sunnudagur, 7. júní 2009

Umsvif útrásarvíkinga skipulögð glæpastarfsemi?


Fréttir undanfarna daga sannfærir mann að umsvif íslenskra auðmanna og útrásarvíkinga var skipulögð og meðvituð glæpastarfsemi. Hið íslenska efnahagsundur sem sjálfstæðismenn hrósuðu sér svo ákaft af og fóru um heimsbyggðina og stærðu sig af var óskhyggju. Í skjóli afskiptaleysis þessarar sjálfumglöðu óskhyggju dældu nokkrir einstaklingar úr íslenska hagkerfinu öllum verðmætum sem þeir komust yfir og fluttu í leynileg skattaskjól. „Það var Ríkið sem brást“ hefur Páll Skúlason heimspekingur sagt og það er svo satt.

Félagar okkar í nágrannalöndum vöruðu við, en svör höfunda efnahagsstefnunnar segir okkur allt um hver staða stjórnarþingmanna var. Innistæðulausar fullyrðingar um að ekki væri hægt að bera hið íslenska efnahagsundur saman við önnur hagkerfi, það sem þeir hefðu skapað upp á Íslandi væri svo sérstakt og mun betra.

Þegar íslensk stjórnvöld voru sökuð um sofandahátt og aðgerðaleysi á meðan hér stefndi hraðbyri í þrot svaraði Þorgerður Katrín; að þessir erlendu menn ættu að skella sér í endurmenntun. Hvað vissu þessir menn um íslenska aðstæður? Þekktu þeir ekki hina einstöku kosti íslensku útrásarvíkinganna, sem væru öðrum mönnum snjallari í viðskiptum undir þetta tók forseti Íslands og hyllti íslensku útrásarvíkingana og fjárfestingar þeirra á alþjóðavettvangi.

Nú blasa við veruleiki hinnar skelfilegu efnhagsstjórnar hrikalegur niðurskurður og ofboðsleg skuldsetning. Ríkið hefur á undanförnum árum þanist út undir stjórn þess flokks sem hefur gefið sig út fyrir að vera andstæður auknum ríkisafskiptum. En nú hrylla sig þessir hinir sömu þingmenn þeirra flokka, sem voru hvað lengst í ríkisstjórn yfir þeim niðurskurði sem er væntanlegur.

Og þeir hrylla sig enn meir þegar flett er ofan af þeirri stöðu sem þjóðin situr eftir þeirra stjórnartíma. Flest okkar hafa vonast til þess að samstaða náist um að taka á vandanum. Aðilar vinnumarkaðs hafa tekið með ábyrgum hætti þátt í greiningu vandans og mótun tillagna um úrlausnir.

Á meðan tala forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna digurbarkalega um úrræða- og aðgerðarleysi stjórnarinnar. Engin málefnaleg umræða af þeirra hálfu og ekki liggja fyrir neinar tillögur frá þeim um niðurskurð eða hvernig auka megi tekjur ríkissjóðs. Þessir flokkar sem einbeittu sér að hagsmunagæslu í valdauppbyggingu og pólitískri uppskiptum á eigum ríkisins. Ísland þróaðist undir þeirra stjórn í að verða spilltasta land í hinum vestræna heimi.

Þingmenn horfðust í augu við það sem fyrir lá í kosningabaráttunni í vor, mikill niðurskurður og aukning tekna ríkisins. Atvinnuleysistryggingasjóður verður gjaldþrota eftir tvo mánuði. Þetta vissu stjórnmálamenn þegar þeir buðu sig fram buðu sig fram til starfa og nú eru þeir komnir á launaskrá skattgreiðenda til þess að takast á við vandann.

Almenningur hefur í allan vetur krafist þess að stjórnmálamenn taki til við málefnalega umræðu og vinnubrögð, ekki tilgangslaust og innihaldslaust málþóf. Icesave og AGS eru staðreyndir sem íslendingar geta ekki vikið sér ekki undan. Það vita þeir sem eru núna í stjórnarandstöðu, sé litið til ummæla þeirra þegar þeir voru fyrr í vetur hinum megin við borðið. Þetta er harðasti andstæðingur þessara staðreynda þá Steingrímur J. búinn að átta sig á núna og viðurkenna villu síns vegar.

Íslensk umræðulist er verulega löskuð. Hún einkennist á upphrópunum og órökstuddum klisjum sem menn hendi sín á milli, sjaldan fer fram upplýst umræða á Alþingi. Það var óheillavænlegu þróun þegar ráðherrar og æðstu embættismenn virtu Alþingi einskis. Alþingi varð að afgreiðslustofnun ákvarðana sem nokkrir ráðherrar ásamt tilteknum embættismönnum tóku án nokkurrar umræðu á Alþingi eða samskipta við aðila í atvinnulífinu.

Hvort er afleiðing eða orsök? Hafa ráðherrar og embættismenn gefist upp á því að eiga vitræna umræðu í Alþingi, eða hefur umræðan á Alþingi þróast á þennan veg sakir þess að þingmenn þekkja tilgangsleysi sitt?

Icesave-samkomulagið er eina leið Íslands að alþjóðasamfélaginu. Það hefur legið ljóst fyrir og ég hef margoft komið að því í pistlum hér að ef Ísland vildi fá aðstoð frá nágrannaþjóðum þá varð Ísland að spila eftir settum leikreglum. Aðkoma AGS fékkst ekki fyrr en það lá fyrir að Ísland myndi semja um Icesave. Það var einnig skilyrði lána norrænu vinaþjóða okkar. Þetta hefur legið fyrir alveg í alllangan tíma.

4 ummæli:

reynir sagði...

Á millistéttin ekki bara að mæta á Austurvöll og byrja berja Teflon húðuðu pottanna sýna sem voru sér pantaðir inní sérhönnuðu eldhúsin innréttinguna, sem var keypt á minnt körfulánni.

Nafnlaus sagði...

Það er fúlt að viðurkenna það, en þetta er rétt hjá þér.

Illa er komið fyrir vorri þjóð!

Nafnlaus sagði...

Það er erfitt að kyngja þessum staðreyndum en þetta er alveg rétt lýsing hjá þér.

Nafnlaus sagði...

Það er rétt að þá þarf að semja.

Svo er spurningin hvort samningur sem gerður hefur verið sé ásættanlegur.

Það er hann ekki og fyrir því liggja tvær ástæður.

Í fyrsta lagi sú að við vitum ekki hvað útaf stendur. Við vitum ekki hvort við þurfum að borga 5% eða 25% af eftirsöðvum vegna uppgjörs Landsbankans. Þetta er bil uppá um 130 miljarða. Þetta bil er of stórt og er óásættanlegt.

Hitt atriðið eru vextirnir. Þeir eru of háir. Í þeim löndum sem við erum að gera samning við eru stýrivextir milli 0,5 og 1.0%. Við erum að borga milli 6 og 10 sinnum hærri vextir en stýrivextirnir eru. Það er óásættanlæegt.

Þessvegna mætum við og mótmælum kl 14.30 í dag.