laugardagur, 13. júní 2009

Fréttir úr Karphúsinu

Það reynir sannarlega á manndóm ráðherranna þessa dagana. Fyrir liggja tveir valkostir, skera rösklega niður ríkisútgjöld og hækka skatta til þess að rífa samfélagið út úr þeirri stöðu sem fyrri ríkistjórnir undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hafa komið þjóðinni í og gera það á 2 -3 árum með 25 MIA plani á þessu ári og 50 MIA plani 2010 og 2011.

Hinn kosturinn er að gera lítið, halda áfram og neita að horfast í augu við vandann og þá mun vaxtabyrðin vaxa ennfrekar og íslenskt samfélag í núverandi mynd sökkva með langvarandi atvinnuleysi, fólksflótta og tvöfaldri gengisfellingu.

Sé litið til ummæla ráðherra er greinilegt að sumir vilja taka strax á vandanum, en öðrum er það greinilega ofvaxið. Ljóst er að Ögmundur er í gríðarlegum vanda hafandi verið leiðtogi opinberra starfsmanna og núverandi heilbrigðisráðherra. Hann heldur þessa dagana á mörgum „sjóðheitum kartöflum“ svo ég noti algengt orðlag stjórnmálamanna.

Það er ákaflega erfitt fyrir okkur verkalýðsleiðtoga að sitja dögum saman í Karphúsinu undir endalausum útskýringum og útreikningum hagfræðinga, sem starfa hjá aðilum vinnumarkaðs, sveitarfélögum og stjórnvöldum, þegar þeir fara yfir þjóðhagslega stærðir hvað hin eða þessi aðgerð muni spara mikið og hversu mikið hinn eða þessi skatturinn muni auka tekjur ríkisins. Þar liggja undir hnífnum margt af því sem verkalýðshreyfinginn hefur lamið í gegn hvað varðar samfélagsgerðina og aðstoð við þá sem minnst mega sín.

En á hinn bóginn blasir það við að best væri að fara þá leið sem Göran Person sænski ráðherrann sagði við okkur í vetur þegar hann fór yfir það hvernig Svíar unnu sig út samsvarandi vanda á árunum 1992 – 1996. "Horfist í augu við vandann. Takið strax á honum og gerið það á eins stuttum tíma og hægt er."

Ég hef spáð því nokkrum sinnum hér á þessari síðu að það muni verða núverandi stjórnmálamönnum um megn að gera þetta og það verði kosningar næsta vetur. Reyndar ætla ég að bæta við; það blasir við að ekki hjálpa margir af embættismönnum okkar upp á þetta ástand. Það virðist vera þeim tamt að gera það sem þeim finnst þægilegast. Ef óþægilegar tilskipanir berast þá fara þeir ekki eftir þeim eða draga framkvæmd þeirra eins og hægt er. Eins og höfum séð í vetur.

Það blasir við okkur þessa dagana að eitt af stóru vandamálum íslensks samfélags er og hefur verið; afburða slakir embættismenn, sem hafa komist í stólana á því einu að vera þægir ríkjandi flokksforystu helmingaskiptaflokkanna undanfarin 18 ár. Samfara tiltekt í efnahagsmálum þarf að fara fram allsherjar hreinsun í embættismannakerfinu.

Það er forvitnilegt að heyra allan tvískinnunginn gagnvart lífeyrissjóðunum. Margir hafa sagt að losa eigi þjóðina sem fyrst við þá, en allir tala um að eignir lífeyrissjóðanna sé eini bjarghringur okkar. Nú hafa Sjálfstæðismenn lagt fram tillögu um að taka 40% af eigum þeirra og setja í ríkiskassann, skítt með þó það hafi alvarlegar afleiðingar í framtíðinni.

En á sama tíma eru líka uppi tillögur um að nota alla tiltæka fjármuni lífeyrissjóðanna til framkvæmda í atvinnulífinu (líka þessi 40%), samhliða tillögum um að taka alla tiltæka fjármuni þeirra og kaupa ríkistryggð skuldabréf sveitarfélaga, samhliða tillögum um að setja alla tiltæka fjármuni í uppbyggingu orkuvera.

Lausnin virðist vera samsagt fólgin í því að nýta sömu fjármunina 3 – 4 sinnum. Reyndar gleyma flestir því að ef losa á fjármuni lífeyrissjóðanna þá þarf að selja ríkistryggð skuldabréf íbúðarlánasjóðs og leggja hann í rúst, jafnframt því að selja aðrar eignir. Hverjir eiga að kaupa þessar eignir svo fjármunirnir séu tiltækir?

Reyndar má benda á annað, hvernig ætla menn að fara að því að byggja stækka álverið í Straumsvík, byggja nýtt í Helguvík, reisa 2 gagnaver, byggja koltrefjaverksmiðju, reisa kísilverksmiðju Elkem í Hvalfirði án þess að virkja allt sem hægt er að virkja í Þjórsá? Ef það má ekki þá þarf að virkja eitthvað annað t.d. Hvítá í Borgarfirði og Hvítá í Árnessýslu og Jökulsá á Fjöllum.

Og lítil spurning í restina hvernig ætla menn að fjármagna þessa uppbyggingu orkuveranna án þess að selja þau í hendur erlendra aðila? Það hefur komið fram að við blasi að það verði erfitt ef ekki næstum ómögulegt að fjármagna íslensku orkuveiturnar, nema þá að hækka gjaldskrár þeirra um helming. Það er reyndar ekki hægt gagnvart stærstu kaupendunum, þeir eru með 40 ára samninga. Þannig að það verður að senda þann reikning til íslenskra heimila í sama umslagi og skattahækkanir verða og tilkynningar um hækkun á þjónustugjöldum og niðurfellinga á bótum í tryggingarkerfinu.

Já lesandi góður þú skilur kannski hvernig okkur líður í Karphúsinu þegar við lesum glærusýningar hagfræðinganna.

1 ummæli:

Sigurður Viktor Úlfarsson sagði...

Megi allar góðar vættir styðja ykkur í því sem þið eruð að reyna að ná utan um þarna niður frá. Það veitir svo sannarlega ekki af. Þið haldið embættismannakerfinu og ríkisstjórninni á tánum.

Vonandi fáið þið síðan vöfflu í lokin. Þið eigið hana svo sannarlega skilið.

Baráttukveðjur!