sunnudagur, 17. október 2010

Vilji félagsmanna um afdrif lífeyrissjóðanna

Hún er oft harla einkennileg umræðan og oft er það þannig að menn telja sig vera yfir aðra hafna og semja sínar eigin forsendur, telja sig vera forsvarsmenn sannleikans. En ef einhverjir koma fram og benda á vankanta á þeim forsendum sem fram eru settar, þá skortir rökin og þá er farið út í ómerkilegt skítkast.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa stundum verið með fullyrðingar um samtök launamanna og telja sig vita betur en við starfsmenn stéttarfélaganna hver vilji félagsmanna er. Fréttamenn hafa gjarnan birt ummæli forsvarsmanna HH án þess að kanna viðbrögð starfsmanna stéttarfélaganna og án þess að kanna hvort fyrir liggi hver vilji félagsmanna er í raun og veru.

Ég og starfsmenn RSÍ vildum mjög gjarnan fella niður skuldir fólks, en við höfum spurt hvernig eigi að fara að því. Sama hafa gert allmargir hagfræðingar og prófessorar í háskólum þessa lands. Við höfum ekki fengið nein svör við þeirri spurningu. Við höfum bent á vaxtabótakerfið og teljum það vera einu raunhæfu leiðina. Það liggur fyrir mjög klár afstaða allmargra félagsmanna RSÍ, að þeir muni ekki samþykkja að þeirra sparifé verði tekið út og nýtt til þess að greiða niður skuldir annarra. Þessir félagsmenn hafa farið fram á að við starfsmenn þeirra komi þessum sjónarmiðum á framfæri.

Við höfum komið þessum sjónarmiðum á framfæri við ríkisstjórnina, en hún hefur brugðist við því með einhverskonar leikriti þar sem reynt er að gera okkur tortryggilega og nú erum við starfsmenn stéttarfélaganna orðnir einhverjir sérstakir andstæðingar Hagsmunasamtaka heimilanna, af því að við göngum ekki gegn vilja félagsmanna okkar og förum að kröfum forsvarsmanna HH. Hverslags málflutningur er þetta?

Jafnvel þótt við starfsmenn stéttarfélaganna héldum fund og samþykktum þar gegn vilja félagsmanna okkar, að við ætluðum að taka út úr lífeyrissjóð félagsmanna 137 milljarða til þess að greiða niður skuldir annarra, þá getum við það ekki, við höfum við enga lagalega heimild til þess. Félagsmenn hafa komið því mjög skilmerkilega á framfæri, að það myndi einfaldlega verða kært og menn dregnir fyrir dómstóla ef menn gerðu þetta.

Það er einnig ástæða til þess að benda á þann mikla mismun sem er á milli almennu lífeyrissjóðanna og hinna opinberu. Almennu lífeyrissjóðirnir verða að skerða réttindi ef ekki eru í þeim nægilegt fjármagn til þess að standa undir skuldbindingum. Það er því afskaplega ódrengilegt af t.d. Ögmundi Jónassyni og hans fylgisveinum, að segja að hann vilji láta taka fjármuni úr öllum lífeyrissjóðum til þess að greiða niður skuldir fólks. Ögmundur er í lífeyrissjóð þar sem skiptir engu hvort hann eigi fyrir skuldbindingum eða ekki, það sem upp á vantar er bara tekið úr ríkissjóð, sem við hin verðum svo að greiða með hærri sköttum.

Það er afskaplega ódýrt að víkja sér með þessum hætti undan því að takast á við vandamálin, það er greinilegt að þeir sem ekki ráða við þau vilja finna einhverja blóraböggla til þess að losa sig undan þeirri byrði og telja sig hafa fundið þá meðal starfsmanna stéttarfélaganna. Ég get fullvissað getulausa þingmenn að við starfsmenn stéttarfélaganna værum búnir að taka til hendinni í vaxtabótakerfinu ef við hefðum til þess völd, nógu lengi erum við búnir að benda þeim á þá leið.

20 ummæli:

Snorri sagði...

Góðan daginn Guðmundur,til hamingju, ég held að margir hafi verið farnir að óttast, að farið yrði í sjóðina og þeir rýrðir enn meir, skerðingarnar eru þegar orðnar nægar, mjög hissa á ummælum eins þingmanns framsóknar, sem talar um að þeir sem hafa grætt á verðbólgu eigi að borga núna ! er þetta fólk alveg galið ? veit það ekki að veðbólga þýðir rýrnun.

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir, Guðmundur, orð í tíma töluð. Gæti ekki verið meira sammála.

Nafnlaus sagði...

Ekki skrítið þó Ögmundur sé til í að nota lífeyrissjóði landsins til að greiða niður skuldir heimilanna. Lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna er með ríkisábyrgð sem þýðir að þeir þurfa aldrei að skerða réttindi sinna félagsmanna og geta því ráðstafað eignum að vild og við skattgreiðendur munum borga mismuninn. Á hinn bóginn ef menn ætla að ráðast í aðgerðir til að aðstoða heimili þessa lands og létta skuldabyrðir þeirra þá verður að að nota skatttekjur í slíkt, en ekki lífeyri launafólks.
Kristján

Nafnlaus sagði...

Tek undir með þér : Af hverju er ekki spurt um hvað sjóðsfélagar vilji? Við aumir starfsmenn þeirra höfum ekkert vald til þess að ráðstafa þessum smáaurum, 137 milljörðum sem myndi lækka örorkubætur og lífeyri um 10%
KÞG

Nafnlaus sagði...

Auðvitað er miklu betra að horfa upp á samfélagslegt hrun, fátækt, rótgróna stéttaskiptingu til áratuga en að lækka lífeyrisgreislur framtíðarinnar um ca. 5%, í versta falli?

Stór merkileg afstaða verkalýðshreyfingarinnar!

Nafnlaus sagði...

Sammála öllum hér fyrir ofan. Kemur ekki til greina að fara í lífeyrissjóðina.

Nafnlaus sagði...

Hvort er verra,
1. að jafna út tjónið sem varð af hruninu strax, lækka greiðslubirði félagsmanna af húsnæðislánum, koma þannig í veg fyrir gjaldþrot, auka greiðslugetu og veltu í hagkerfinu sem eykur möguleika á atvinnu
2. halda uppi vonlausum fjárkröfum, láta félagsmenn (og landsmenn alla) fara í gjaldþrot, ÍLS situr uppi með þúsundir óseljanlegra eigna sem engin borgar af, og lífeyrissjóðir tapa að lokum.
Þetta eru þeir tveir kostir sem eru í stöðunni Guðmundur, allt annað er útópía.

Unknown sagði...

Hún er alveg jafn ömurleg þessi "vér einir vitum" árátta...hvort sem hún er heyrist frá Hagsmunasamtökum Heimilanna eða ráðsettum verkalýðsleiðtogum.

Hitt væri kannski gott fyrir þig að velta fyrir þér að svo illa hefur verið haldið á spilunum innan lífeyrissjóðanna á síðustu árum að það hefði verið skynsamlegt að taka út úr þeim góðan slatta og greiða niður húsnæðisskuldir.

Það hefði AUKIÐ nettó eign flestra þegar að lífeyristöku kemur að taka út úr lífeyrissjóðum með neikvæða raunávöxtun og greiða niður húsnæðisskuldir með 4-5% raunávöxtun.

Í dag er að sligast undan skuldunum fyrsta kynslóðin sem aldrei átti kost á því að fjármagna sig með neikvæðum raunvöxtum. Nú er að komast á eftirlaunaaldur síðasta kynslóðin sem gat fengið óverðtryggð lán, svokölluð 68 kynslóðin eða betur nefnd heimtufreka kynslóðin.

Og heimtufreka kynslóðin sem nú er við völd í lífeyrissjóðunum er að verja sinn eigin eftirlaunarétt með því að koma í veg fyrir allar leiðréttingar eða úrbætur á skuldavanda barnanna sinna.

Hún mun að lokum vakna til lífsins og þurfa að taka á vandanum þegar greiðslur af stökkbreyttu, verðbættu ofurvaxtalánunum einfaldlega hætta að berast frá útlöndum þar sem börnin og barnabörnin búa.

Nafnlaus sagði...

Ef menn ætla að breyta því hvernig megi verja fjármunum lífeyrisjóðanna verður að byrja á réttum enda, það er að breyta landslögum, það geta þingmenn einir, þar er ekki við starfsmenn stéttarfélaga að sakast.

Það er svo spurning hvort þurfi ekki að breyta eignaréttarákvæðum og fleiru í stjórnarskrá.

En alla vega væri rétt að spyrja sjóðsfélagana sem eiga þessa peninga. Þar er ekki við starfsmen stéttarfélagana að sakast.

Þessi umræða er svo óendanlega kolvitlaus.

Þórður Magnússon sagði...

Ef lífeyrissjóðir eiga að koma að málunum þá kemur ekki til greina annað en að allir lífeyrissjóðir sitji við sama borð, líka lífeyrissjóðir ríkisstarfsmanna. Annað er ólíðandi með öllu.

Hitt er svo í sjálfu sér reiknisdæmi hvað á að gera. Eru lífeyrissjóðirnir betur settir með því að hér stöðvist meira og minna allt? Er það hugsanlega hagkvæmara fyrir lífeyrissjóðina að koma nú á þessum erfiðu tímum og gera það sem þeir geta til að minnka skellinn? Það er ekki ólíklegt að lífeyrissjóðirnir munu hvort sem er þurfa að skerða lífeyrisgreiðslur ef hér verður enn meira hrun og eignabruni. Þannig að burtséð frá öllu sem heitir sanngirni þá getur það líka verið að það sé jafn nauðsynlegt fyrir sjóðina að koma að þessum vanda eins og fyrir almenning (sem er eigandi þessara sjóða)

Að lokum er það ekki sérstaklega auðskilin hugmynd að það sé betra að heilu kynslóðirnar skulu þjást núna, jafnvel sendar í gjaldþrot, til þess að tryggja þeim hinu sömu meint áhyggjulaust ævikvöld í gjaldþrota ellinni.

Þórður Áskell Magnússon

Nafnlaus sagði...

Mikið væri gaman að fá að vita hverning
farið væri að því að leiðrétta hrunþátt
verðtryggðra lán.

Guðmundur sagði...

Sú leið sem ég teldi að ætti að skoða er að þetta verði gert í gegnum vaxtabótakerfið, og lífeyrisjóðirnir fjármagni það með því að kaupa ríkisskuldabréf td. til 50 ára á t.d. 3.5% vöxtum og afborgunarlaus fyrstu 10 árin.
En ég er ekki þingmaður bara aumur starfsmaður stéttarfélags og reyndar einnig sjóðsfélagi

Nafnlaus sagði...

Þeir sem ég hef talað við um þessi mál og eru með hörðustu og óvægnustu gagnrýnina á verkalýðshreyfinguna, eru undantekningalaust ekki félagsmenn í stéttarfélögum. Flestir þeirra hafa komið sér fyrir með undankomu í að greiða sem minnst til lífeyrissjóða og samfélagsins með því að gera sjálfa sig að einkahlutafélögum. Flestir þeirra greiða svo til erlendra lífeyrissjóða, en vilja láta innlenda lífeyrissjóði greiða sínar skuldir. Það er þetta fólk sem ræður ferðinni í umræðunni með frekju og yfirgangi
Kristinn Þór

Nafnlaus sagði...

Leiðin í gegnum vaxtabótakerfið er fær. Vandinn er bara sá að hún er allt of seinvirk. Verði slík leið ákveðin nú þá koma áhrifin fyrst fram í ágúst á næsta ári. Ef þessi leið hefði verið farin strax um áramótin 2009-2010 þá væri staðan betri. Það er ljóst að fara verður blandaða leið með niðurfellingu skulda, skuldaaðlögun, vaxtabóta og svo sértækra aðgerða fyrir þá sem eftir standa og eiga einhverja möguleika á að bjarga sér. Það er ekki gleðilegt að horfa upp á lífeyrissjóði og launþegasamtök sem gengin eru í björg með sérhagsmunasamtökum og fólki sem vill ekki deila þeim vandamálum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Auðvitað vill enginn rýra sín kjör, hvorki nú né síðar en það er bara enginn valkostur. Við getum ekki bæði haldið uppi lífeyrisgreiðslum í framtíðinni, atvinnusköpun, og þjónustu ríkisins.
Það verða allir að gefa eitthvað eftir. Þurfi að breyta lögum þá er það bara svo. Það var gert með neyðarlögum sem færðu fjármagnseigendum fulla innistæðutryggingu sem var langt umfram gildandi lög, og það er líka hægt til að hjálpa afgangnum þjóðfélaginu. Þetta verða menn að skilja.

Guðmundur sagði...

Ég hef ekki heyrt nokkurn í verkalýðshreyfingunni segja að hann/hún standi gegn því að tekið verði á skuldavanda fólks í landinu.

Ég hef heyrt nokkra þeirra segja að þeir hafi enga heimild til þess að samþykkja að fjármunir verði teknir úr lífeyrissjóðum landsmanna til þess að greiða þessar skuldir niður.

Það verði að bera undir stjórnir sjóðanna og sjóðsfélaga og svo að breyta lögum.

Ég hef einnig heyrt nokkra þeirra segja að það sé skoðun þeirra að aðrar leiðir færari en almenn niðurfærsla og hún muni gangast betur þeim sem eru í verstu stöðunni.

Þetta segir mér að hversu óvönduð vinnubrögð eru ástunduð hjá sumum fjölmiðlamönnum og hönnun þeirra á fyrirsagna netmiðla og blaða ásamt umfjöllun þeirra

Nafnlaus sagði...

"Sú leið sem ég teldi að ætti að skoða er að þetta verði gert í gegnum vaxtabótakerfið, og lífeyrisjóðirnir fjármagni það með því að kaupa ríkisskuldabréf td. til 50 ára á t.d. 3.5% vöxtum og afborgunarlaus fyrstu 10 árin."
Ég og þú eigum sem sagt að borga sem
minnst af þessu, heldur börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin.
Sé ekki betur, en þarna sértu kominn með lausnina:
- Lífeyrissjóðirnir ríkisskuldabréf kaupi ríkisskuldabréf upp á 220 milljarða til 80 ára, afborgunarlaust í 20 ár (þá verð ég trúlega kominn í betri eða verri heim)
- Ríkissjóður noti þetta fé til að greiða inn á höfuðstól verðtryggðra lána.

Hefur aðeins smágalla, sem ég sé svona í fljótheitum:
Þetta heitir víst að skuldsetja börnin sín.

Jón G. Guðmundsson sagði...

Nú er ríkisstjórnin búin að sitja og reikna í tvær vikur og verður að koma með slæmu fréttirnar fyrir Hagsmunasamtök Heimilanna;
JÓLASVEINNINN ER EKKI TIL!

Guðmundur sagði...

#12:38 Nei það er nú ekki eins og verið sé að skuldsetja börnin, vextir er greiddir af þessu og það endurgreitt og þessir peningar fara að vinna í hagkerfinu einmitt á þeim stað sem helst er þörf að koma húsnæðismarkaðnum í gang

Nafnlaus sagði...

"félagsmenn" eru ekki eigendur lífeyrissjóða, eigendur þeirra eru rétthafar. Það er hvergi sama mengi.

Stéttarfélög verða að virða eignarréttarákvæði stjórnarksrár og láta lífeyrissjóðina í hendur eigenda sinna þá fyrst geta þeir sinnt því sem þeir eiga í raun að sinna.

Jón Jósef Bjarnason

Guðmundur sagði...

Það voru félagsmenn stéttarfélga sem gerðu kjarasamninga á sínum tíma sem innifólu greiðslur í lífeyrissjóði og gáfu eftir hluta af launahækkunum, þeir eru sjóðsfélagar. Það hefur síðan þá verið samið um breytingar á iðgjöldum í kjarasamningum, auk annarra breytingar eins og séreignarsjóði. Þar eru að verki sjóðsfélagar, sem hafa afgreitt þært breytingar við afgreiðslu kjarasamninga.

En svo tala menn eins og td. Ögmundur eins og lífeyrissjhóðir séu sjálfseignarstofnun án tengsla við sjóðfélaga. Hann geti kallað til sín tvo menn, forseta ASÍ og framkv.stj. SA og samið við þá í bakherbergi um að greitt verði út sparfé sjóðsfélaga/launamanna úr lifeyrissjóðum alls kr. 137 milljarða króna. Við vitum hvernig opinberu sjóðunum er stjórnað, en það er öðruvísi með almennu sjóðina.

Menn verða að venja sig á að tala af einhverri þekkingu um þessi mál