Leitin að sökudólgum hefur verið áberandi í umræðunni um efnahagshrunið á Íslandi. Nauðsynlegt er að rannsaka svo draga megi lærdóm af Hruninu. Harla einkennilegt að heyra ráðherra og þingmenn halda því fram að lífeyrissjóðirnir hafi pantað skýrslu og hún sé þess vegna ómarktæk.
Er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis ómarktæk? Eru dómar hæstaréttar ómarktækir? Hverjir eru það sem skipuðu rannsóknarnefnd Alþingis og hverjir skipa dómara?
Sjóðsfélagar fóru fram að á það eftir Hrun að athafnir stjórna og starfsmanna lífeyrissjóða yrðu rannsakaðar. Stjórnmálamenn gerðu þá ekkert með það, þá var farið fram á ríkissáttasemjari skipaði í nefndina. Hver skipar ríkissáttasemjara? Eru ráðherrar að halda því fram að hann sé í vasa stjórna lífeyrissjóðanna? Eru þingmenn og ráðherrar ekki að lýsa eigin nálgun á stjórn landsins? Er ekki ráðlegt að þetta fólk taki til við að vanda betur yfirlýsingar sínar? Hvers vegna er trúverðugleiki Alþingis í eins stafs tölu í skoðanakönnunum?
Spjallþáttastjórnendur og fréttastjórar velja ætíð til viðtals þann einstakling sem er neikvæðastur og er með litskrúðugustu upphrópanirnar. Þar skiptir engu hvort eitthvað vit sé í því sem sett er fram. Þetta er reyndar helsta ástæða þess að það tekur nú orðið ætíð um 2 -3 ár að ná umræðunni niður á vitrænt plan, sem er orðið eitt stærsta vandamál íslensks samfélags. Hver er helsti málsvari stjórnarandstöðunnar í fjölmiðlum þessa dagana? Er sá einstaklingur í hávegum hafður meðal þjóðarinnar sem traustur og trúverðugur álitsgjafi?
Það sem best tókst í hagstjórn á Íslandi er tvímælalaust uppbygging lífeyriskerfisins, þótt fyrirkomulagið hafi vissulega ekki verið fullkomið. Ýmsir aðilar vega að lífeyrissjóðakerfinu með tillögum um að verja sparnaðinum í pólitískar úthlutanir. Ráðherrar hafa komið fram í auknum mæli undanfarið með kröfur um að beina sparnaði sjóðanna í verkefni sem eru þeim þóknanleg í stað þess að lífeyrissjóðirnir fjárfesti með það að markmiði að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til áhættu.
Stjórnmálamenn eru komnir í ógöngur með það lífeyriskerfi sem þeir hafa búið sér og sínum. Það er að sliga mörg sveitarfélög og þeir vilja leysa hinn sjálfskapaða mörg hundruð milljarða skuldavanda lífeyrissjóða hins opinbera með því að þjóðnýta almenna lífeyrissjóðakerfið.
Hjá OECD er að finna tölu um lífeyriskerfi sem hlutfall af VLF á bilinu 2001-2010. Þegar þessi gögn eru skoðuð kemur í ljós að íslenska kerfið kemur næstverst út á bilinu 2007 til 2010. Ef tímabilið 2001-2010 er hins vegar skoðað kemur í ljós að íslenska kerfið kom langbest út.
Brýnasta verkefni í umbótum á lífeyrissjóðakerfinu er að breyta eignasamsetningu þess. Þrátt fyrir að það kalli á aukinn kostnað verður að gera ráð fyrir meiri rannsóknum sjóðanna á einstökum fjárfestingum, það kallar á aukinn rekstrarkostnað. Það á takmarka heimild til innlendra hlutabréfakaupa. Lítill íslenskur hlutabréfamarkaður kallar á hjarðhegðun og litla áhættudreifingu. Hann getur ekki einn borið uppi þær ábyrgu fjárfestingar sem lífeyrissjóðunum eru nauðsynlegar. Í fjárfestingur verður alltaf að taka áhættu og ekki undan því komist að eitthvað tapist, það er ekkert nýtt.
Stærsti vandinn sem steðjar að lífeyrissjóðakerfinu er slök ávöxtun, og það virðist ekki vera bjart framundan hvað það varðar. Skerðingar í lífeyriskerfinu kalla á aukin útgjöld ríkissjóðs vegna vaxandi útgjalda Tryggingarstofnunum. Ef gefa á eftir í ávöxtunarkröfu er verið að senda núverandi kostnað til næstu kynslóðar. Maður veltir oft fyrir hvort það sé borin von að ná upp vitrænni umræðu um lífeyriskerfið, það á að vera hægt að gera þá kröfu til þingmanna.
Það sem stendur helst í vegi fyrir eðlilegri uppbyggingu efnahagskerfisins eru gjaldeyrishöftin. Litlar líkur eru að við losnum endanlega við þau ef ekki verður skipt um gjaldmiðil. Gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir eðlilega áhættudreifingu lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðir og reyndar einnig sjóðsfélagar eru neyddir til að fjárfesta innanlands í vaxtastigi sem er haldið niðri með höftum. Gjaldeyrishöftin eru skapa ástand þar sem ávöxtun er reist að hluta til á froðu, eða röngum vöxtum.
Því lengri tíma sem gjaldeyrishöftin standa, því stærra verður höggið þegar þau verða losuð, ef tíminn verður langur getur höggið orðið þyngra en það varð í Hrunin. Ef við lítum í kringum okkur sjáum við hvernig þetta er að þróast.
Innstæður í bönkum hafa verið í sögulegu hámarki eftir Hrun. Mikið fjármagn leitar eftir öllum ávöxtunarmöguleikum, þ.á.m. á skuldabréfamarkað sem veldur mikilli lækkun á ávöxtunarkröfu á þeim markaði. Hættan á eignabólum fer vaxandi. Höftin (krónan) eru því í raun skattlagning á komandi kynslóðir, eða með öðrum orðum, það er verið að flytja kostnað vegna örorkubóta og lífeyris milli kynslóða.
2 ummæli:
Góð yfirveguð grein, þar sem athyglinni er beint að málefninu.
Ég held að vísu að vandi lífeyrissjóðakerfisins sé meira og stærra en þú lýsir, Guðmundur. Þetta er vandinn sem hlýst af verðspennu sem sjóðirnir óhjákvæmilega valda meðan þeir eru að stækka og spennufallið sem verður þegar þeir þurfa að selja.
Hvort nóg verði að afnema gjaldeyrishöftin, veit ég ekki. Raunar held ég að afnám þeirra gæti einmitt komið illa í bakið á lífeyrissjóðunum í formi verðbólgu sem leiðir sjálfkrafa af sér hærri skuldbindingar sjóðanna. Finna verður aðferð sem hleypir sjóðunum úr landi með fjármagn án þess að fella krónuna. Ein lausn er að við tökum upp alþjóðlega viðurkennda mynt, en það er ekki nóg nema jafnvægi komist á viðskiptajöfnuð þjóðarinnar.
Því liggur hundurinn grafinn í þessu með viðskiptajöfnuðinn. Leysum við ekki þann vanda, þá hjökkum við áfram í sama fari sveiflna í hagkerfinu, gengislækkunar krónunar, verðbólgu og svo framvegis.
Athyglisverð samantekt,
"Því lengri tíma sem gjaldeyrishöftin standa, því stærra verður höggið þegar þau verða losuð, ef tíminn verður langur getur höggið orðið þyngra en það varð í Hrunin. Ef við lítum í kringum okkur sjáum við hvernig þetta er að þróast.",,,
Vandin er hins vegar EKKI gjaldeyrishöftin - heldur ónýtur gjaldmiðill - sem er haldið uppi af gjaldeyrishöftum. Gjaldeyrishöftin eru þvi eins og björgunarflot á hriplekum smábat (krónunni) á opnu úthafi.
Verði gjaldeyrishöftum aflétt án þes að búið sé aðtaka upp annan gjaldmiðil - eða krónan komin í var af evrunni með aðild - eru 99% likur á öðru fjármálahruni - innan stutts tíma. Verði björgunarflotin fjarlægð - sekkur báturinn.
Þetta er hinn kaldi raunveruleiki sem aðilar ættu að fara að ræða - og hafa í huga að einungis fyrir rúmum 3 árum hrundi gjalmiðillinn - vegna þess hversu smár hann er og viðkvæmur fyrir öllum áhrinfum - innlendum sem erlendum - skort á trausti - og fjármagnsflótta innlendra sem erlendra aðila frá krónunni.
Því lengri tím sem líður þar til annar gjaldmiðill er tekinn upp - því meir aukast líkur á öðru hruni.
Skrifa ummæli