Hjálagt er erindi sem undirritaður flutti við kynningu á siðareglum ASÍ til stjórnamanna lífeyrissjóða.
Umfjöllun um lífeyrissjóðina í vetur var ákaflega grunn og byggðist að verulegi leiti á órökstuddum upphrópunum. Hinni venjubundnu aðferð að koma ábyrgð yfir á aðra, sem er ákaflega rík í íslendingum. Það er lögreglunni að kenna ef börnin okkar eru full niður í bæ um helgar. Það er sök kennarans ef börnin okkar fá lélegar einkunnir og aðgerðaleysi löggunnar um að kenna takist þér að ná heim á bílnum mínum, þó svo þú sért búinn að svolgra 6 tvöfalda.
Sjóðsfélagar komast ekki hjá því að horfast í augu við þær kröfur sem þeir hafa sett fram og rökstutt af miklum krafti. Hámarks ávöxtun. Ávöxtun sem sé vel yfir því sem ríkistryggð skuldabréf gefa af sér. Það hefur reyndar tekist og lífeyrissjóðir hafa ávaxtað sitt pund það vel að þeir hafa unnið upp það tímabilið frá 1970 – 1980 þegar eignir þeirra brunnu upp á verðbólgubálinu.
Sjóðsfélagar verða einnig að líta til þess ramma sem löggjafinn hefur sett lífeyrissjóðum hvað varðar fjárfestingar. Þriðjung í erlendum eignum og hitt í skráðum félögum eða tryggðum bréfum. Við lifum í örhagkerfi með takmörkuðum fjárfestingarkostum. Lífeyrissjóðirnir urðu í sumum tilfellum einfaldlega að taka áhættu ef þeir ætluðu að uppfylla kröfur sjóðsfélaga og samfélagsins um hámarksávöxtun.
Sjónarmið íslendinga hafa í vaxandi mæli um of einkennst af óábyrgri sjálfumgleði. Við séum fremst í heimi og hér sé spillingarlaust samfélag. Stjórnarþingmenn undanfarinna tvo áratuga hafa farið þar fremstir í flokki um að telja okkur í trú um þessa stöðu og skapað með því falskt öryggi og jafnvel kæruleysi.
Siðrof varð í samfélaginu og ríkjandi það viðhorf að sjálfsagt sé að hámarka sinn arð, sama hvaða aðferðum var beitt. Markaðshyggja og sérhyggja hefur verið vaxandi hér undir forystu frjálshyggjusjánarmiða með áherslu á eigin hagsmuni og frelsi til allra athafna, án þess að tillit sé tekið til hagsmuna annarra eða afleiðinga. Viðhorf margra hafa í sinni einföldustu mynd verið að allt sé réttlætanlegt, á meðan þú hlýtur ekki dóm í réttarsölum.
Í viðskiptum hér á landi hefur á undanförnum árum ekki verið gerður munur á Pókerspili þar sem blekkingar eru eðlilegur hluti leiksins og svo viðskiptum þar sem traust og siðferði á að ríkja. Staðan hefur oftar en ekki verið sú að það sé þér að kenna ef þú gerðir ekki ráð fyrir því að sá sem þú áttir viðskipti við beitti þig vísvitandi blekkingum.
Þessa dagana eru að birtast í fréttum lýsingar á því hvernig ráðandi aðilar í viðskiptalífi og um leið í bönkunum spiluðu á kerfið og beittu vísvitandi blekkingum. Fyrir liggja upplýsingar um að á sama tíma og sölumenn bankanna héldu fjárfestingarkostum að lífeyrissjóðum sem tryggum og góðum kostum, þar má t.d. nefna hluti í góðum og traustum fyrirtækjum eins og Flugleiðum eða Eimskipum eins og þessi fyrirtæki voru þegar þau voru í eðlilegum rekstri. En á sama tíma voru sömu aðilar að skipta þessum félögum upp og færa þaðan eignir og skuldsetja fyrirtækið.
Skyndilega án nokkurrar aðvörunar frá söludeildum bankanna áttu lífeyrissjóðir ekki hlutabréf í góðu fyrirtæki, en sátu uppi með hlutabréf í einhverju vafasömu og skuldsettu fjárfestingarfyrirtæki. Verðmætin voru horfin af yfirborði íslenskrar jarðar til skattaskjóla einhvers staðar út í heimi. Eftir stóð lífeyrissjóðurinn með verðlítil hlutabréf.
Siðareglur eru ekki lög og geta aldrei komið í stað þeirra. Það er ekki hægt að setja reglur um alla skapaða hluti. Eldhúsveggirnir myndu ekki duga ef við skrifuðum þar allt það sem börnin okkar mættu ekki gera. En við ölum þau upp við traust og siðferðilegt innsæi.
Það má með sanni segja að stjórnendur lífeyrissjóða hefðu mátt vera áberandi í umræðu um ábatasamninga bankanna, kaupréttarsamninga og ofurlaun. Þeir fjármunir sem í það runnu komu sannarlega fram í minni arði hlutahafa. Sama gilti starfslokasamninga og ráðningarsamninga. En starfsmönnum lífeyrissjóða eiga nokkra réttlætingu, þar vísa ég til þess sem ég sagði hér fyrr um örhagkerfið. Staðan hefur verið sú að ef lífeyrissjóður samsamaði sig ekki þeim leikreglum sem bankamenn og verðbréfasalar ástunduðu, þá stóð lífeyrissjóðunum einfaldlega ekki til boða kaup á ábatasömum bréfum.
Einnig er ástæða að minna á í þessu sambandi þau lög sem í gildi eru um takmörkun á erlendum fjárfestingum lífeyrissjóða og eins bann við kaupum á fasteignum.
Við í verkalýðshreyfingunni höfum mátt sitja undir ásökunum um nánast allt sem miður hefur farið. Ákvarðanir um fjárfestingar eru ekki teknar á skrifstofum verkalýðsfélaga, en við erum þó hinn eini aðili sem hefur axlað ábyrgð. Formaður VR varð að víkja. En án þess að ég ætli að dæma hans stöðu, þá er það þó ljóst að innan bankakerfisins og meðal opinberra embættismanna eru margir sem hafa unnið til mun víðtækari saka, en sitja enn sem fastast.
Vitanlega eigum við að geta gert okkur grein fyrir því hvort gjöf eða boð í einhverja glysferð sé í samræmi við stöðu okkar. Það á að vera óþarfi að setja um það reglur. Öllum hlýtur að vera ljóst að laxveiði hefur ekkert með fjárfestingar lífeyrissjóðs að gera, eða þaðan af síður knattspyrnuleikur í London þangað sem farið er á einkaþotu og ríkulegir málsverðir ásamt glæstum gistingum fylgja.
En það er samt sem áður nauðsyn að setja upp ramma. Viðhorf fylgja tíðaranda í samfélaginu og viðhorf árið 2007 eru allt önnur en í dag. Það er eðlilegt að nýta þann lærdóm sem við höfum á svo sársaukafullan hátt orðið fyrir. Eðlilegt að skrá hann niður sem minnismiða fyrir þá sem taka við af okkur.
Í vinnu lífeyrisnefndar ASÍ kom í ljós að flestar stjórnir lífeyrissjóðanna annað höfðu sett sér leiðandi reglur eða samþykkt að fylgja reglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar og vegvísis OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki um ábyrgan fyrirtækja rekstur. Einnig er ástæða að taka það fram að í vinnu nefndarinnar kom ekkert fram sem benti til annars en að stjórnarmenn nýttu eðlileg siðferðileg viðhorf við mat sitt við ákvarðanatöku. Á öllu er hægt að finna einhverja undantekningu, en það er ekkert sem hefur komið sem gefur tilefni til þeirra alhæfinga sem viðhafðar hafa verið. En það breytir engu um að ástæða er að setja leiðbeinandi reglur og eins að þessi vinna haldi áfram.
Hér eru þær reglur sem er full samstaða um að vinna eftir .
Miðstjórn ASÍ beinir því til stjórnarmanna í lífeyrissjóðum að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samfélagslega ábyrgð í fjarfestingum sjóðanna. Slík umræða er mikilvægur hluti af því endurmati sem nú fer fram í samfélaginu. Miðstjórn leggur til að unnið verði útfrá neðangreindum hugmyndum lífeyrisnefndar ASÍ að reglum um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar lífeyrissjóðanna en leggur jafnframt áherslu á mikilvægi áframhaldandi upplýstrar umræðu um innihald, tilgang og gildi slíkra reglna. Lagt er til að stofnuð verði sérstök Siðanefnd lífeyrissjóðanna á vettvangi Landssambands lífeyrissjóða sem fái það hlutverk að móta reglurnar áfram og fjalla um álitamál sem upp kunna að koma. Miðstjórn beinir því jafnframt til íslenskra stjórnvalda að þau beiti sér fyrir kynningu á framgangi Vegvísis OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki (OECD Guidelines for Multinational Enterprises) sem eru víðtækar fyrirmyndarreglur um ábyrgan fyrirtækjarekstur fyrir öll fyrirtæki.
Hugmyndir Lífeyrisnefndar ASÍ að reglum um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar lífeyrissjóðanna :
- Sjóðurinn tekur ekki þátt í fjárfestingum sem orka tvímælis út frá almennum siðferðisreglum.
Sjóðurinn leggur ítarlegt mat á fjárfestingarkosti sína og kappkostar að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru vel rekin og hafa jafnframt siðræn gildi að leiðarljósi. Í því felst m.a. að viðhafa góða stjórnunarhætti, sýna samfélagslega ábyrgð og ábyrgð í umhverfismálum- Sjóðurinn leggur áherslu á að þau fyrirtæki sem fjárfest er í starfi samkvæmt lögum og reglum, virði alþjóðlega sáttmála um mannréttindi, réttindi launafólks, barnavinnu og umhverfisvernd.
- Sjóðurinn leggur áherslu á að fyrirtæki sem fjárfest er í starfi innan ramma alþjóðlegra leiðbeinandi reglna, s.s. reglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar og vegvísis OECD fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki um ábyrgan fyrirtækja rekstur.
- Sjóðurinn leggur heildstætt mat á stjórnun og starfsemi fyrirtækis út frá þáttum á borð við: framleiðsluvörur þess, framleiðsluferli, sambandi við viðskiptavini, fyrirtækjamenningu, eignarhald og hagsmuni eigenda. Meðal annars metur sjóðurinn hvort fyrirtæki komi beint eða óbeint að framleiðslu á vopnum sem notuð eru á þann hátt að það brýtur gegn grundvallar mannréttindum.
- Sjóðurinn byggir mat sitt á opinberum upplýsingum og upplýsingum sem fyrirtækið sjálft veitir. Mat er lagt á afstöðu stjórnar og ábyrgð fyrirtækis og stjórnun með hliðsjón af ofangreindum þáttum.
- Sjóðurinn fylgir eftir öllum fjárfestingum sínum og skal ekki eiga hlut í fyrirtækjum sem uppfylla ekki reglur sjóðsins um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar.
- Sjóðurinn tekur tillit til ákvarðana Siðanefndar lífeyrissjóðanna og fjárfestir ekki í fyrirtækjum sem nefndin leggst gegn að fjárfest sé í.
- Sjóðurinn skal í árskýrslu sinni gera grein fyrir fjárfestingum sínum með sérstakri hliðsjón af stefnu í samfélagslega ábyrgum fjárfestingum.
2 ummæli:
Hvað með að reyna að minka rekstarkostnað lífeyrissjóðanna? Þeir eru með 4-5 milljarða í rekstarkostnað á ári hverju. Væri kannski hægt að ná einhverjum samlegðaráhrifum með því að vera bara með einn lífeyrissjóð á landinu.
Með slíkum sjóð væri líka kominn grundvöllur fyrir því að vera með beinar kosningar til æðstu embætta og hægt að hafa raunverulegar pólitískar umræður um hvaða stjórnunarstefnu eigi að vera á þessum stóra hlua af tekjum okkar.
Þar með kæmumst við líka út úr þessum miðalda hugsunarhætti að maður eigi að vera með lífeyrissparnað sinn í nýjum sjóði fyrir hverja vinnu sem maður fer í og þarmeð misst gjörsamlega alla yfirsýn yfir hversu mikið maður sé að spara til ellinnar.
Ef þið viljið meiri stuðning almennings þurfið þið að sætta ykkur við að sækjast eftir meiri þátttöku almennings.
Sæll Guðmundur,
Mikið er ég sammála þér um þetta og lífeyrissjóðsmálin. Þegar allt var á uppleið og lífeyrissjóðir sýndu mjög góða ávöxtun sagði enginn neitt. Fáir fjallar um ávöxtun lífeyrissjóðanna síðustu 5 - 10 ár.
Las líka bloggið þitt um þennan Ragnar Þór sem fór mikinn í þætti hjá hinum vafasama Agli í Silfri Egils. Og sem fær að valsa á ríkisfjölmiðli og enginn fær að koma með leiðréttingar eða athugasemdum. Þetta gengur ekki.
Gunnar Páll var settur af og þurfti að þola þvílíkar svívirðingar frá umræddum Ragnari Þór og þessum nýja formanni VR sem ataði Gunnari Páli aur, aðallega vegna setu hans í stjórn KB banka. Núverandi formaður VR (Kristinn Örn) hafði sáralítið fram að færa varðandi VR og búinn að bakka með það fáa sem hann fjallaði um.
Því miður er ástandið þannig að hengja skal mann og annan - sama hvað þeir hafa unnið sér til saka.
Næsta aftaka er bæjarstjóri Kópavogs.
Kveðja,
Hlöðver Örn Ólason
Skrifa ummæli