miðvikudagur, 13. október 2010

Opið bréf til þingmanna

Loks eru alþingismenn og ráðherrar farnir að ræða skuldavanda heimilanna af fullri alvöru og fjölmiðlamenn loks farnir að fjalla um málin á víðtækari hátt, ekki eingöngu út frá sjónarhorni lýðskrumaranna. Verkalýðshreyfingin hefur um alllangt skeið bent á að ekki yrði undan því vikist að taka á skuldum heimilanna með sértækum aðferðum. En raunsæjar tillögur hafa sífellt horfið í innistæðulaust lýðskrum byggðu á því að þessar aðgerðir sé hægt að framkvæma bókhaldsbrellum og kosti ekkert, eins t.d. Barbabrellur Framsóknarmanna.

Loks draga raunkostnaðartölurnar upp á yfirborðið, sem hafa reyndar alltaf legið fyrir en menn vildu ekki ræða. Gallinn er sá að ef maður vogar sér að benda á nokkrar staðreyndir hvað þessi mál varðar, eins og ég hef gert nokkrum sinnum, þá dynja á manni ofsafengin hatursbréf og spjallþáttastjórnendur velta sér upp lýðskruminu.

Skipta má skuldum almennings í þrjá flokka; A) þeir sem geta bjargað sér, B) þeir sem hægt er að bjarga með sértækum aðgerðum, C) þeir sem ekki er hægt að bjarga, hefðu sokkið þó Hrun hefði ekki skollið á. Vandinn sem verkalýðshreyfingin og fleiri hafa bent á, er að kostnaður við flatan niðurskurð er það stórkostlegur að sú flata niðurskurðartala sem kæmi til greina yrði of lítil fyrir hóp B, en þeim hóp verðum við að bjarga. Skilanefndir bankanna myndu hirða það sem hópur C fengi og hópur A yrði vitanlega sáttur.

Almenna lífeyriskerfið er það eina í fjármálalífinu sem stóð af sér Hrunið, allt annað er hrundi til grunna. Samt er starfsmönnum þess gert að sitja undir níðangurslegum aðdróttunum, en svo vilja menn, eins mótsagnarkennt og það nú er, ráðstafa því mikla sparifé sem almennir launamenn eiga þar til hinna ýmsu hluta. Í því sambandi má allt eins spyrja hvað með annað sparifé, hvers vegna leggja menn ekki til að fara inn á bankabækur þeirra sem hafa vikið sér undan því að greiða til almenna lífeyriskerfisins og taka þaðan fjármuni.

En sé litið til ummæla dóms- og mannréttindaráðherra og formanns viðskiptanefndar Alþingis, þá er full ástæða til þess að rifja upp nokkur atriði, t.d. umfjöllun þingmanna og ráðherra um eftirlaunasjóð og lífeyrisjóð alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna. Þá hefur þetta fólk ætíð hafnað því að leiðrétta þau umframlífeyriskjör sem þeir hafa tekið sér með sjálftöku úr ríkissjóð.

Staðreyndin er sú að ef ráðherrum og þingmönnum ásamt æðstu embættismönnum og útvöldum ríkisstarfsmönnum yrði gert að búa við samskonar lífeyriskjör og almennir launamenn hafa, þá myndi sú inneign sem myndaðist í ríkissjóð duga til þess að greiða upp skuldavanda heimilanna, auk þess að koma í veg fyrir að ekki þyrfti að skera niður jafn hraustlega í heilbrigðiskerfinu.

Hvað varðar eftirlaunasjóð Alþingis má samkvæmt útreikningum hagdeildar Samtaka atvinnulífsins leggja þau að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegndi embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85 -102 m.kr. starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna útvaldir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, að allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa. Réttindastuðull þingmanna er í dag 2,4% af launum. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%, eða 25% mismunun.

Réttindastuðull ráðherra þegar búið er að lækka ávinnslustuðul úr 6% í 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.

Þessar skuldbindingar kosta okkur skattgreiðendur í dag um sex hundruð milljarða, þrátt fyrir að B-deildinni hafi verið lokað 1997, en þetta er svo enn í gangi í svokölluðum lífeyrissjóði alþingismanna og ráðherra. Í rökstuðningi Alþingis er ekki ráð fyrir að þingmenn og ráðherrar eigi launalíf fyrir þingsetu og taka sér 70% lífeyrisrétt á umtalsvert styttri tíma en aðrir þegnar þessa lands. Þingmenn í öðrum löndum hafa verið að breyta þessu má þar t.d. benda á Noreg.

Það hefur komið fram í umræðum við undirbúning kjarasamninga að launamenn á almennum markaði telja að leiðréttingar á þessu sviði séu undirstöðuatriði í komandi viðræðum. Það myndast engin ró og sátt á meðan við lýði eru sérkjör af þessu tagi. Við undirbúning aðgerða til handa heimilunum er hægt að stíga stór skref, ekki bara til þess að laga skuldastöðuna heldur einnig til það brúa þá gjá sem þingmenn, ráðherrar og æðstu embættismenn hafa myndað á undanförnum áratugum.

Ef ríkissjóður á ekki fjármuni til þessara leiðréttinga í augnablikinu, þá kæmi vitanlega til greina að almennu lífeyrissjóðirnir leggðu út fyrir þessu, en tækju ríkistryggð skuldabréf t.d. til 50 ára upp í lánið til ríkissjóðs. Sé litið til ummæla hins þögla meirihluta sem ég heyri reglulega á félagsfundum, mun hann aldrei sætta sig við að alþingismenn og ráðherrar ástundi eignaupptöku á sparifé launamanna.

19 ummæli:

Hallur sagði...

Ein spurning Guðmundur.
Hverjir eiga lífeyrissjóðina? eru það ekki þeir sömu og glíma við vaxandi skuldavanda? Hefur þetta fólk verið spurt hvort það sé tilbúið að flytja líeyrisréttindi til dags í dag og reyna að vinna þau upp á morgun?
Ég er tilbúinn að breyta mínum plönum um framtíðina til að geta lifað í dag.

Jóhannes Laxdal sagði...

Hvernig er hægt að vekja athygli á þessari umræðu Guðmundur? Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og æðstu stjórnar nema 500 millj0rðum samkvæmt nýjustu tölum. Það verður að taka á þessu. Undan því verður ekki vikist.

p.s takk fyrir þína pistla. Þú ert með málefnalegustu mönnum en þér er legið á hálsi fyrir að hafa staðið of lengi í framlínunni. Hefðir semsagt átt að gera meira en tala minna. Þetta er ekki ósanngjörn gagnrýni því þótt Rafiðnaðarsambandið sé lítið ,þá er það samt ein af undirstöðum ASÍ
og ASÍ er löngu hætt að virka sem baráttutæki verkalýðs. ASÍ er orðinn klúbbur þeirra sem hafa aðgang að æðstu stjórn landsins á hverjum tíma.

Guðmundur sagði...

Sæll Hallur
Það eru sjóðsfélagar sem eiga sjóðina ekki allir landsmenn. Það er mikill munur milii sjóðanna.

T.d eru nokkrir þeirra sem aldrei hafa veitt sjóðsfélagalán á meðan aðrir hafa verið umfangsmikill á því sviði.

Menn verða að átta sig á því að mikill meirihluti eigenda almennu lífeyrissjóðanna eru ekki í vandræðum og skilja ekki hvers vegna það eigi að taka þeirra sparifé og greiða upp skuldir annarra

Nafnlaus sagði...

Góð grein.

Þegar smábátur fer að leka á rúmsjó, er það fyrsta sem góður skipstjóri gerir er að finna hvaðan lekinn kemur til að stoppa frekari leka og dæla úr bátnum um leið.

Það er gagnslaust að dæla og dæla ef lekinn er meiri en dælurnar geta annað. Eina varanlega lausnin er að finna lekann, og koma svo þessum smábát í varanlega höfn, þar sem smábátar með fjölskyldur eiga ekkert erindi út á rúmsjó þar sem allra veðra er von.

Þetta er staða þjóðarinnar í dag.

Ónýtur gjaldmiðill, hálf sokkinn, þar sem fall krónunnar var allt og mikið umfram jafnvægisgengi sem eykur stanslaust verðbólgu og innnlend og erl. lán.

Um er að ræða kerfisvanda vegna of lágs gengis. Kerfisvandi verður ekki læknaður með plástrum, frekar en leki í bát, fyrr en búið er að þétta lekann sjálfan.

Þetta er kjarni vandans í skuldavanda heimilanna, eins og lekinn í smátrillu út á rúsmjó.

Kjarni vandans nr 1. er því of lágt gengi. Ef það væri lagfært að jafnvægisgegni, myndu innlend og erl. lán lækka sjálfkrafa án þaess að ríkið legði nokkuð til.

Einhverjar aðgerðir þurfa einnig að koma til að leysa brýnasta vandann í nútíð.

Það er hinsvegar ekki nóg, ef vandinn heldur áfram að vaxa í framtíð vegna verðbólgu sem á eftir að koma fram, vegna allt of lágs gengis.

Verði gengið ekki leiðrétt verður vandinn óviðráðanlegur eftir eitt til tvö ár.

Því til viðbótar verður jafnframt að finna leið frá krónunnnu (trillunnni) sem allra fyrst, t.d. með tenginu við ERM2 um leið og ESB samingar eru samþykktir.

Skammtímaplástrar hafa ekert gildi, ef ekki er um leið mörkuð skýr stefna um lausn til framtíðar.

Þetta er hin varanlega lausn.

Verð þetta ekki gert, er nýtt kerfisáfall framundan.

Sigurður Sigurðsson sagði...

Hörkufín grein hjá þér sem ég er sammála að flestu leiti.

Ég hef alltaf greitt samviskusamlega af mínum skuldbindingum. En nú finnst mér eiginlega nóg komið og vil fá leiðréttingu á þeim forsendubresti sem er staðreynd. Ég er lántaki, fasteignaeigandi og sjóðsfélagi. Ég telst því vera einn af eigendum sjóðsins sem ég hef greitt samviskusamlega í síðustu áratugi. Ég er ekki sáttur við að hann sé að selja ofan af samborgurum mínum. Ég vil sjá önnur vinnubrögð þar á bæ. En því miður er ekki hlustað á okkur eigendur sjóðsins. Hvernig væri að hugur sjóðsfélaga væri skoðaður og þeir spurðir hvað þeir væru tilbúnir að gera til að koma til móts við skuldug heimili landsmanna.

Nafnlaus sagði...

Orð í tíma töluð. Frábært innlegg
Takk Þorsteinn

Nafnlaus sagði...

Mjög gott bréf
Skúli

Hallur sagði...

Sæll.
Allir íslendingar greiða í lífeyrissjóð, flest allir íslendingar eiga húsnæði, sem er fjármagnað með innlendum eða erlendum lánum. Við erum ekki að tala um tvær þjóðir í þessu landi, þ.e. þá sem skulda og þá sem eiga fé á bönkum eða í lífeyrissjóði. Þetta er sama fólkið.
Það skal tekið fram að ég persónulega er ekki í neinum vanda fjárhagslega, en sultarólin herðist að mér eins og öðrum, og ég sé ekki mikil færi á leiðre´ttingu launa. Þetta er veruleikinn í dag, því miður og ekki að sjá bjartari tíma á næstunni.
Það er vissulega til fólk sem reisti sér hurðarás um öxl, en greiðlsugeta venjulegs fólks er komin á enda. Plástrar á öfgadæmin mun ekki leysa vanda almennings, hann verður áfram til staðar. Ég tók lán og ætla að greiða til baka hverja einustu krónu, hvort ég borga hana 2x,3x,4x eða hvað um það snýst málið.
Ég er sammála þvíað taka verður á sjálftöku forréttinda hvar sem þau koma fram. Það þarf að taka til víða, líka hjá lífeyrssjóðunum.

Nafnlaus sagði...

Ég er einn þeirra sem notaði góðærið til að greiða niður mín lán. Ég tók ekki bílalán, heldur keyrði um á gömlum japönskum fólksbíl. Ég og fjölskylda mín búum í passlega stórri blokkaríbúð þrátt fyrir að vera með nokkuð góð laun. Við hefðum getað fengið lán til að kaupa einbýlishús og lúxusbíla, en við gerðum það ekki. Vissum innst inni að "góðærið" var bara risastór loftbóla.


Nú þykir okkur helvíti hart þegar grátkórinn úr góðærisfylleríinu vill að við förum að greiða niður þeirra skuldir með lífeyrissjóðseign okkar, skuldsetningu ríkissjóðs og niðurskurði á almannaþjónustu. Vona svo sannarlega að ráðamenn ríkis og lífeyrissjóða láti ekki undan þessari vitleysu.

Þræll #83

Einar sagði...

Nafnlaus said...Um er að ræða kerfisvanda vegna of lágs gengis...Kjarni vandans nr 1. er því of lágt gengi. Ef það væri lagfært að jafnvægisgegni, myndu innlend og erl. lán lækka sjálfkrafa án þaess að ríkið legði nokkuð til.
------------
------------
Látum okkur sjá - þú ættir að lesa um hækkun gengis krónunnar er formaður þ.s. þá var kallað Íahldsflokkurinn, lét framkvæma hérlendis.

Ef þú getur sannfært vinnumarkaðinn um að lækka laun um 50% og fyrirt. um að lækka verð að sama skapi - er þetta fræðilega mögulegt; sem er sama og segja að helvíti mun frjósa fyrst :)

Kv.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur. Þakka þér fyrir góða og þarfa grein

Ég er einn þeirra sem á miklar eignir í mínum lífeyrissjóð. Við hjónin höfum alltaf greitt af okkar launum í lífeyrissjóð. Við vildum ekki skuldsetja okkur meir en þörf var á og búum í okkar lilta einbýlishúsi sem við byggðum fyrir 25 árum, mest meðeigin vinnu.

Við eigum kunningjafólk sem skráði sig sem EHF og greiðir mjög lítið til samfélagsins og kemur sér undan því að greiða af mestum hluta launa sinna í lífeyrissjóð. Þetta fólk tók mikil lán, stækkaði við sig og keyptu stóra bíla og fjórhjól. Þetta fólk gerði óspart góðlátlegt grín af okkur hjónum og því að við værum að greiða skatta af öllum okkar tekjum og í lífeyrissjóð og neita okkur um svo margt.

Þetta fólk á ekkert í dag nema ókleifar skuldir. En það er fremst í flokki þeirra sem hæst hafa í kröfum til lífeyrissjóða um að þeir eigi greiða niður skuldir þeirra.

Ef stjórnmálamenn taka lífeyri okkar til þess að greiða niður skuldir þessa óráðsíu fólks munum við mæta niður á Austurvöll, og þannig er það með nær allt okkar samstarfsfólk.

Við erum hinn þögli meiri hluti sem þú skrifaðir um í fyrra og hefur svo vel lýst okkar afstöðu.

Ég veit að það eru margir félagsmanna þinna sem eru með nákvæmlega sömu skoðun á þessu og þeir treysta á þig og félagið okkar til þess að standa í ístaðinu gagnvart þessum óráðsíufrekjum

Góðar kv. GB og SG

Nafnlaus sagði...

Ég er algjörlega á móti því sem Hallur er að segja. Það eru tvær þjóðir í þessu landi.

Það er fólk sem tók lán, gerði allt sem það gat til þess að koma launum undan skatti og til lífeyrissjóðanna og svo við hin.

Tek 100% undir það sem þú segir og það sem fram kemur í næstu aths. á eftir Halli.

Einn af hinum þögla meirihluta

Nafnlaus sagði...

Kæri Þögli Meirihluti.

Ég verð að gera ráð fyrir að þið eigið ekki börn eða að ykkur er skítsama um þau. Annars meikar málflutningur ykkar engan sens.

Á meðan ég er sammála um að fólkið sem keypti sér fjórhjól, hjólhýsi sumarbústaði og utanlandsferðir á 100% lánum eigi enga samúð skilið, verð ég að benda á stöðu okkar sem erum fædd eftir 1975 og gerðum þau einu mistök að flytja heim eftir langt nám.

Við fluttum heim og byrjuðum að leita að þaki yfir höfuðið. Við enduðum velflest í blokkaríbúðum, þótt við séum velflest launahærri en síðuhöfundur hér. Við eigum flest einn japanskan fólksbíl og eigum einhvern skara af börnum.

Umræddar íbúðir voru keyptar á ca. 30.000.000 kr. - og ég veit að þögli meirihlutinn æpir núna að það hafi verið helv... bruðl að kaupa svona dýrt. Við erum sammála. Við vorum bara ekkert sérstaklega velkomin með maka og börn að flytja aftur inn til Hins Þögla Meirihluta. Við keyptum því það sem var í boði, fyrir þau lán sem voru í boði.

Við stöndum núna með ca. 100% hærri greiðslubyrði, en sömu laun. Greiðslubyrði af 30.000.000 kr. eign sem hefur hækkað um nærri 100% er orðin skratti mikil. Verð á nauðsynjavörum hefur hækkað líka - ef þið hafið ekki tekið eftir því, og ég þarf varla að minnast á bensínið. Upp er komin staða að fólk sem er með langt í milljón á mánuði í laun nær ekki endum saman, vegna meingallaðs kerfis sem heitir verðtrygging. Það kerfi virðist mér vera hannað til að vernda lífeyri Hins Þögla Meirihluta.

Ég frábið mér kröfur Hins Þögla Meirihluta, því það er Hinn Þögli Meirihluti sem er að hrekja mig og jafnaldra mína í gjaldþrot og þar af leiðandi úr landi, og því verð ég að spyrja Hinn Þögla Meirihluta: Hver á að borga inn á lífeyrissjóðina ykkar þegar við erum farin?!?!?

Með kveðjum frá Heywood Jablome

Nafnlaus sagði...

Sæll Heywood
Þú misklur illilega það sem hefur verið skrifa af hálfu hins þögla meirihluta og ættir að lesa betur.

Það er lögbrot ef sparifé fólks sem er í lífeyrissjóðum er tekið og notað til annarra hluta en þess að greiða út lífeyri.

Eins er því mótmælt að þeir sem eigi fjármagn eigi að greiða upp skuldir annarra.

Skuldaviðurgreiðsla verður ekki gerð nema þá með skattlagningu á þjóðina, ekki í gegnum lífeyrissjóði
Kristinn Þór

Nafnlaus sagði...

Heywood skrifar:
"Kæri Þögli Meirihluti.
Ég verð að gera ráð fyrir að þið eigið ekki börn eða að ykkur er skítsama um þau. Annars meikar málflutningur ykkar engan sens."

Það er einmitt vegna barna okkar og barnabara sem málflutningur okkar "meikar sens". Núlifandi kynslóð hefur engan rétt á að velta sínum skuldafyllerísskuldum yfir á næstu kynslóðir með skuldsetningu ríkissjóðs og niðurfellingu eigna lífeyrissjóðanna.

Eina sanngjarna leiðin er held ég einhvers konar lyklafrumvarp sem gerir ofurskuldsettu fólki kleift að byrja frá grunni. Þá á ég við alvöru lyklafrumvarp, þar sem öllum eignum er skilað.

Þræll #83

Nafnlaus sagði...

Lausn þess vanda sem við er að glíma er ekki einungis fólgin í skammtíma skuldareddingum og niðurskurði.

Skammtímareddingar hafa ekkert að segja ef ekki fylgja langtímalausnir, s.s. aðild að ERM2 og evru, til að tryggja árangur skammtímareddinga í skuldamálum, og að hægt verði að afnema verðtryggingu og annað rugl.

Lausnir eru heldur ekki einungis fólgnar í því að skera niður skuldir og kostnað hjá fyrirtækjum opinberum sem einkafyrirtækjum.

Vandinn verður ekki leystur nema að auka verkefni og tekjur fyrir fólkið með meiri vinnu, þannig að það þurfi ekki að skera eins mikið niður.

Er er ekki staðan frábær.

Á sama tíma og talað er um að auka atvinnu og erl. fjárfestingu, flýja erl. fyrirtæki land, (10 erl. fjármálafyrirtæii hafa flúið land sl. ár, með 1 milljarð í skatttekjur).

Ekki nóg með það, fjöldi einstaklinga og Íslenskra fyrirtækja er að flýja land, þó ekki fari hátt.

Nýjasta og stærsta dæmið er Actavis. Höfuðstöðvar fyrirtækisins verða framvegis í Sviss og skattar um leið.

http://www.visir.is/besta-ar-actavis---aetla-ad-rada-60-100-nyja-starfsmenn-a-islandi/article/2010668366348

Vítahringur skattahækkana og niðurskurðar stigmagnast....

Lítið annað að gera en að pakka niður,,,,,

Einar sagði...

Nafnlaus said...Ef stjórnmálamenn taka lífeyri okkar til þess að greiða niður skuldir þessa óráðsíu fólks munum við mæta niður á Austurvöll, og þannig er það með nær allt okkar samstarfsfólk.
-----------------
-----------------
Mér finnst áhugavert að fólk velur öfakenndustu dæmin til að sanna mál sitt þau sem ekkert bjargar - fremur en að taka fram þ.s. er mun algengara, að fjölmennasti hópurinn í vanda eru þeir sem tóku lán síðasta áratuginn fyrir kreppu. Þá erum við að tala um húsnæðislán - alveg sama af hvaða tagi.

Með öðrum orðum, það fólk sem átti hvað minnst uppsafnaða eign - átti hvað hæst hlutfall í skulda, áður en allt fór á hliðina.

þetta er hópurinn sem verið er að tala um að bjarga - en skv. mati Seðlabanka á þeim hópi eru þetta liðlega 24.000 lán - sem misjafnt er hvort bakvið standa fjölsk. eða einstk.
-------------

Klárlega þarf að leysa þetta með samkomulagi á milli kynslóðanna - þ.e. um að byrgðunum sé endurdreift.

Hættan er sú, að samfélagið leysist upp í átök á milli hópa.

Miðað við þín fremur öfakenndur orð - þá reikna ég með að ef hinn hópurinn rís upp - sem nær öruggt verður að teljast, þá munir þú rísa upp líka - tja, þá verðum við á hraðri leið í Sturlungaöld 2.

Ég bendi á, að þú munt ekki verja þitt, ef samfélagið leysist upp með þeim hætti - en fátt er öruggari leið til að valda innviðum samfélags tjóni, en slík átök. Eitt af því sem fyrir utan innrás óvinahers, getur lagt hagkerfi gersamlega í rjúkandi rúst.

Þ.e. skaðað í dag - en ekki enn þannig rúst.

Kv.

Nafnlaus sagði...

ég er greinilega að misskilja mikið, Kristinn Þór og þræll #83:

Skv. ykkar réttlæti er í lagi að það voru notaðar amk. 350.000.000.000 kr. til að bjarga fjármagnseigendum.
og skv. ykkar réttlæti er bara fínt að skuldarar borgi það.

Það er stórkostlega flott pæling að Hinn Þögli Meirihluti er einmitt að vernda börnin sín með því að hrekja þau í gjaldþrot til að verna eftirlaunin sín.

vonandi eruð þið ekki ábyrgðarmenn fyrir börnin og barnabörnin sem þið eruð að vernda.

með kveðju,
Heywood Jablome

Nafnlaus sagði...

Ég skora á þingmenn upp til hópa að svara þessu bréfi, það er jú stílað til þeirra. Hvað vilja þeir gera til þess að réttlæti nái fram að ganga? Eru þeir tilbúnir að leggja sitt af mörkum og verða jafningjar hinns almenna launamanns þegar kemur að lífeyrismálum? Góð ábending Guðmundur og ágætis grein.