föstudagur, 30. desember 2011

Ár vonbrigða

Það er viðtekin venja að líta yfir árið þegar áramótin nálgast. Hefur okkur hafi miðað eitthvað, hvers getum við vænst á næsta ári? Frá mínum sjónarhól er árið vonbrigði, töluverð vonbrigði. Ég bar töluverðar væntingar um að fjárfestingar færu í gang, hagkerfið tæki við sér og krónan myndi styrkjast, sem myndi leiða til betri stöðu heimilanna. Einnig var ég með væntingar um að umræðan yrði vandaðri, skrumararnir yrðu berskjaldaðir.

Allar þessar væntingar rak ég í pistlum tengdum kjaraviðræðum sem stóðu allan síðasta vetur.
Forsendur samninganna í vor byggðust á sömu áformum og voru í Stöðugleikasamningunum, auka árlegar fjárfestingar í atvinnulífinu um a.m.k. 100 milljarða og renna stoðum undir að hægt yrði að skapa 20 þús. störf á næstu 3 – 4 árum. Lögð voru drög að því hvernig hægt væri að ná tilbaka sama kaupmætti og við höfðum í ársbyrjun 2006. Óraunsætt að tala um það sem gerðist síðustu 20 mán. fyrir Hrun, það var innistæðulaus froða.

Að gefnu tilefni ætla ég að benda á að það var talað um margt annað en álver. En nokkrir álitsgjafar komast aldrei upp úr því spólfari, komast reyndar aldrei eitt eða neitt. Sýn þeirra takmarkast við síbilju innistæðulausra klisja.

En ríkisstjórn sem tekin er herskildi reglulega, veldur því að ekki tekst að skapa stöðugleika og stefnufestu. Skrumarar ráða of miklu.

Ekki er stjórnarandstaðan betri. Hún hefur það takmark eitt að splundra umræðunni með allskonar upphlaupum. Vera á móti öllu sem lagt er til og koma í veg fyrir að takist að bæta ástandið. Nú stendur hún berrössuð fyrir framan landslýð í Icesave málinu, og þeim skaða sem hún er búin að valda með lýðskrumi, svo maður tali nú ekki um verðtryggingarumræðuna.

Stjórnarandstöðuþingmenn leggja allt upp úr að komast í valdastólana nákvæmlega sama hvaða brögðum er beitt. Fullkomið ábyrgðarleysi enda mælist traust almennings á stjórnarandstöðunni innan við 7%. Ríkisstjórn sem er að glíma við risavanda og verður að taka mjög óvinsælar ákvarðanir mælist með næstum helmingi hærri tölu!! Og svo er tilkynnt að Flokkurinn sé búinn að vinna stórkostlega kosningasigur, hann sé með 40% af þessum 7%.

Mér hefur verið tíðrætt um hvernig ákveðnir aðilar sem voru í fararbroddi í Féflettingunni og aðilar á þeirra vegum hafa reglulega hent reyksprengjum inn í umræðuna og vísvitandi beint sjónum almennings frá því sem raunverulega gerðist. Með því hefur ítrekað reynt að hafa áhrif á fréttaskrif og umræður í spjallþáttum.

Margir þessara einstaklinga lifa í fullkominni höfnun, hafa ekki manndóm til þess að axla ábyrgð á eigin gjörðum. Lifa í sjálfskapaðri veröld umvafðir „kóurum“ sem nutu góðs af herfanginu og dreymir um að komast í sömu stöðu aftur. Þeir ætla að ríghalda í þær skýringar að það hafi verið heimskreppa, ekki íslensk kreppa sem olli efnahagslegum hamförum hér á landi. Hafna því að lesa Rannsóknarskýrsluna, og ætla að endurskrifa söguna eins og þeir vilja hafa hana.

Þingmenn lögðu rétt fyrir jól fram tillögu til þess að koma í veg fyrir að þeir væru kallaðir fyrir Landsdóm. Þeir hafa ekki burði til þess að mæta þar eiðssvarnir. Sama á við um nokkra af helstu Féfletturunum. Lögmenn þeirra vilja koma í veg fyrir að rannsóknir nái lengra og að dómsmál fari í gang.

Því miður hafa íslenskar fréttastofur ekki mannskap til þess að leggjast í mikla rannsóknarvinnu. En maður kemst ekki hjá því að gagnrýna fréttamatið, sem einkennist af upphlaupum, hasar, jafnvel þó við blasi að sá sem hasarinn skapi fari með tóma dellu. Eitthvað sem stenst enga skoðun. Umræðan verður ómarkviss.

Að mínu mati stendur Jón Gnarr og hans fólk vel, þetta á einnig við hin óflokksbundnu samtök sem unnu sigra í síðustu sveitarstjórnarkosningum víða um land. Þetta fólk hefur sýnt fram á að stjórnmálamenn sem koma úr uppeldisstöðvum Flokkanna hefur enga sérstaka hæfileika umfram aðra til þess að stjórna.

Jón Gnarr hefur unnið mikið og gott starf við að lagfæra hin gríðarlegu skemmdarverk sem Hanna Birna og hennar lið unnu. Skildu t.d. OR eftir í rúst.

Engin ummæli: