miðvikudagur, 1. febrúar 2012

Óttinn við venjubundnar hefndaraðgerðir

Það er sífellt að koma betur fram hvaða stjórnmálamenn ætla sér að berjast gegn því að gerðar verði breytingar á því samfélagi sem við höfum búið í. Þrátt fyrir að hér hafi orðið fullkomið kerfishrun og tugir þúsunda heimila liggi í valnum á meðan tiltekin hópur hagnaðist og hefur haldið áfram að hagnast á falli krónunnar.

Kostnaðurinn vegna vegna hrunsins og afglapa í efnahagsstjórn er að venju að stærstum hluta tekinn í gegnum gengisfellingu krónunnar, sem síðan veldur okurvaxtakostnaði, sem endurspeglast einnig háu dagvöruverði.

Sá hópur sem berst gegn því að mál hrunsins verði gerð upp birtist okkur þessa dagana í hóp þeirra sem berst fyrir því að komið verði í veg fyrir að Landsdómur fái að ljúka sínum störfum.

Það er áberandi að þessi hinn sami hópur berst gegn öllum breytingum á íslensku samfélagi. Hann vill halda sínum tökum á samfélaginu og tryggja sína stöðu.

Vaxandi fjöldi fólks í því umhverfi sem ég starfa og lifi í er farinn að reikna með því að Sjálfstæðisflokkurinn nái völdum á næstunni. Maður heyrir fólk, þá sérstaklega fólk sem er að ljúka háskólanámi, æ oftar taka þannig til máls að það vilji ekki vera í þeim hóp sem berst fyrir því að hér verði uppgjör fyrir opnum tjöldum. Í þessu sambandi má benda á málflutning formanns lögmannafélagsins, hann endurspeglar þessi viðhorf ákaflega vel.

Fólk segir að það hafi ætíð verið þannig að þeir sem valdastéttin telji að standi fyrir sér hafa verið útilokaðir frá aðkomu að kjötkötlunum og góðum störfum. Í umræðum manna á milli er reiknað að venju með öflugum hefndaraðgerðum af hálfu sjálfstæðismanna gagnvart þeim sem hafa gagnrýnt hvert efnahagsstjórn flokksins leiddi landið.

Þetta endurspeglist vel í afstöðu nokkurra þingmanna og ráðherra, sem greinilega ætli ekki að taka áhættunni af því að verða fyrir hefndaraðgerðum sjálfstæðismanna þegar þeir komist til valda. Hér er vitanlega sérstaklega bent á þingmenn og ráðherra Samfylkingarinnar og svo maður tali nú ekki um ráðherra VG, sem hafa gengið í lið með Davíð Oddssyni.

Í þessum umræðum spá menn því að þeir sem hlýtt hafi kallinu og meðtekið þann boðskap sem ristjóri MBL boðar reikni með að fá að launum feita bita eins og t.d. sendiherrastöður eða góða bitlinga. Þannig hefur Ísland verið og gegn breytingum á því að tapa stöðunnu um að geta haldið herfanginu, almenning Íslands út af fyrir sig, berjast þessir menn.

Ég þarf ekki að telja upp þau nöfn sem eru nefnd í þessu sambandi, þau birtast daglega í öllum fréttum, þegar þessir hinir sömu reyna að færa fram rök fyrir því að Landsdómur eigi ekki að fá að ljúka sínum störfum.

Allir eigi að axla ábyrgð, en það blasir við að þeir eiga einungis við almenning í landinu ekki stjórnmála- og embættismenn.

Engin ummæli: