Samkvæmt málflutning ríkisstjórnar okkar er
Íslendingum búin sú sérstaða að elda mat úr ferskum landbúnaðarafurðum
frá íslenskum bændabýlum, andstætt því sem tíðkast annarsstaðar í Evrópu, þar eldar fólk
mat sinn úr hráum landbúnaðarafurðum þarlendra bænda.
Þetta gerir framleiðslu bænda niður í Evrópu, að
mati íslenskra ráðherra, hættulega jafnvel banvæna eins og þeir hafa ítrekað fullyrt og hafa þeir á þeim forsendum komið
í veg fyrir innflutning á hráu kjöti frá Evrópu til þess að tryggja að íslenskum heimilum standi til boða einungis ferskt kjöt, ekki hrátt og banvænt ESB kjöt.
Eftirlitsstofnun EFTA hefur sent formlega
áminningu til Íslands vegna innflutningsbannsins. Alþingi samþykkti árið 2009
að innleiða breytta matvælalöggjöf Evrópusambandsins í íslensk lög. Samkvæmt
EES-reglunum er íslenskum stjórnvöldum skylt að heimila innflutning á fersku kjöti.
Einar K. Guðfinnsson gekk þannig frá málum á sínum tíma þegar hann var landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, að innflutningsbann á kjöti frá Evrópskum bændum yrði afnumið, þá ekki síst sakir þess að það væru ríkir hagsmunir Íslendinga sjávarútvegsins að sömu matvælalög giltu á Íslandi og í ESB. Enda fer um 80% af okkar útflutning þangað og skiðti þetta gríðarlega miklu fyrir Ísland.
Guðni Ágústsson þáverandi landbúnaðarráðherra lét á sínum ráðherratíma Ólaf Oddgerissons dýralækni hjá Food Control Consultants í Bretlandi, vinna álitsgerð árið 2005. Eftir að hafa skoðað hana komst Guðni að sömu niðurstöðu og Einar kollegi hans, að semja ætti við ESB um afnám innflutningsbannsins. Ætla verður sé litið til ummæla Guðna að þar hafi allt verið koðað, einnig hugsanlega aukna hættu á sjúkdómum í mönnum og dýrum.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið lýsti því yfir í vikunni að það ætli að
grípa til varna og verjast atlögu ESA og
hefur ráðið andfætling okkar, nýsjálenskan sérfræðing, til að gera áhættumat vegna
innflutnings á hráum dýraafurðum til Íslands og á niðurstaða hans að liggja fyrir á
næsta ári.
Nú er það svo að tugir þúsunda Íslendinga fara
árlega til Evrópu í orlof, viðskiptaferðir eða að heimsækja ættingja og vini. Á
hinum Norðurlöndunum búa nálægt 30 þús. Íslendingar
og annarsstaðar í Evrópu búa nálægt 10 þús. Íslendingar. Engar fréttir hafa
komið fram um að þetta fólk hafi hlotið bráðan bana vegna matareitrunar á ferðum
sínum.
Í starfi mínu á námi undanfarna áratugi hef ég
dvalið um lengri og skemmri tíma niður í Evrópu, nokkur barna minna hafa ásamt
fjölskyldum sínum verið þar við nám og störf svo árum skiptir.
Ég hef hvergi orðið var við að Íslendingar hafi
hrunið niður vegna matareitrunar sem skapist sakir þess að niður í Evrópu eldi fólk úr hráu
kjöti í stað þess að elda mat sinn úr fersku
kjöti eins og það gerir þegar heim er komið.
„Svona er tvöfeldnin, svona er hræsnin. Þær
bakteríur lifa góðu lífi í pólitískum áróðri. Skínandi vitnisburð þess má finna
í búnaðarmálaþrasinu íslenzka. Þar aka menn seglum eftir vindi; til dæmis er
hrátt, innlent kjöt ævinlega kallað ferskt, en ferskt, erlent kjöt ævinlega
hrátt.“ skrifaði Hannes Pétursson skáld í grein fyrr á árinu.
2 ummæli:
Er hún Dr. Margrét sem vann á Keldum við búafárveikivarnir samála þessum skrifum ?
Rekur minni til þess að hafa heyrt hana og séð í sjónvarpinu Ruv. og þar skýrði hún þetta vel hvað væri í húfi fyrir okkar ræktuðu bú-stofna.
Sá málflutningur fjallaði um heilbrigði búfjár hér, ekki um hvort það sé í lagi að borða eldað Evrópskt kjöt. Einhverstaðar kom þar inn í líka, riðuveiki og eyðni sjúkdóma tengingar.
Haraldur
Er argumentið ekki það, að með því að banna innflutning á hráum kjötafurðum er hægt að sporna gegn innflutningi á sjúkdómum sem eru landlægir á meginlandinu en við höfum hingað til sloppið við?
Ormur
Skrifa ummæli