miðvikudagur, 15. febrúar 2012

Enn um sameiningu lífeyrissjóða

Nokkrir hafa túlkað síðustu pistla mína á þann veg að ég sé að finna því allt til foráttu að lífeyrissjóðum verði fækkað. Bendi vinsamlega á að sú afstaða kemur hvergi fram í umræddum pistlum.

Ég hef einungis verið að benda á að þetta er ekki eins einfalt og margir virðast telja. Samfara því að ég er næsta viss um að stórir hópar hafi takmarkaðan áhuga á að sameina alla sjóðina.

Það er tæknilega framkvæmanlegt að stefna á einn lífeyrissjóð, en menn verða þá að leggja það vel niður fyrir sér hversu mikil réttindi þessi sjóður eigi að veita, og þá er hægt að reikna í hversu hátt iðgjaldið þurfi að vera.

Ég hef bent á að menn verða þá að reikna með að sumir hópar muni örugglega velja að loka sínum sjóð, frekar en að hann renni inn í einn sameinaðan sjóð. Þar munu viðkomandi sjóðsfélagar vísa til stjórnarskrárvarins eignarréttar og hafna skerðingum. Það er reyndar tekið fram í lögum að sameiningar sem valdi skerðingum eins hóps umfram annarra, eru bannaðar.

Ég tel raunsætt til að byrja með, að stefna á 4 – 5 sjóði á einhverjum tilteknum tíma, eigi að nást þokkaleg sátt um málið. Ég viðurkenni reyndar mínar efasemdir um að menn nái svo stóru skrefi í fyrstu umferð, líklegra væri að fækka þeim um helming.

Í þessu sambandi má einnig velta fyrir sér hvers vegna þessi mismunandi staða lífeyrisjóðanna er þvísumir virðast halda að það sé stjórnendum sjóðanna að kenna.

Fámennið hefur ekkert með það að gera eins og sumir benda á sem helstu ástæðu þess að hér eigi að vera einn lífeyrissjóður. Íslenskt samfélag er vitanlega nákvæmlega jafn fjölbreytilegt og sambærileg vestræn samfélög og munur milli hópa jafnmikill.

Þar má benda á að í sumum starfsstéttum hefur örorka vaxið mun meir en gert var ráð fyrir í upphafi og valdið því að útgjöld nokkurra lífeyrissjóða hafa tvöfaldast vegna þessa liðar um fram aðra. Sama á við um meðalaldur kvenna, hann hefur hækkað um mörg ár umfram það sem gert var ráð fyrir við stofnun sjóðanna. Í fyrstu óx meðalaldur kvenna mun meir en karla, en þeir hafa verið að draga á þær nú síðusut ár. En hvert ár sem meðaladur hækkar kostar gríðarlega mikið.

Það er þessi þróun sem hefur gert það að verkum að sumir sjóðir hafa orðið að skerða mun meir en aðrir, ekki bara lífeyri heldur auk þess réttindi. Það er þarna sem hin mikli munur hefur myndast milli almennu sjóðanna.

En svo eru það opinberu og sveitarstjórnarsjóðirnir þar eru það ákvarðanir stjórnmálamanna og inngrip þeirra inn í eigin lífeyriskerfi sem hafa valdið vaxandi mismun milli opinberu sjóðanna og hinna almennu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þú bjartsýnn með 5.
10 - 12 væri nærri lagi í fyrstu umferð.
ÓS

Nafnlaus sagði...

Já er sammála um að helmings fækkun væri raunhæfast. Svo er sjá til hvernig tekst til.

Kv Simmi