sunnudagur, 3. október 2010

Síðasta vika

Oft hafa manni fallist hendur og ýtt lyklaborðinu frá sér, síðasta vika var þannig. Uppákoman á Alþingi, ummæli þingmanna um hvorn annan, þar fór formaður Sjálfstæðismanna fremstur og kórónaði allt þegar hann fékk fund sjálfstæðismanna til þess að klappa lengi fyrir þeim ráðherra sem á næststærstan þátt í leiða þjóðina fram af bjargbrúninni, var fjármálaráðherra og síðan forsætisráðherra Hrunkvöðlastjórnanna.

Annar sjálfstæðisþingmaður lýsti því yfir að hún væri döpur vegna þess að stjórnmálamenn njóta ekki friðhelgi. Það var svo lýsandi fyrir ástandið að horfa upp á þingmenn hlaupa niðurlútna undir hrópum almenning og lauma sér bakdyramegin inn á Alþingi. Reisn Alþingis er horfin ásamt virðingu þjóðarinnar, það er eins og fiskabúr þar sem skrautfiskar hafa búið sér einangraða veröld spjátrunga, sem er um megn að vera í sambandi við þjóð sína nema þá á sjálfsköpuðum forsendum.

Andrúmsloftið endurspeglar þá reiði sem er meðal fólksins. En Alþingismenn hafa nýtt síðustu tvö ár til þess eins að koma höggi hver á annan í hinni endalausu útúrsnúningakeppni. Á meðan er friðhelgi fjölskyldunnar rofin með uppboðum á heimilum þeirra, 13 þúsund manns á atvinnuleysisskrá og jafnmargir sem hafa flutt af landi brott. Í hverri einustu fjölskyldu þessa lands eru einstaklingar sem fótunum hefur verið kippt undan bein afleiðing þeirrar efnahagstefnu sem mótuð var af stjórnmálamönnum, dásömuð af þeim í glysferðum um heimsbyggðina og á bökkum laxveiðiánna.

Davíð og Geir Haarde kynntu vel hvert þeir ætluðu að halda með sinni hagstjórn og voru margendurkosnir. Þeir fóru þangað með Ísland, en þeir höfnuðu alfarið að horfast í augu við afleiðingar þegar þær fóru að birtast og virtu að vettugi allar aðvaranir. Það liggur fyrir að Geir og ráðuneyti hans áttu að grípa til varna árið 2007 og hefðu getað mildað afleiðingar. Geir og ráðuneyti hans geruð það ekki. En hann kynnti að hann ætlaði enn lengra í kosningabaráttunni 2007 með sitt efnahagsundur, árangur traustrar efnahagstjórnar af þeim manni sem nú er gert að svara fyrir sig.

En þá barma stjórnmálamenn sér og væla undan pólitískum ofsóknum. Geir Hilmar Haarde og hans félagar sviptu þjóðinni efnahagslegu sjálfstæði og komu málum á þann stað að öll nágrannaríki okkar neituðu að tala við okkur nema í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Íslensku hagkerfi er haldið gangandi á niðurgreiddum lánum sem skattborgara hinna norðurlandanna greiða. Geir og félagar hafa að sönnu beitt þjóðina efnahagslegum ofsóknum og er ekkert of gott að svara fyrir það.

Það eru fleiri sem þyrftu að gera það. Hvar er bótasjóður Sjóvá? Hvar er Halldór Ásgrímsson og skuldir hans fjölskyldu, hvar er Finnur og hvar er Davíð? En bæði núverandi og fyrrverandi stjórnarþingmenn Hrunkvöðlastjórnanna með sína núverandi og fyrrverandi ráðherra tóku sér dómsvald á Alþingi og sýknuðu ráðherra sína. En svo segjast þingmenn vera daprir og sorgmæddir yfir því að þjóðinni ofbjóði hagsmunagæsla stjórnmálaflokkanna. Þar eru rætur reiðinnar og hún er réttlát.

Eða hvað með forseta vorn? Hann ræðir nú við þau lönd sem þekktust eru fyrir að misbjóða launamönnum og dásamar þau. Afleiðingar gjörða hans birtust m.a. í ummælum forstjórna Landsvirkjunar í vikunni, öflugasta fyrirtæki landsins fær ekki lán vegna þess að Ísland er í alþjóðlegum skammarkrók. Hagfræðingar sem ég tek mark á, telja að tap Íslands vegna þess að hafa ekki klárað Icesave sé um 200 – 300 milljarðar. En þar til viðbótar seinkar uppgangi hagkerfisins um 5 ár og það mun valda því að tap Íslands vegna þess samsvari einni ársframleiðslu þjóðarinnar.

Hrunið hefur þegar valdið því að við erum búinn að glata nokkrum ársframleiðslum og erum líklega stödd á árinu 2005 þegar forsetinn sagði hina eftirminnilegu setningu á erlendum glansfundi. „I can assure you here today, especially our British friends, that as the old Hollywood saying goes: „You ain’t seen nothing yet! Somehow the airline business has suited us Icelanders well – maybe because of our Viking heritage as explorers and discoverers a thousand years ago, crossing unknown oceans and successfully arriving in virgin lands.“

Því miður verðum við að horfast í augu við það að það er fjarri allri skynsemi að við getum viðhaldið norrænu velferðarkerfi hér í dag. Það var harla einkennilegt viðtal í vikunni við stjórnarþingmann og formann efnahagsnefndar, sem kynnti sig sem færan hagfræðing og býsnaðist yfir því að aðrir hlustuðu ekki á hana. Á hinum Norðurlöndunum er öflugt og agað eftirlit á hendi stjórnvalda og agaður markaðsbúskapur. Gegn þessu börðust stjórnarþingmenn og ráðherrar. Þekkt er að hvernig hinir svokölluðu hægri menn hér á landi hafa haft allt á hornum sér hvað varðar hið norræna velferðarsamfélag.

Það hefur tekið hin Norðurlöndin áratugi að byggja upp hagkerfi sín þannig að þau standi undir velferðarkerfinu. Við fórum undir stjórn Davíðs Oddsonar og Geirs Hilmars í allt aðra átt og erum fjarri því að geta staðið undir sambærilegu kerfi. Áratuga óráðssía og spilling íslenskra stjórnmálamanna hafa þau eftirköst að við getum ekki látið drauminn um norrænt velferðarkerfi rætast. Það er ekki AGS sem kemur í veg fyrir það. Það er ekki AGS að kenna hvernig fór og það blasir að nágrannalönd okkar treystu ekki íslenskum stjórnmálamönnum fyrir frekari lánum, þess vegna er AGS hér. Ef við slítum samneyti við þá hvar ætla menn að fá lán á jafngóðum kjörum og við erum að fá? Hvernig ætla menn að endurgreiða þau lán sem við fengum gegn þessu skilyrðum?

Þingið er ónýtt og við viljum að fá að kjósa. En fyrrverandi og núverandi ráðherrar ásamt fyrrverandi stjórnarþingmönnum hrýs hugur við því. Þeir vita að þeirra tími er liðinn og þeir eigi ekki afturkvæmt inn á þing. Það á að fækka þingmönnum um helming og kjósa með persónukosningum. Almenningur vill geta valið einstaklinga inn á Alþingi og í ríkisstjórn, með samskonar hætti og kosningareglur til stjórnlagaþings hafa verið ákveðnar; að hver kjósandi fá að raða mönnum í þingsæti, annars vegar og í ríkisstjórn hins vegar.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einn sem er voða reiður út í Sjálfstæðisflokkinn? Enn minnist ekki einu orði á skrípaleikinn sem var teiknaður upp af þingmönnum Samfylkingar sem varð til þess að fólki gjörsamlega ofbauð og margir sögðu skilið við þennan flokk eftir áralanga flokkshollustu.

Sigurður Sigurðsson sagði...

Guðmundur hvar er verklýðshreyfingin. Ætlar hún ekki að koma og standa með fólkinu í landinu? Eða er það stefna hjá verkalýðsforustunni að sitja hjá eins og venjulega.

Guðmundur sagði...

Hún er ansi þreytt þessi rakalausa klisja um hjásetu verkalýðshreyfingarinnar.

Engin gagnrýndi efnahagshelstefnuna jafnkröftuglega og verkalýðshreyfingin.

Engin hefur sett fram jafn skilvirkar tillögur um hvernig eigi að ná þjóðinni út úr vandanum.

Engin hefur lagt fram jafnskilvirkar tillögur um hvernig eigi að taka á skuldavandanum.

Verkalýðshreyfingin er sú eina sem kom standandi út úr Hruninu. Aldrei hefur reynt jafnmikið á starfsfólk verkalýðsfélaganna.

Styrkir til félagsmanna hafa aldrei verið hærri, t.d. greiddi Rafiðnaðarsambandið á annað hundrað milljóna kr. hærra í styrki til félagsmanna árið eftir Hrunið en í venjulegu ári.

Ráðnir voru sérstakir ráðgjafar og lögmenn til þess að aðstoða félagsmenn.

Líttu yfir pistlana á þessari síðu allveg frá árinu 2007. Þar sérðu þetta allt saman.

níels a. ársælsson sagði...

Berum forsetan út af Bessastöðum ef hann fer ekki sjálfviljugur.

Sigurður Sigurðsson sagði...

Ég veit allt um það en hvar er verkalýðsforustan. Ég sé ekki að hún mótmæli því að fólk sé borið út á guð og gaddinn í stórum stíl. Ekki að valdir aðilar fái stórkostlegar niðurfellingar lána. Ekki að lán til almennings verði leiðrétt. Ekki mótmæla stórkostlegum niðurskurði á bótum til lífeyrisþega og barnafjölskyldna.

Ég er atvinnurekandi og gaf mínu fólki frí til að fara að mótmæla og fór sjálfur með.

Afhverju standa ekki verkalýðsforingar fremstir í flokki í mótmælum.

Er nema von að fólk spyrji.

Nafnlaus sagði...

Þingmenn fengu það "óþvegið" í síðustu viku og Moggaritstjóri heldur auðvitað að fólk hafi bara verið að mótmæla ríkisstjórninni.
Það er hins vegar hætt við að talsvert gengi á eggjabirgðir í landinu ef hann og Halldór Ásgríms "lánaniðurfelldi" tækju sömu opinberu gönguna og þingmenn gerðu á dögunum.
Ef draga ætti einhverja fyrir landsdóm þá væru það þeir tveir!

Guðmundur sagði...

Sæll Sigurður
Ég hef verið á mótmælafundum og einnig verið ræðumaður þar. Uppistaðan af því fólki sem ég hef séð eru starfsmenn og trúnaðarmenn verkalýðsfélaga.

Þar er ég að tala um fundi sem staðið er að með eðlilegum hætti. Ekki grjótkasti í lögreglumenn eða því um líkt.

Íslenska verkalýðshreyfingin hefur staðið með mjög ábyrgum hætti í baráttunni við að koma samfélaginu á rétta hlið. Það er ekki gert með sömu vinnubröðgum og tíðkast t.d. í Grikklandi eða Frakklandi.

Enn einu sinni birtist gagnrýni á verkalýðsfélögin frá einstakling sem ekki er félagsmaður.

Verkalýðsfélögin verða að fara að samþykktum sem félagsmenn gera og eins landslögum um mótmæli og verkföll, þar á ég t.d. við Pálslögin.

Ég hef verið á fundum með um 1.000 félagsmönnum Rafiðnaðarsambandsins undanfarið ár og heyrði ekki þar þessa barnalegu gagnrýni þína. Þar var fjallað um ástandið á ábyrgan hátt og margar tillögur samþykktar um hvernig við starfsmenn RSí ættum að taka á okkar málum.

Sigurður Sigurðsson sagði...

Voðalega ertu viðkvæmur fyrir gagnrýni á verkalýðsforustuna.

Guðmundur sagði...

Nei Sigurður því fer fjarri, vill bara að menn séu málefnanlegir ekki með einhverjar órökstuddar dylgjur. Verkalýðshreyfingin hefur aldrei staðið sterkari en nú.

En þessi viðbrögð þín eru alveg dæmigerð, þegar bent er á hvaða rugl menn eru með þá viðurkenna þeir ruglið með að snúa máli sínu yfir á einhverjar persónulegar aðdróttanir.