Margir hafa bent á að haustið 2010 muni verða íslenskum stjórnmálamönnum erfitt. Þá muni fyrst koma fram hverjir þeirra séu alvörumenn sem geti staðið í fæturna. Menn verði að leggja til hliðar viðtekin vinnubrögð Alþingis, þar sem hið eina markmið er að að bregða fæti fyrir hugmyndir andstæðingana. Sé litið til þeirra umræðna sem fram fóru í gærkvöldi á Alþingi og hafa verið í fjölmiðlum undanfarna daga er vart annað en hægt að draga þá ályktun að allir nema sjálfstæðismenn séu að átta sig á þessu.
Sumir þeirra virðast telja að mótmælin nú séu einvörðungu vegna ríkisstjórnarinnar. Það fólk sem ég hef talað við, segir að þau snúist fyrst og síðast um ómerkileg vinnubrög stjórnmálamanna, þá ekki síst þingmanna sjálfstæðismanna. Margir hafa í þeim kaffistofum sem ég hef komið á í morgun bent á ræðu Ólafar Norðdal í gærkvöldi, sá málflutningur sé ekki boðlegur í ástandi eins og það er nú.
Það hefur legið fyrir allt frá Hruni að það muni koma að því að þingmenn verði að ná tökum á ríkisfjármálum og það verði ekki gert með því að hækka skatta. Það verði að gera með því að skera niður útgjöld ríkisins. Það verður ekki gert með því að selja nokkra ráðherrabíla og kaupa reiðhjól, eða selja nokkur sendiráð og fá lánuð herbergi í sendirráðum hinna Norðurlandanna. Það verður ekki gert nema með því að skera niður í dýrustu útgjaldaliðunum.
Nú er komið að því hvort þingmenn hafi burði til þess að leggja til hliðar kjördæmapot og atkvæðaveiðar og taka af karlmennsku á þessum verkefnum. Menn standa á gatnamótum, málflutningur eins og var t.d. ástundaður í Icesavemálinu gengur ekki lengur.
Fyrir liggur óhjákvæmileg ákvarðanataka, sem verður óvinsæl, mjög óvinsæl og býður jafnframt upp á upphækkað leiksvið fyrir lýðskrumara. Hvaða þingmenn munu standast þá freistingu? Hér má benda á t.d. málflutning eins og við heyrðum hjá Sigmundi Erni og Pétri Blöndal í síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær, þar féllu þeir á þessu prófi.
4 ummæli:
Ég held að margir hafi verið að mótmæla því að skjaldborgin hafi verið reist um bankana og auðmennina en ekki heimilin. Það eru engar aðgerðir fyrir heimilin nema að sett hefur verið þunn dýna undir þá sem fara fram af brúninnni. Og þangað er að fara fólk sem á engan hátt á það skilið. Það, ofan á skrípaleikinn á Alþingi, gerir fólk reitt.
Það er að minnstakosti ekki hægt að casha inn atkvæði handa Sjálfstæðisflokknum vegna þessara mótmæla.
Gatnamótin snúast um peningamálastefnu þjóðarinnar, svo einfalt er það.
Hægt er að velja um tvær leiðir.
Stefna í átta að handónýtum og hættulegum gjaldmiðli, eins og virðist vera með núverandi peningamálastefnu með allt of lágu gengi og kaupum á gjaldeyri til að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð (sem tekur 15 ár), sem lækkar gengið enn frekar. Þetta er stefna til fortíðar. Afleiðing af þessari stefnu er að verðlag hefur hækkað miklu mun meira en ella og erl. skuldir einnig, sem er að setja öll heimili í kaf í skuldum.
Skuldavandinn er því enn einn heimatilbúni kerfis-vandinn, sem hefði að stórum hluta matt komast hjá með því að styrkja gengið miklu fyrr. Þessi stefna er eins og að halda markvisst krónunni (þjóðarskútunni) á kafi í sjó þannig að smá saman krókna allir um borð úr kulda þar seim þeir eru á kafi í sjó. Afleiðingin fjöldagjaldþrot og landfótti. Það er skondið að sumir hafa lofað sveigjanleika krónunnar og fall hennar við björgun vandans. Hinn kaldi veruleiki er að þetta fall krónunnar er að koma heimilum og fyrirtækjum í gjaldþrot. Ekkert slíkt skuldatjón varð innan evrulanda.
Hinn kosturinn er að stefna markvisst á evru og aðild að ESB, stefnu til framtíðar.
Þetta krefst styrkingar á gengi, með markmið að aðild að erm2 um leið að samningar verða samþykktir, eftir 2 ár. Þannig næðist traust og trúverðugleiki á landi og fyrirtækjum með aðgengi að erl. lánamörkuðum. Þannig mætti lækka verðlag og erl lán og leggja varanlegan grunn að endurreisn. Þetta myndi lækka innlend sem erl. lán og vera grunnur sem hægt er að byggja skammtímalausnir ár.
Þar sem þjóðin (Alþingi) er búið að samþykkja að fara í samninga við ESB, er afar mikilvægt að sú stefna komi einnig fram í peningamálastefnu þjóðarinnar og gengisstefnu.
Það gengur ekki upp að stefna á samninga við ESB, en keyra krónustefnu til fortíðar í peningamálum. Það er ekki hægt að keyra tvær leiðir á sama tíma.
Lausn vndans er ekki flóknari en þetta. Eftir því sem lengur er dregið að fara þessa leið, því meira mun vandinn magnast.
Það skiptir engu máli hversu oft fólki er skipt út af þingi – ef aðilar þar innan húss gera alltaf sömu mistökin.
Það er ekki fólkið sem skiptir máli – það eru aðgerðirnar sem verða að skila árangri, sem skipta máli. Það er komið nóg af heimatilbúnum mistökum.
Heyr, heyr.
Ómar Harðarson
Skrifa ummæli