fimmtudagur, 9. febrúar 2012

Samhengi hlutanna

Undanfarið hefur umræðan verið undirlögð um lífeyrissjóðina og stjórnir þeirra. Hún hefur í nokkrum veigamiklum atriðum byggst á fullyrðingum sem ekki standast. Skýrsla þeirrar rannsóknarnefndar sem ríkissaksóknari skipaði er góð og upplýsandi. Þar koma fram margar þarfar ábendingar.

Sumir áberandi álitsgjafa virðast ganga út frá því að þáverandi stjórnum lífeyrissjóðanna hefði verið í lófa lagið að tapa ekki neinu við það kerfishrun, sem varð á Ísland í árslok 2008 og alþjóðlegri efnahagskreppu. Allir fjárfestar í heiminum töpuðu líka íslenskir lífeyrissjóðir, en það er spurning hversu mikið tapið hefði þurft að vera og örugglega hægt að skrifa langar greinar um það.

Mig langar til þess leggja smá innlegg í þessa umræðu, en á svo sem ekki von á því að það skili sér inn í fréttirnar. Tek það fram að ég var ekki stjórnarmaður á þessum tíma og ég hef aldrei þegið neina ferð á vegum fjármálafyrirtækja eða lífeyrissjóðsins, sama á við um þá stjórnarmenn sem ég starfa með.

Eru eigendur sparifjár skúrkar hrunsins?
Ég hef í þessu sambandi stundum bent á stöðu aldraðs föður míns. Hann var atvinnurekandi og greiddi aldrei í lífeyrissjóð. Hann seldi sitt litla fyrirtæki þegar hann komst á aldur og keypti fyrir ævisparnað sinn hlutabréf í bankanum sínum Landsbankanum. Í nóv. 2008 tapaði hann sínum lífeyrissjóð í heilu lagi.

Skilja má umræðuna í dag þannig að það sé hann sem hafi valdið falli bankans með því að hafa sett lífeyrissjóð sinn í bankann. Hann segist hingað til hafa skilið það á þann veg að ástæða falls bankanna og verðbréfamarkaðarins hefði verið að einhverjir náungar rændu bankana innanfrá. Í þessu sambandi má benda á marga sem fóru að tillögum bankanna og margra þingmanna, tóku út allan séreignarsparnað sinn og settu í bankasjóðina, þessir einstaklingar hafa glatað öllum sínum sparnaði.

Huliðshjúpur Seðlabanka og stjórnvalda yfir stöðu bankanna.
Ekkert í útgefnum gögnum frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum fram að Hruni gaf til kynna að bankarnir stæðu höllum fæti. Í febrúar 2008 kallaði þáverandi seðlabankastjóri nokkra ráðherra á fund og lýsti því að allir bankarnir stefndu í þrot, en í skýrslu Seðlabanka í byrjun júní 2008 kemur ekkert fram um þessa stöðu bankanna??!! En það virðast hafa verið samantekin ráð þessara aðila að sveipa bankakerfið huliðshjúp og velgengi hins íslenska efnahagsundurs haldið á lofti af hálfu Seðlabankans og ráðherrum.

Sparifjáreigendur og fjárfestar höfðu ekkert annað í höndum um stöðu bankanna en ársreikninga þeirra, sem reyndust vera ótrúverðugir pappírar, sbr. skýrslu RA. t.d. 17 kafla. og skýrslur eftirlitsaðilanna sögðu að þeir stæðust öll álagspróf. Stjórnendur sjóðanna þurftu að taka sínar ákvarðanir á grunvelli þessara gagna. Þegar ljóst var hvert stefndi voru „heit“ bréf ekki söluvara. Við skulum heldur ekki gleyma því að bankarnir voru með svipaða lánshæfiseinkunn og stærstu og öflugustu ríki heimsins.

Ég veit vel að það hefði verið hægt að minnka tapa sjóðanna töluvert, og reyndar tap almennings á sparfé sínu. En aðalforsenda þess að var að hæstvirtir stjórnendur efnahagsmála hefðu upplýst þjóðina í ársbyrjun hvert stefndi og gripið til viðeigandi ráðstafana. Það gerðu þeir ekki, og segjast hafa bjargað þjóðinni, Guð blessi Ísland.

Þjóðin vill að hún verði upplýst um þetta í vitnaleiðslum fyrir Landsdómi, en Alþingi virðist ætla að koma í veg fyrir það. Hvers vegna hafa þessir þingmenn ekki kallað eftir því að sérstök rannsóknarnefnd rannsaki hvort náin tengsl hafi verið milli þeirra þingmanna, sem staðfest hefur verið að hafi þegið stórar greiðslur frá m.a. bönkunum, við fjármálafyrirtækin? Hvers vegna hafa þingmenn ekki viljað láta skoða einkavæðingu bankanna? Nokkrir þeirra þingmanna sem eru þessa daga að gagnrýna stöðu lífeyrissjóðanna, voru með tillögur um að starfsemi þeirra væri óþörf, frekar ætti að setja alla lífeyrissjóðina inn í bankana. Hver væri staða lífeyrissjóðanna í dag ef það hefði verið gert?

Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að rekstrarkostnaður íslenska lífeyriskerfisins er með því lægsta sem þekkist. Sjóðsfélagar kröfðust þess að það væri lækkað enn frekar og það var gert. En ég veit að sumir stjórnarmenn telja að það hafi verið mestu mistök þeirra að ráða ekki fleiri starfsmenn til þess að efla greiningu á markaði.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru tengsl ráðandi stjórnmálamanna við bankana rakinn. Stjórnmálamenn afregluðu kerfið í staðinn fengu stjórnmálaflokkar og einstaka stjórnmálamenn það ríkulega endurgreitt eins og lýst er í 2. bindi, bls. 200-201 þar sem fjallað er um lán til stjórnmálamanna, og í 8. bindi bls. 164 – 170 þar sem fjallað er um styrki og boðsferðir til stjórnmálamanna og til stjórnmálaflokka.

Þegar bankarnir hrundu, kom í ljós að 10 þingmenn skulduðu bönkunum sem námu persónulegar skuldir þeirra við gömlu bankanna á bilinu 1 milljón evra til 40 milljóna. Meðal skuld þessara tíu þingmanna var 9.000.000 evra. Hve margir þingmenn skulduðu bönkunum t.d. meir en hálfa milljón evra eða meira kemur ekki fram í skýrslunni, né er vitað hvort lán gömlu bankanna til stjórnmálamanna yrðu endurgreidd eða afskrifuð.

Glötuð iðgjöld?
Í þeim lífeyrissjóð sem ég er í hefur uppsöfnuð nafnávöxtun frá árinu 1991 út árið 2010 verið um 180%. Þetta jafngildir að meðaltali 8,8% nafnávöxtun á ári
Hér mynd með þeirri formúlu sem notuð er. úr þeim reglum. Í stað þess að nota 5 ár notuð við 21 ár. Allar ávöxtunartölur frá 1991 hafa verið staðfestar af ytri endurskoðendum. Mér yfirsást reyndar að í texta stendur 1991 til 2010 en ekki 2011 eins og myndin ber með sér. Ef við notum 20 ár væri meðaltalið 9 %, sem gerir þetta bara betra.





Þeir sem telja að iðgjöld til margra ára séu glötuð geta því haldið ró sinni. En við ættum reyndar að ræða frekar hvað þessi ofboðslega ávöxtun segir okkur, það er verðbólgan sem allt er hér að kæfa. Erlendir sjóðir þurfa ekki svona ávöxtun vegna þess að þeir búa við stöðugt verðlag. Ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða er langt um betri en í flestum OECD ríkjum. Ef leiðrétt er fyrir verðbólgu er hún samt jákvæð, innlagt iðgjald á raunvirði er enn til staðar að viðbættum 32% í formi ávöxtunar.

Meðfylgjandi mynd sýnir að hrunárið 2008 tapaðist stór hluti af uppsöfnuðum vöxtum en ekki iðgjöldin.







Þrátt fyrir hrun og erfiðleika við að finna jákvæða fjárfestingarkosti hafa íslensku lífeyrissjóðirnir staðið undir því að greiða út lífeyri og reyndar hefur hann hækkað meir en umsamdar launahækkanir. Hlutdeild lífeyrissjóðanna í bótakerfinu hefur farið vaxandi, útgreiðslur lífeyrissjóðanna var jöfn Tryggingarstofnun um síðustu aldamót eða um 50 milljarðar komu frá hvorum aðila. Síðasta ár voru útgreiðslur lífeyrissjóðanna um 75 milljarðar á móti 50 milljörðum Tryggingarstofnunar og á næstu árum munu útgjöld lífeyrissjóðanna vaxa mjög hratt vegna þess að það eru stórir árgangar að komast á lífeyrisaldur.

Í fjölmörgum samþykktum launamanna er ein meginkrafna við gerð kjarasamninga viðunandi lífeyrir við lok starfsævinnar. Þeir sem gagnrýna þetta sem mest, er aftur á móti fólk sem ekki er í samtökum launamanna og vill helst greiða sem minnst til samfélagsins.

Hvítskúraðir englar
Hluti þjóðarinnar býr í þeirri stöðu að vera með ríkistryggð lífeyrisréttindi. Það eru uppi kröfur um að allir búi við svipaða stöðu. En þingmenn með sín ríkistryggðu lífeyrisréttindi sama á hverju gengur, að tala um að leggja niður sjóðasöfnun (brask) og vilja loka á inngreiðslur í kerfið.

Vitanlega hefði mátt gera ýmislegt öðruvísi og ekki allir hvítskúraðir englar eins og einn þingmaður hefur orðað það. En við þurfum yfirvegaða umræðu um hvernig við tökum á þessum vanda og hvernig við náum takmörkum okkar. Áttu menn virkilega von á því að hér hefði verið auðvelt að koma hlutnum þannig fyrir að ekki myndu tapast fjármunir þrátt fyrir fullkomið kerfishrun?

Kröfur um ávöxtun
Í þessu sambandi má minna á háværar kröfur sjóðsfélaga um ávöxtun. Kröfur um að vera ekki að vera ekki með of mikið fjármagn í ríkisbréfum, það gæfi alltof lága ávöxtun, sama gilti um sum af hinum erlendu bréfum sem lífeyrissjóðir keyptu. Það voru ekki bara íslenskir fjárfestar sem þetta gerðu, hingað streymdi erlent fjármagn vegna hárra vaxta.

Þeir fjárfestar sem ekki voru tilbúnir að kaupa bréf með þeim kvöðum sem í þeim voru urðu útundan. Þar voru ætíð bréfin með hæstu ávöxtunina og margir sjóðsfélagar fylgdust vel með þessu og skömmuðust yfir því ef lífeyrissjóðurinn komst ekki inn í þessi viðskipti. Jafnvel þó lífeyrissjóðirnir hefðu keypt öll ríkis- og sveitafélagabréf voru eftir um 700 milljarðar til að fjárfesta. Með kaupum á öllum þessum bréfum hefði að vísu verið hægt að leggja niður verðbréfamarkaðinn, eins skynsamlegt og það hefði nú verið.

Á þessum tíma voru daglega sérstakir þættir í fjölmiðlum um gengi bréfa á markaði. Þar var kynnt hvernig hægt var að ná fantaávöxtun og leiddi til þess að staða sjóðsfélaga var bætt töluvert.

Stjórnarmenn lífeyrissjóða
Í stjórnum lífeyrissjóða á almennum markaði eru um 6 tugir einstaklinga. Í þeim sjóð sem ég er í er þess krafist að allir stjórnarmenn séu sjóðsfélagar og ég fór í gegnum tvennar kosningar þar sem þátt tóku vel á annað hundrað sjóðsfélagar áður en ég náði kjöri í stjórn sjóðsins síðasta vor. Ég hef greitt í þennan lífeyrissjóð frá stofnun hans eða í 42 ár. Í samtryggingardeild og séreignardeild hans er allt mitt sparifé. Ég á því eins aðrir stjórnarmenn gríðarlega mikið undir því að vel takist til við ávöxtun og vörslu þessa sparifjár sem verður grundvöllur lífeyris míns komandi ár.

Þær fullyrðingar sem fram koma í hverjum fréttatímanum og spjallþættinum á fætur öðrum eru sumar hverjar ákaflega einkennilegar og reyndar meiðandi. Það væri ágætt ef fréttamenn og viðmælendur þeirra vildu útskýra fyrir okkur hvað þeir eigi við þegar þeir bera á okkur alla þessa stjórnarmenn, margir þeirra voru ekki í stjórnum á umræddu tímabili, en samt er alhæft um að þar fari hreinræktaðir glæpamenn sem hafi það eitt að markmiði að taka eigið sparifé og sólunda því á borðum spilavíta fjármálamarkaðarins og ferðast um í glysferðum þiggjandi mútur og ofurlaun. Margt af því sem fram kemur í skýrslunni er ekki nýtt það var rætt um það á síðustu ársfundum sjóðanna, það hefur verið tekið á sumum þessara vandamála nú þegar.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Langloka. Hrunið varð ekki til af sjálfu sér. Það varð til vegna þess hversu illa bankar og lífeyrissjóðir fóru með það fé sem þeim var treyst fyrir. Lánandi pétri og páli fé með litlum veðum í glórulausar fjárfestingar. Hrunið var orsök slakrar fjármálastjórnar þeirra sem fóru með peningana, en ekki afleiðingin. Af hverju prjóna þessir verkalýðsfurstar sig svona frá þessu? Af hverju viðurkenna þeir ekki einfaldlega að þeir klúðruðu málum eins og hægt er, segja af sér og bjóðast til að benda á hvernig sé hægt að gera betur?

Einn lífeyrissjóður stóð þetta af sér, lífeyrissjoður bankamanna. Kannski ekki skrýtið, þeir seldu öll sín bréf (til þeirra sem töpuðu) og lögðu peningana inn á 100% örugga innlánsreikninga með 15-20% ávöxtun þegar allt var að hrynja. Af hverju gerðu Guðmundur og co. í lífeyrissjóðunum þetta ekki líka?

Fólk er búið að missa trúna á þessa náunga sem eru í verkalýðshreyfingunni og samtökum atvinnulífsins. Það er sama hvað þetta lið segir hér eftir, enginn tekur mark á þeim.

Marinó G. Njálsson sagði...

Oft hef ég deilt á sýn Guðmundar á hlutina, en í þessu tilfelli get ég tekið undir flest það sem hann segir.

Rétt er það að eigendur sparifjár er ekki skúrkar hrunsins. Þeir eru miklu fremur þeir sem stjórnvöld ákváðu að ættu ekki að taka hrunið á sig ólíkt öllum hinum. Að mörgu leiti finnst mér staða þessa hóps verst af öllum þeim mismunandi hópum sem urðu fyrir tjóni af hruninu.

Rétt er að á árunum fyrir hrun var viðhöfð aðferð svepparæktar varðandi stóran hluta upplýsingargjafar um stöðu fjármálakerfisins (og er að hluta enn gert), þ.e. "keep them in the dark and feed them shit!"

Mér finnst það aftur vera orðaleikur að tala um að iðgjöld hafi ekki glatast, bara ávöxtun. Það er náttúrulega ekki rétt, þar sem iðgjöld voru notuð til að kaupa hlutabréf og skuldabréf. Þetta var ekki keypt fyrir ávöxtun sem aðrar fjárfestingar gáfu af sér. Raunar skiptir ekki máli hvort það var sem tapaðist. Mestu máli skiptir að lífeyrissjóðirnir töpuðu eignum sem áttu að ganga upp í réttindi sjóðfélaga.

Ég held að menn verði að horfast í augu við það, að tap almennu lífeyrissjóðanna lendir líka á skattborgurum. Ekki í formi inngreiðslna heldur sem annars vegar tapaðar skatttekjur og hins vegar aukin framlög til almannatrygginga, a.m.k. eins og kerfið er í dag. Kostnaður ríkisins af ríkisábyrgð á LSR/LH er því mun minni en mann vilja vera láta. Eins og kerfið er í dag rennur allt að 100% af greiðslum úr líferyissjóði aftur til ríkisins, annað hvort í formi skatta eða í formi lækkaðra útgjalda.

Lífeyrissjóðirnir villtust út af þeirri leið, að langtímaávöxtun skipti meira máli en skammtímaávinningur. Kröfur um mikla ávöxtun geta farið saman með því að henni sé náð til langstíma. Hrunið er skýrasta sönnun þess. Þeir lífeyrissjóðir sem töpuðu minnstu voru í langtímafjárfestingum á föstum vöxtum.

Hvernig menn eru nákvæmlega valdir inn í stjórnir sjóðanna skiptir ekki mestu máli meðan að viðkomandi er hæfur til setu. Ég hef ekki tekið undir það sjónarmið að seta launagreiðenda sé af hinu illa. Allt veltur á einstaklingnum. Þess fyrir utan er hæfi afstætt. Mestu skiptir að menn viðhafi fagleg vinnubrögð sem tryggi langtímahagsmuni. Mér liggur við að segja, að banna eigi fjárfestingar/ávöxtunarleiðir sem eingöngu er ætlað að tappa af einhverri tískubólu.

Rétt er það, að þeir sem lögðu sparnað sinn í hlutfé í góðum og gildum fyrirtækjum (eða það héldum við öll) þeir eru búnir að missa þann sparnað. Hef ég margoft mælt fyrir því að þessu fólki, þ.e. litlum hlutabréfaeigendum, væri bætt tjón sitt þó ekki nema að hluta.

Loks vil ég segja, að tími sé kominn til að slíðra sverðin og snúa bökum saman. Framundan er grettistak í viðreisn lífeyrissjóðanna og ekki minni í endurreisn trausts í samfélaginu. Vissulega þurfa einhverjir að stíga til hliðar, en þrátt fyrir allt verðum við að halda einhverjum "skúrkum" eftir í þeirri von að þeir hafi lært af reynslunni. Gleymum því ekki að við vorum að leggja 480 ma.kr. í menntunarkostnað þeirra.

Nafnlaus sagði...

Fín grein Guðmundur. ég man eftir því þegar ég vann uppá Keflavíkurflugvelli fyrir nokkrum árum, að þá hlógu menn að því hversu linur okkar sjóður var í að fjárfesta í bönkunum,höfðu jafnvel margir orð á því, að setja ætti þessa stjórnarmenn af. Nú hittir maður þessa menn sem skilja ekkert í því hvers vegna í ósköpunum menn voru að fjárfesta í þessum helvítis bönkum.
Georg Georgsson

Nafnlaus sagði...

Skýrslan um starfsemi lífeyrissjóðanna sökkar feitt. Ekki vegna þess sem í henni stendur heldur það sem vantar. Hún tekur ekki á boðsferðum, þar er ekkert sagt um það sem vel er gert og af lestri hennar virðist einna helst ráða að það séu tómir idjótar sem hafi stýrt sjóðunum í aðdraganda hrunsins. Já, jafnvel siðlausir andskotar sem ástundað hafi brask með lífeyri félaga sinna og umbjóðenda. Það er beinlínis látið að því liggja, án þess þó að segja það beint, að um glæpsamlegt athæfi verið að ræða.

Eftir að hafa kynnt mér málin held ég að ég að ég verði að vera þessari skilgreiningu ósammála. Ég þekki reyndar ekki til í öðrum lífeyrissjóðum en þeim sjóði sem ég greiði í verð að segja það að gagnrýnin er að mörgu leiti ósanngjörn. Þar starfar, eftir því sem ég best veit, grandvart og ærlegt lið með siðferðið í góðu lagi. Vissulega er hægt að gera athugasemdir við einstakar fjárfestingar, eftir á að hyggja. Já, það er alltaf gott að vera vitur eftir á!
Þorsteinn

Guðmundur sagði...

Bara svona til þess að hafa hlutina á hreinu þá bið ég menn sem senda inn aths. að halda sig við efnið.

Sumir sem senda inn aths. hafa greinilega ekki lesið pistilinn og gleyma sér í einhverju persónulegu skítkasti.

Bara svona til þess að hafa það líka á hreinu tilgangur þessa pistils er sá að benda á að það sé barnalegt að halda því fram að Hrunið sé sök þeirra sem sátu í stjórnum lífeyrissjóða á þessum tíma. Við hin séum öll saklaus.

Margt af því sem fram kemur í skýrslunni var þekkt í ársfundum í fyrra og það er búið að taka á sumum þeirra mála sem verið er að gagnrýna, það var skipt einnig um marga stjórnarmenn. Eða réttara sagt það voru margir stjórnarmenn sem ekki gáfu kost á sér.

Manni verður hálf flökurt þegar maður heyrir svo suma tala eins og þetta hafi skollið ofan af himnum án þess að nokkur hafi vitað um að lífyrissjóðirnir hefðu tapað fjármunum í Hruninu.

Það töpuðu allir fjármagnseigendur í Hruninu, sumir töpuðu öllu sínu og vel það.

Guðmundur sagði...

Ítreka það sem ég hef sagt um skoðanir sjóðsfélaga á árunum 2005 - 2008. Ég var á mörgum fundum á þessum tíma, athafnir þáverandi stjórnarmanna voru reyndar í fullkomnu samræmi við áberandi vilja sjóðsfélaga þá. Þó margir vilji ekki kannast við það í dag. Það á t.d. við ábendingar um að það væri mun hærri ávöxtun á íslenskum bréfum en einhverju erlendu drasli, svo ég rifji upp orð eins þeirra sem hefur hvað hæst þessa dagana.

Guðjón Jensson sagði...

Fyrir nokkrum árum var boðað til hluthafafundar í Exista. Eg setti mig í samband við þá lífeyrissjóði og vildi eiga samvinnu um að leggja fram tillögu á fundinum um takmörkun atkvæðaréttar. Enginn hafði áhuga né hafði einu sinni rænu á að sækja fundinn. Tillaga mín féll en önnur tillaga var samþykkt: Að auka hlutfé Exista um 50 milljarða án þess að ein einasta króna væri greidd inn í félagið!
Tillaga mín laut að því að tvenn skilyrði væru fyrir að atkvæðaréttur væri gildur:
1. að greitt hefði ferið fyrir hlutafé og:
2. að hlutafé væri ekki veðsett 24 mánuði fyrir atkvæðagreiðslu.
Hefði verið mætt af lífeyrissjó+ðunum mætti reikna með meira viðnámi gegn tillögu Bakkabræðra um þynningu hlutafjár. Í kjölfarið urðu hlutabréf í Exista nánast einskis virði.

Að eiga hlutabréf er eins og að vera varkár fjárbóndi. Það verður að fylgjast gjörla hvort fé skili sér af fjalli og gæta að hvað ollið hefur séu skil ekki viðunandi.

Góðar stundir.

Guðjón Jensson

Lúðvík Júlíusson sagði...

Sæll Guðmundur hvernig færðu það út að 180% uppsöfnuð nafnávöxtun frá 1991 til 2010 jafngildi 8,8% á ári?

Guðmundur sagði...

Meðalávöxtun er reiknuð skv. margfeldismeðaltali í samræmi við reglur FME nr. 55/2000 um ársreikninga lífeyrissjóða. Allar ávöxtunartölur frá 1991 hafa verið staðfestar af ytri endurskoðendum.

Einfalda meðaltalið er ekki mjög langt frá margfeldismeðaltali. 180/21 er 8,57, námundað 8,6% sem er þá 0,2% lægra.

Lúðvík Júlíusson sagði...

Þarf ekki að finna 21. rótina af 180% í stað þess að deila í 21? Er það ekki margfeldismeðaltal?

Hafa endurskoðendur staðfest töluna 8,8% og 8,6%?

Gætirðu sýnt mér hvar ég get fundið margfeldismeðaltalsútreikninga í ársskýrslu lífeyrissjóðs?

Guðmundur sagði...

Svarið er komið inn í texatann, Ég kann ekki að setja myndir inn í aths. dálkinn