sunnudagur, 23. ágúst 2009

Siðrof

Fram kom nýverið að liðlega helmingur skráðra fyrirtækja hér á landi væru ekki með neina starfsemi. Allnokkur hluti þeirra voru notuð til þess að auðvelda eigendum þeirra koma sér undan gjöldum til samfélagsins og veita þeim skjól í miklu skuldafeni vegna hlutbréfakaupa.
Sé litið til þeirra viðhorfa sem voru viðtekin í íslensku viðskiptalífi kemur þetta ekki á óvart.

Ráðgjafar banka leiðbeindu fólki við þetta ráðslag. En ekki síður má benda á þau viðhorf sem ráðandi stjórnmálamenn á árunum frá 1990 fram til 2007, þeir sem sveigðu til hægri og stefndu á aukið frelsi, minni skatta þeirra sem áttu fjármagn og stefnu þeirra um að gera Ísland að paradís fyrir auðmenn. Keppa við skattaparadísir annarsstaðar í veröldinni.

Sömu hægri stjórnmálamenn voru sífellt að agnúast út í hið norræna samfélag en litu til repúblikana í USA, þetta leiddi til græðgisvæðingar í samfélaginu. Ef okkur varð það á að fetta fingur út í risabónusa, ofurlaun eða hvernig samfélagsleg viðhorf sem áður höfðu ríkt væru að hverfa. Þá var því svarað með þjósti um að þar væri einungis ummæli sem bæru byggð á öfund yfir velgengni annarra.

Nú blasa við afleiðingar þessarar hægri sveiflu. Oft er einungis talað um þá sem verða gjaldþrota, sjaldnar er talað um þá sem verða í raun fyrir barðinu á gjaldþrotinu. Þar er langoftast um að ræða saklaust fólk, sem átti í einhverjum viðskiptum við viðkomandi, eða átti sparifé í vörslu banka eða lífeyrissjóða.

Nú er talað um að herða þurfi lög og efla eftirlitsstofnanir, en hér þarf fyrst og síðast viðhorfsbreytingar í samfélaginu. Það varð siðrof og margir nýttu sér það ástand. Þessir stjórnmálamenn sem fóru fyrir í hægri sveiflunni, tala nú um að nágrannalönd okkar séu orðin okkur óvinveitt og verið sé að þvinga og kúga litla Ísland og setja okkur í spennitreyju.

Það er álit mitt og hefur reyndar komið nokkrum sinnum fram í pistlum hér undanfarið ár að þessar nágrannaþjóðir okkar eru að þvinga þá stjórnmálmenn sem stóðu fyrir þessari viðhorfsbreytingu til þess að horfast í augu við afleiðinga eigin gerða og ætla sér ekki að láta meiri fjármuni þangað. Bankar og fjármálastofnanir þessara landa eru þegar bún ar að tapa hundruðum milljarða á þróuninni sem hér varð.

Í mjög góðri grein í Morgunblaðinu í gær rekur fyrrv. alþingismaður Kristinn H. Gunnarsson afskaplega skilmerkilega hvaða skuldbindingar við höfum undirgengist. Íslendingum er engrar undankomu auðið og það ættu þingmenn allra best að vita. Í þessu sambandi má vísa til ummæla þessara sömu stjórnmálamanna þegar þeir voru sem ákafast að hrósa sjálfum sér fyrir íslenska efnahagsundrið og uppbyggingu fjármálakerfisins einmitt vegna þess að þeir hefðu undirgengist EES samningana.

Íslensk lög kveða skýrt á um lágmarkstryggingu innistæðna í íslenskum bönkum og lögin um Evrópska efnahagssvæðið taka af allan vafa. Settar voru samræmdar reglur um innistæðutryggingar innan Evrópusambandsins og þær voru teknar upp á EES-svæðinu. Þetta var gert til þess að koma á fót sameiginlegum markaði fyrir bankaþjónustu. Hverju ríki var gert skylt að koma á fót kerfi sem veitti lágmarkstryggingu fyrir innistæður og skyldi það ná til innistæðna í útibúum innlendra stofnana í öðrum aðildarríkjum, eins og skilmerkilega er lýst í frumvarpi sem viðskiptaráðherra lagði fyrir Alþingi 1995 og varð að lögum vorið eftir.

Vilji Íslendingar ekki hlíta reglum EES-svæðisins verður allur EES-samningurinn í uppnámi vegna þess að ekki verður unað við mismunandi framkvæmd þessara mikilvægu laga. Ríkisstjórnir í Evrópu gripu til þess ráðs að gera betur og ábyrgðust innistæður í fjármálastofnunum umfram það lágmark sem er í tilskipun ESB.

Það gerði íslenska ríkisstjórnin líka og ábyrgðist allar innistæður á Íslandi, ekki bara að lágmarki. Það var talið nauðsynlegt til þess að bjarga fjármálakerfi landsmanna. Og hverjir stóðu fyrir þeirri lagasetningu og hvað eru þessir hinir sömu að segja núna í þingsölum? Þessi lög eru gölluð og taka ekki á kerfishruni, en þau eru þarna og eftir þeim verðum við að fara.

Tími hömlulauss kapítalisma og græðgi sem kom Íslandi í koll er liðinn. Hugmyndafræðin þar að baki hafi verið afsönnuð, sem betur fer. Eins og Jóhanna bendir réttilega á í viðtali við fjölmiðla nú um helgina.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skýrsla framtíðarhóps Viðskiptaþings Verslunarráðs Íslands febrúar 2006:


"Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.

Ísland ætti þess í stað að bera sig saman við þau ríki sem standa hvað fremst á hverju sviði fyrir sig."

http://www.vi.is/files/1612898009Ísland%202015%20Viðskiptaþing%202006.pdf

Láki

Nafnlaus sagði...

Kristinn H. Gunnarsson á lof skilið fyrir ágæta grein sína.

Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

Nafnlaus sagði...

SIÐVILLINGAR:
=============

Tryggvi Þór Herbertsson titlar sig oft prófessor í hagfræði. Af vef Alþingis sýnist mér að Tryggvi Þór hafi lokið doktorprófi í greininni frá Árósaháskóla 1998.

Samkvæmt sama vef er Tryggvi Þór síðan prófessor við Háskóla Íslands 2004-2006 og síðan aftur við Háskólann í Reykjavík frá 2009. (eftir hrunið !! )

Það er alþekkt að Tryggvi Þór Herbertsson skrifaði fræga skýrslu um stöðu efnahagsmála á Íslandi ásamt skotveiðifélaga sínum Frederic Mishkin. Skýrslugerð þeirra félaga virðist hafa verið ágætlega fjármögnuð a.m.k. að hluta til af Viðskiptaráði.

Niðurstaðan var tómt bull !!!!!!!

Hvað segir þetta um vísindamanninn prófessor Tryggva Þór Herbertsson ?

Hvað segir þetta um Háskóla Íslands ?

Hvað segir þetta um Háskólann í Reykjavík ?

Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

Nafnlaus sagði...

Vertu nú svo vænn að koma með nöfnin á þessum pólitíkusum og hvar og hvenær þessi orð féllu. Það er sanngjörn krafa okkar sem vitum ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga og hvaða bullukollum við eigum að trúa
mbk
Ólafur Adolfsson

Guðmundur sagði...

Ég neita að trúa því að menn viti ekki hverjir það voru sem hafa leitt og mótað efnahags- og peningstjórn þessa lands undan farna tvo áratugi og mótuðu Íslenska efnahagsundrið voru ráðherrar þann tíma og eru nú í stjórnarandstöðu. Sumir þeirra urðu Seðlabankastjórar eða þá í stjórn Seðlabankans.

Nafnlaus sagði...

Háskólaheimurinn er uppfullur af tabúum. Eitt þeirra er það sem stundum er kallað “academic prostitution” á ensku.

Ég kýs að kalla þetta “háskólavændi” á íslensku.

Þetta hugtak er ekki vel skilgreint en ég hef oft heyrt það notað yfir “vísindamenn” sem eru tilbúnir til þess að skrifa skýrslur um ákveðin málefni þar sem niðurstaðan er fyrirfram ákveðin og pöntuð af þeim sem borga fyrir niðurstöðuna.

Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

Nafnlaus sagði...

Þó að ég hafi aldrei kosið íhaldið minni ég nú samt á að það var Davíð Oddsson sem tók peningana sína úr Búnaðarbankanum á sínum tíma til að mótmæla græðgi stjórnenda. Og svo var því haldið fram blákalt að ef hann færi úr Seðlabankanum myndi ástandið batna. Við erum alltof tilbúinn að kaupa skyndilausnir. Kv Simmi

Níels A. Ársælsson sagði...

Talandi um EES samninginn og að við verðum að fara eftir honum. Hér fyrir neðan er kafli sem ætti að kollvarpa íslenzka kvótakerfinu en einhverra hluta vegna hefur engin stjórnmálamaður viljað taka mark á þessu.

EES–samningurinn.

2. KAFLI:

RÍKISAÐSTOÐ:

61. gr.

1. Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum er hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.

BÓKUN 9 {1}
UM VIÐSKIPTI MEÐ FISK OG AÐRAR SJÁVARAFURÐIR
{1} Sjá samþykktir.

4. gr.

1. Aðstoð sem veitt er af ríkisfjármunum til sjávarútvegs og raskar samkeppni, skal afnumin.

2. Löggjöf varðandi markaðsskipulag sjávarútvegs skal breytt þannig að hún raski ekki samkeppni.

3. Samningsaðilar skulu leitast við að tryggja samkeppnisskilyrði sem gerir hinum samningsaðilunum kleift að beita ekki ráðstöfunum gegn undirboðum og jöfnunartollum.