laugardagur, 15. ágúst 2009

Skuldlaus þjóð?

Sjálfstæðismönnum er tíðrætt um að þeir hafi skilað skuldlausu þjóðarbúi. Þetta kemur m.a. fram í grein í Morgunblaðinu í vikunni eftir einn helsta efnahagspeking sjálfstæðismanna Pétur Blöndal. Eitt af því sem maður lærir í starfi við gerð kjarasamninga, viðhaldi stöðugleika og eflingu kaupmáttar, auk viðgangs lífeyrissjóða er að taka varlega mark á yfirlýsingum Péturs Blöndal.

Það er rétt að í góðærinu greiddi ríkissjóður niður mikið af skuldum. En ástæða er að halda því til haga að á sama tíma seldu frjálshyggjumennirnir Pétur og félagar fjölskyldusilfrið (einkavæðing), en nýttu þá peninga ekki nema takmarkað til að byggja upp varasjóð til framtíðar eins og við í ASÍ gagnrýndum harkalega og kom fram í bréfum og ályktunum á þessum árum. Það sem þeir hefðu átt að gera var að leggja meira fyrir til að eiga þegar harðnaði á dalnum, en það blasti alltaf við að það myndi gerast að loknum framkvæmdum fyrir austan.

Nú eru þessu sterku fyrirtæki, sem skiluðu árlega milljarða arðgreiðslum til ríkissjóðs, tómar skeljar sem riða til falls skuldsettar upp í rjáfur og það verður hlutverk okkar skattborgaranna að greiða þær skuldir, í formi hærri skatta og þjónustugjalda. Hér er ég t.d. að ræða um Landssímann og bankana. Einnig má benda á aðför Péturs og félaga að sparisjóðunum þar sem hann og fleiri töldu sig vera einborna gæslummenn fjárs án hirðis.

Við erum þessa dagana að axla ábyrgð á þeirri risavöxnu hægri tilraun sem hin frjálshyggjusinnuðu stjórnvöld leiddu hina íslensku þjóð út í, eins og Kristin Halvorsen fjármálaráðherra Noregs bendir því miður réttilega á.

Annað sem er mjög gagnrýnivert er að ekki skyldi byggður upp öflugur gjaldeyrisvaraforði þegar tekjur ríkisins voru miklar og gengið of hátt til að það gæti staðist. Hefðu menn gert það væru raunir okkar minni í dag. Pétur og félagar hefðu átt að nota góðæristekjur ríkissjóðs og andvirði eignasölu til að efla gjaldeyrisforðann á hagstæðu gengi þegar gengi krónunnar var óeðlilega sterkt.

Þess í stað kyntu þeir undir bálinu með því herða enn á þennslunni með skattalækkunum á þeim tekjuhæstu og töldu að þeir væru mestu efnahagsspekingar í sólkerfinu og héldu þessar klappstýrur hrunsins í ferðir um heimsbyggðina og kynntu íslenska efnahagsundrið sem þeir hefðu skapað. Nú er komið fram að þar töluðu þáverandi ráðherrar gegn betri vitund þegar þeir reyndu að telja erlendum fréttamönnum í trú um að allt væri hér í lukkunar velstandi. Þeir sem ekki væru þeim sammála ættu að fara á endurmenntunarnámskeið í hagstjórn.

Einnig má minna á að á þessum tíma þá ýttu sjálfstæðismenn undir ójafnvægið í hagkerfinu þannig að neikvæð erlend staða þjóðarbúsins (erlendar eignir þjóðarbúsins – erlendrar skuldir þjóðarbúsins) margfaldaðist. Varðandi skuldir ríkissjóðs þá eigum við verulegar eignir á móti. T.d. fer hluti lána ríkissjóðs til að endurlána Seðlabanka vegna gjaldeyrisforða. Pétur velur að hengja sig í þetta viðmið nettó, því að þannig getur hann haldið því fram að allt hafi verið í himna lagi.

Það er hins vegar stóra myndin sem skiptir máli eða allt það ójafnvægi sem Pétur og félagar lögðu grunnin að sem komu okkur í þá stöðu sem við erum í. Þetta ójafnvægi laðaði að sér jöklabréfin og annað innstreymi gjaldeyris m.a. Icesave peningana, sem er núna eins og millusteinn um háls okkar.

Spakur maður sagði víst „það þarf sterk bein til að þola góða tíma“. Slík bein virðast ekki hafa verið til hjá Pétri og félögum og um leið bent er á þetta þá byrja bréfin að koma og því haldið fram að allt sé þetta órökstuddar dylgjur. Þrátt fyrir að allt þetta hafi margsinnis komið fram í framlögðum skýrslum og greinargerðum. En það passar ekki inn í endursögnina eins og þeir vilja hafa hana. Hér er ég t.d. að vitna til endursagnar Sigurðar Kára í eftirmiðdagsútvarpinu í gær á ummælum Davíðs þegar hann lýsti því yfir að íslenska ríkið ætlaði ekki að standa við skuldbindingar sínar, eðasvo maður minnist ekki á hvernig þeir vilja hafa endursögnina af fjölmiðlalögunum.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

góð færsla
GÖG

Nafnlaus sagði...

Góðir pistlar, yfirleitt, Guðmundur. Veit þú varst XD einu sinni. Hvenær breyttist það aftur?

Guðmundur sagði...

Það hefur komið fram í nokkrum pistla minna hér á þessari síðu að ég hafi verið XD einu sinni og var m.a. í borgarstjórn fyrir þá eitt kjörtímabil.

Það hefur einnig komið fram að þegar frjálshyggjan tók völd innan flokksins og hann sveigði frá því að vera hægrisinnaður norðurlanda krataflokkur þá hefði mér verið um megn að vera þar lengur og ég gekk úr flokknum fyrir allnokkrum árum og hélt mér fyrir utan það að vera flokksbundin.

Ég skrifaði greinar þegar þetta var og spurði þar m.a. hvernig á því stæði að minnihluta hópur gæti tekið völdin á röngum forsendum. Þá átti ég við að í kosningum var ætíð kynnt hægri kratastefna, og mönnum eins og t.d. Hannesi Hólmstein og Pétri Blöndal var stungið inn í skáp, en strax að loknum kjördegi var aftur skipt aftur yfir í últra hægrið. Mér var óskiljanlegt hvernig flokkurinn komst upp með þetta og fengi alltaf fylgi út á ranga kynningu.

Þetta var kallað af mörgum að fólk kysi eins og af trúarbrögðum frekar en að skoða pólitíska stefnu. Allmargir héldu því fram og það kom fram í mörgum greinarskrifum að þó Sjálfstæðisflokkurinn myndi stilla upp Kókkassa í fyrsta sæti fengi hann samt sem áður um 30% fylgi.

Þetta kom glögglega fram í síðustu kosningum. Hvar í veröldinni fengi stjórnmálaflokkur sem hefði staðið fremstur í flokki fyrir jafnmiklu hruni jafnmikið fylgi.

Þar má líta til þess hversu mikið afhroð umræðulistin á Íslandi hefur goldið. Aftur og aftur var umræðu um þörf málefni stungið undir stól eða hún eyðilögð með útspili í Morgunblaðinu eða af fréttastofu sjónvarpsins og endurteknum fullyrðingum þingmanna sem gengu þvert á viðkomandi málefni. Þar má t.d. nefna fjölmiðlalögin og eftirlaunalögin.

Ég var ekki einn sjálfstæðismanna um þessa skoðun, það voru allmargir sem fóru frá flokknum á þessum tíma, það er um 1998 - 2001, af sömu forsendum og hann féll um 10 - 15% í fylgi.

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.