laugardagur, 20. júní 2009

Kjarkur og þor

Hún er áberandi sú skoðun hjá þeim mönnum sem starfa hjá efnahags- og markaðsstofnunum tengdum Evrópulöndum að innganga í ESB sé eina leið Íslands úr þeim vanda sem þjóðin á við að glíma. Íslendingar ráði einfaldlega ekki við stærsta vandann sem er öflun stuðnings við gjaldmiðilinn. Ef ekki verði tekið strax á þessum vanda þá blasi við enn meira hrun jafnvel gjaldþrot.

Það er kjarkur, þor, reynsla og tengsl okkar við nágrannalönd okkar, sem skiptir mestu máli. Í umræðum forsvarsmanna hinna norðurlandanna hefur komið fram skilningur á stöðu okkar. En þeir þurftu að beita hörku síðasta haust gagnvart þáverandi ríkisstjórn til þess að fá íslenska ráðherra til þess að horfast í augu við stöðuna og fá íslendinga til þess að takast á við vandann. Þeir höfðu reynt það árangurslaust með góðu í alllangan tíma þar á undan, það hefur svo glögglega komið fram í þeim gögnum sem hafa verið að birtast. Vinur er sá er til vamms segir.

Það þarf kjark til þess að stíga fyrstu skrefin í þeim björgunaraðgerðum sem mögulegar eru. Bresti okkar mönnum kjark í alþjóðlegum samningum mun vandinn magnast verulega - er hann þó nægur fyrir. Við sjáum hvernig fyrrverandi ráðherrar og stjórnarþingmenn láta þessa dagana. Þessi menn voru viðhlæjendur útrásarvíkinganna, jafnvel meðspilendur eins og rakið er í þeim bókum sem komið hafa út um málið.

Síðasta haust blasti öllum við ákvörðunarfælni þeirra og hvernig þeim brast kjark til þess að takast á við þann vanda sem þeir sjálfir áttu stærstan þátt í að skapa. Þetta kostaði heimilin, fyrirtækin og þjóðfélagið gríðarlegt eignartap. Almenning ofbauð svo hann fór út á götur og torg og hrakti ríkisstjórnina ásamt stjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits þá frá völdum. Tillögur þeirra báru og bera reyndar enn með sér skilningsleysi á efnahagsstjórn, þar má t.d. benda á tillögur um lífeyrissjóðina.

Samningar eru ekki unnir fyrirfram, það þekkja a.m.k. þeir sem setið hafi í Karphúsinu. Margir hafa misst af gríðarlegum tækifærum - vegna þess að þá skorti yfirsýn og kjark til að ganga til samninga. Hér má minna á umsókn um ESB og vandræðaganginn hjá sumum gagnvart því máli. Í þessu máli verður að byggja á reynslu og tengslum okkar við nágrannaþjóðir. Uppgjöf nú samsvarar því að kasta frá sér bestu björgunaraðgerðum sem þjóðin á. Afleiðingarnar gætu orðið skelfilegar.

Styrking krónunnar og gengisstöðugleiki á að vera grundvallaratriði í þeim aðgerðum framundan. EES- samningurinn er lamaður á sviði fjármagnsflutninga með skelfilegum áhrifum á hagkerfið á Íslandi, það verður að leysa. Minnsta áhættan og mesti ávinningurinn er að láta reyna á samninga við ESB og Seðlabanka Evrópu. Þetta hefur komið fram hjá aðilum vinnumarkaðsins og þar hefur komið fram eindreginn vilji til aðildar að heildarsamningum, sem er mikilvægt framlag í komandi samningum við ESB.

Kjarni málsins er að láta reyna á slíka samninga ávinningur jafnvel þó hann væri ekki fullkominn væri meiriháttar sigur og reyndar forsenda þess að atvinnulífið komist í gang. Það er nefnilega í atvinnulífinu sem arður og útflutningstekjur myndast og reyndar tekjur heimila til þess að geta náð sér upp úr öldudalnum.

1 ummæli:

Jenný Stefanía sagði...

Tek undir þessa þungdarvigt frá þér.