miðvikudagur, 10. nóvember 2010

Framtakssjóður

Hvað gengur mönnum til er reka áfram umræðu um Framtakssjóð lífeyrissjóðanna. Sá ofsi sem einkennir málflutning tiltekinna manna, setur mann nú orðið í varnarstöðu. Þeir sem vilja koma á í veg fyrir málefnalega umræðu kasta oft reyksprengjum út og suður og reyna með því að draga umræðuna frá því sem raunverulega skiptir máli.

Starfsmenn lífeyrissjóða hafa það hlutverk að ávaxta fjármuni í samræmi við lög og fjárfestingastefnu hvers sjóðs. Lífeyrissjóðir hafa alla tíð fjárfest í hlutabréfum í atvinnulífinu og fáum þótt athugavert. Hvað veldur því að nú sé slíkum áróðri viðhaldið til að gera alla starfsemi Framtakssjóðsins tortryggilega.

Það er allmargt í þessum málflutning sem minnir á málflutning tiltekins hóps manna í hinum svokallað valdahóp. Manna sem ástunduðu það af krafti að fjárfesta í fyrirtækjum, gengu að lánsfjármagni í bönkunum, bútuðu þau niður, seldu öll verðmæti úr þeim og flúðu svo með peninganna til Sviss skömmu fyrir Hrunið, eða á hulda reikninga á Huldueyjum.

Fyrirtækin lágu eftir í rústum og bankarnir sátu uppi með verðlausar eignir og ógreidd lán. Margt af því sem þessir einstaklingar gerðu fellur mjög líklega undir það hugtak að vera fullkomlega siðlaust og í sumum tilfellum saknæmt. Upplýsingar um þessar athafnir liggja í bönkunum.

Alþekkt er að eftir Hrun verði uppgangur og þá gefa fjárfestingar í hlutabréfum hvað mestan arð. Hvað er að því að sá arður gangi til sjóðfélaga lífeyrissjóðanna, nóg hefur þeim blætt. Og þá kem ég að pælingu minni, og reyndar fjölmargra annarra.

Innkoma Framtakssjóðs fer greinilega ákaflega í taugarnar á þeim sem eiga peninga (þá sem ég talaði um hér framar) og vilja eins og áður getað athafnað sig á þessum hlutabréfamarkaði nánast einir. Fyrir þeim er því óþolandi að Framtakssjóðurinn sé að flækjast fyrir nú.

Eftirtektarvert er að þingmenn sem hafa þegið digrar greiðslur í kosningarsjóði frá þessum herrum skuli m.a. nota ræðustól alþingis til að dreifa slíkum áróðri. Öllu er snúið á haus og búnar til Grýlur í öllum hornum og arfaslakir fréttamenn spila mótþróalaust með.

Fyrirtæki sem umræddir menn fóru höndum um, eru nú sum hver að komast í hendur sjóðs í eigu almennings og þá munu koma fram upplýsingar sem hingað til hafa verið geymdar í bakherbergjum bankanna. Við erum mörg sem treystum því að þetta verði til þess að framangreindir menn verði gerðir ábyrgir gjörða sinna og þeim haldið utan við uppbyggingu heilbrigðs atvinnulífs og hlutabréfamarkaðar.

8 ummæli:

Hákon Hrafn sagði...

BHM hefur gagnrýnt starfsemi sjóðsins. Ert þú að líkja þeirri gagnrýni saman við gasprið á Alþingi?
Þegar ég las þessa skelfilegu bloggfærslu þá datt mér strax í hug að þú tilheyri hinum valdahópnum.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur! Ég hef lengi haft áhyggjur af ítökum SA í stjórnum almennu lífeyrissjóðanna. Mér hefur sýnst að það fólk, sem SA tilnefnir, hafi oftar en ekki tögl og hagldir innan þeirra, oft bæði vegna þess að þau hafa gjarnan meiri fagþekkingu á fjármálamarkaði en fulltrúar stéttarfélaganna og svo vegna einskærrar frekju. Mér finnst að framganga Arnars Sigurmundssonar sem stjórnarformanns Framtakssjóðsins vera staðfesting á þessum grunsemdum mínum. Ég hef t.d. miklar áhyggjur af fjárfestingu í Húsasmiðjunni, sem mér sýnist að sé fyrirfram dauðadæmd í fyrirsjáanlegri samkeppni við Bauhaus, svo ég nefni aðeins eitt dæmi.

Guðmundur sagði...

Sæll Hákon
Hef margoft sagt að það sem mér leiðist mest er þegar menn gera mér upp skoðanir og skjóta svo á grundvelli eigin spuna.

Ég hef ásamt allnokkrum kynnt mér vel það sem Framtakssjóður hefur verið að gera. Það var vegna óvæginna gagnrýni og við vildum fá að vita hvað væri þarna á seiði.

Mikið væri þetta skelfilega samfélag betra og umræðan viti ransærri ef menn gerðu slíka hluti oftar, áður en þeir fara að gaspra og kalla út og suður um hluti sem þeir vita ekkert um.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur
Já það staðfestist m.a. hér í aths. það sem þú segir í fínum pistli, að venju, það er ákveðin hópur í þjóðfélaginu sem vill koma í veg fyrir að hreinsað sé til og sitja áfram að kjötkötlunum
Kristinn

Nafnlaus sagði...

Hvernig væri nú að einstaklingar sem vilja tjá sig hér hafi nú einu sinni staðreyndirnar á hreinu í staðinn fyrir þetta blessaða gaspur. Arnar Sigmundsson er ekki stjórnarformaður Framtakssjóðsins, hann er stjórnarformur Landssamtaka lífeyrissjóða og kemur ekki að stjórn Framtakssjóðs Íslands á neinn hátt.

Nafnlaus sagði...

Þú sem sagt styður það að lífeyrssjóðir sé notaðir til að taka yfir rekstur Húsasmiðjunnar sem tapaði milljarði á síðasta ári, er í samkeppni við aðra aðila á frjálsum markaði, til dæmis Byko, Múrbúðina, Verkfæralagerinn og svo má lengi telja.
Hvernig verð þú þetta siðferðislega? Það sama á við um fjármögnun fjölda annarra fyrirtækja sem fóru á hausinn.

Mín skoðun er: Það er ekki hlutverk lífeyrissjóða að vera í áhættufjárfestingum. Þeir eiga að fjárfesta í öruggum fjárfestingum innviða samfélagsins sem skila samfélaginu, sjóðsfélögum (ekki fjármagnseigendum) arði í allar áttir á löngum tíma. Til dæmis með fjárfestingum í virkjunum, heilsu landsmanna (spítalar heilsugæsla).

Þeir henda steinum úr glerhúsi þingmenn SjálfgræðgisFLokksins sem kvörtuðu yfir fjárfestingum Framtakssjóðsins nýlega, en það glerhús er með alla glugga brotna og enginn tekur mark á þeim.
Þú þarft hins vegar að rökstyðja þinn stuðning.

Guðmundur sagði...

Þetta er nú bara ómerkilegur útúrsnúningur, eða í besta falli barnalegur spuni.

Allir fjárfestar og þar á meðal lífeyrissjóðir hafa keypt í gegnum árin hlutabréf í fyrirtækjum og þannig mun það verða.

Allir fjárfestar (einnig eigendur lífeyrissjóða/sjóðsfélagar) gera kröfu til þess að fjæármagns é sett í gang til þess að halda atvinnulífi gangandi

Það er m.a. gert með því að fjárfesta í samkeppnisfyritækjum.

Þessi spuni um að lífeyrissjhóðir megi einungis fjárfesta í hlutabréfum fyrirtækja sem ekki greiða til lífeyrissjóða eru gjörsamlega út í hött en reyndar í fullu samræmi við þá fársjúku umræðu sem gengur í samfélaginu

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

Þetta er mjög fínn pistill og er hárrétt greining. Ég hef heyrt hrós um pistilinn frá mörgum. Umræðan um þátttöku lífeyrissjóðina í atvinnulífinu er svo undarleg og mótsagnarkennd að það tekur ekki neinu tali.

Menn tala um í einni setningu að lánveitendur séu alltaf varðir og tapi aldrei. Í næstu setningu eru svo lífeyrissjóðir skammaðir fyrir að þeir hafi tapað svo miklu. Fjöldi fjárfesta töpuðu aleigunni í Hruninu o glífeyrissjóðirinir eru þeir einu sem koma tandandi út úr Hruninu.

Sett er fram tillaga um að þar sem að það sé svo mikið fjármagn í lífeyrissjóðunum, þá sé allt í lagi að taka þar eignarnámi 180 milljarða til þess að greiða upp skuldir annarra.

Sú sem þetta segir er meir að segja formaður efnahagsnefndar Alþingis, útlærður hagfræðingur. Það tekur engin mark á svona hagfræðing.

Kveðjur Ágúst