miðvikudagur, 2. júlí 2008

Ekki nákvæmt brot á sannleikanum

Ég hef nokkrum sinnum áður komið að því áður að hagfræðingar aðila vinnumarkaðs vöruðu við skattalækkunum á tímum ofurspennu í efnahagslífinu. Ekki bara vegna þess að það virkaði sem benzín á þennslubálið. Heldur hitt að þó tekjur ríkisins væru miklar við þennsluaðstæður og skiluðu tekjuafgang, þá þyrfti það ekki að þýða að svigrúm væri til skattalækkana. Nær væri að nýta fjármunina til þess að undirbúa lækkun flugs efnahagslífsins þannig að ekki yrði um harkalega brotlendingu að ræða.

Ef forsendur skattalækkunar væru miðaðar við tekjur ríkissjóð á spennutímum þá gæti svo farið eftir skattalækkun, að tekjur ríkissjóðs dyggðu ekki fyrir útgjöldum við eðlilega stöðu. Á þessar aðvaranir var ekki hlustað frekar en aðvaranir við að sleppa bönkunum lausum á lánamarkaði. Og efnhagsráðgjafarnir í hinum steinsteyptu líkingu ostsins neðst á Háaleitisbrautinni sendu okkur tóninn. Ég minni á þetta í kjölfar orða forsætisráðherra í fréttum í gærkvöldi að nú blasti það við að skerða þyrfti ríkisútgjöld verulega þar sem ljóst væri að tekjur ríkissjóðs dyggðu ekki fyrir útgjöldum vegna mikills samdráttar.

-----------------------------
Í þessu sambandi má einnig velta fyrir sér fréttum um grein virts bresks efnhagsspekulants, sem þekkir vel til allra aðstæðna hér, um stöðuna hér eftir ranga efnhagsstjórn, glórulausa skuldsetningu og eyðslu. Einkavæðingu banka grundvallaða á pólitískum hagsmunum, frekar en þekkingu á efnahagsforsendum. Og svo þeirri spá að stjórnarslit séu á næsta leiti, þar sem fólk sé búið að fá nóg að þessari efnahagsstefnu og vilji sveigja í átt til norrænna forsenda. Nú veit ég ekki hvort þessi efnhagsspekingur lesi Eyjuna, en allavega kannast maður við hvert einasta atriði í þessara vangaveltna.

------------------------------
"Ekki nákvæmt brot á samningi", segir menntamálaráðherra þegar borin voru undir hann ummæli Páls útvarpsstjóra. (Það á eftir að vísa oft í þessa setningu spái ég, hún er ódauðleg) Hið ónákvæma brot leiðir til uppsagna starfsfólks vegna þess að menntamálaráðuneytið stóð ekki við gerða samninga. Ég ætla að vísa til pistils gærdagsins um óskhyggju og ábyrgðarleysi stjórnmálamanna gagnvart starfsmönnum stofnana í eigu ríkissins.

------------------------------
Í lokin þá er enn verið að velta fyrir sér hver eigi nú Þjóðarsáttina, þar á meðal Guðni. Í því sambandi ætla ég að spyrja; Halda menn virkilega að stjórnmálamenn plati forystumenn verkalýðshreyfingarinnar, til þess að gera kjarasamninga upp á mun minni kauphækkanir en verðbólgan væri. Þeir geri kjarasamninga sem innifela töluverða kaupmáttarlækkun allan samningstíman meðvitundarlaust.

Undirbúningur Þjóðarsáttarsamninga hófst árið 1988. Það var Ásmundur Stefánsson sem hóf þessa vinnu með því að fara um allt land og funda með hverri einustu stjórn allra verkalýðsfélaga landsins og undirbúa þennan jarðveg. Það kostaði gríðarlega mikil átök innan verkalýðshreyfingarinnar að ná samstöðu um að leggja fram tillögur um kjarasamninga um skertan kaupmátt. Í þessu sambandi má minna á bráðabyrgðalög og andstöðu Sjálfstæðisflokksins við þau, sama gilti um afstöðu opinberra starfsmanna. En Ásmundi tókst smá saman að fá fleiri til fylgis við hugmyndir sínar. Hann náði góðum takti við forsvarsmenn Vinnuveitendasambandsins og áttu þeir ekki minni þátt í þessari vinnu. Það var ekki fyrr en árið 1990 sem búið var að vinna jarðveginn þannig að hægt var að kynna þessi mál fyrir ríkisstjórn og leggja fyrir hana tillögur í 10 liðum um markmið. Stjórnvöld tóku þessu sem himnasendingu því efnahagsmálin voru hreinlega í rúst á þeim tíma og fyrirtækin komin að fótum fram. Það kostaði síðan mikla baráttu næstu tvo ár að fá bæði stjórnmálamenn og eins alla aðila innan verkalýðshreyfingarinnar til þess að ganga í takt og klára dæmið.

Oftar en ekki þurftu aðila vinnumarkaðsins að fá stjórnmálamenn til þess að hætta við að hækka þjónustugjöld umfram sett mörk. Það þurfti að fara oft til bankanna og fá þá til þess að ganga í sama takt og lækka vexti. Sama gilti innan Vinnuveitendasambandsins þar var tekist á um að fá fyrirtækin til þess að halda verðlagi á seldri vöru og þjónustu innan settra marka. Og sama að fá verkalýðsfélögin öll til þess að sprengja ekki sett mörk við kaupkröfur. Þetta gera menn ekki meðvitundarlaust.

Þessi hégómafulla raupumræða forseta lýðveldisins og annarra stjórnmálamanna er ekki launamönnum og forsvarsmönnum fyrirtækjanna boðleg.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Sæll guðmundur. Já það var búið að tala um að þessar skatta lækkarnir væru bara vitleysa. Enn svo er svoldið skondið að hlusta á menn tala um ESB og Evru, þá er verið með hræðslu áróður að við gætum ekkert gert í stjórnun peningamála. Helst væri að auka atvinnuleysið ef eitthvað myndi bjáta á, það væri orðið eina hagstjórnar tækið. Þettað minnir mig á þegar talað var um kvótan áður fyrr, hann væri eina vitið til að stjórna veiðum, ef hann væri ekki færi allt á verst veg. Enn við meigum ekki tala um að allt sé á leiður niður til helv..Það er nóg sem liggur fyrir bæði í ný framkvæmdum og viðhaldi.Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Athyglisvert hvað ákveðinn hópur, þá sérstaklega vinstrimenn, virðist heillaður af ofbeldi. Að þeirra mati er ofbeldi eina rétta svarið við öllum vandamálum sem upp kunna að koma í þjóðfélaginu. En auðvitað má bara ríkið beita ofbeldi, ekki aðrir. Ef ríkinu vantar pening þá á að taka þá með valdi frá fólkinu í landinu. Auðvitað fráleitt að ríkið gæti aðhalds. Ríkisofbeldisdýrkendur er mesta meinsemd þjóðarinnar.