miðvikudagur, 9. júlí 2008

Umferðahnútar samgönguráðherra

Ferðast mikið um landið í einkaerindum og ekki minna vegna starfs míns. Skipulag umferðarmannvirkja er einkennilegt. Erfitt er að skilja hvers vegna ekki skuli vera gert neitt í því áratugum saman að koma þjóðveg 1 út fyrir Selfoss. Það eru margir sem ekki eiga þangað erindi, en öllum er gert að fara þar í gegn eftir helstu verzlunargötu staðarins á 0 – 30 km. hraða. Stundum tekur það svipaðan tíma að komast í gegnum Selfoss og aka langleiðina þangað.

Hvers vegna er ætlunin að tvöfalda Suðurlandsveginn á þeim eina kafla þar sem hann er í lagi, en láta mesta slysaspotta landsins og einn þann umferðarþyngsta vera áfram óbreyttan, leiðina milli Hveragerðis og Selfoss?

Af hverju er okkur gert að þurfa alltaf að aka eftir endilöngum Borgarnesbæ og prófa allar hraðahindranir í bænum? Af hverju þurfum við alltaf að leggja 20 km. lykkju á leið okkar til þess að aka í gegnum Blönduós?

Hvers vegna er ekkert gert í því að laga leiðina í gegnum Mosfellsbæ? Þar hefur samgönguráðherrum tekist einstaklega vel við að búa til myndarlegan umferðahnút á hverjum einasta sunnudagseftirmiðdegi frá maí fram í september.

Einn vörbíll valt á Miklubrautinni fyrir skömmu og þá stöðvaðist öll umferð um austurbæinn og nánast öll umferð út úr borginni til austurs og norðurs. Hvers vegna hefur það tekið 30 ár að leysa Sundabrautarvandann?

Hvers vegna hefur í engu verið sinnt að leggja brautir fyrir hjólreiðamenn með helstu leiðum um landið?

Svona mætti halda áfram í alllöngum pistli. Umferðamannvirki kosta mikla peninga það er rétt og ekki hefur samgönguráðherra takmarkalaust fjármagn. En það breytir því ekki að í mörgu hefði verið hægt að nýta fjármuni betur og ýta til hliðar hagsmunum fárra og kjördæmapoti.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

a) vegna þess að allur peningur sem fer til vegamála fer í kjördæmapot á Vestfjörðum og Austfjörðum, dýrustu mannvirkin eru þar sem fæstir nota þau, við hin sem búum við mestu umferðina mætum afgangi. Þökk sé þeirri lenzku að láta landsbyggðarþingmenn ALLTAF fá ráðherrastól samgöngu mála.

b) vegna þess að í alltof langan tíma voru vinstrimenn við völd í Reykjavík og þeir hata ekkert meira en að taka ákvarðanir og framkvæma "óafturkræfanlega" hluti, ergó - Sundabrautin verður aldrei að veruleika á meðan vinstrimenn fara með völd. Meirihlutinn í borginni núna er skipaður upp til hópa vinstrimönnum, þó þeir komi úr meintum hægriflokki. Sundabrautin verður ALDREI að veruleika, eins og Kristján Möller hefur ýjað að.

Jón Eiríksson sagði...

Í þessum málum hefur aldrei verið hugsað um landið sem eina heild.

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr!

kk.,
Sigfús