þriðjudagur, 16. nóvember 2010

Gegnumstreymiskerfið og Gunnar Tómasson

Á svipuðum tíma og Gunnar Tómasson sendi inn pistil um lífeyrissjóðakerfið í janúar 2009 hélt aðalritari OECD, Angel Gurria opnunarræðu í Davos þar sem hann sagði að afturhvarf í hreint gegnumstreymiskerfi yrðu mikil mistök. Ætla mæti að OECD hefði eitthvað til síns máls, en Gurria notaði sömu rök og sett eru fram í grein sem Gunnar vísar til, þó hann hafi komist að annarri niðurstöðu.

Í grein Gunnars segir að “gegnumstreymiskerfi hafi reynst öðrum þjóðum vel.” Eðlilegt hefði verið hjá honum að benda á þær þjóðir máli sínu til stuðnings, en ég leyfi mér að efast um að þar sé átt við Grikkland, Frakkland og Ítalíu enda stórkostleg vandamál þar til úrlausnar, eins og hefur verið nánast daglega í fréttum. Eina heimildin sem vísað er til, er grein eftir tvo starfsmenn Seðlabanka Íslands, eftir þau Guðmund Guðmundsson og Kristíönu Baldursdóttur og haft eftir þeim að: “Ekki er að sjá að stórfelldur peningasparnaður Íslendinga með lífeyrissjóðum hafi leitt til samsvarandi þjóðhagslegs sparnaðar,” sem er svo endurtekið í niðurstöðu greinarinnar.

Af lestri greinar Gunnars mætti ætla að höfundarnir hafi komist að því að við gætum allt eins tekið upp gegnumstreymiskerfi úr því að þjóðhagslegur sparnaður er ekki meiri en raun beri vitni. Í byrjun greinarinnar segir eftirfarandi. “Eftirlaun eru nú alvarlegt áhyggjuefni í ríkisfjármálum flestra iðnvæddra landa. Þau eru að mestu greidd með skattfé og fyrirsjáanlegt að framlög til þeirra þurfa að hækka mikið næstu áratugi. Ástæðan fyrir þessu er að fjölmennir árgangar nálgast eftirlaunaaldur, íbúar landanna ná hærri aldri og eignast færri börn. Hlutfall eftirlaunaþega og fólks á starfsaldri mun því hækka mikið fram eftir 21. öld.”

Hér vísa höfundar til ráðstefnu sem Hagfræðistofnun Háskólans efndi til vorið 2004 í samvinnu við Columbiu háskóla. Þeir sem sátu þá ráðstefnu og reyndar margir aðrir fræðimenn, hafa komist að því að eftirlaun þeirra sem búa við gegnumstreymi er “alvarlegt áhyggjuefni” eins og þau Guðmundur og Kristíana komust að. Má þar nefna skýrslu Alþjóðabankans frá 2001 þar sem mælt er með uppbyggingu á þriggja stoða lífeyriskerfi, kerfi með blöndu af gegnumstreymi fyrir grunnlífeyrisrétt, sjóðasöfnun í samtryggingarkerfi og séreignarsjóði. Sú stefna byggði á ítarlegri greiningu bankans frá 1994 sem birt var undir nafninu “Averting the Old Age Crisis”. Þá hefur OECD ítrekað látið sína skoðun í ljós á málefninu samanber opnunarræðu Gurria í Davos.

Að sjálfsögðu er öllum frjálst að viðra skoðanir sínar á málefninu, en þá væri vel við hæfi að bera þær saman við aðra. Mögulega hefur Gunnar Tómasson rétt fyrir sér og Alþjóðabankinn, OECD og Evrópusambandið rangt. Úr því að vísað er til greinar í Peningamálum frá 2006 hefði verið eðlilegt að vísa til orðalags höfunda að: “Nokkuð almenn sátt virðist ríkja um fyrirkomulag lífeyrismála á Íslandi og við hrósum happi að hafa valið aðra leið en þau lönd sem við líkjumst mest í lífsgæðum.” Sú sátt sem vísað er til er vissulega ekki jafn mikil nú og hún virtist vera fyrir hrun og kannski er ástæðan sú að málefnaleg umræða um lífeyrismál þjóðarinnar felst í einhliða röksemdarfærslum þeirra sem finna kerfinu allt til foráttu. Manna sem halda endurtekið uppi málatilbúnaði í Silfri Egils um kerfið, athugasemda- og gagnrýnislaust.

Er til of mikils ætlast að umræðan verði borin saman við hvað aðrar þjóðir eru að hugsa í þessum efnum, auk annarra stofnana og hagsmunasamtaka sem láta sér málið varða? Orðalagið “við hrósum happi” er ekki orðum aukið. Barátta þeirra þjóða sem stefna út úr gegnumstreymiskerfi verður þrautarganga og öll umræða í Evrópu um þriggja stoða leiðina bendir til þess að við ættum að “hrósa happi” fyrir að vera komin þó þetta nálægt því markmiði að byggja upp slíkt kerfi.

Það er ótrúlegt eftir að hafa lesið í gegnum allar þær skýrslur sem ritaðar eru um málefnið, að hér skuli vera til menn sem vilja brjóta þessa áratuga uppbyggingu niður, af því að þjóðhagslegur sparnaður hefur ekki aukist umfram þau lönd sem búa við gegnumstreymiskerfi. Að hér sé bara hægt að bjarga þúsundum fjölskyldna með því að leggja lífeyriskerfið niður og losa þjóðina við þungar byrðar. Gunnar vill eflaust að úr því að ríkið getur ekki rétt hallann af á lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, sé réttast að þeir sem safnað hafa í sjóði á almennum vinnumarkaði afhendi ríkinu eignirnar í von um að Tryggingastofnun muni þjóna sem lífeyrissjóður allra landsmanna.

Sá sjóður sem ég greiði til hefur varið um 30% af eignum í skuldabréf til fjölskyldna í landinu. Á hann þá að afhenda ríkinu hin 70% og vísa sjóðfélögum á Tryggingastofnun ríkisins. Hvað ætlar Gunnar að gera ef lýðfræðilegar spár OECD rætast? Að hér verði hlutfall eldri borgara um 20% af þjóðinni og hlutfall þeirra sem greiða skatt til að fjármagna gegnumstreymiskerfið fari stöðugt lækkandi og jafnvel snarlækki þegar ungt fólk flýr landið í umvörpum vegna skattahækkana.

Í samþykktum frá fundum rafiðnaðarmanna þá kemur fram mjög skýr vilji til þess að halda áfram á þessari braut. Það er ekki uppfinning einhverrra fárra sem eru að mynda sér einhverja valdastöðu. Það einkennir þessa umræðu fullyrðingar að allt þetta fólk sé á villigötum, viljalaus verkfæri í höndum spilltra manna.

Við þessa ákvarðanatöku hefur farið fram upplýst umræða byggða á víðtækri upplýsingaöflun m.a. ráðlegginga OECD og Alþjóðabankans um að við, og reyndar aðrar þjóðir, byggjum á þeim góða grunni sem þegar hefur verið lagður. Niðurstaða þessarar um ræðu er að tryggja eigi lífeyri sem er um 80% af meðaltekjum launamanns. Það komi um 60% frá uppsöfnunarsjóðum og 20% frá gegnumstreymissjóði almannatrygginga kerfisins.

Þekkt er að nokkur hluti fólks hefur kosið að vera verktakar ekki skilað inn greiðslum að fullum tekjum til uppsöfnunarkerfisins og það fólk horfir framan í þá staðreynd að það fái þar af leiðandi lítinn lífeyri, þetta fólk vill vitanlega fá aðrar lausnir. Hættum að birta endalausar hugmyndir um að hér sé bara hægt að losa okkur undan öllum vandamálum með lausnum sem henta öllum og það án fórnarkostnaðar.

11 ummæli:

Brjánn Þ sagði...

Gunnar Tómasson hefur mér oft fundist vera svolítið út úr kú, eins og hann er nú duglegur að ýta sér fram og skrifa um sjálfan sig í þriðju persónu á málefnin.com

Þessi uppástunga um að hætta sjóðssöfnuninni, vegna hættu á rýrnun með slæmri stjórnun eða vegna vondra ára, og taka þess í stað upp fyrirhyggjulaust gegnumstreymiskerfi er beinlínis kjánaleg.

Nafnlaus sagði...

Sammála greinar Gunnars, eru ekki tækar í alvöru umræðu - en þær draga inn í Silfrið

Nafnlaus sagði...

Þakka þér, Guðmundur, fyrir skjót viðbrögð við tilmælum mínum. Frábær úttekt hjá þér og málefnaleg eins og vænta mátti.

ekkinn sagði...

Ég er yfirleitt tiltölulega sammála þér hér á þessu blogg Guðmundur, en hér ertu að einhverju leiti sleginn blindu, vegna hlutverks þíns sem umjónamanns lífeyrissjóðs. Rök Gunnars eru alveg rétt, þ.e. þessi ímyndun að heilt þjóðfélag geti "lagt fyrir" verðmæti til lengri tíma er blekking, verðmæti mannskepnunar eru öll hverful og krefjast sífelldar endurnýjunar. Vinnandi kynslóðin verður alltaf að sjá fyrir þeirri sem vinnur ekki, enda alveg eðliegt. Ef sú kynslóð ætlar hinsvegar að veifa einhverjum pappírum og þykjast eiga allt í þjóðfélaginu, skv. einverju ímynduðu bókhaldi, er það bara ávísun á að vinnandi kynslóðin grípi til ráðstafana og "leiðrétti" þetta, t.d. með hressilegri verðbólga. Gegnumstreymiskerfi er heiðarlegra á allan hátt.

Nafnlaus sagði...

Fín grein.

En mun ekki verklýðshreifingin nú sem endranær beita sér gegn enduskoðun á verðtryggingunni. samanber :http://vb.is/frett/1/62554/

Kveðja Sævar

Nafnlaus sagði...

Þessi grein þín er fullt af hræðsluáróðri þar sem þú reynir að fegra stöðu glæpamanna (stjórnendur lífeyrissjóðanna).
Grein þín minnir á hroka margra fyrir hrun sem trúðu að allt væri best á Íslandi og aðrir þyrftu endurmenntun.

Hvað töpuðu snillingar líeyrissjóðanna mörg hundruð milljörðum í hruninu? Voru það 4 eða 500 milljarðar sem þeir töpuðu með fjárfestingum í matador fyrirtækjum? Tapað fé sjóðfélaga.

Þú villt greinilega verja spillt lífeyrissjóðskerfi sem er misnotað af stjórnendum þess. Verði þér að góðu.

Nafnlaus sagði...

Já hrósum happi að við getum nálgast þriggja stoða kerfið á eðlilegan hátt og með krumlur pólitískra geðþótta víðsfjarri.
Erlingur

Nafnlaus sagði...

"Mögulega hefur Gunnar Tómasson rétt fyrir sér og Alþjóðabankinn, OECD og Evrópusambandið rangt." Fín grein - gegnumstreymskerfi vs söfnunarkerfi
Takk Kristinn

Nafnlaus sagði...

Þetta er frábær pistill, þú hefur kjarkinn til þess að segj aþetta beint út. Frábært.

Hér eru dreginn á greinilegan hátt hvers uppsöfnunarkerfið er réttlátt, sérstaklega fyrir komandi kynslóðir. Gegnumstreymiskerfið væri gjörspillt og siðblind ákvörðun þar sem núverandi kynslóð kippti til sín þessum eignum en léti börn okkar sitja uppi með brúsann

Þessi kafli segir allt : Gunnar vill eflaust að úr því að ríkið getur ekki rétt hallann af á lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, sé réttast að þeir sem safnað hafa í sjóði á almennum vinnumarkaði afhendi ríkinu eignirnar í von um að Tryggingastofnun muni þjóna sem lífeyrissjóður allra landsmanna

Takk fyrir Gunnar.

Nafnlaus sagði...

Ekkinn - bara svona "for the records - Guðmundur Gunnarsson er EKKI umsjónarmaður lífeyrissjóðs. Hann situr EKKI í stjórn Stafa, sem er sá sjóður, sem hann á félagsaðild að sem rafvirki. Ég hélt satt að segja, að fólk væri búið að átta sig á þeirri vítisvél, sem gegnumstreymissjóðir eru gagnvart komandi kynslóðum. En það er greinilegt að sumt fólk kann ekki að lesa.

Nafnlaus sagði...

Menn skilja ekki, hversu góð tekjulind sparsemi er
Ciceró