sunnudagur, 28. nóvember 2010

Dræm kjörsókn

Dræm kjörsókn er töluverð vonbrigði. Ég spáði að hún myndi verða slakari en í alþingiskosningum og spáði um 50%. Það má benda á mörg atriði sem hafa leitt til þessarar niðurstöðu. Vaxandi hluti þjóðarinnar vill einfaldlega ekki ræða pólitísk mál, það er búinn að fá nóg af öllu sem tengist stjórnmálum. Margir töldu að kosningin væri mjög flókin, auk frétta af löngum biðröðum í Laugadalshöll dag eftir dag sem fældi fólk frá.

Og svo er það vitanlega fólk sem vill ekki hleypa öðrum en útvöldum í breytingar á stjórnarskránni. Það sáum við greinilega í auglýsingum og umfjöllun harðasta kjarna Sjálfstæðisflokksins. Sá hópur óttast að missa tök sín á valdastöðum og auðlindir þjóðarinnar verði endanlega settar í þjóðareign. Og það virtust vera sömu menn sem settu þetta í samhengi við að vernda fullveldið, eins og það var orðað, það er að koma í veg fyrir að Ísland komist inn í ESB.

Veljið skynsamt fólk, var tilskipun frá Valhöll og auglýsingar í MBL byggðu á þessum grunni. Skynsamt fólk vill vernda núverandi stjórnarskrá og þá sérstöðu sem Flokkurinn hefur náð. Skynsamt fólk sér ekkert að því hvernig mál hafa þróast og leiddu til efnahagslegs Hruns og þetta skynsama fólk vill ekki axla ábyrgð á því hvert efnahagsstefna Flokksins leiddi okkur og þá miklu spillingu sem hefur þrifist í skjóli hans. Það var mikil skynsemi fólgin í þeirri misskiptingu sem Flokkurinn hefur staðið fyrir, að mati stefnumótunardeildar Valhallar.

Það er mikil skynsemi í því að hafa krónuna, því þá er auðvelt að leiðrétta of góða kjarasamninga og tryggja það að valdastéttin og séreignarmenn fái sitt á kostnað hins almenna launamanns. Allt er gert til þess að komast hjá umræðu um þessi mál. Öllu er hleypt í bál og brand á Alþingi með upphlaupum og barist með öllum brögðum gegn því að Ísland nái að vinna sig upp úr þeirri sem stöðu sem efnahagsstefnan leiddi okkur í.

Afleiðingarnar eru að koma fram, vaxandi hópur fólks vill ekki búa í svona landi, það er að fara. Það er ekki atvinnulaust fólk, það er velmenntað fólk með mikla menntun. Fólk sem getur valið úr störfum vegna hæfileika sinna. Tillögum atvinnulífs er í engu sinnt og dregið að takast á við vandan í alvöru.

Það eru einkennilegir tímar þegar það er orðin góð hvíld frá amstri dagsins að funda í tvo daga með liðlega 100 trúnaðarmönnum rafiðnaðarmanna, sagði ég við lok trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambandsins nýlega. Fundir með trúnaðarmönnum eru þeir fjörugustu sem starfsmenn stéttarfélaganna sitja, ekki síður ef það eru kjarasamningar í nánd og sama var upp á teningum á ráðstefnunni.

Nei munurinn er sá að umræður á fundum innan Rafiðnaðarsambandsins eru málefnalegar, en sú umræða sem okkur er boðið upp á í fjölmiðlum og spjallþáttum og svo maður tali nú ekki um meðal stjórnmálamanna er á svo óendanlega lágu plani. Staðreyndir skipta engu, lýðskrumið ræður öllu. Menn sem setja saman Excel skjöl og boða töfralausnir verða átrúnaðargoð og eru boðaðir í alla spjallaþætti og á fundi þingnefnda. Jafnvel þó það blasi við öllu hugsandi fólki að um reyksprengjur sé að ræða. Það er nefnilega þannig að það sem þú setur inn í Excel ræður niðurstöðunni, og ef þú setur einhverja vitleysu inn, þá kemur hún margfölduð út. Það er eins og spjallþáttastjórnendur og sumir þingmenn átti sig ekki á þessari staðreynd.

T.d. er búið að liggja fyrir í tæp tvö ár niðurstaða hagdeilda samtaka í atvinnulífinu hvað leiðir vegna skuldavanda fyrirtækja og heimila muni kosta. En í tvö ár hafa stjórnmálamenn og spjallþáttastjórnendur hafnað því að líta á þessar niðurstöður. Svo var nú um daginn sett saman nefnd á vegum stjórnmálamanna til þess að reikna þetta út og hún kom með nákvæmlega sömu niðurstöður og legið hafa fyrir í tvö ár.

Stjórnmálamenn og spjallþáttastjórnendur vilja ekki ræða við forsvarsmenn samtaka á vinnumarkaði, allt annað er gert, bara eitthvað annað. Það er ótrúlegt þegar 2 menn sem voru á móti öllum hinum 300 sem voru á fundi nýlega eru þeir sem fara með sannleikann og eru mestu verkalýðsleiðtogar landsins. Þetta þýðir í raun krafa um að gegnið sé gegn niðurstöðum meirihlutans.

Nú er svo komið að komi saman nokkrir einstaklingar og skrifa upp óskalista þá eru þeir kallaðir í alla þættina og á fundi þingnefnda, og þar eru samtök launamanna gerð ábyrg fyrir því að óskirnar nái fram að ganga. Ekki er haft fyrir að kanna hvort þessir listar hafi verið bornir upp til afgreiðslu innan verkalðyðsfélaganna og hvort meirihluti sé þeim fylgjandi. Allt er gert tilþess að niðurlægja samtök launamanna og vilja meirihlutans.

Og lýðskrumarar mæta í hvern þáttinn á fætur öðrum og níðir niður fólk sem skilar ábyrgu starfi, það dregur inn í spjallþættina og þingnefndirnar. Það eru þessi vinnubrögð sem fólk er búið að gefast upp á, því sannleikurinn kemur alltaf fram. Það tekur reyndar stundum óþægilega langan tíma og sífellt fleiri gefast upp og hætta að hlusta.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gæti ekki verið að dræm kjörsókn sé tilkomin vegna þess að fólk sér að þetta er útspil getulausrar ríkisstjórnar til að slá ryki í augu fólks og reyna að fá það til að hugsa um eitthvað annað en lélegan árángur í að laga stöðu heimilanna. Sem meira að segja skv. síðustu fréttum vinnuveitendur og verkalýðsforystan ætla að taka þátt í.
Ég sá marga lista fyrir þessar kosningar. Sannaðu það að Sjálfstæðisflokkurinn eða forysta hans hafi lagt einhvern slíkan fram áður en þú dylgjar um þessi mál.

Nafnlaus sagði...

Góður eins og alltaf
Guðmundur Rúnar Gísla

Nafnlaus sagði...

Góður pistill
Gauja

Guðmundur sagði...

Það var um allt netið í gær listi frá Valhöll. Þetta er harla einkennilegt innlegg hjá nafnlausum #11.20 en staðfestir í raun allt sem ég er að segja í pistlinum

Nafnlaus sagði...

Frábær að venju. Þráðbeint að kjarna vandans. Góð greining

Nafnlaus sagði...

Sami nafnlausi aftur á ferð!

Af því að það var á netinu og logaði í bloggheimum. Þá er það örugglega satt og rétt.

Og þú þykist þess verður að sitja á þessu stjórnlagaþingi og semja um kaup og kjör fyrir menn. Hvert er hægt að draga þig á asnaeyrunum?

Nafnlaus sagði...

Heyr - Heyr
Tóta

Guðmundur sagði...

Litlir karlar sem skjóta í skjóli nafnleyndar og bera á menn heimasoðinn spuna

Guðm. Logi sagði...

Ég held að ein af ástæðunun fyrir dræmri kjörsókn sé sú að nútímafólki sem sinnir flestöllum sínum málum í tölvu finnst sér ekki bjóðandi að þurfa að skrifa 25 auðkennisnúmer, fyrst á minnismiða heima hjá sér og síðan aftur á kjörseðil á kjörstað. Svona aðferðir við kosningar voru ef til vill góðar og gildar á sínum tíma, en nú hefði verið kjörið að taka upp rafrænar kosningar. Ég er sannfærður um að þátttaka í þannig kosningum hefði orðið mun meiri.
Hverjum dettur í hug að telja fram til skatts í dag á pappír ?
Sú aðferð sem viðhöfð var við kosningar til sjórnlagaþings var alveg jafn gamaldag og að telja fram á pappir og stinga síðan framtalinu í lúguna hjá skattinum.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst dræm kjörsókn sanna enn einu sinni hversu öskrandi heimskur fjöldinn er.

Einstein sagði einhverntímann eitthvað á þessa leið; Manneskjan einsömul er snjöll, en hjörðin er hættuleg og heimsk.

Ég hef mjög oft verið honum innilega sammála á þessu ári og því síðasta.

kv,
Heywood Jablome