hefði ekki virkað.

Þá eyddu þingmenn öllum tíma Alþingis í að ræða um þá endurskoðendur sem hjálpuðu fjárglæframönnum að plata þingmenn.

Svo kom krafa um að Íslendingar stæðu við skuldbindingar sínar og greiddu innistæðutryggingar.

Þá héldu þessir þingmenn Alþingi uppteknu í nokkra mánuði við að ræða hversu ósanngjarnt þessi krafa væri. Þeir ásamt forseta Íslands hefðu hafnað því að Ísland stæði við skuldbindingar sínar með einu risastóru NEI og fullyrtu að umheimurinn óttaðist þá svo gasalega mikið.

En þá kom skýrsla Rannsóknarnefndar, þar stóð að það væri íslensk stjórnsýsla sem væri stærsti orsakavaldur þess sem hér hefði gerst.

Þá eyddu þingmenn öllum tíma Alþingis í að ræða hvort það ætti að virkja á Íslandi, þeir hefðu reyndar lofað kjósendum sínum þremur stórum álverum, þremur kísilverksmiðjum og jafnmörgum gagnaverum.

En þá var birt skýrsla rannsóknarnefndar þingmanna, sem staðfesti umfjöllun hinnar fyrri um störf þingmanna og ráðherra.

Þá tóku þingmenn til við að halda Alþingi uppteknu við að rífast um hversu ósanngjarnt það sé að ætlast til þess að kjörnir þingmenn þyrftu að taka óvinsælar ákvarðanir og axla ábyrgð gjörða sinna. Ásamt því að væla um hvernig óvægin umfjöllun fjölmiðla valdi því að þingmenn þori ekki að halda uppi vitrænni rökræðu á Alþingi hvað þá að taka sjálfstæða ákvörðun.

Niðurstaða mín var að þingmenn lifa í eigin veröld og upplifa sig sem miðju samfélagsins, en ekkert miðar og samfélagið er að verslast upp.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Meiriháttar samantekt. Hreinlega ótrúlega sönn lýsing á ástandinu og ábyrðarleysi þingmanna. Sérstaklega þessara tveggja.