fimmtudagur, 9. september 2010

Komdu með eignir þínar til okkar og byrjaðu að græða

Í tilefni þeirra upplýsinga sem hafa verið að koma fram undanfarna daga um háttalag bankanna, varðandi séreigna- og peningasjóði þeirra langar mig til þess að rifja upp nokkur atriði úr pistlum sem sem ég skrifaði veturinn 2008 og 2009. Æðsti stjórnandi Kaupþings var á árinu 2006 tvo mánuði að vinna fyrir ævitekjum eins verkamanns og það tók 321 fullvinnandi verkakonur allt árið 2006 að vinna fyrir launum æðsta stjórnanda Kaupþings. Á sama tíma héldu stjórnendur Kaupþings lánum og yfirdráttum að ungu fólki.

Í forstofum allra stórmarkaða voru agentar peningasjóða bankanna og í öllum blöðum voru birtar heilsíðuauglýsingar. Því voru boðin „góð“ kjör ef það flytti öll sín bankamál og lífeyrissjóðsmál tilviðkomandi banka. Margt af unga fólkinu stóðst skiljanlega ekki freistingarnar og eyðslan var gríðarleg. Hún byggðist á því að áfram yrði sami uppsveiflan í a.m.k 40 ár.

Allar greiðsluáætlanir sem bankarnir héldu að unga fólkinu voru byggðar á þeim forsendum og dæmið gekk þannig upp. Vitanlega voru keyptar rúmgóðar íbúðir og þær innréttaðar með glæstum hætti og nýjir bílar stóðu í hlaðinu. Og í sjónvarpinu glumdu auglýsingar um að unga fólkið ætti að byrja að græða og fara í fótbolta- og innkaupaferðir til London, golf- og skíðaferðir til Ítalíu á yfirdrætti sem væri bara með 20% vöxtum. Komdu og byrjaðu að græða og taktu lán hjá okkur hljómaði í síbiljunni.

Á þessam tíma komu félagsmenn á skrifstofur RSÍ og lýstu símtölum sem þeir höfðu fengið frá agentum peningsjóðanna. Þeim voru boðin sérstök kjör á lánum og yfirdrætti ef þeir flyttu öll sín lánamál til viðkomandi banka. Þeir ætti einnig að flytja lífeyrissjóð sinn til viðkomandi banka. Þeir ættu að ganga úr stéttarfélaginu og hætta að greiða í þá hít og láta bankana það eftir að ávaxta þá peninga. Fyrirtækin væru þreytt á að láta segja hversu mikla kauphækkun þau ættu að útdeila, oft vildu þau hækka laun mikið meira en gætu það ekki vegna þeirra skorða sem kjarasamningar verkalýðsfélaganna settu þeim.

Agentar bankana á premíum og bónusum sögðu að launamönnum stæðu til boða launahækkun ef þau hættu að greiða í sjúkrasjóð og aðra sjóði stéttarfélaga. Félagsmenn spurðu agentinn hvað með tryggingarþátt sjúkrasjóðanna. Svar agenta bankanna var að það skipti engu því öllum stæðu bætur Tryggingarstofnunar til boða!! Til upplýsingar þá býður sjúkrasjóður Rafiðnaðarsambandsins félagsmönnum 80% launatryggingu komi upp langvinn veikindi upp á heimilum félagsmanna, auk annarra margháttaðra bóta. Á síðasta ári voru styrkir til félagsmanna á annað hundrað millj. kr. meiri en í venjulegu árferði.

Á sama tíma kom fram hver hagfræðingurinn á fætur öðrum og benti á að þetta gæti ekki endað öðruvísi en með harðri lendingu efnahagslífsins, þeir sem tækju mikil lán lenda í erfiðleikum vegna þess að verðbólgan myndi sveiflast upp og krónan falla. Ríkisstjórnin setti almennum lífeyrissjóðum skorður í kynningu á starfsemi sinni á meðan bankarnir nutu frelsis. Nú er komið upp að á ferðinni voru skattsvik af hálfu bankanna upp á hundruð milljóna króna sem virðist eiga að lenda á okkur skattborgunum, þá að stærstum hluta þeim sem stóðu „eðlilega“ að sínum málum og hlustuðu ekki á agenta bankanna.

Á sama tíma gerði ríkisstjórnin ekkert til þess að styrkja stoðir efnahafslífsins og setja bönkunum skorður í innflutning á erlendu lánsfjármagni. Ráðherrar fóru í stað þess mikinn og slógu sér á brjóst og bentu fólki á hversu snjallir þeir væri. Ísland væri best, af því þeir sætu við stjórnvölinn og væri að leggja undir sig heiminn með sinni efnhagssnilli. Þeir gerðu gys af hagfræðingum sem bentu á veilurnar í efnahagstefnunni og sögðu að þeir væru einungis þjakaðir af öfundsýki í garð þeirra sem velgengi nytu. Ráðherrarnir fóru í kosningar undir þessum merkjum og fólk vildi trúa að allt gengi svona vel og það myndi halda áfram og kaus í samræmi við það.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sem aðili sem er fæddur á síðasta fjórðungi tuttugustu aldar, verð ég að viðurkenna að ég og stór hluti af minni kynslóð trúi bullinu í bönkunum á árunum 2003-2008.

Við sitjum svo núna í súpunni, flest okkar dauðsjá eftir að hafa flutt heim eftir framhaldsnám. Við gerum okkur flest grein fyrir að hafa verið plötuð, og að ég held erum flest tilbúin að leggja meira á okkur til að rétta úr kútnum.

Það sem hins vegar stingur í augu okkar er að það er ekkert gert fyrir þessa kynslóð. Svo virðist sem að allar aðgerðir séu til bjargar fjármagnseigendum, þ.m.t. lífeyrissjóðanna okkar.

Eins og hefur verið rakið alloft á þessarri síðu er verðtryggingin lífeyrissjóðunum mikilvæg, en það sem ég held að menn taki ekki eftir er að ef þið keyrið þessa kynslóð í þrot, verða fáir eftir til að borga í lífeyrissjóðina í framtíðinni.

Svo maður skelli sér inn á efni pistilsins aftur (á meðan ég biðst velvirðingar á að hafa farið út fyrir efnið): Eins og staðan er í dag, sýnist manni bankarnir og lánastofnanir vera engu skárri en þær voru á fyrrnefndu tímabili. Þeir eru þó líklega ekki að plata mann lengur, þeir eru að arðræna mann í nafni stöðugleika.

kv,
Gunnar

Guðmundur sagði...

Það er miskilningur að verðtrygging sé lífeyrissjóðunum mikilvæg og einnig miskilningur að því hafi verið haldið fram hér á þessari síðu.

Það myndi einfaldlega stórlega og einfaldlega bjarga stöðu lífeyrisjóðanna ef verðtryggingu yrði aflétt.

En það myndi aftur á móti lenda harkalega á lífeyri sjóðsfélaganna.

Auk þess að það myndi verða til þess að fólk á Íslandi myndu ekki standa til boða langtíma lán nema þá á breytilegum vöxtum, sem hefðu þá m..a verið liðlega 20% síðustu misseri.

Að öðru leiti er hjá fullkomlega sammála þeim atriðum sem koma fram i aths. Gunnars

Nafnlaus sagði...

Athyglisvert hjá Gunnari,

Þegar nánar er að gáð, má spyrja þeirra spurninga hvort bankarnir hefðu allir fallið, ef hér hefði verið evra.

Luxemborg var með stærra bankakerfi en Ísl. hlutfallslega, en þar voru engin stóráföll, vegna þess að þar er gjaldmiðill (evra) sem þolir óveður á fjármálamörkuðum.

A.m.k. væru við laus við verðtryggingu. Ekkert slíkt skuldatjón varð innan evrunnar.

Í nýrri skýrslu World Economic Forum, er efahagslegur stöðugleiki (krónan) á Íslandi og fjármálakerfið komið í neðsta flokk (nr 138)flokk með lægstu löndum heims, s.s. Gana og Zimbabve. Gott fyrir erl. aðila að sjá það. Spurning hvort einhverjir á Íslandi sjái það.

http://eyjan.is/2010/09/09/afram-dalar-samkeppnishaefi-islands-falleinkunn-fjarmalamarkadarins/

Beðist er velvirðingar á að fara út fyrir efni pistilsins, en þegar nánar er að gáð undir yfirborðið, er orsakavaldurinn að meira eða minna leiti, stórhættulegur gjaldmiðill.

Það er ekki hægt að byggja hús á sandi, eða framtíð Íslands á krónu.

Nafnlaus sagði...

Kastro er búinn að viðurkenna að kommúnisminn virki ekki á Kúbu.

Er þá ekki kominn tími til að, viðurkenna að krónan virki ekki á Íslandi.