fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Alsgáð vinnubrögð

Á unglingsárum mínum vann ég á veturna sem piccaló á Borginni. Var í borða- og hnappalögðum jakkafötum með pottlok, tók á móti gestum og fór með þá ásamt töskum upp í herbergin. Lyftan var þá handstýrð. Oft komu þjónar innan í sal og báðu okkur piccalóana að hlaupa einhverra snöggra erinda fyrir alþingismenn og útgerðarmenn út í banka eða sækja blöð. Valdastéttin bjó gjarnan á Borginni ef hún var í bænum, eða ef um var að ræða innfædda Reykvíkinga þá héldu þeir oft til á Borginni yfir hádaginn og stundum fram á nóttina.

Jóhannes staðarhaldari bjó á herbergjum 101 og 102 og á hverjum degi var það hlutverk okkar piccalóanna að fara með blöðin til hans, eins ef út kom ný ljóðabók þá varð að sækja hana strax. Jóhannes las svo ljóðin og ef þar voru ljóð sem voru honum ekki að skapi, þá reif hann viðkomandi síðu úr bókinni og henti henni.

Fastir gestir í sal voru þingmenn og efri valdastéttin, þá þótti ekkert tiltökumál þó menn fengju sér eitthvað í glas. Vínsala var bönnuð nema á kvöldin og eins var einn dagur vínlaus. Þetta vafðist ekki fyrir þjónum staðarins. Farið var með mjólkurkönnuna bakvið og sett á hana það sem pantað var út í kaffið.

En þingstörf gengu þó svo ekki færi fram vitræn umræðan í sölum Borgarinnar. Þetta var undanfari þess ástands sem þingmenn hafa kvartað undan á síðustu árum, um að það væri fullkomið ráðherraræði í gildi í þingsölum Alþingis og nánast tilgangslaus tilvera sem almennir þingmenn upplifðu.

Eftir að ég lauk unglingsárum hóf ég nám í rafvirkjun og vann oft á Borginni að viðhaldi og endurnýjun rafbúnaðar þessa virðulega hótels. Sömu viðhorf viðgengust gagnvart víndrykkju í vinnutíma, sama gilti á mörgum funda sem haldnir voru af öðrum eins og t.d. stéttarfélögum, ekki þótti tiltökumál þó menn mættu á svæðið vel í því og færu í pontu og helltu innihaldslausu kjaftæði yfir fundarmenn.

Eftirminnilegt er hvað þingmenn töldu að myndi gerast hjá almenning ef bjórinn yrði leyfður. Í hverri ræðunni fullyrtu þingmenn nýkomnir úr sölum Borgarinnar að almenningur myndi ekki ráða við það ef bjór yrði leyfður og þjóðin myndi vera á gengdarlausu fylleríi ef hann yrði leyfður.
Á þessum tímum voru fundir haldnir á kvöldin eða þá á laugardagseftirmiðdögum. Sem betur fer breyttust viðhorf gangvart þessu upp úr 1980 og undanfarin ár er nákvæmlega engin þolinmæði gagnvart svona háttalagi. Sigmundur Ernir er klárlega ekki sá eini sem mætir í þingsal og heldur ræðu eftir að hafa fengið sér áfengi, en það afsakar ekki hans háttalag.

Eftir að hafa lesið ræðu hans þá er ljóst að hún er fantagóð. Upphrópanir tiltekinna þingmanna úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki eru viðkomandi þingmönnum til háborinnar skammar og háðungar. Lýsir í raun ekki öðru en litlum körlum sem ekki þola að heyra hreinskilna lýsingu á þeirra eigin háttalagi og hvernig getuleysi þeirra leiddi þjóðina í þá stöðu sem hún er í. Hver er að viðhafa alsgáð vinnubrögð er í mínum huga klárt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Var ekki Churchill nokkuð oft svo lítið pumpaður í breska þinginu ?

Kom hann ekki einhverju í verk kallinn á sínum tíma ?

Ekki það að ég vilji réttlæta þetta sull á þinginu, nóg er nú samt.