fimmtudagur, 9. febrúar 2012

Eldhaf

Eldhafið á nýja sviði Borgarleikshússins er virkilega góð sýning. Umjörðin er mjög vel unnin og styrkir mjög vel þann boðskap sem sýningunni er ætlað að koma á framfæri. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur og myndabandshönnun Arnars Steins Friðbjarnarsonar fá allar þær stjörnur sem í boði eru ásamt lýsingu Þórðar Orra Péturssonar og hljóði Halls Ingólfssonar.
Leikhópurinn stendur sig mjög vel og ætla ekki að gera upp á milli þeirra, þau eru öll mjög góð.

Þau skilaboð sem höfundurinn Waijdi Mouawad er að koma á framfæri þurfa engra útskýringa við, vettvangurinn hefur verið í daglegum fréttum undanfarin ár. Grimmd mannsins, tilgangsleysi átaka og svo hefndarþorstinn sem einkennir mannskepnuna. Áhorfendur komast ekki hjá því að horfa í spegil stóran hluta verksins, og það verður oft óþægilegt, mjög óþægilegt. Verkið er mjög vel skrifað og skilaboðunum er komið til okkar á einfaldan og magnþrungin hátt.

En mér fannst sumum atriðum ofaukið, ástæðulaust að endurtaka skilaboðin við vorum búinn að ná þeim. T.d. athafnir leyniskyttu og viðbjóður þeirrar iðju og sama á við um nokkur atriði. Sýningin er nálægt 3 tímum að lengd og maður verður kröfuharðari eftir því sem leiksýning verður lengri, það verður að vera tilgangur með því að lengja sýninguna.

Ég lenti í því að sitja inn í miðjum bekkjarhóp ungs fólks, greinilegt var að þau höfðu verið send þangað og sum þeirra höfðu nákvæmlega engan áhuga á því sem fram fór á sviðinu. Biðu eftir því að þetta væri búið. Tveir ungir menn sátu fyrir framan okkur og þeir voru að segja hvor öðrum gamansögur allt verkið og veltust um af hlátri á meðan á sviðinu fóru fram atriði þar sem mannskepnan sýndi sínar alverstu hliðar. Í sumum tilfellum báur viðbrögð þessa unga fólks merki sjálfsvarnar, það var ekki tilbúið að horfast í augu við innræti mannskepnunnar. Kannski skýringin á því að ég fór stundum að hugsa, já við erum búinn að fá þessi skilaboð, hvar eru þau næstu.

Kannski ekki fimm stjörnur, en næsti bær við.

Engin ummæli: