fimmtudagur, 31. október 2013

Kvikmyndin á Íslandi og Mánasteinn


Sjón ræddi í Kiljunni í gærkvöldi um nýju bókina sína Mánastein og kom inn á upphaf kvikmynda hér á landi. Mánasteinn er hreint út sagt sælgæti, fágaður gimsteinn.Bókin er stutt, liðlega 100 bls. algjörlega laus við innihaldslausa útúrdúra, en á örugglega eftir að vekja margvísleg viðbrögð lesenda.

Umfjöllunarefnið er mjög yfirgripsmikið og næsta víst að margir rithöfundar þyrftu umfangsmeiri bækur til þess að komast yfir sambærilegt efni. Stíll Sjón er úthugsaður, textinn hlaðin margskonar tengingum, sem eru með þeim hætti að þær kalla fram nýjan skilning við hvern endurlestur. En það er einmitt kostur bókarinnar og setur hana á stall með bestu bókum sem ég hef lesið lengi.

Í tilefni umfjöllunar Sjón um upphaf kvikmyndasýninga ætla ég að birta smá kafla úr bók sem ég vinn að þessa daga um þróun rafmagnsins hér á landi og samtaka rafiðnaðarmanna. Smá tilbreyting frá hinni pólitísku umræðu.

Í kjölfar þess að maðurinn náði valdi á rafmagninu upp úr miðri nítjándu öld komu fram margskonar raftæki. Rafmagnsperan er oftast talinn vera það tæki sem olli mestu breytingunum, en það voru fleiri tækniundur sem ná flugi um aldamótin 1900 Árið 1895 eru kynntar þrennar uppgötvanir sem eiga eftir að hafa mikil áhrif á tækniþróunina, Þjóðverjinn Wilhelm Conrad Röntgen eðlisfræðingur uppgötvar x-geislana og Guglielmo Marconi finnur upp aðferð til þess að senda loftskeyti og Lumiérebræður finna upp kvikmyndavélina

Saga kvikmynda hófst með því að menn reyndu að búa til vélar sem spiluðu marga ramma í röð en Thomas Alva Edison tók það besta úr öllum vélum og lét hanna mikið bætta tökuvél sem nefndist Kinetograph og sendi síðar fram nýja sýningarvél sem nefnd var Kinetoscope. Sú vél var ekki með myndvarpa, aðeins einn áhorfandi gat horft á litla rúðu í hverri sýningarvél.


Það voru tveir Danir, þeir Fernander og Hallseth, sem voru fyrstir til þess að sýna kvikmyndir hér á landi það var á Akureyri árið 1903. Þeir höfðu meðferðis hingað til lands sýningartæki og vöktu að vonum mikla athygli.

Filmunar höfðu að geyma mikil firn og töfrasýnir, sem landsmenn höfðu ekki áður augum litið og flykktust allir sem vettlingi gátu valdið á sýningar. Blaðið Norðurland skýrði frá sýningunum 27. júní 1903. Hvergi var dregið af í hástemmdum lýsingum og talað um „margbreytt prógramm og „fullorðið fólk sitji hugfangið eins og börn af fegurðinni og ráði sér þess á milli ekki fyrir hlátri.

Edwin S. Porter sýningarstjóri hjá Edison varð fyrstur manna til þess að nota víxlklippingar. Í The Great Train Robbery náði hann nýjum hæðum í spennu en áður höfðu sést. Síðasta atriði í þessari kvikmynd varð vel þekkt, þar horfir glæpamaðurinn beint í augu áhorfandans, beinir byssu sinni fram í salinn og tekur síðan í gikkinn. Þetta olli miklu uppnámi meðal áhorfenda og skelfingu lostnir flúðu margir þeirra út úr salnum og varð mikill troðningur við útganginn.

Aðsókn að kvikmyndasýningum fór stöðugt vaxandi, og sýningar voru haldnar viðstöðulaust, að undanskildum tveim mánuðum 1918, er spánska veikin geisaði, og hálfum mánuði árið 1921, þegar óttast var að veikin væri að koma upp aftur. Þær myndir, sem þóttu framúrskarandi góðar árið 1906, þættu áreiðanlega mjög broslegar nú til dags, því öll tækni var ákaflega léleg um þessar mundir.

Þegar kvikmyndahúsið Gamla bíó var opnað voru sýndar myndirnar „Vendetta“ og „Nautaat í Barcelona,“ „Hvíta rottan,“ frönsk einþáttamynd, var líka svo áhrifamikil, að margir karlmenn urðu að þerra tárin úr augunum að sýningu lokinni.

Ekki má heldur gleyma kvikmyndinni „Uppskurðir Dr. Doyens,“ sem sýnd var sérstaklega á eftir venjulega sýningarskrá, og kostaði aðgangur að henni 35 aura. Á meðan hún var sýnd leið daglega yfir 40-50 manns, og voru þeir „vaktir til lífsins“ aftur með Hofsmannsdropum. Þegar myndin hafði verið sýnd í viku, fór Jón Magnússon, bæjarfógeti, fram á það, að sýningum yrði hætt á henni og varð það úr.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir áhugaverða frásögn af upphafi kvikmyndasýninga á Íslandi, Guðmundur. Afar merkilegt að frumsýningin hafi átt sér stað á Akureyri árið 1903. Þetta atriði sýnir, hversu bærinn hefur verið talinn menningarlega og efnahagslega mikilvægur á þessum árum - kureyri talinn standa jafnfætis Reykjavík. Það væri sjálfsagt forvitnilegt rannsóknarefni fyrir félagsvísindafólk að kanna og komast að því, hvernig þessar erlendi kvikmyndir hafa haft áhrif á heimsmynd Íslendinga og jafnvel vakið löngun í brjósti þessar örsnauðu þjóðar við ysta haf að ná sama tæknilega þróunarstigi og sjá mátti á hvíta tjaldinu. Ég hlakka mikið til að lesa þessa bók sem þú segist vera með í smíðum um rafvæðingu Íslands. Á sumrin starfa ég sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn. Það sem þessum gestum okkar, erlendis frá, þykir afar merkilegt - og reyndar mér líka - er sú staðreynd, hversu snemma Íslendingar færðu sér ýmsar tækninýjungar í nyt, t. d. vélar í fiskiflotann. Með kveðju Orri Ólafur Magnússon