mánudagur, 15. júní 2009

Á brún hengiflugsins

Ég hef alloft komið að því hér á þessari síðu að forsenda endurreisnar er aðild að ESB. Ef ekki verður gripið til markvissra aðgerða strax þá mun endurreisn taka langan tíma og mun leiða til ennfrekari eignatilfærslu, langvarandi atvinnuleysi og óhóflegri skuldsetningu.

Aðilar vinnumarkaðs hafa lagt áherslu á að reynt verði hraða allri uppbyggingu og endurskoðun reksturs sveitarfélaga og ríkis verði látinn ganga hratt fyrir sig. Umsókn um aðild að ESB fyrir lok þessa mánaðar er ein helsta forsenda endurreisnar. Ganga þarf til samstarfs við Seðlabanka Evrópu til að treysta bakland og gengi krónunnar, þar til skipt verður um gjaldmiðil.

Þetta er nauðsynlegt ef takast á að reisa bankakerfið og koma á eðlilegum lánaviðskiptum. Byggja verður upp traust og trúverðugleika erlendis á íslenska gjaldeyris- og fjármálakerfinu til að endurreisa krónuna, þar til evra væri tekin upp. Þetta er forsenda þess að fá aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum.

Gjaldeyriskreppan er af þeirri stærðargráðu að við hana verður ekki ráðið nema til komi alþjóðleg aðstoð. Með umsókn um aðild að ESB og samstarfi við Seðlabanka Evrópu má gera krónuna af starfhæfum gjaldmiðli, þar til evra væri tekin upp og aflétta höftum á gjaldeyrismarkaði. Einungis með slíku samstarfi er það mögulegt.

Styrking krónunnar myndi létta verulega á greiðslubyrði vegna lána atvinnulífs, einstaklinga, sveitarfélaga og ríkis og forða því yfirvofandi miklum gjaldþrotum og draga umtalsvert úr þörf á niðurskurði í fjárlögum ríkisins. Styrking krónunnar er forsenda endurreisnar og um leið mikilvægasta leiðin til að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og að ná niður vöxtum á Íslandi.

Takist ekki að komast út úr gjaldeyriskreppunni á skömmum tíma vaxa líkur á því að gengið festist í allt of lágri stöðu. Það mun grafa undan verðgildi lífeyrissparnaðar landsmanna í íslenskum krónum miðað við verð í erlendum gjaldmiðlum. Með því siglum við inn í fátæktargildru til langs tíma. Eignatilfærsla innan þjóðfélagsins yrði stórfelldari og varanleg og er þó nóg fyrir. Þennan skaða verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum.

Því er svo mikilvægt að styrkja gengi krónunnar. Slíkt er einungis mögulegt með aðild að Evrópusambandinu og samstarfi við Seðlabanka Evrópu. Með slíku samstarfi mætti tryggja aðgengi að erlendu fjármagni og gengishækkun krónunnar. Það er forsenda þess að það takist að snúa spíralnum við svo hann fari að virka upp á við með endurreisn fjármálakerfisins, sem aftur er forsenda fyrir aðgengi að erlendu lánsfé og lánveitingum til atvinnulífs og heimila, sem kæmi hjólum atvinnulífs og hagvaxtar aftur í gang. Það að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný er algjör forsenda þess að ekki þurfi að skera eins mikið niður hjá ríki og sveitarfélögum.

Staðan á Íslandi er einsdæmi og afar slæm, við stöndum á brún hengiflugsins. Núverandi vandi er svo stór að við hann verður ekki ráðið nema með miklu meira samstarfi við alþjóðasamfélagið. Þess vegna er umsókn um aðild að Evrópusambandinu alger forsenda endurreisnar eins og núverandi stjórnvöld stefna að, þar sem slíkt myndi þegar í stað byggja upp traust og trúverðugleika sem er alger forsenda fyrir aðgengi að alþjóðlegu fjármagni. Annars munu niðurvirkandi spíraláhrifin valda enn meira hruni á næstunni, tíminn er mun skemmri en flestir átta sig á.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur
Veistu hvað ég held? Ég held að ef að það verður ekki farið fljótlega í það að koma einhverju réttlæti á í þessu samfélagi þá verður hér ekkert samfélag til að ganga í ESB.
Hér verða nokkrir "þjóðfélagsníðingar" sem stálu öllu steini léttara af hinum og síðan nokkur örvasa gamalmenni sem ekki komust í burtu.
Kveðja
Ásta

Nafnlaus sagði...

Sammála mati þínu.

Jón H. Eiríksson

Nafnlaus sagði...

Það eru bara engar forsemdur til styrkingar krónunnar.
Inn og útgreiðslur hagkerfisins eru ca í jafnvægi þannig að gengið núna er rétt gengi.
Til að gengið geti hækkað verður að borga niður skuldir, það á eftir að taka ca 10 ár að vinna eitthvað á skuldafjallinu

Nafnlaus sagði...

Segðu mér nú Guðmundur.
Eru einhver fordæmi fyrir þessu tilvonandi baklandi evrópska seðlabankans. Ég er búinn að vera að skoða stöðu annarra ríkja og reyna að finna út um hvað er verið að tala í þessu samhengi.

Mín niðurstaða er sú að það sem sífellt er vísað til í þessu efni sé svokallað ERM II fyrirkomulag. Þar fyrir eru danir [með öll mál í fínu standi] aðallega vegna þess að þeir hafa ávallt notað fastgengiskerfi. Þeir bera síðan sjálfir herkostnaðinn við gengisfestinguna þó að seðlabanki evrópu sé einskonar þrautavaralánveitandi á ögurstundum.

Önnur ríki sem hafa farið inn í ERM II hafa verið klár að öðru leyti í upptöku evrunnar en hafa ílenst þar eftir að forsendur brustu og þau uppfylltu ekki lengur svokölluð maastricht skilyrði.

Sem sagt - þetta fyrirkomulag er eingöngu hugsað sem lokastoppið fyrir umskipti yfir í evruna þar sem gengið er úr skugga um að gengi gjaldmiðla ríkjanna sé á réttu róli m.v stöðugan og sjálfbæran þjóðarbúskap. Þarna verður að vera í tvö ár.

Pólland stefnir t.d á upptöku evru eins fljótt og hægt er en hefur þurft að fresta þáttöku í ERM II, nú síðast eru þeir að vopna sig risastórum gjaldeyrisvarasjóðum til að standast prófið.

Guðmundur - ef það er enn þetta sem ríkisstjórnin ætlar að nota til að redda krónunni þá líst mér ekki á blikuna.

Séu menn að tala um eitthvað annað - hvað er það?

Bestu kveðjur.

Nafnlaus sagði...

Ganga þarf til samstarfs við Seðlabanka Evrópu til að treysta bakland og gengi krónunnar, þar til skipt verður um gjaldmiðil.

Af hverju ætti Seðlabanki Evrópu að verja fé til að verja og eða styrkja krónuna? Og hefur hann ekki verið að neita að gera það fyrir þjóðir sem þegar eru í EU?

Nafnlaus sagði...

Sannfæring þín dugar ekki ein og sér. Viltu vinsamlegast útskýra hvernig þetta gerist, sem þú lýsir: "Með umsókn um aðild að ESB og samstarfi við Seðlabanka Evrópu má gera krónuna af starfhæfum gjaldmiðli þar til evra væri tekin upp og aflétta höftum á gjaldeyrismarkaði."

Héðinn Björnsson sagði...

Við eigum ekki fyrir vaxtargreiðslum og ekkert við ESB mun breyta þeirri staðreynd. Gjaldþrot þjóðarbúsins er óumflýjanlegt, það er bara spurning um hvernig við ætlum að stýra því. Ef við neitum að horfast í augu við staðreyndirnar mun gjaldþrotið bara allt í einu gerast, án þess að við höfum neinn tíma til að búa okkur undir afleiðingarnar sem þýðir að þær munu verða miklu skelfilegri en þær þurfa að vera. Ef við bíðum þar til allt er komið í óefni með að semja um skuldaeftirgjöf við útlönd mun samfélagið okkar brenna upp í illdeilum eða holast af vaxargreiðslum þar til það fellur saman og verður misheppnað ríki. Undir núverandi vaxtarbyrgði verður ekki hægt að byggja hér samfélag.

Nafnlaus sagði...

Rétt mat Guðmundur.

Haltu ótrauður áfram að skrifa og hamra á þessu.

Það er svo mikill hræðslu-og bulláróður í gangi hjá sér-hagsmunadeildinni að almenningur virðist ekki gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt þetta ESB mál er hagsmunum þeirra beint.

Vilhjálmur Árnason sagði...

Þetta er frábært umræðuefni.
Við getum samið um gengið við aðrar þjóðir. Ekkert vesen..
Við þurfum ekki að ganga í ESB nema við viljum til þess að semja um gengi krónunnar við aðrar þjóðir. Við þurfum ekki að vera með krónuna á floti.
Það er best að taka hana af markaði krónan á ekki að,vera alþjóðleg mint.
Hverjum datt það í hug ?
Fór einhver vitiborinn maður með krónur til spánar ? og sagði einn servesa og skellti hundraðkall á borðið. Nei svona í álvöru þá er flotgengisstefnan og gengið algjör vitleisa..hún er fyrir spákaupmenn..við þurfum ekki að hafa þetta svona..það er alveg ljóst...
Þetta er ekki svona flókið.. Þetta þarf ekki að vera svona mikið vesen. Við verðum að gefast upp á flotgengisstefnunni. Taka upp fastgengisstefnu. .. semja um gengi krónununnar við önnur ríki.einhverstaðar upp og niðurfyrir 140.. að mínu viti er það óðarfi að fara í ESB til þess að gera þetta alveg eins og það er hægt og vel gerlegt að afnema verðtryggingu án þess að fara í ESB. Þetta virðist allt snúast um það að halda svikamillunni(Banka og sjóða)gangandi..alla leið inn í ESB en ekki gera neitt til að leysa málin þangað til..Það sem flestir snillingarnir sem vilja ESB gleyma er að verðtryggingin getur orðið að vegg sem þeir komast ekki yfir.inn í ESB..við náum ekki að uppfylla Mastrict með allar þessar vísitölverðbólguuskrúfur. Ef Samfylkinghefði forgangsraðað hlutunum hjá sér værum við löngu komin innn í ESB en sem betur fer eru þau búin að missa sénsinn sem þau fengu.Nú getum við gert eitthvað algjörlega nýtt og spennandi.
Núna er tími til að kalla alla kröfuhafa að borðinu og segja við getum alls ekki borgað af lánum sem greiða á í erlendri mint. Við verðum að viðurkenna stöðu okkar og borga það sem við getum ekkki það sem samningar fyrir hrun gáfu til kynna. Sá sem afnemur verðtrygginguna verður krýndur frelsari hagkerfisinns og sá sem frelsar heimilin úr ánauð. Þetta var nú dálítið dramatískur endir. En ég ætla að spá því að vísitalu neisluverðsútreikningar verðtryggingar verði frystar í sumar, annars verður blóðug bylting.