sunnudagur, 28. nóvember 2010

Krónan mesti óvinur launamanna

Flestir útlendingar og margir Íslendingar tala um krónuna eins og hún sé eins alvörugjaldmiðill, þegar alvörugjaldmiðill er felldur hækka skuldir ekki, eins og gerist hér í Krónulandi. Sama á við um þegar Seðlabanki lækkar sína vexti þá lækka húsnæðisvextir í takt í löndum sem eru með alvörugjaldmiðil.

Flest íslensk heimili eru í greiðsluvanda vegna íslensku krónunnar. Ísland er dæmi um hagkerfi þar sem tekjur og skuldir eru í mismunandi gjaldmiðlum. Benda má dæmi um fyrirtæki sem gera upp og reka sig í evrum, þar til kemur að launum. Á þessum forsendum verður maður undrandi þegar hlustað er á hérlenda talsmenn krónunnar benda á Írland sem dæmi um að við eigum að halda krónunni. Það vefst fyrir íslenskum launamönnum að gera langtíma kjarasamninga, sakir þess að stjórnmálamenn hafa endurtekið gengisfellt kjarasamninga til þess að leiðrétta efnahagsleg mistök sín.

Ef Írar færu sömu leið og við erum í þá tækju þeir upp írska pundið fyrir launafólk, en halda skuldum og fjárfestingum eftir í evrum. Lettland valdi ekki þennan kost vegna þess að þeir vildu vernda almenning fyrir gjaldþrotum, eins og við erum að upplifa hér á landi vegna krónunnar. Fjárhagserfiðleikar heimilanna er stærsta vandamálið hér á landi á meðan fjárhagserfiðleikar bankanna eru stærsta vandamálið á Írlandi.

Skýringarnar á þessu er að finna í gengisfalli krónunnar en frá 1. apríl 2006 til 1. apríl 2010 hækkaði gengisvísitala krónunnar um 91 prósent sem þýðir að virði hverrar krónu fór nærri því að helmingast, sem segir okkur að hér er einungis um verðlækkun að ræða frá sjónarhóli útlendinga, samfara því hefur kaupmáttur Íslendinga lækkað. Við verðum að verja meiri tíma til þess að geta keypt daglegar nauðsynjar og matvælaverðið á Íslandi verður hátt til lengdar. Ef við göngum í ESB mun matarverð á Íslandi lækka svo um munar, í það minnsta í þeim vöruflokkum þar sem höftin og tollarnir eru mestir.

Algengt viðkvæði þeirra stjórnmálamanna sem ganga erinda kvótaeigenda og bænda er að verja krónuna með því að halda því fram að lönd innan ESB eigi við efnahagsvandamál að etja. Staðreyndin er sú að okkar stærstu vandamál eru vegna gjaldmiðilsins. Í þeim löndum sem þeir benda á er almenningur ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt, við erum í efnahagslegum þrælabúðum.

Ekkert land í Evrópu hefur orðið fyrir jafnmiklu kerfistjóni og Ísland, það er vegna hruns krónunnar. Ekkert Evruríki hefur orðið fyrir jafnmiklu tekjutapi og hér, það er vegna hruns krónunnar. Tekjustofnar ríkissjóðs hafi hrunið um tugi prósenta og er í raun stærsta vandamálið sem Alþingi þarf að glíma við. Ísland er rúið efnahagslegu trausti, það er vegna krónunnar og gjaldeyrishaftanna.

Ef þjóð býr við stöðugan gjaldmiðil verður rekstur fyrirtækja og hins opinbera reistur á traustum grunngildum í stöðugu umhverfi og leiðir jafns vaxtar og skapar störf. Þetta blasir við okkur ef við lítum t.d. til Danmerkur, og það er vegna þessa að þjóðir leita inn í ESB og til að tryggja fullveldi sitt. Það rekur engin fyrirtæki til langframa með bókhaldsblekkingum – Ebita blekkingum.

Vextir hér eru og verða alltaf a.m.k. 5% hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill leiðir til enn hærra verðlags. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna. 25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku. Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

30 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Aðild að ESB og upptaka alvöru gjaldmiðils er besta varanlega kjarabótin sem Íslenskt launafólk á völ á í framtíðinni.
Stéttarfélaöginn eiga að krefjast þess af ríkisstjórninni að aukinn kraftur verði settur í aðildarumsóknina.

Kv.
Rafeindavirki.

Nafnlaus sagði...

Þetta er kjarni málsins

Nafnlaus sagði...

Þetta er bara svona og að hafna þessu heitir einu nafni að vera í afneitun.
Þórir

Nafnlaus sagði...

Betra seint en aldrei.
Mér finnst það tímabært að verkalýðsforystan fari að átta sig á því við hvaða vonlausa gjaldmiðil íslensk heimili búa.
Hef að vísu enga trú á að Gylfi fatti málið, það er of flókið fyrir hann.

Guðmundur sagði...

Einnkennilegt inngg.

Verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir þessu um árabil og sent frá sér hverja yfirlýsinguna á fætur annarri hvað það varðar og átt marga fundi með stjórnvöldum og Seðalbankastjórn vegna þessa máls.

Bendi t.d. á allmarga pistla hér undanfarin ár.

Gylfi hefur verið harðasti fylgismaður upptöku Evru í mörg ár.

Nafnlaus sagði...

Það þýðir ekkert að tala um "suma" og "einhverja" Guðmundur. Þú ert í forsvari fyrir stóra launþegahreyfingu. Það er lágmark þegar vitnað er eitthvað eða einhvern, máli sínu til stuðnings, að það sé tilgreint.

Þú myndi amk kolfalla á fyrstu ritgerð sem þú sendir frá þér í barnaskóla með svona vinnubrögðum.

Hitt er síðan annað mál, að krónan hefur komið í veg fyrir enn meira atvinnuleysi en hér er. Það getur þú ekki á móti mælt, þó vissulega megi finna einhver rök fyrir því að annar gjaldmiðill henti betur í einhverjum tilfellum.

Það er ekki gott að taka Íra sem dæmi, þeirra mál eru ekki á nokkurn hátt leyst. Líklega munu verða þar mikil mótmæli, ef ekki óeirðir þegar AGS og írska ríkisstjórnin þarf að koma með vaxtaprósentuna á þeim lálnum sem í boði eru.

Íslendingar létu amk ekki bjóða sér þau vinnubrögð Steingríms J. í þeim málum, þegar hann laumupúkaðist með vaxtaprósentuna, og kom með alls kyns ósannindi s.s. að menn fengju greiðslufrest í sjö ár af afborgunum (gleymdi að geta þess að vextir héldu áfram að hrannast upp á meðan!!!!)

Það er lágmarks krafa þeirra sem þið vinnið fyrir Guðmundur, að þið einbeitið ykkur að því sem þið eruð ráðnir í. Utanríkis mál eru ekki Rafiðnaðarsambandi mjög nærri, kjaramál og atvinnustig umbjóðenda þinna ættu að vera þér og þínum meira áhyggjuefni.

Nafnlaus sagði...

Verðtrygging og okurvextir vegna áratuga vondrar efnahagsstjórnunar og ónýtrar krónu eru nútíma þrælahald. Var að koma frá Danmörku. Hitti þar mann sem er að fara að kaupa sér hús. Þar er hægt að fá lán á allt niður í 1.5% breytilegum vöxtum eða 3,5% föstum vöxtum. Óverðtryggt að sjálfsögðu.
Dofri

Guðmundur sagði...

Þeir sem halda því fram að gjaldmiðilsmál komi kjaramálum ekki við, vita ekki hvað þeir tala um. Enda eru færð rök fyrir því í þessum pistli.

Allir vita að kaupmáttarhrapið núna, eins og reyndar oftast áður, er vegna slæmrar efnahagstjórnunar og fall gjaldmiðilsins. Ekki vegna slakra kjarasamninga.

Þekkt eru ummæli helstu efnhagspekinga Sjálfstæðismanna þeirra sem hafa átt stóran þátt í að móta þá stefnu sem leiddi pkkur fram af bjargbrúninni. T.d Hannes Hólsmteinn og Pétur Blönmdal hafa margoft sagt að krónan sé nauðsynlegt því þá sé blóðsúthellingalaust hægt að leiðrétta of góða kjarasasamninga launamanna, svo notuð séu þeirra eigin orð.

Þeir sem halda því fram að formaður verkalýðsfélags megi ekki hafa skoðun og birta hana opinberlega, er barnalegir svo vægt sé til orða tekið.

T.d. átta sig flestir á því að þessi síða kynnir skoðnair mínar ekki verkalýðsfélags. Skoðanir þess verkalýðsfélags sem ég starfa fyrir eru birtar á heimasíðu félagsins og í gögnum sem félagið sendir frá sér.

En það má reyndar benda á að í samykktum þess félags er efnahagstjórn undanfarinna áratuga gagnrýnd harkalega og þess krafist að hún verði lagfærð, t.d. með öðrum gjaldmiðli.

Forsvarsmenn allra helstu fyrirtækja sem rafiðnaðarmenn starfa (um 4.000 af 6.000 félagsmönnum) hjá hafa marglýst því yfir að Evra sé nauðsynleg eigi fyrirtækin að eiga einhverja framtíð á Íslandi. Þetta hefur margoft komið fram bæði hér á þessari síðu og í öðrum fjölmiðlum.

Svona í restina þá stendur Rafiðnaðarsambandið mjög vel hafi nafnlaus #18.24 einhverjar áhyggjur af því. Þar er minnsta atvinnuleysið, besta starfsmenntakerfið, mesti stuðningur við félagsmenn í vanda í gegnum sterkan sjúkrasjóð, besta og umfangsmesta orlofskerfið. Öflugt trúnaðarmanna kerfi sem meðal annars hefur mikinn áhuga á þjóðfélagsmálum eins og t. gjaldmiðli sem hefur hvað mest áhrif á kaupmátt félagsmanna. Sem byggist ekki síður á vaxtakjörum, og verði á dagvöru.

Þessi athugasemd er líklega sú bjálfalegast sem hingað hefur borist.

Nafnlaus sagði...

Algjörlega og klárlega rétt hjá Guðmundi að vanda: "Algengt viðkvæði þeirra stjórnmálamanna sem ganga erinda kvótaeigenda og bænda er að verja krónuna með því að halda því fram að lönd innan ESB eigi við efnahagsvandamál að etja. Staðreyndin er sú að okkar stærstu vandamál eru vegna gjaldmiðilsins. Í þeim löndum sem þeir benda á er almenningur ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggi

Nafnlaus sagði...

Kjarni málsins,

Ísland getur komist inn í ERM2 (eins og Danmörk og Færeyjar) um leið og landið smþykkir aðid að ESB.

Það þýðir að Ísland verði komið í raun með evru eftri 2 ár!!! Þetta væri stórkostlegasta kjarabót - sem hægt væri að fá núna - trú á framtíðina - og að þetta sé hægt.

Allar launahækkanir nú hækka skuldir langt umfram laun.

Verði ESB aðild ekki samþykkt - verður 100% annað bankahrun innan 4 ára, sem í raun þýddi þjóðargjaldþrot.

það er raunveruleikinn sem ætti að fara að ræða og búa þjóðina undir.

Geri aðilar það ekki - hefur ekkert breyst frá því fyrir hrun - þegar allt var talið í lagi - og þeir aðilar sem bentu á annað - lamdir niður.

Hvar er annars ESB / EVRU umræða innan samtaka atvinnulífsins eða innan launþegasamtakanna - þar er glymjandi þögn (nema hjá þér Guðmunur) - alla vega er þetta ekki á dagskrá fjölmiðla eða alminngs - frekar en fyrir hrun.

Þöggun á þessu sviði fyrir hrun kostaði það að - millistéttin er einganrlaus - vegna gengishruns og hækkunar á innlendum lánum. Ekkert slíkt varð innan evrulanda - s.s. Írlands.

Það er afar athyglisvert - að hagfræðideildir hinna ýmsu aðila hafa ekki einu sinni fyrir því að reikna út það tap sem gengisfallið olli - langt umfram jafnvægisgengi hefur kostað þjóðina - þó að það tap sé mesta tap sem hefur komið fyrir nokkra þjóð - einskonar kerfisbundin eignaupptaka - með samþykki þagnarinnar hinna ýmsu aðila.

Þvert á móti er aðilum talin trú um hvað landið sé heppið að hafa gjaldmiðil sem - stuðlar að slíkri eignaupptöku, m.a. hjá sjárvarútvegi - en þar hækkuðu skuldir um 250 milljarða.

Þá upphæð á sennilega að afskrifa,,, og senda svo launamönnum reikninginn, í gegnum bankana, á sama tíma og sú grein þaggar niður alla málefnlega umræðu um krónuna innan samtaka og utan.

Hafi aðilar vinnumarkaðarins ekki kjark til að taka á þessu máli núna - á að segja það - þannig að fólk geti fariða panta far úr landi - þeir sem komast - vegna kjarkleysis leiðtoga á hinum ýmsu stöðum á að taka á þessu máli.

Þetta er kjarni málsins.

Nafnlaus sagði...

Já núna er ég sammála þér í öllu.
Haltu áfram Guðmundur.
mbk.

Nafnlaus sagði...

Merkilegt hvað Guðmundi lætur það illa að virða aðrar skoðanir en sínar eigin. Samanber:Þessi athugasemd er líklega sú bjálfalegast sem hingað hefur borist.
Afhverju lokarðu ekki bara fyrir commentin. Þér er meinilla við aðrar skoðanir en þínar eigin. Ekki ólíkt því sem fyrri valdhafar ástunduðu einhv.konar skoðanakúgun. Ekki það sem Samfó boðaði vinaleg samræðu stjórnmál. Hér eru commentin alltaf full af dónaskap og einhverri reiði.

Unknown sagði...

Hvað er peningur?

Nafnlaus sagði...

18.24
Gjaldmiðils mál hafa griðarlega mikið með kjarabaráttu að gera Guðmundur. Hver hefur mælt á móti því? Það hefur bein áhrif á hlui eins og t.d. atvinnustig. Upptaka evru myndi sjálfkrafa þýða meira atvinnuleysi. Enginn mælir gegn því.

Það er og skrýtið hversu harðlega rafiðnaðarsambandið hefur gagnrýnt hagstjórn síðustu áratuga, ef kjör félagsmanna eru svona góð?

Ég minntist hvergi á fjárhagsstöðu rafiðnaðarsambandsins, og veit ekki hvers vegna GG var að nefna það eitthvað sérstaklega? Rekstur sambandsins og þeirra verkefna sem það hefur staðið að hefur örugglega alltaf verið í góðm málum.

Ástæða þess að ég svaraði þessari grein GG var sú ofurtrú á að upptaka evru myndi leysa hér öll vandamál, en eins og allir vita er ekki hægt að taka þann gjaldmiðil upp án þess að ganga í ESB.

Nafnlaus sagði...

Og við myndum þurfa að verja ætlað ERM2 gengi með erlendu lánsfé. Myndum líklega krassa út úr því með glæsibrag eins og Bretar úr ERM (Soros hasarinn).

Guðmundur sagði...

Það er svo einkennilegt að mönnum sem gagnrýna innihald pistils og fara svo í manninn sem skrifar pistilinn er svarað þá er brugðist við með einhverjum útúrsnúningum og við upplýst um getuleysið til málefnanlegrar umræðu.

Það er gagnrýnt að GG hafi skoðanir á öðrum málum en daglegum rekstri stéttarfélags, sem afskaplega barnaleg og bjálfaleg aths. Þegar á þettar er bent, er farið út og suður og bornar aðrar barnalegar sakir á undirritaðan.

Þegar bent er á að það sé gjaldmiðillin sem hafa ítrekað rýrt kjör launamanna og þar sé ekki við kjarasamninga að sakast og það sé hlutverk stéttarfélags að verja kaupmátt félagsmana er einnig farið út og suður í útúrsnúningum.

Ef menn eru að skrifa aths. þá verða þeir að búa sig undir að þeim sé svarað og ætlast til þess að þeir hafi dug í sér til þess að halda sér við málefnalega umræðu um málið, ekki flýja með þí að fara í manninn ekki boltann.

Nafnlaus sagði...

Nei krónan er ekki óvinur okkar, hún er bara það sem við viljum láta hana vera. Guðmundur þú ert hrifinn af Dönum, getum við ekki gert eins og þeir miðað krónuna við x margar evrur eins og Danir? Ég sakna umræðu frá ykkur ESB-mönnum um þetta. Það getur engin bannað okkur að gera þetta ekki einusinni ESB.

Guðmundur sagði...

Króna er mesti óvinur okkar launamanna. Við höfum allmörg bent á undanförnum árum að við gætum tekið strax upp dönsku krónuna eða jafnvel þá færeysku (sem er reyndar það sama).

Það er vitanlega eitt skilyrði sem þarf þá að uppfylla, það er að fyrir liggi samþykkt umsókn um aðild að ESB.

Þá mun Seðlabanki ESB verða bakhjarl krónuna eins og þeirrar dönsku og tryggja að frávik á genginu verði innan tiltekinna marka.

Ef við ætlum að halda úti krónuni kostar það okkur gríðarlega gjaldeyrisvarasjóði og við verðum og greiða af því gríðarlega vexti.

Þetta hefur margoft komið fram, m.a. í pistlum á þessari síðu

Nafnlaus sagði...

Þessi ríki Ítalía, Grikkland, Portúgal, Spánn og Írland eiga tvennt sameiginlegt stjórn efnhagsmála í ólestri og Evran bjargaði þeim ekki.

Sama hefði verið hér ef við hefðum haft Evru. Þettað er alltaf spurningin að hafa stjórn á sínum efnahagsmálum.
Simmi

Nafnlaus sagði...

Það er auðvitað hárrétt Sigmundur.

Vandi okkar, hins vegar, hefur löngum verið sá að gengi krónunnar okkar hefur ekkert haft með skynsemi almennings að gera, heldur fyrst og síðast stöðu stórhagsmunaafla í landinu.

Hversu oft hefur gengið ekki verið fellt þegar útvegur og fiskvinnsla er komin í vandræði vegna skuldsetningar?

Saga krónunnar er saga gjaldmiðils sem almenningur getur ekki reitt sig á vegna gífurlegs óstöðugleika
Þórir

Nafnlaus sagði...

Líka okkur sjálfum, við látum bjóða okkur hvað sem er. Vaxtaokur mun ekkert hverfa við það að við tökum upp evruna.

Við verslum í þessum okurbúðum og þær þrífast vel. Siðferði okkar sem þjóðar er svo lágt. Voru ekki allir að versla í Bónus , í ræktinni hjá Worldclass ofl ofl.

Þó vissi fólk um hvað hefði verið afskrifað eða skift um kennitölur.
Simmi

Nafnlaus sagði...

Afar góð grein,

Mikilvægasta krafan í komandi kjarasamningum - ætti að vera að Ísland komist inn í ERM2, strax og ESB samningar verði samþykktir.

Þetta er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar í samningum við ESB.

Verði samningar samþykktir, væri búið að koma þjóðinni í skjól alþjóðlegs gjaldmiðils. Þar með væri Seðlabanki ESB orðinn bakhjarl Íslands. Það eitt, skapar gríðarlegt traust á Íslandi á erlendum lánamörkuðum, þannig að ísl. fyrirtæki gætu fengið erl. lán á samkeppnishæfum vöxtum.

Þar með væri búið að skapa langtímaforsendur fyrir lækkun vaxta, afnámi vísitölu á lán, og að Íslendingar borgi bara eina íbúð fyrir eina - en borgi ekki eina auka íbúð vegna ónýts gjaldmiðils og vaxta og verðtryggingar.

Þetta væri gríðarleg kaupmátaraukning, sem jafngilti 100 þús kr. kaupmáttataukningu á mánuði til langframa, fyrir meðalaðila sem borgar af meðalíbúð.

Þessa kröfu verður að setja í forgang, og hún verður að fá umfjöllun.

Nafnlaus sagði...

Ástandið á Íslandi er sjúkt, fársjúkt. Íslendingar eru hræddir hver við annan og ef til vill með réttu. Klíkur lifa góðu lífi. Ísland er land þar sem ekki má orðinu halla, - þá hefst dilkadráttur með tilheyrandi dylgjum. Eitt dæmið um orðræðuna er flatskjáamasið.. hvernig tæki átti landinn að kaupa? Það var ekkert annað að fá!

Íslendingar kaupa helstu nauðsynjar sínar á tveimur "stöðum" - annars vegar þar sem styst er að fara og hins vegar þar sem talið er að verð sé hagstætt. Þetta gera allar þjóðir
Þórir

Nafnlaus sagði...

18.24
það þýðir ekkert að miða við kjör launafólks concrete við gengismál.

Hjá sumum skipta þessi mál miklu, á meðan þau skipta minna máli hjá öðrum.

Hjá kennurum aukast tekjur lítið við breytingu á gengi, hugsanlega breytast innkaup með hærra gengi.

Sjómenn bera meira úr býtum þegar gengi erlendra miðla styrkist. GG er auðvitað ekkert að huga að því að það séu til útflutningsgreinar.

Ál-far græða þegar heimsmarkaðsverð á áli hækkar.


Ferðaþjónustan hefur verið að gera góða hluti eftir að gengi krónunnar seig. Þeir kvarta ekki sem stendur.

GG er auðvitað lobbýisti fyrir sitt fólk. Hann situr í varatjórn lífeyrissjóðsins STAFA, þar sem t.d. eign sjóðsins í hlutabréfum hefur fallið um 75% og sér ekki enn fyrir endann á því. Hlutabréf voru um fjórðungur af eignasafni sjóðsins eftir því sem ég næst kemst. Líklega hefur GG patent lausn á því hvernig ESB aðild myndi redda slíku skipbroti?

Samræðustjórnmál átti að iðka af ákveðnum flokki hér fyrir nokkrum árum. Það fór fyrir lítið.

Sami flokkur lofaði gegnsæji í ákvarðanatöku og stjornsýslu. Það hljómar í dag eins og slappur brandari.

800 - 1000 milljarðar hafa fokið út um gluggann, úr höndunum á lífeyrissjóðunum. Þar er orðið lýðræði ekki til staðar. Voru það ekki lífeyrissjóðirnir sem fóðruðu bankana á peningum? Restin var síðan bara upptalað gengi sem ekkert var á bakvið. Lífeyrissjóðirnir bera meiri ábyrgð en menn gera sér ráð fyrir.

Líklega er best að hætta áður en þessu verður eytt líka!!!!!!!!!!!

Nafnlaus sagði...

Frábær grein Guðmundur.

Kjarni málsins í Visir.is hjá þér í dag. Þar er hinsvegar vísað í fortíðina.

En því miður er það einungis hálf sagan. Afleiðingar þess að hafna evru og ESB munu verða nýjar hörmungar, einangrun og fátækt og miklu mun meiri skaði en af krónunni í fortíð.

Ísland er á tímamótum.

Ef þessi orusta um möguleikann á að taka upp nýjan gjaldmiðil, eins og evru tapast - þá eru miklar hörmungar framundan.

Áhættustjórnun Íslands er því um valkosti í stefnumörkun.

Langsamlegasta öruggasta og árangursríkasta leiðin til björgunar frá ónýtum gjaldmiðili er evra og ESB.

Hinn valkosturinn er einangrun og langvarnadi fátækt og hrun. Þá verða mál eins og Icesafe - smámál,,,

Bankamenn voru gagnrýndir harðlega fyrir að taka glórulausa áhættu fyrir hrun.

En hvað með stefnumörkun og hegðum
stjórnenda Íslands á öllum stöðum.

Líklega afleiðing af því að hafan ESB og evru nú - er að þjóðin lendir í nýju bankaáfalli, og líklega gjaldþroti - og verður einangruð í fátækt í langan tíma.

Er það ekkert mál?

Eða er hegðunin stjórnenda Íslands á öllum stöðum, eins og hjá ábyrgðarlausum bankamönnum fyrir hrun - þar sem er ekkert spáð i hætturnar.

Þær hættur má ekki einusinni nefna eða ræða - frekar en fyrir hrun.

Er það ekkert mál að sigla þjóðinni - inn á svæði sem kostað getur þjóðargjaldþrot - þ.e. ef ekki verður tekin upp alvöru galdmiðill með aðild að ESB.

Eru stjórnendur Íslands ekkert betri en bankamenn fyrir hrun?

Nafnlaus sagði...

Sammála Guðmundur. Þessi króna okkar hefur verið eins og millusteinn um háls þjóðarinnar frá lýðveldisstofnun. Aldrei hafa neikvæð áhrif hennar verið meiri en síðasta aldarfjórðuninn. Besta kjarabót sem hægt er að veita alþýðu manna er að hér verði tekin upp tekin upp evra og Maastricht skilyrðin uppfyllt. Þá fyrst förum við að sjá raunverulegar kjarabætur
Friðrik

Nafnlaus sagði...

Einhver sem þorir ekki að koma fram undir nafni en merkir sig 18:24. Málflutningur hans er einhvert mesta bull sem sést hefur, samansúrruð rætinn endaleysa.

Allir sem hafa fylgst með vita að mestu fjármunir sem inn í landið komu og til bankanna voru einmitt vegna krónunnar og mikil vaxtamunar hér og erlendis. Þar var það króna sem var myllusteinnin um háls þjóðarinnar þegar bankarnir mokuðu svo þessum fjármunum inn í hagkerfið og bjuggu til bóluna.

Það voru fjárfestar víða um heim sem sem settu fjármuni sína hingað á vexti vegna þess hversu háir þeir voru. Um þetta hafa verið skrifaðar margar og vandaðar greinar. En greinilegt er hvernig hugarfar 18:24 er.

Engin fótur er fyrir því að lífeyrissjóðirnir hafi tapað þeirri tölu sem þessi maður nefnir. Hún er tilkominn úr snarrugluðum Excel skjali.

Guðmundur hefur verið varastjórnarmaður í Stöfum í 3 ár. Hann hafnaði að vera í framboði sem stjórnarmaður fyrir allmörgum árum, þó svo að líklega sé engin imeðal rafiðnaðarmanna sem hefur meiri þekkingu á lífeyrissjóðsmálum en hann og hann lét undan kröfum félaga sinna fyrir 3 árum. Líklega eiga fáir jafnmikið undir ða lífeyrissjóðurinn standi sig því Guðmundur hefur alla tíð greitt til sjóðsins og það er að styttast i að hann fari á lífeyri.

18:24 hlýtur að eiga við alvarleg vandamál að stríða sé litið til skrifa hans. Allavega er ekki heil brú í því sem hann ritar.
Þorri

Nafnlaus sagði...

Tek undir með Þorra. Hvað eiga þessi innlegg með það að gera sem er í pistlinum? Ekkert. Hann byrjar á því að Guðmundur eigi ekki að tala um önnnur mál en það sem snertir starfsemi stéttarfélags. Guðmundur rúllar honum upp og gerir góðlátlegt grín af honum.

En þá kemur 18:24 með venjubundið bull um lífeyrissjóði og tönglast á því að Guðmundur sé varamaður í lífeyrissjóð, var það mál til umræðu?

Guðmundur hefur verið varamaður í lífeyrissjóð frá því eftir Hrun. 18:24 er búinn að koma hingað inn reglulega í aths. kerfið og er greinilega þjakaður af neikvæðu hugarfari og búinn að loka sig af í heimatilbúnum fullyrðingum.

Ritstíll og orðlag hans er vel þekkjanlegt og allavega mörgum ljóst hver maðurinn er.
Félagsmaður í Rafiðnaðarsambandinu, sem er mjög ánægður með pistla Guðmundar og störf hans fyrir sambandið.

Ómar sagði...

Góð grein. Það er hins vegar einkenni þjóðernissinnanna að þeir velja jafnan hag (sumra) atvinnurekenda fram yfir hag launamanna.

Jón Guðmundsson sagði...

Þessi pistill hjá þér GG er ágætur en tekur ekkert á þeim lýðræðishalla sem er í ESB. En krafan í dag er meira lýðræði og aukið gegnsæi í allri stjórnsýslu. Fjármál ESB eru eins og lokuð bók. Tómt rugl sem virðist ekki þola dagsljósið. Ef ESB er lausn á hagsmunapoti og spillingu þá er ég Jóhanna Sigurðardóttir.