miðvikudagur, 22. september 2010

Drulluhalar

Allir muna vel þær vangaveltur sem þáverandi stjórnarþingmenn voru með mánuðina fyrir Hrun, mjúk eða hörð snertilending var algengasta viðkvæði þeirra. Í þessu sambandi má einnig rifja upp ummæli sama fólks fyrir kosningarnar 2007.

Íslenska efnahagsundrið, allir hefðu það svo gott og allt væri hér í toppstandi og allir öfunduðu íslendinga sakir þess hversu góða, óspillta og duglega stjórnmálamenn væru hér að störfum. Þeir fóru í hverja ferðina á fætur annarri um heimsbyggðina ásamt forseta vorum, börðu sér á brjóst og boðuðu kennslu í íslenskri efnahagsundursstjórnun og hvöttu landsmenn til þess að njóta lífsins til hins ítrasta.

Ef einhver setti skugga á þessa glæsimynd voru gerð hróp að viðkomandi, hann væri neikvæður afglapi, úrtölumaður, vinstri kommadingull eða eitthvað þaðan af verra. Þeir erlendu sérfræðingar sem bentu á brotalamir íslenska hagkerfisins voru öfundsjúkir vesalingar sem áttu að fara á endurmenntunarnámskeið í hagstjórn.

Og svo kom Hrunið. Þá kom sú skýring frá þessu fólki, að allir hlytu að sjá að hér væri við að sakast bandaríska niðursveiflu. Þeir sem ekki meðtóku þann boðskap, fengu kunnuglegar háðsglósur og aulabrandara um norrænt velferðakjaftæði og fleira.

Og svo kom rannsóknarskýrslan. Hún var mjög skýr og rökfastur áfellisdómur yfir íslensku stjórnkerfi í níu bindum. Þá voru skýringar þessa fólks, að það væri við bankamenn og fjárglæframenn að sakast, þeir hefðu rifið íslenska efnahagsundrið til grunna innan frá, án þess að þáverandi stjórnvöld hefðu tekið eftir því. Íslenskir stjórnmálamenn höfnuðu alfarið að bera ábyrgð.

Og svo var skipuð samkvæmt landslögum rannsóknarnefnd hæstvirts Alþingis. Hún skilaði niðurstöðum þar sem getu- og úrræðaleysi þáverandi ráðherra og stjórnarþingmanna fékk mínus núll í einkunn.

Heyrðu, en þá koma allt í einu fram upplýsingar frá fyrrverandi stjórnarþingmönnum og ráðherrum, um að þeir hefðu allir vitað að Íslenska efnahagsundrið hefði bara verið plat, það hefði verið ljóst allavega frá árinu 2006, og ekkert hefði verið hægt að gera. Um þetta hefðu legið fyrir skýrslur og þær ræddar af þeim. Þeir hefðu bara verið hlutlausir þátttakendur í að ljúga að þjóðinni um hvað allt hefði verið hér gott og platað hana til þess að skuldsetja sig uppfyrir rjáfur.

Þetta væri allt firnt í dag og það væri ósanngjarnt að fella einhverja dóma yfir 4 ráðherrum. Allir tæku vitanlega pólitíska ábyrgð og væru búnir að sitja undir ríflegum skammti af skömmum og þar með væri það ekkert annað en ómannlega hefnigirni að ráðast að þeim litlu sætu sakleysingjunum.

Sömu menn hafa allt frá Hruni komið veg fyrir að fram fari vitræn umræða um efnahagsmál og framtíð Íslands á hæstvirtu Alþingi. Þeir hafa þakkað sér efnahagsbata, sem er vitanlega okkar dásamlegu krónu að þakka. Með henni væri svo auðvelt að handstýra öllu blóðsúthellingalaust. Launum kippt niður um helming. Gróði útflutnignsaðila aukinn upp úr þakinu með því að gera Ísland að láglaunalandi og til sporna við atvinnuleysi. Eigendum lífeyrissjóða og sparifjáreigendum er gert að niðurgreiða innlenda fjármögnun.

Stjórnmálamenn taka svo að venju við ómeðvituðum launahækkunum, sem kosta ekkert, eins og Þorleifur er að gera í borgarstjórn. Nýbúinn að ráðast að verkalýðshreyfingunni fyrir hversu slök hún sé við að drífa upp laun og bætur. Samfara því er Þorleifur ásamt öðrum stjórnmálamönnum að keyra niður laun hjá almenning og skerða allar bætur velferðarkerfisns. En þeir segja um leið að það komi vitanlega ekki til greina að hækka laun í komandi kjarasamningum. Til þess sé ekkert svigrúm.

Sjálftökur stjórnmálamanna eru bara leiðtréttingar, ekki launakostnaðarauki. Þó þeir taki sér lífeyrisréttindi sem eru þrefallt dýrari en hjá venjulegum launamönnum. Þó þeir taki ætíð hækkun lægstu taxta og láti hana fara upp í gegnum öll sín taxtakerfi. Þó þeir taki sér allt aðra skattameðhöndlun á kostnaði en aðrir hafa. En svo þegar kemur að samningum við launamenn þá eiga þeir að sína ábyrgð. En svo daginn eftir að almennir launamenn eru búnir að samþykkja ábyrga kjarasamninga, þá er gengi krónunnar leiðrétt og það eru samtök launamanna sem eru svo slöpp að semja alltaf um allt of lág laun.

Ágæti lesandi, hér er allt óbreytt þrátt fyrir Hrun og skýrslur rannsóknarnefnda. Veröld stjórnmálamanna er fiskabúr einangrað frá samfélaginu, fullt af skrautfiskum sem hafa einungis samskipti sína á milli með spjátrungsfullum hætti. Þeir segja það sem þeim sýnist við almenning og dettur ekki í hug að það þurfi á neinu stigi, að vera í samræmi við nokkrun raunveruleika. Þetta eru ekkert annað en Drulluhalar sagði einn trúnaðarmanna okkar hjá Orkuveitunni.

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær grein
Takk Guðrún

Riflepro sagði...

Sammála Guðmundur, þetta eru ábyrgðarlausir Drulluhalar sem eru ógn við samfélagið, ef þeir fá að sitja á sínum rassi í þeim "ábyrgðarstöðum" sem þeir verma nú um stundir. Hafa enga framtíðarsýn nema fyrir sjálfan sig, laun og eftirlaun. Er nákvæmlega sama um þegnana sem borga brúsann. Enda líta þeir á fólkið sem óvini sína, að minnsta kosti haga þeir sér á þann máta.
Hvenær ætla Íslendingar að átta sig á því að þetta er ónýtt lið upp til hópa ?
Vonandi þarf ekki að koma til blóðugrar byltingar, en þeir dólgarnir virðast vera að biðja um það. Ekki vilja þeir fara sjálfviljugir, þrátt fyrir að það sé löngu búið að segja þeim upp störfum í þágu þjóðarinnar !
Þeir eru og verða eingöngu í starfi í sína einka þágu.

Nafnlaus sagði...

Hárrétt - hér stendur ekki steinn yfir steini af því sem okkur var lofað fyrir kosningar.
EKKERT Norrænt velferðarþjóðfélag nema síður sé.
EKKERT uppi á borðum - nema síður sé.
EKKERT gagnsæi - nema síður sé.
ENGING skjaldborg - nema síður sé.

Það er sama hvar er borið niður. Hins svo kallaða vinstri stjórn þessa lands, er ekki meir til vinstri en hörðustu kapitalistar.

ÞETTA er ekki boðlegt og gengur ekki lengur.

agnes sagði...

Góð grein. Ég er svo innilega sammála og hef verið að reyna að vekja fólk til meðvitundar um að það getur gert mikið sjálft til að breyta þessu. Mig langar til að biðja þig Guðmundur að hvetja þína félaga og félagsmenn til að vera virkari neytendur.. langar til að benda þér á grein "Neytendabylting" sem hefur birst víða t.d. hér á eyjunni. Samstaða er mikill mattur.... notum hann!!!!
Agnes Arnardóttir

Nafnlaus sagði...

Framúrskarandi grein. Guðmundur.

Og því miður er allt satt og rétt sem þarna kemur fram.

Almenningur í landinu er enda búinn að fá hreinan viðbjóð á stjórnmálamönnunum sem troða sér upp á þjóðina.

Klíkunum og hagsmunabandalögunum.

Sérgæskuni, spunanum og lyginni.

Í ÖLLUM FLOKKUM.

Það þarf að hreinsa út.

Efna til kosninga.

Fela nýju fólki að endurreisa hið ÓNÝTA alþingi.
Takk
Rósa

Nafnlaus sagði...

Góð lýsing,

Í slíku ástandi, en þeim mun mikilvægara að hamra á lausnum, þannig að fókus þjóðarinnar, festist ekki í hatri, sem beinist niður og til fortíðar.

Í björgunaraðgerðum myndi slíkt verða til að auka tjón og hættur.

Þess vegna verða allir (og miklu fleiri en þú Guðmundur)að hamra á lausnum, sem beinast upp og til framtíðar. Það er engin önnur lausn, það er eina vonin. Það er kjarni málsins.

Stefnu á ESB - með evru og sterkara gengi og stöðugleika, sem er forsenda fyrir lægri verðbólgu og vöxtum, afnámi verðtryggingar, og miklu minni fjármagnskostnaði heimila.

Þetta myndi leiða til mikillar kaupmáttaraukningar, og forða þúsundum heimila fár gjaldþroti.

Nú dugar ekki að gráta Björn bónda, heldur safa liði.

Nafnlaus sagði...

Dæmigerð eftir-hruns grein þar sem allri ábyrgð á hruninu er varpað yfir á einstaklinga. Guðmundur vitnar í skýrsluna, en bara þann hlutann sem fjallar um einstaklinga. Fullyrðingin um að stjórnarþingmenn og ráðherrar hefðu platað þjóðina í að skuldsetja sig upp í ráfur stenst enga skoðun og er í raun sögufölsun.
Ekki veit ég til þess að það sé nokkurstaðar skjalfest að ráðherrar eða þingmenn hafi hvatt til skuldasöfnunar. Meira að segja voru uppi viðvaranir um skuldasöfnun heimilana löngu fyrir hrun.
Guðmundur sleppir veigamiklum kafla rannsóknarskýrslunnar úr grein sinni, nefnilega kaflanum um allmennt siðferði og viðhorfum þjóðarinnar á tímum útrásarinnar.
Guðmundur ætti að vita það sem verkalýðsforingi að engin skynsemi er í því að skuldsetja sig upp í ráfur fyrir orðin tóm. En "orðin tóm" lýsir kannski ástandinu best á þessum tíma því enginn gat í raun og veru skýrt hvernig stóð á þessu skyndilega ríkidæmi, hvar fór hin skyndilega aukna verðmætasköpun fram?
Ofurskuldsett heimili er stæsti þröskuldurinn í vegi uppbyggingar Íslands eftir hrun, og hér verður engin sátt fyrr en landsmenn líta í eigin barm og geri upp sinn hlut í margfaldri skuldaaukningu.
Að sitja í ofurskuldsettu húsinu og horfa út um gluggan og horfa á jeppan og hjólhýsið og kenna stjórnmálamönnum um afborganir sem ekki er hægt að borga, er skrumskæld einföldun á heildarmyndinni.
Engin hliðstæð dæmi finnast um þjóð sem sleppir sér algjörlega í kaupæði á lúxus fjármagnað með dýrum lánum í veraldarsögunni. Fáir er sammála mér í þessari skoðun minni, en staðreyndirnar tala sínu máli og hægt er að nálgast allar tölur hjá tollstjóra t.d. sem staðfesta staðalinn í lífsgæðakapphlaupinu hjá þessari þjóð í útrásinni.

Kvedja Ragnar Thorisson

Nafnlaus sagði...

Ég er þér sammála í öllu nema einu, því þó að þér sé uppsigað við Þorleif finnst mér hann nú með okkar betri pólitíkusum og óþarfi að níða af honum skóinn. En það er bara mín skoðun. Allt annað í þessum pistli finnst mér hárrétt og satt. Ástandið hérna er alveg hreint skelfilegt. Kerfið er í algjörri rúst og enginn virðist geta né vilja gera neitt.

Sigríður Guðmundsdóttir

Jenný Stefanía sagði...

Takk fyrir skýra greiningu á ástandi sem fleiri skynja.

"Það er betra að vera stór fiskur í lítilli tjörn" sagði Geir Haarde í einhverju hörmungs eftirhruns viðtalinu.

Þar með afhjúpaði hann stóra sannleikann um íslenska stjórnmálamenn og elítur.

Nafnlaus sagði...

Tek undir hvert orð í grein þinni.
Takk fyrir

Guðmundur sagði...

Ragnar; Hvar stendur að ég leggi til að allri ábyrgð sé varpað á fjóra einstaklinga? Hvergi.

Greinin fjallar um hvernig málflutning núverandi og fyrrverandi stjórnarþingmenn hafa talað undanfarinn 5 ára eða svo og hvernig þeir tala nú.

Þar er einnig vísað til þeirra atriði sem Sjálfstæðismenn settu fremst í sinni kosningabaráttu 2007.

Það er svo oft að menn eru að gera mér upp skoðanir og gagnrýna mig svo á þeim forsendum.

Ekkert af því sem þú segir stemmir við pistilinn
Kv Guðmundur

Guðmundur sagði...

Hvað varðar ummæli mín um Þorleif þá eru þau tilkomin sakir þess að hann skrifaði grein fyrir nokkru þar sem hann upplýsti okkur um hversu lítið hann veit um verkalýðshreyfinguna og bar á okkur starfsfólk hennar margskonar þungar rakalausar ásakanir.

Ég svaraði honum, sá pistill er hér á þessu vefstæði. Þar rakti þær fáránlegu villur sem hann rakti og fullyrti að það bæri allt með sér að hann væri ekki félagsmaður í stéttarfélagi og væri með "vínberin eru súr" málflutning.

Þorleifur svaraði síðan með því að ausa yfir mig allskonar ávirðingum, staðsfesti reyndar allt sem ég sagði, að hann vissi ekkert um nútíma stafsemi stéttarfélaga. Og klikti svo út með að hann treysti sér ekki til þess að svara þeim staðreyndum sem ég rakti.

Hann bætti svo við einhverju bulli um mín störf, dylgjum út í loftið, sem ég nenni ekki að svara.

En hann tekur sér svo gríðarlega launahækkun á meðan sem einhverja leiðre´ttingu á sama tíma og fyrir liggur að lækka laun starfsmanna borgarinnar enn frekar.


Kv GG

Nafnlaus sagði...

Góð grein !!!!!!!
Sigríður

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur það er svo algengt þegar aðilum er svarað málefnanlega eftir að hafa ráðist að starfsmönnum stéttarfélaga, þá sérstaklega stjórnmálamenn, eftir að þeir hafa verið að kenna starfsmönnum stéttarfélaga um að bætur, sem þeir sjálfir eru reyndar að ákvarða séu lágar, þá bregðast þeir við eins og Þorleifur gerði í sínum einstaklega ósmekklega pistli og svo maður tali nú ekki um hans ómerkilega svar þar sem hann hélt því fram að það sem þú hefðir gert á þínum ferli væri að hafa hjálpa einhverjum útlendum launamönnum.
Ég skil vel viðbrögð þinna manna þegar þessi hin sami úrskuðrar sér svo umtalsverða launahækkun á meðan hann ræðir um að lækka laun okkar hjá OR enn frekar.

xx, ég þori ekki að birta nafn mitt vegna inngripa borgarstjórnarmanna hjá okkur í OR

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, ég nefni hvergi í minni athugsemd minni að þú leggir til að ábyrgðinni sé varpað yfir á FJÒRA einstaklinga. Aðeins að greinin er í stíl við annað sem við lesum í bloggheimum, þar sem einstaklingar eru tilgreindir sem eiga að bera ábyrgð. þegar raunveruleg ástæða hrunsins er allmennur samfélagsbrestur.
Ég var heldur ekki að gera þér upp neinar skoðanir annað en það sem stendur í greininni þinni.
Persónulega hef ég ákaflega litla samúð með ofurskuldsettum í dag sem veðsettu fjölskylduna út á gaddinn, enda er ég í þeim hópi sem töldu glæsimyndina ekki eðlilega og fékk að heyra að ég væri í hópi þeirra öfundsjúku þegar ballið stóð sem hæst.
Leitt að þú skildir misskilja mig.

kv. Ragnar Thorisson

Nafnlaus sagði...

Frábær grein hjá þér Guðmundur og ég held að fáir sjái ástandið betur en þú, hinsvegar verð ég (ein að fáum kannski)að vera líka sammála Ragnari Thorissyni hér að ofan, þar sem hann bendir réttilega á þetta:
"...Engin hliðstæð dæmi finnast um þjóð sem sleppir sér algjörlega í kaupæði á lúxus fjármagnað með dýrum lánum í veraldarsögunni. Fáir er sammála mér í þessari skoðun minni, en staðreyndirnar tala sínu máli og hægt er að nálgast allar tölur hjá tollstjóra t.d. sem staðfesta staðalinn í lífsgæðakapphlaupinu hjá þessari þjóð í útrásinni."


Þjóðin einfaldlega verður að horfast í augu við þetta.
kv,
Heiður.