sunnudagur, 7. nóvember 2010

Litið yfir farinn veg

Nokkru eftir að ég hóf störf innan verkalýðshreyfingarinnar upp úr 1985 hitti ég forsvarsmenn annarra norrænna rafiðnaðarsambanda. Þar var m.a. rætt um kjarasamninga og fram kom að þeir hefðu samið um 2 – 4% launahækkanir. Við höfðum þá nýlega lokið samningum sem innifólu tæplega 40% launahækkanir og ég greindi þeim frá þessu með miklu stolti. Við stæðum töluvert framar en þeir. Viðbrögð þeirra komu mér í opna skjöldu, í stað viðurkenningar horfðu þeir sogmæddir á mig og spurðu „Hvað segirðu Guðmundur, voruð þið að semja um 40% launahækkun? Ef svo er þá hljótið þið að glíma við mjög alvarleg efnahags vandamál.“ Ég hef mikið lært síðan þá, búinn að fara á nokkra kúrsa í Háskólum í rekstrarstjórn, hagfræði og heimspeki, og skil í dag vel þeirra málflutning.

Við glímdum þá við nokkurra tuga prósenta verðbólgu og ég var að glíma við að koma mér upp litlu timburhúsi með aðstoð vina og vinnufélaga, mest í eigin vinnu eða skiptivinnu. Við hjónin höfðum þá klárað það að mestu að utan en allt ófrágengið að innan, búið að setja upp hluta af eldhúsinnréttingu og skrúfa niður klósettið. Þannig fluttum við inn, borðuðum Ora fiskibollur í öll mál, tókum engin frí, áttum tvo 10 ára bíla, sem ég hélt gangandi með viðgerðum fyrir utan húsið á kvöldin eftir langa vinnudaga. Manni tókst einhvernvegin að skrapa saman fyrir afborgunum af síhækkandi lánum og draga fram lífið með margskonar skuldbreytingum.

Reglulega birtust myndir af húsinu okkar í hinum vönduðu og sannleikselskandi dagblöðum og það kynnt sem glæsivilla verkalýðsforkólfs og hann æki um á Hondu og Cherokee jeppa, en þess gætt að minnast ekki á að samtals verðmæti bílanna var töluvert minna en ein ný Lada sport kostaði og húsið væri hálfklárað. Þar var fyrst árið 2005 að við kláruðum baðherbergið og þvottahúsið.

Stjórnmálamenn tóku sig til á þessum tíma og settu mjög hert lög um verkföll, sögðu að misvitrir verkalýðsforkólfar notuðu verkfallsvopnið til pólitískra afskipta og væru með því endurtekið að grípa fram fyrir hendurnar á réttkjörnum fulltrúum þjóðarinnar á hæstvirtu Alþingi. Þetta var í sumu rétt, en það þarf að endurskoða þessi lög og gera verkalýðsfélögum kleift að boða til útfunda og mótmæla, án þess að eiga yfir höfði sem uppsagnir starfsmanna, hýrudrátt, og stefnur um skaðabætur. Eftir þessa lagasetningu var einungis hægt að fara í verkfall eftir árangurlausar sáttatilraunir ríkissáttasemjara í kjaradeilum, undir engum öðrum kringumstæðum er hægt að boða til verkfalla. Síðan þá hefur þessi gerð stjórnmálamanna og fréttamanna hæðst að verkalýðshreyfingunni fyrir að vera orðin liðónýt. Það væri nú annað hér á árum áður, þá gengu verkalýðsforingjar um í gúmmístígvélum, tóku í nefið og helltu niður mjólk, skelltu sér í löng og góð verkföll til þess að efla félagsandann og sömdu reglulega um tugaprósenta launahækkanir.

Rafiðnaðarsambandið er þessa dagana að halda upp á 40 ára afmæli. Frá stofnun höfum við samið um tæplega 4000% launahækkanir, á sama tíma hefur danska sambandið samið um 330% launahækkanir, en þeir standa samt betur en við í kaupmætti. Í sjálfu sér segir þessi setning allt sem segja þarf um efnahagstjórnina hér á landi, en svo furðulegt sem það nú er þá voru sömu stjórnmálamenn endurkosnir til valda, og fréttamenn virðast alls ekki skilja svona augljósar og einfaldar staðreyndir, eða þeir séu leiddir áfram af einkennilegum. Taka endurtekið viðtöl við þá verkalýðsleiðtoga sem eru tilbúnir að skella sér í lýðskrumsgallanum og kóa með þessari gerð stjórnmálamanna og saka félaga sína og samstarfsmenn um að gera kjarasamninga sem eru verkalýðshreyfingunni til skammar.

Það er ekki hægt að skilja suma af þeim sem fjalla um kjaramál öðru vísi en svo að verkalýðhreyfingin semji við sjálfa sig um laun, og standi í vegi fyrir launahækkunum. Standi niður í Karphúsi og hrópi á vinnuveitendur, „Nei takk alls ekki meiri launahækkanir, nú er sko nóg komið af þeim.“ Meir að segja eru tveir verkalýðsforingjar reglulega í fjölmiðlum og halda þessu einnig fram. Og þetta birta fréttamenn athugasemdalaust allsgáðir. Og maður heyrir á kaffistofunum; „Hvers lags hyski er þetta fréttamannadót?“

Nú eru launamenn að undirbúa kjarasamninga og þessir stjórnmálamenn búnir að skipta yfir í hinn venjubundna málflutning vikurnar fyrir kjarasamninga um að verkalýðshreyfingin verði að sýna ábyrgð, er vælt utan í okkur eins og venjulega. Að venju kóa fréttamenn spjallþáttastjórnendur með og setja upp virðulegan svip, hella úr eyrunum, draga augað í pung og birta bullútreikninga um ofurlaun verkalýðsforkólfa.

Ætíð er það svo að daginn eftir að við höfum afgreitt kjarasamninga, skiptir þessi gerð stjórnmálamanna um gír og hæðist af verkalýðsforystunni um að gera arfaslaka kjarasamninga, launin sé þeim til minnkunar. En bak við tjöldin berjast þeir fyrir því að halda krónunni til þess að geta „blóðsúthellingalaust leiðrétt óábyrga kjarasamninga“ með því að fella gengið, svo notuð séu þeirra eigin orð. Alltaf eru tilbúnir nokkrir fréttamenn og spjallþáttastjórnendur til þess að taka þátt í því að níða niður samtök launamanna. Liðónýt samtök, en ekki talað um óábyrga liðónýta efnahagsstjórn, sem reglulega var leiðrétt með handstýrðum gjaldmiðli og jafnharðan ónýtt kjarabarátta launamanna.

Ef maður lítur tilbaka sjáum við að það eru sömu stjórnmálamenn og hafa verið við stjórnvölinn undanfarna áratugi, sem hvað harðast berjast þessa dagana fyrir því að halda í krónuna. Þrátt fyrir að þeir hafi keyrt efnahagslífið kyrfilega í þrot a.m.k. þrisvar á þessum tíma og í ábót tókst þeim að gera Seðlabankann gjaldþrota. En það eru þessir menn sem vilja halda í þá stöðu að geta viðhaldið möguleikum á eignaupptöku hjá launamönnum. Þetta eru sömu menn sem börðust við okkur í undanfara Þjóðarsáttar, en okkur tókst að þvinga stjórnmálamenn til þess að taka upp bætta efnahagsstjórn.

Það eru þessir menn sem börðust við launamenn um að flytja lífeyrissjóðina inn í bankanna, „Vildu ekki vera að greiða 10% skatt til verkalýðshreyfingarinnar“ eins og orðuðu það og fréttamennirnir kóuðu. Okkur tókst að hrinda áhlaupi þeirra með gríðarlegum átökum og maður spyr í dag hvar eignir lífeyrissjóðanna væru núna ef þetta hefði tekist hjá þingmönnum frjálshyggjunnar. Almennu lífeyrissjóðirnir eru einu fjármálastofnanirnar sem stóðu af sér Hrunið, sama má segja um verkalýðsfélögin og starfsemi þeirra. Um það er ekki fjallað í fréttum og spjallþáttum.

Mér er oft hugsað til þess tíma sem ég var að koma út á vinnumarkaðinn um 1970 eftir 6 ára nám, fékk vellaunaða vinnu og var þar að auki í 2 öðrum störfum, hafði mikil laun og vann alla daga vikunnar langt fram á kvöld. Á þessum tíma voru almennu lífeyrissjóðirnir stofnaðir. Eftir að hafa greitt 10% af háum launum mínum í rúm 10 ár nam innistæða mín árið 1980 um það bil verði eins lambalæris. Hvert fóru þeir fjármunir, peningar gufa ekki upp, við vitum öll hvaðan þessir milljarðar hinna 3.000 eigenda þeirra, eru komnir sem bjargað var með neyðarlögum Geirs Haarde.

Þá sögðu launamenn hingað og ekki lengra, þessa eignaupptöku valdhafanna á sparifé okkar verður að stöðva og það tókst. En núna er í raun sama staða uppi, þessi gerð stjórnmálamanna flytur margskonar tillögur þar sem þeir ætla að ráðstafa þessu sparifé launamanna og nýtt það til þess m.a. að greiða upp skuldir annarra og ýmissa annarra hluta. Ef menn voga sér að benda á að það sé andstætt lögum og stjórnarskrá, er manni gert að sitja undir málflutning sem ekki einu sinni væri tækur á málfundi í menntaskóla.

Misvitrir fréttamenn og spjallþáttastjórnendur mæta vitanlega á svæðið kóandi og fara mikinn í áróðrinum gegn samtökum launamanna. Er nema von að álit fólks á stjórnmálamönnum og fréttamönnum sé af skornum skammti?

Þessari gerð stjórnmálamanna tókst að keyra Ísland í þá stöðu að allar þjóðir þar á meðal Norðurlandaþjóðirnar neituðu algjörlega að lána eina einustu krónu til Íslands, nema tekið væri á efnahagsstjórn landsins. Vinur er sá sem til vamms segir og þeir treystu ekki íslenskum stjórnmálamönnum meir en svo að þeir settu það sem skilyrði að það yrði gert undir stjórn AGS. En svo ræðir þessi gerð stjórnmála- og fréttamanna um að reka AGS heim. Skilja menn ekki að þá gilda ekki lengur hin hagstæðu vaxtakjör og við verðum að endursemja um öll þessu lán, og þjóðin færi líklega endanlega á hausinn.

"Hverslags málflutningur er þetta, heyrir maður á kaffistofunum? Eru þessir menn svona illa að sér í efnahags- og kjaramálum eða er þetta allt með ráðum gert til þess að draga til sín völd og auð, skítt með það þó í valnum liggi 30 þús. heimili? "

Lesandi góður, ég er sannfærður um hvort á við.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hef engu við þetta að bæta
Guðmundur Rúnar