mánudagur, 15. nóvember 2010

Trúnaðarmenn

Rafiðnaðarsambandið hélt sín árlegu trúnaðarmannaráðstefnu í lok síðustu viku, ráðstefnuna sátu tæplega 100 trúnaðarmenn af vinnustöðum rafiðnaðarmanna víðsvegar um landið. Trúnaðarmenn eru hryggbeinið í starfsemi stéttarfélaga, tenging stjórna og starfsmanna viðkomandi stéttarfélags við vinnustaðina. Trúnaðarmannaráðstefnur eru lifandi og bráðfjörugir fundir, þar er tekist á um stefnur og málefni. Það sem gerir þá svo sérstaka er að þar eru samankomnir einstaklingar sem hafa mjög góða þekkingu á þeim málum sem til umræðu eru og hafa þjálfun í því að koma skoðun sinni á framfæri.

Það eru starfsmenn viðkomandi vinnustaðar sem kjósa sér trúnaðarmenn, að þeim kosningum koma ekki forsvarsmenn stéttarfélaga eða starfsmenn viðkomandi stéttarfélags. Trúnaðarmaður er einnig valinn af félögum sínum til þess að mæta á ráðstefnur þar sem stefnur stéttarfélaganna eru mótaðar. Þegar trúnaðarmaður hefur verið kjörinn standa honum til boða margskonar námskeið um regluverk vinnumarkaðarins, vinnuvernd og aðbúnað á vinnustað, kjarasamninga og gerð þeirra, grunnreglur í hagkerfinu og fleira.

Það er ekki auðvelt að vera trúnaðarmaður, hann er milliliður fyrirtækis og starfsmanna. Þetta er á báða bóga, starfsmenn með kröfur eða fyrirtækið vill breyta starfsháttum og hagræða. Oft er það svo að kröfur starfsmanna rekast á regluverkið eða fyrirtækin hafna því að verða við þeim. Einnig lenda trúnaðarmenn í því að takast á við andstyggilegar uppákomur þar sem verið er að hlunnfara starfsmenn.

Það er meirihluti félagsmanna sem afgreiðir kjarasamninga, ekki starfsmenn stéttarfélaganna eða trúnaðarmenn. Krónan og efnahagstjórnin hefur langmest um það að segja hvernig þróun kaupmáttar er, en samt er trúnaðarmönnum gert að sitja undir harkalegum ásökunum um slaka kjarasamninga og að regluverkið sem stjórnmálamenn setja sé ekki í samræmi við óskir starfsmanna.

Trúnaðarmenn verða því oft í hugum starfsmanna ímynd þess sem stendur í vegi þess að ýtrustu kröfur náðu ekki fram að ganga. Trúnaðarmenn semja ekki við sjálfa sig eða starfsmenn stéttarfélaga, viðsemjandinn er fyrirtæki, tryggingarfyrirtæki eða einhver eftirlitsstofnun hins opinbera.

Það andstyggilegasta sem ég upplifi er þegar stjórnarmaður stéttarfélags mætir í spjallþætti og lítilsvirðir trúnaðarmenn þessa mikilvægustu samstarfsmenn sína. Öll vitum við að greiðasta leiðin til þess að komast á síður blaðanna eða í spjallþætti er að smella saman andstyggilegri gagnrýni á verkalýðsfélögin. Sumir standast ekki þessa freistingu og eru fatir gestir í spjallþáttunum. Þeir hafa ekki haft erindi sem erfiði á fundum innan eigin stéttarfélags, sakir þess að sú gagnrýni sem þeir eru með stenst ekki nánari skoðun, er reist á röngum forsendum. Oft er það reyndar þannig að þeir mæta ekki á fundi, því þar er þeim gert að standa undir fullyrðingum sínum en geta það ekki.

Við heyrum frá þessum mönnum að þeir hafi jú farið á fund með 300 trúnaðarmönnum víðsvegar af landinu, en tillögur þeirra hafi ekki náð fram að ganga. Hinir þessir 299 trúnaðarmenn séu skoðanalaus og viljalaus verkfæri einhverrar klíku, fundurinn hafi verið Sirkus uppákoma, því hún hafi ekki tekið undir gagnrýni viðkomandi. Þessir menn virða gildandi lýðræðisreglur að vettugi, niðurstöður meirihlutans skipta þá engu.

Fréttamenn og spjallþáttastjórnendur taka alltaf viðtal við þennan eina sem er á móti öllum hinum. Ég hef oft sagt hér í pistlum að það sé áberandi að íslenskir spjallþáttastjórnendur velja sér viðmælendur með það sjónarmið að fá staðfestingu á eigin skoðun. Þeir hleypa ekki að öðrum sjónarmiðum. Lokast inn í sjálfhverfri veröld. Oft er það svo að fréttamenn og spjallþáttastjórnendur eru ekki félagsmenn í stéttarfélögum, eru verktakar. Standa ekki skil á launatengdum gjöldum til samfélagsins og vilja losna undan þeirri ábyrgð. En eins einkennilegt og það er þá eru þeir sífellt með kröfur gagnvart samfélaginu og samtökum um að þau geri eitthvað annað en meirihluti félagsmanna stéttarfélaganna hefur samþykkt.

Ég hef stundum bent að forystu stéttarfélags sé einfaldlega gert að framfylgja samþykktum meirihlutans, þar skipti engu hvaða skoðun formaðurinn hafi. Enda er það stundum svo að skoðanir hans hafa orðið undir í atkvæðagreiðslum. T.d. ber samninganefnd samkvæmt lögum að bera niðurstöðu í Karphúsinu undir félagsmenn, sem taka ákvörðun um hvort þeir samþykki niðurstöðuna eða hvort þeir ætli sér að fara í hörku og verkfall. Ég hef einungis atkvæðisrétt í kosningum um þann kjarasamning sem mín laun eru ákvörðuð eftir, Rafiðnaðarsambandið er með 15 aðra kjarasamninga.

Hún er ansi þreytt sú innistæðulausa klisja að fámenn sjálfvalin klíka stjórni öllu í verkalýðshreyfingunni. Við í RSÍ höfum t.d. ekkert með að gera hvernig aðrir stjórna sínum lífeyrissjóð eða hvernig þeir semja.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Orð í tíma töluð. Engu við þetta að bæta.

Nafnlaus sagði...

http://silfuregils.eyjan.is/ Þetta á kannski ekki heima hér, en fróðlegt væri að fá álit þitt, Guðmundur, á bréfi dr. Gunnars Tómassonar.

Nafnlaus sagði...

RÚV henti um daginn út fréttamönnum, vegna þess að með tengingu þeirra við tiltekin mál þóttu þeir óhæfir til þess að fjalla um mál á þeim vettvangi.

Hvað með spjallþáttastjórnendur og fréttamenn sem eru í vondum málum hvað varðar skuldsetningu og berjast gegn þátttöku í stéttarfélögum? Eru þeir hæfir til þess að fjalla um lífeyrissjóðina?
Kristinn

Nafnlaus sagði...

Flottur kallinn! takk fyrir góðan pistil.

Það virðist vera enn í tísku að það sé frjálst að níðast á verkalýðsfélögum og lífeyrissjóðum enda skríll hin mesti.

Tími til komin að snúa vörn í sókn enda eru verkalýðsfélög og lífeyrissjóðirnir það eina sem stendur eftir í rústum af þessu ný-frjálshyggju þjóðfélagi græðginnar!

Sigurður Þórðarson sagði...

Það er semsagt allt í góðu lagi, kæri Guðmundur?