laugardagur, 20. nóvember 2010

Agaðri vinnubrögð

14 þingmenn lögðu nýverið fram frumvarp um málshöfðun gegn Bretum, vegna hryðjuverkalaganna. Málflutningur þessa fólks einkennist af staðreyndavillum, skrumi og upphrópunum. Það er full ástæða til þess að taka á Bretum vegna þessa máls, en ef menn ætla að ná árangri verða menn að venja sig á vandaðri vinnubrögð en fram kemur í greinargerð þeirra, sem er full að staðreyndavillum og barnalegum upphrópunum.

Hluti þessa fólks leiddi yfir okkur hið skelfilega Hrun. Það greip ekki til varna, heldur hélt áfram á fullri ferð þar til ekki stóð steinn yfir steini í samfélagi okkar og tugi þúsunda heimila lágu í valnum. Blaðrandi innistæðulaust kjaftæði í pontu Alþingis og með aulabrandara í spjallþáttum.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að þetta fólk, sem þá var sumt ráðherrar, samþykkti að draga úr umsvifum bankakerfisins gegn því að fá gjaldeyrisskiptasamning við nágrannaþjóðir okkar. Þau stóðu ekki við þá samninga og kölluðu með því yfir okkur þá smán að ríkisstjórnir Norðurlandana höfnuðu að eiga við okkur fjárhagsleg samskipti nema í gegnum AGS. Við fengum þá leið bjarghring frá Norðurlöndum, sem kom í veg fyrir fullkomið hrun hér á landi á vöxtum sem voru langt undir því sem Íslandi stóð til boða annarsstaðar. Þá stóðu blaðurskjóðurnar í pontu Alþingis og héldu ræður um óvini okkar á Norðurlöndum.

Þegar kom að því að ætlast var til þess að við stæðum við alþjóðlegar skuldbindingar hvað varðar Icesave, fór þetta fólk hamförum í pontu Alþingis með mesta skrum sem viðhaft hefur verið á þeim vettvangi og leiddi yfir atvinnulífið enn meiri ófarir og var þar þó nóg komið.

Það er mikil þörf á að Alþingi taki upp vandaðri vinnu brögð og færa Ísland upp á svipað stig og er í nágrannalöndum okkar. Umhverfismál eru einn mikilvægasti málaflokkur evrópskra stjórnmála í dag. Í gildi eru sameiginleg lög um náttúrvernd, útstreymi gróðurhúsalofttegunda og mengunarvarnir. Það liggur fyrir að íslendingar þurfa að stíga nokkur veigamikil skref til þess að standast samskonar kröfur og nágrannalönd okkar gera.

Lagfæra þarf náttúruverndarlög og lög um verndun fugla þurfi að efla til að þau samræmist evrópskri löggjöf. Þar verður að sveigja frá þeirri venju að láta hagsmunaaðila eins og orkufyrirtæki og útvegsmenn ráða ferðinni. Þetta er óháð því hvort aðild að ESB verður samþykkt eða ekki. Í tiltekt eftir Hrun þarf að taka upp mun agaðri vinnubrögð en hér hafa tíðkast. Þar þarf Alþingi að fara fyrir með góðu fordæmi, ekki svona bulli eins og þetta fólk ástundar.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála, hefði verið best að samþykkja fyrsta Icesave samninginn, sem Bretar sömdu fyrir okkur, og borga 40 milljarða í vexti á ári.

Hryðjuverkalög? Bara brosa við þeim :)

Nafnlaus sagði...

Ég er þér hjartanlega sammála, það var hægur vandi að semja um Icesave og kostnaður okkar þar hefði verið sáralítill í samanburði við það tap sem samfélagið hefur goldið vegna þeirra tafa sem óvandaðir þingmenn hafa skapað.

Einnig er ég þér sammála um að það eigi að fara í Bretana, en vinnubrögð þessarar 14 þingmanna eru það illa unnin að þau geta eyðilagt málið fyrir okkur.

Hann er nú eitthvað lesblindur þessi sem skrifar aths. #11:23 Hann snýr hlutunum algjörlega á haus. Örugglega einn af þessum 14.
Kristinn

Nafnlaus sagði...

Stjórnarandstaðan eins og hún leggur sig er að verða eitt samfellt skemmtiatriði eða uppistand sem er búið að lifa sjálft sig. Það er svo langt síðan að ég hætti að taka mark á þessu fólki, ég skrúfa ævinlega niður í öllum þessum löngu fréttum að vitleysunni sem því dettur í hug.Ég verð þó að segja að mér er það hulin ráðgáta hvers vegna allur þessi skætingur þykir fréttnæmur.

Unknown sagði...

Sannast að segja er ég á því að hryðjuverkalögin hafi e.t.v. verið ill nauðsyn. Þegar allt hrundi voru glæpatopparnir í bönkunum að láta greipar sópa um sjóði þeirra og líklega að koma þeim fyrir á Tortola og annarsstaðar. Engin meðul eða stofnanir hér á landi voru til eða virk til að koma í veg fyrir þetta. Bretarnir tóku af okkur ómakið og komu e.t.v. í veg fyrir að hrunið yrði enn verra.