fimmtudagur, 4. júní 2009

Áfram frost

Aðilar vinnumarkaðs, ekki bara ASÍ og SA heldur öll heildarsamtök launamanna auk samningamanna sveitarstjórna og fjármálaráðuneytis hafa unnið undanfarnar vikur að því að ná saman stöðuleikasáttmála, sem er grundvöllur þess að við komumst í gegnum þennan öldudal og náum atvinnulífinu í gang.

Það eru því gríðarleg vonbrigði að stýrivextir skyldu ekki hafa verið lækkaðir meira en um eitt prósentustig í morgun. Hér fylgir Seðlabankinn hávaxtastefnu sinni, þrátt fyrir að það blasi við að hún hefur alltaf virkað öfugt. Hún hefur aukið verðbólgu og erfiðleika, ekki lækkað verðbólgu. Seðlabankinn tók upp þessa stefnu við mótun þeirrar peninga og efnahagstefnu sem sigldi öllu hér í strand október síðastliðinn.

Hvar í veruleikanum stjórnendur Seðlabankans eru liggur ekki fyrir, en það er alveg ljóst að þessi vaxtastefna útilokar að það verði hér einhverjar fjárfestingar sem er forsenda þess að efnahagslífið fari að hjarna við. Ekkert fyrirtæki tekur lán til framkvæmda sama á við um heimilin. Fasteignasala verður áfram í sama frosti. Verðlag verður áfram hátt vegna mikils vaxtakostnaðar.

Sé litið til yfirlýsinga forsvarsmanna SA undanfarið þá eru umtalsverðar líkur að það verði áfram frost í Karphúsinu og þeir fari heim úr Karphúsinu á morgun og snúi sér að öðrum verkefnum. T.d. að undirbúa 17. júní.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

vaxtastigið ræðst af verðbólgu á árs grundvelli.

Nær væri að spyrja hvað heldur verðbólgu í 11,5 prósentum í landi þar sem allt á að vera í frosti.
Þar leggur ríkisstjórnin þín línurnar með hækkunum á ýmis konar gjöldum sem velta beint út í almennt verðlag. Eftir höfðinu dansa svo limirnir.

Nú eða asnast til að afnema verðtrygginguna sem er ekkert annað en ávísun á endalausan verðbólguspíral þegar allt frá áskrift að öryggiskerfi til húsnæðislána hækkar stanslaust.

En ég veit svosem alveg að það er ekki vilji ykkar í verkalýðshreyfingunni, þið þurfið víst að hugsa um allar verðtryggðu eignirnar ykkar/okkar í lífeyrissjóðunum.

Héðinn Björnsson sagði...

Hvað er þetta sem á að gerast 17. júní sem þið Villhjálmur þurfið að undirbúa svona mikið?

Nafnlaus sagði...

Hvað mælir gegn því að vextir séu lækkaðir í 0%?

Ekkert!

Nafnlaus sagði...

Og enn og aftur eiga sjóðir okkar að bjarga öllu. Ég bara vísa í skýrslu um þá sem kom út í ár "Af hálfu forsvarsmanna lífeyrissjóðanna kom fram að miðað við stöðu í lok mars 2009 nam hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris 1.644 ma.kr., þar af var erlend verðbréfaeign um 427 ma.kr. Af erlendri eign væru nokkrir tugir milljarða kr. í lokuðum sjóðum og mikill meirihluti erlendrar eignar væri í hlutabréfasjóðum eða hlutabréfum, en aðeins um 92 ma.kr. í skuldabréfum eða almennum verðbréfasjóðum. Auðseljanlegar erlendar eignir nema um 400 ma.kr., en að mestu leyti í hlutabréfasjóðum og hlutabréfum, en aðeins um 40 ma.kr. í skuldabréfasjóðum. Almennt yrði það líklega óhagstætt fyrir lífeyrissjóði nú að breyta erlendum hlutabréfaeignum yfir í skuldabréf, enda þess vænst að hlutabréfaverð hækki á næstu misserum. Þá verða lífeyrissjóðir að gæta mjög að áhættudreifingu og þurfa því m.a. áfram að eiga verulegar erlendar eignir og verða ekki of háðir ótryggu íslensku efnahagsumhverfi. Þá var bent á að með stórauknum skuldabréfakaupum lífeyrissjóða af ríkinu mætti segja að horfið yrði frá sjóðssöfnun og yfir í gegnumstreymiskerfi. Verði eftir því leitað útiloka lífeyrissjóðirnir ekki þann möguleika að taka þátt í að efla gjaldeyrisvarasjóð, en engin slík málaleitan hefur hins vegar komið fram af hálfu SÍ eða annarra stjórnvalda að undanförnu. Gjaldeyrishöftin gætu vissulega orðið til trafala í þessu samband og ef til kæmi þyrfti hugsanlega að tryggja lífeyrissjóðum möguleika á að geta síðar keypt erlendar eignir á móti því fé sem þeir færðu til landsins." Og eigum við svo að taka aföllinn. Nei ég er nú bara farin að hallast að það sé best að hætta þessum samningum og fara geri sig káran fyrir 17. Júní og svo bara setja á verkföll. Það er það nú eina sem þessir menn skilja. Kveðja Simmi