mánudagur, 20. september 2010

Áfram á sömu braut

Velheppnað Silfur Egils í gær vakti mann til umhugsunar um nokkur grundvallaratriði. Tryggvi Þór upplýsti það að ríkisstjórnin sem var við völd þegar Hrunið skall yfir okkur hefði ekki verið aðgerðalaus, hann hefði verið þar efnahagsráðgjafi og reynt að fá lán frá Rússum og svo Kínverjum. Þetta eru ekki nýjar fréttir ljóst var að Norðurlöndin og BNA höfðu alfarið hafnað frekari lánafyrirgreiðslu, nema þá í gegnum AGS og tryggingu fyrir því að skipt yrði um stefnu í efnahagsstjórninni.

Tryggi Þór var daga fyrir Hrun í sambandi við aðila vinnumarkaðs fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, um hvort við myndum myndu standa með ríkisstjórninni í að fá lífeyrissjóðina til þess að selja allar erlendar eignir sínar og koma með þær heim. (Heildarvirði þessara eigna var þá metið á um 600 Mia kr, ogh það sem væri hægt að losa með skömmum fyrirvara um 300 Mia. Tryggvi Þór taldi á þessum fundum að um 100 Mia myndi duga til þess að komast fyrir horn með íslenska bankakerfið.) Á þessum fundum fékk ríkisstjórnin nákvæmlega sömu svör og þeir höfðu fengið frá Norðurlöndunum, það yrði ekki rætt nema að hagstjórnin yrði endurskoðuð, ekki bara til þess að redda málunum fyrir horn heldur til framtíðar. Þessu hafnaði ríkisstjórn Geirs H. algjörlega. Ég ásamt fleirum upplifði það á þann veg að ríkistjórnin ætlað að halda áfram á sömu braut, þá einna helst sakir þess að annað þýddi að þá væru verið að viðurkenna að gerð hefðu verið alvarleg mistök í efnahagsstjórninni. Enda þurfti umtalsverð átök til þess að koma Seðlabankastjóra og fleirum gerendum í Hruninu frá.

Í dag erum við enn á sama stað, þrátt fyrir að gerður var samningur við núverandi ríkisstjórn um að þessi leið yrði farinn, þeim samning var gefið nafnið Stöðugleikasáttmáli. Sama fólkið er búið að halda Íslandi í gíslingu á Alþingi í tvö ár með því að berjast gegn öllum hagstjórnabreytingum og nauðsynlegum gjaldmiðilsbreytingum. Halda því fram að með bókhaldsbrellum sé hægt að láta skuldir hverfa og eins að láta erlenda skattborgara borga upp töluverðan hlut af skuldum okkar íslendinga og við getum þá haldið áfram á óbreyttum forsendum.

Nú stöndum við frammi fyrir uppgjöri. Margoft hefur verið á það bent hversu vel Norræna módelið hefur heppnast. Þar ríkir mesta hagsældin, öruggasta umhverfið og mesti jöfnuðurinn. Norræna módelið byggir á öflugu velferðarkerfi, vel skipulögðum og öguðum markaðsbúskap. Það er undirstaða að hægt er að fjármagna öflugt velferðarkerfi. Á Norðurlöndum eru öflugustu stéttarfélög í heiminum og hvergi eru þau eins virkir þátttakendur í mótum samfélagsins.

Allt er hér í rúst og það bitnar á kaupmætti og velferðarkerfinu. Valdablokkir hafa náð til sín einokun og hér ríkir fákeppni. Þessar valdablokkir eiga kvótann, matvörumarkaðinn og þannig mætti áfram telja og þær verjast valdamissi með öllum hugsanlegum hætti, eins glögglega sést í helstu fjölmiðlum þessa lands. Allt þetta hefur gerst undir stjórn hinnar svokölluðu hægri manna, nú er það hlutverk núverandi stjórnvalda að reyna að reisa efnahagskerfið upp úr rústum þessarar stefnu.

Hinum Norðurlöndunum er öflugt og agað eftirlit á hendi stjórnvalda. Gegn þessu hefur verið barist hér á landi og það úthrópað sem einhver vinstra kjaftæði. Sagt að það jafnist við kommúnisma ef endurskoða á kvótaeign og fákeppni, eða taka upp agaðri vinnubrögð við stjórnsýsluna með því að tengja hana betur við það kerfi sem ríkir á hinum Norðurlöndunum. Þekkt er að hvernig hinir svokölluðu hægri menn hér á landi hafa haft allt á hornum sér hvað varðar hið norræna velferðarsamfélag og taka vart til máls um það öðru vísi en með allskonar aulabröndurum.

En hin ofsafenga dans sem stigin var hér hefur verið fylgt hefur leitt mörg heimili og einstaklinga í skuldafangelsi. Dansinn varð sífellt trylltari á árunum frá 2004 fram yfir Hrun og þáverandi stjórnarþingmenn ásamt forseta landsins, hvatti almenning til dáða með því að telja öllum í trú um hér væri að gerast Íslenskt efnahagsundur. Allir hefðu svo gott og það gæti ekki annað en batnað. Vitanlega vildi fjöldinn trúa þessu og bankar áttu auðvelt með að fá fólk til þess að taka sífellt stærri lán, kaupa sér stærra og betur búið húsnæði og fleiri bíla. Stór hluti þjóðarinnar eru í dag þrælar skuldanna og allt þeirra líf snýst um að vinna fyrir þeim.

Í seinni hluta Silfursins skilgreindi bandaríski hagspekingurinn Chris Martenson þetta vel og berháttaði Tryggva Þór og stefnu hans. Raunverulegt frelsi fæst aldrei ef við látum ginnast af hinni ofsafengu neysluhyggju sem hér hefur verið boðuð undir nafninu að vera hægri stefna. Þeir sem hafa andæft eru nefndir vinstri menn og það sé eitthvað vont janfvel frá hinu illa, eftir því sem haldið er fram. Frjálsasta fólk sem ég þekki býr á hinum Norðurlöndunum, en þetta fólk er stolt af sinni stefnu með frjálsu hagkerfi sem stendur upp í hárinu á sérhyggju og eignatilfærslum frá mörgum til fárra og ef það er einhver vinstri villa er ég afskaplega stoltur að vera í þeim hóp og fyrir baráttu mína við að koma Íslandi í meira samband við Norðurlöndin.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð grein,

Ef haldið verður áfram á grunni krónunar, án þess að stefna á ESB, verður örugglega nýtt kerfisfall, innan 3ja ár.

Þar til mun ástandið versna á öllum sviðum.

Kerfisbundin eingnaupptaka, heldur áfram vegna allt of lágs gengis ónýts gjaldmiðils, og það styttist í að almenningur og millistéttin verði leiguliðar á "eigin" eignum sem teknar voru, eingnarnámi með of lágu gengi og verðbólgu af þeim sökum.

Fyrirtæki fá ekki aðgagn að erl. lánum nema á orkuvöxtum.

Einstaklingar og fyrirtæki halda áfram að flýja land.

Þetta er einfaldar staðreyndir ef ekki verður mörkuð skýr stefna frá hættulegasta gjaldmiðli veraldar.