þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Einn lífeyrissjóður

Eitt af því sem oft heyrist hjá gagnrýnendum lífeyriskerfisins er spurning um hvers vegna ekki sé einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Tillögur eru oft settar fram án þess að afleiðingar séu skoðaðar. Ef síðan einhver vogar sér að benda á einhverja vankanta, er viðkomandi samstundis úthrópaður og gerðar upp einhverjar ankannalegar skoðanir. En ég ætla nú samt að benda á nokkur atriði sem menn komast ekki hjá að taka með inn í umræðuna.

Tek sérstaklega fram að ég er ekki leggja eitt eða annað til í þessum efnum, einungis að benda á nokkur atriði sem menn verða að huga að þegar þessi mál eru rædd.

Við rafiðnaðarmenn höfum tvisvar gengið í gegnum sameiningar með okkar lífeyrissjóð, það er ákaflega flókinn hlutur og þar bar réttindakerfið hæst í umræðunni. Réttinda- og ávinnslukerfi lífeyrissjóðanna eru töluvert mismunandi.

Vinsælir álitsgjafar skauta ætíð framhjá því að réttinda- og ávinnslukerfi lífeyrissjóðanna eri ákfalega mismunandi. Strax eftir nokkrar setningar er manni ljóst að þeir vita mjög lítið um hvað þeir eru að tala um. Iðgjald snýst ekki bara um lífeyrisgreiðslur, það er aðgangur að víðtæku tryggingarkerfi, með örorkubætur, makalífeyri og barnabætur, sá hluti samsvarar líklega nálægt 4 - 6% tekjuskattsstofni og lífeyrishlutinn 8 - 10% tekjuskattsstofni.

Ef sameina á alla lífeyrissjóðina í einn, verður ekki komist hjá því að taka ákvörðun um hvort menn ætli sér að skerða réttindi hjá einhverjum hópum. Eða hið gagnstæða að færa þá sem hafa minni réttindi upp, eðli málsins samkvæmt er það ekki framkvæmanlegt nema að hækka iðgjöldin umtalsvert hjá þeim sem búa við lakari réttindi.

Hér minni ég á að Fjármálaeftirlitið hefur gefið það út að það verði að hækka iðgjald opinberu sjóðanna upp í 19% eigi þessir sjóðir að vera sjálfbærir, ef jafna á t.d. lífeyrisréttindi láglaunafólks á almennum markaði þarf að hækka iðgjöld þeirra frá 12% upp í þessa tölu.

Ég fullyrði að stórir hópar myndu aldrei samþykkja að iðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað um allt að 7%. Ef það yrði gert yrði það líklega verða gert með því að fella 4% séreignariðgjaldið inn í samtryggingariðgjaldið. Ásamt því að næsta kauphækkun yrði að auki tekinn inn í iðgjaldið. Hið gagnstæða hefur verið áberandi krafa hjá stórum hópum, séreignin verði stækkuð á kostnað samtryggingarhlutans.

Samhliða þessu má benda á það sem hefur komið fram hjá þeim sem búa við bestu lífeyrisréttindin. Þeir munu berjast kröftuglega gegn því að þeirra lífeyrisréttindi verði skert.
Ef menn sameina lífeyrissjóðina án þess að breyta iðgjöldum, er það ekki framkvæmanlegt án þess að einhverjir hópar verði að sætta sig við umtalsverðar skerðingar. Þar má t.d. benda á að jafnvel þó „einungis“ almennu lífeyrissjóðirnir yrðu sameinaðir í einn sjóð og iðgjaldið yrði óbreytt áfram, myndi það samt sem áður verða mikill vandi og framkalla miklar deilur.

Tryggingarfræðilega séð eru hópar á á vinnumarkaði ákaflega mismunandi. Þar er að finna ástæðu þess að sumir sjóðir geta verið með mun dýrari réttindakerfi en aðrir. Sameiningar gætu valdið allt að 20% skerðingu á réttindum hjá sumum. Með öðrum orðum það væri þá verið að flytja umtalsverðar eignir frá einum hóp til annarra. Einnig gæti það þýtt umtalsverðan flutning á fjármunum milli kynslóða. Ég er ekki að sjá að það gerist hávaðalaust.

Einum landslífeyrissjóð verður stjórnað af stjórnmálamönnum. Öll vitum við hver staða þeirra sjóða er sem þeir hafa stjórnað. Öll þekkjum við tillögur stjórnmálamanna um hvernig verja eigi eignum lífeyrissjóða í að efna kosningaloforð þeirra.

Hinir föstu álitsgjafar spjallþáttanna hafa þegar lagt það upp þannig að það eina sem standi í vegi fyrir sameiningu lífeyrissjóðanna séu valdasjúkir og gjörspilltir verkalýðsforkólfarmenn. Það er reyndar viðkvæði þeirra í öllum málum sem koma upp í umræðu um lífeyrissjóðina.

Aldrei er skoðað hvort einhver rök séu fyrir því sem þeir segja spjallþátt eftir spjallþátt. Bornar er mjög þungar sakir á fólk út í bæ og spjallþáttastjórnandi gerir ekkert til þess að kanna hvort einhver fótur sé fyrir þeim alvarlegu ásökunum.

Halda menn virkilega að öflugir hópar kjósi bara einhverja gjörspillta og getulausa lúða til forystu og láti þá svo afskiptalausa? Þetta er svo óendanlega barnalegt, en látið fara athugasemdalaust í loftið af mörgum spjallþáttastjórnendum, sem segir reyndar allt sem segja þarf um þá sjálfa.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sameiginlegan bankareikning fyrir alla landsmenn.
Sameiginlega bílasölu fyrir alla landsmenn.
Eina matvöruversun fyrir alla landsmenn.
Sameiginlega Álfheiði fyrir alla landsmenn.

Þetta er svo arfavitlaus tillaga að maður er eiginlega orðlaus og hefur það ástand þó ekki beinlínis þjakað mig um dagana.

ÞÚB

Marinó G. Njálsson sagði...

Tek undir með Guðmundi að lausnin er ekki einn lífeyrissjóður. Með því væri verið að setja öll eggin í eina körfu og búa til apparat sem réði öllu á íslenskum fjármálamarkaði. Nei, höfum sjóðina 3 - 5 en klippum á tengsl á milli þeirra að öllu öðru leiti en því sem lítur að umgjörð lífeyrismála. Sjóðirnir eiga að fá að vera í samkeppni um sjóðfélaga sem eiga þá á móti að geta valið á milli sjóða eða verið í fleiri en einum.

Óhjákvæmilegt er að fara í umfangsmikla endurskoðun á því hver raunveruleg réttindi sjóðfélagar hafa áunnið sér. Ekki hverju þeim var lofað, heldur hvers virði er það í raun og veru sem þeir greiddu inn. Síðan þarf að komast að niðurstöðu um hvernig hægt er að lágmarka skerðingu, hvort heldur yngri eða eldri sjóðfélaga standi eignir sjóðanna ekki undir skuldbindingum. Í þessa vinnu þarf að fara með því hugarfari að ná sáttum í þjóðfélaginu.

Nafnlaus sagði...

Tel að skylda beri almenning til lífeyrissparnaðar en það eigi að fara fram þannig að um persónulega eign sé að ræða líkt og er í USA og Þýskalandi.

Hvers vegna er það ekki til umræðu?

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekkert um hvort sjóðirnir eigi að vera 3-5. Veit fyrir víst að þeir eru of margir og hef stuðlað að því,að þeim hafi fækka til muna. En reynslan sýnir að það verður aðeins gert með faglegum innubrögðum og samvinnu margra.

Ólafur Sveinsson
TFÍ/Almenna

Guðmundur sagði...

Bara til þess að hafa það á hreinu þá hef ég ekki sagt eitt orð um það hvaða skoðun ég hef á því hvort og þá hversu mikið eigi að fækka sjóðum.

Ég er með þessum pistli, og reyndar áður, einungis að benda á að það sé kannski ekki eins einfalt og sumir vilja halda fram.

Guðmundur sagði...

Nafnlaus 13:46 ef um persónulega eign er að ræða þá er óþarfi að vera með lífeyriskerfi, þá er allt eins hægt að vera með persónulegar bankabækur.

Þær þjóðir sem hafa verið með gegnumstreymiskerfi eru að hverfa frá því yfir í uppsöfnunarkerfi með samtryggingarkerfi eins og Ísland hefur farið í fararbroddi fyrir.

Hvers vegna? Það hefur verið rakið í fréttum nánast daglega í allan vetur og má benda á Grikkland sem dæmium Gráhærðu árgangarnir verða sífellt fjölmennari í hlutfalli við skattgreiðendur og þau lönd sem eru með samskonar kerfi og þú talar um stefna hratt í gjaldþrot.


Þetta er reyndar rakið í pistlinum og hefur verið farið ítarlega í gegnum það í nokkrum pistlum hér áður á þessari síðu

Alfreð sagði...

Auðvitað á að fækka lífeyrissjóðum á Íslandi.
Það hlýtur að vera morgunljóst öllum sem hugsa sig um að það er nánast sénslaust að ná fram stærðarhagkvæmni þegar sjóðirnir eru ekki stærri en raun ber vitni, almennt er talið erlendis að alger lágmarksstærð sé 100.000 manns í sjóð. Þá er ég ekki að tala um þessu frægu gegnumstreymissjóði sem Guðmundi er svo tíðrætt um heldur séreigna og samtryggingasjóði eins og líka eru til víðsvegar t.d. á norðurlöndunum. það er öfgafáránlegt að vera að reka yfirbyggingu fyrir pínusjóði upp á nokkur þúsund meðlimi eins og tíðkast hér á landi, ef maður borgar ca. 20.000 í lífeyrissjóð á mánuði og yfirbyggingin í sjóðnum kostar 3 milljónir á mánuði þá fara greiðslur 150 meðlima í reksturinn sem greiðslur hinna þurfa að bera, það segir sig sjálft að þetta er ekki gott í 3.000 manna lífeyrissjóði.
Ég veit um eitt dæmi frá því hér á árum áður þar sem 30 manna lífeyrirsjóður var með starfsmann í fullu starfi og litla skrifstofu, það þarf ekki mikla kunnáttu til að vita að ekki varð mikil eignamyndun hjá þeim sjóðnum.
Það þarf að auka hagkvæmnina og það þarf að auka ábyrgðina í fjárfestingum og það þarf að fjarlægja vinnuveitendur úr stjórnum sjóðanna.

Nafnlaus sagði...

G 15:13
Ég veit að þetta er þræl flókið og seinlegt. Stærð,störf,staðsetning og ekki sist tilfinningar.
Þetta með 3-5 var ekki þitt.
ÓS

Nafnlaus sagði...

Það gengur heldur ekki upp að vera með 35 ára vinnuævi en að ætla að vera á góðum eftirlaunum í 20 ár og á skólastyrkjum og foreldrastyrkjum í 30 ár áður en vinnuæfin byrjar. Það er bara reikningsdæmi sem gengur ekki upp nema í ranglátum heimi.

Stefán Benediktsson sagði...

Það finnst nú æði mörgum ekki tiltökumál í dag að flytja eignir frá einum til annars